Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

30 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, spá og seg: Svo segir Drottinn Guð: Æpið vei yfir deginum!

Því að dagur er nálægur, já, dagur Drottins er nálægur, dagur skýþykknis, endadægur þjóðanna mun það verða.

Og sverð mun koma til Egyptalands, og Bláland mun skelfast, þá er menn hníga helsærðir á Egyptalandi, og auðæfi þess verða burt flutt og undirstöðum þess rótað upp.

Blálendingar, Pútítar, Lúdítar og allur þjóðblendingurinn og Líbýumenn og Kretar munu fyrir sverði falla ásamt þeim.

Svo segir Drottinn: Þá munu stoðir Egyptalands falla og hið dýrlega skraut þess hníga. Frá Migdól og allt til Sýene skulu menn fyrir sverði falla í því, _ segir Drottinn Guð.

Og það mun verða að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess munu liggja innan um borgir, sem eru í rústum.

Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég legg eld í Egyptaland og allir liðveislumenn þess verða muldir sundur.

Á þeim degi munu sendiboðar fara frá mér á skipum, til þess að færa hinum ugglausu Blálendingum hin hræðilegu tíðindi, og þeir munu skelfast vegna ógæfudags Egyptalands, því að sjá, hann kemur.

10 Svo segir Drottinn Guð: Þannig mun ég láta Nebúkadresar konung í Babýlon enda gjöra á mikillæti Egyptalands.

11 Hann mun verða sóttur og lið hans með honum, hinar grimmustu þjóðir, til þess að herja landið, og þeir munu bregða sverðum sínum gegn Egyptalandi og fylla landið vegnum mönnum.

12 Og ég mun þurrka upp árkvíslarnar og selja Egyptaland í hendur illmenna og láta útlenda menn eyða landið og öllu, sem í því er. Ég, Drottinn, hefi talað það.

13 Svo segir Drottinn Guð: Ég gjöri skurðgoðin að engu og uppræti falsguðina úr Nóf og höfðingjana af Egyptalandi, svo að engir skulu þar framar til vera, og ég mun skelfa Egyptaland.

14 Og ég eyði Patrós og legg eld í Sóan og framkvæmi refsidóma á Nó.

15 Og ég úthelli heift minni yfir Sín, varnarvirki Egyptalands, og tortími hinum ysmikla múg í Nó.

16 Ég legg eld í Egyptaland, Sín mun nötra og skarð mun brotið verða inn í Nó og múrar hennar niður rifnir.

17 Æskumennirnir í Ón og Píbeset munu fyrir sverði falla og íbúar annarra borga fara í útlegð.

18 Í Takpanes mun dagurinn myrkvast, er ég sundurbrýt þar veldissprota Egyptalands og hið dýrlega skraut þess verður að engu gjört. Skýþykkni mun hylja hana, og dætur hennar munu fara í útlegð.

19 Þannig mun ég láta refsidóma koma yfir Egyptaland, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

20 En á ellefta árinu, sjöunda dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

21 "Mannsson, ég hefi brotið armlegg Faraós, Egyptalandskonungs, og sjá, það skal eigi verða um hann bundið, til þess að gjöra hann heilan, með því að setja á hann sáraumbúðir, til þess að hann styrktist aftur og fengi gripið sverðið.

22 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal finna Faraó, Egyptalandskonung, ég skal brjóta armleggi hans, hinn heila og hinn brotna, og slá sverðið úr hendi hans.

23 Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin.

24 Og ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon og fá honum sverð mitt í hönd, en armleggi Faraós skal ég brjóta, svo að hann skal liggja stynjandi fyrir fótum hans, eins og helstunginn maður.

25 Ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon, en armleggir Faraós skulu niður síga, og menn skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég fæ Babelkonungi sverð mitt í hönd, og hann reiðir það að Egyptalandi.

26 Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

31 Og á ellefta árinu, hinn fyrsta dag hins þriðja mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, seg við Faraó, Egyptalandskonung, og við glæsilið hans: Hverjum ertu líkur að mikilleik?

Sjá, sedrusviður óx á Líbanon. Greinar hans voru fagrar og laufið veitti mikla forsælu, hann var hávaxinn og náði topplimið upp í skýin.

Vatnsgnóttin hafði gjört hann stóran og flóðið hávaxinn, það leiddi strauma sína umhverfis gróðurreit hans og veitti vatnsrásum sínum til allra skógartrjánna.

Fyrir því var hann hávaxnari en öll skógartrén, greinum hans fjölgaði og limar hans lengdust af hinni miklu vatnsgnótt.

Alls konar fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum hans og alls konar dýr merkurinnar lögðu ungum sínum undir limar hans, og allar hinar mörgu þjóðir bjuggu í forsælu hans.

Og hann var fagur sökum mikilleiks síns og vegna þess, hve greinar hans voru langar, því að rætur hans lágu við mikla vatnsgnótt.

Sedrustrén jöfnuðust ekki á við hann í aldingarði Guðs, kýprestrén höfðu ekki jafnmiklar greinar og hann, og hlynirnir höfðu ekki eins fallegar limar og hann. Ekkert tré í aldingarði Guðs var honum jafnt að fegurð.

Ég hafði prýtt hann með fjölda af greinum, og öll Edentré, sem voru í aldingarði Guðs, öfunduðu hann.

10 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að hann varð hávaxinn og teygði topplimið upp í skýin og ofmetnaðist í hjarta af hæð sinni,

11 þá seldi ég hann í hendur afarmenni meðal þjóðanna, er fara skyldi með hann samkvæmt illsku sinni, uns ég hefði rekið hann burt.

12 Og útlendir menn, hinar grimmustu þjóðir, felldu hann og fleygðu honum. Greinar hans féllu niður á fjöllin og ofan í alla dali, og limar hans lágu sundur brotnar í öllum giljum landsins, og allar þjóðir jarðarinnar viku burt úr forsælu hans og létu hann eiga sig.

13 Allir fuglar himinsins sátu nú á hans fallna stofni og öll dýr merkurinnar lágu á limum hans,

14 til þess að engin tré við vatn skyldu verða hávaxin og eigi teygja topplim sitt upp í skýin, og til þess að stórhöfðingjar þeirra stæðu eigi hreyknir af hæð sinni, allir þeir er á vatni vökvast. Því að allir eru þeir dauðanum ofurseldir, svo að þeir verða að fara niður til undirheima, mitt á meðal mannanna, til þeirra, sem niður stignir eru í gröfina.

15 Svo segir Drottinn Guð: Daginn, sem hann steig niður til Heljar, lét ég flóðið sýta missi hans og hélt aftur straumum hans og hin miklu vötn hættu að renna. Ég klæddi Líbanon sorgarbúningi hans vegna og öll tré merkurinnar liðu í ómegin yfir láti hans.

16 Ég skelfdi þjóðirnar með þeim gný, sem varð af falli hans, er ég steypti honum niður til Heljar, til þeirra, sem eru niður stignir í gröfina. Og þá hugguðust í undirheimum öll Edentré, ágætustu og bestu tré Líbanons, öll þau er á vatni höfðu vökvast.

17 Þau fóru líka með honum niður til Heljar til hinna vopnbitnu, er búið höfðu í forsælu hans, mitt á meðal þjóðanna.

18 Við hvert á meðal Edentrjánna er unnt að jafna þér að skrauti og stærð? En þér mun verða steypt niður í undirheima með Edentrjánum, meðal óumskorinna munt þú liggja hjá hinum vopnbitnu. Þetta er Faraó og glæsilið hans, _ segir Drottinn Guð."

32 Á tólfta árinu, fyrsta dag hins tólfta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, hef upp harmljóð yfir Faraó, Egyptalandskonungi, og seg við hann: Þú ungljón meðal þjóðanna, það er úti um þig! Og þó varst þú eins og krókódíll í sjónum, gusaðir með nösum þínum, gruggaðir upp vatnið með fótum þínum og rótaðir upp bylgjum þess.

Svo segir Drottinn Guð: Ég vil breiða net mitt yfir þig í söfnuði margra þjóða, til þess að þeir dragi þig upp í neti mínu.

Og ég skal varpa þér upp á land, fleygja þér út á bersvæði, og ég skal láta alla fugla himinsins sitja á þér og seðja dýr allrar jarðarinnar á þér.

Og ég skal færa hold þitt út á fjöllin og fylla dalina hræi þínu.

Og ég skal vökva landið með útrennsli þínu, af blóði þínu á fjöllunum, og árfarvegirnir skulu verða fullir af þér.

Þegar þú slokknar út, skal ég byrgja himininn og myrkva stjörnur hans. Sólina skal ég hylja í skýjum, og tunglið skal ekki láta ljós sitt skína.

Öll ljós á himninum skal ég láta verða myrk þín vegna og færa dimmu yfir land þitt, _ segir Drottinn Guð.

Og ég mun hrella hjörtu margra þjóða, er ég leiði hertekna menn þína út á meðal þjóðanna, til landa, sem þú þekkir ekki.

10 Og ég mun gjöra margar þjóðir felmtsfullar út af þér, og hryllingur mun fara um konunga þeirra þín vegna, þegar ég sveifla sverði mínu frammi fyrir þeim, og þeir skulu skjálfa án afláts af hræðslu um líf sitt, daginn sem þú fellur.

11 Svo segir Drottinn Guð: Sverð Babelkonungs skal koma yfir þig.

12 Ég skal láta glæsilið þitt falla fyrir kappa sverðum. Það eru allt saman hinar grimmustu þjóðir. Þeir skulu eyða skrauti Egyptalands, og allt viðhafnarprjál þess skal að engu gjört.

13 Og ég skal gjöreyða öllum skepnum þess og hrífa þær burt frá hinum miklu vötnum. Enginn mannsfótur skal framar grugga þau, né heldur skulu klaufir nokkurrar skepnu grugga þau.

14 Þá skal ég láta vötn þeirra setjast og leiða ár þeirra burt eins og olíu, _ segir Drottinn Guð _

15 þegar ég gjöri Egyptaland að auðn og það er eytt orðið og svipt gnægtum sínum, er ég lýst alla þá, sem í því búa, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

16 Þetta eru harmljóð og skulu menn syngja þau. Dætur þjóðanna skulu syngja þau, þær skulu syngja þau yfir Egyptalandi og yfir öllu glæsiliði þess, _ segir Drottinn Guð!

17 Á tólfta árinu, hinn fimmtánda dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

18 "Mannsson, kveina þú og dætur þjóðanna yfir glæsiliði Egyptalands. Tignarmenn munu sökkva niður í undirheima til þeirra, sem niður eru stignir í gröfina.

19 Af hverjum ber þú að yndisleik? Stíg ofan og leggst til hvíldar meðal hinna óumskornu.

20 Þeir munu falla meðal vopnbitinna manna. Egyptaland er sverðinu ofurselt, menn hrífa það burt og allt þess skraut.

21 Þá munu hinar hraustu hetjur hrópa til Faraós í Helju, til hans og liðveislumanna hans: Niður stignir eru hinir vopnbitnu.

22 Þarna er Assýría og allur liðsafnaður hennar, og eru grafir þeirra umhverfis, _ allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, _

23 grafir þeirra eru innst inni í grafhellinum. Og sveit hennar er umhverfis gröf hennar, allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna.

24 Þarna er Elam, og allt glæsilið hans liggur umhverfis gröf hans. Þeir eru allir saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, er farið hafa óumskornir ofan í undirheima og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina.

25 Mitt á meðal veginna manna bjuggu þeir honum hvílurúm, ásamt öllu glæsiliði hans, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, er lagðir hafa verið sverði, _ því að eitt sinn stóð ógn af þeim á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina. Meðal veginna manna voru þeir lagðir.

26 Þarna er Mesek, Túbal og allur mannfjöldi þeirra, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, sverði lagðir, er eitt sinn létu ógn af sér standa á landi lifandi manna.

27 Þeir liggja ekki hjá hetjunum, þeim er féllu í fyrndinni, þeim er fóru til Heljar í hervopnum sínum, hverra sverð voru lögð undir höfuð þeirra og skildir þeirra lágu ofan á beinum þeirra, því að ótti stóð af hetjunum á landi lifandi manna.

28 Þú skalt og sundur molaður verða meðal óumskorinna og liggja hjá sverðbitnum mönnum.

29 Þar er Edóm, konungar hans og allir höfðingjar, sem þrátt fyrir hreysti sína voru lagðir hjá vopnbitnum mönnum. Þeir liggja hjá óumskornum mönnum og hjá þeim, sem niður eru stignir í gröfina.

30 Þar eru stórhöfðingjar norðursins allir saman og allir Sídoningar, er niður stigu helsærðir. Þrátt fyrir óttann, sem stóð af hreysti þeirra, eru þeir orðnir til skammar. Óumskornir liggja þeir hjá vopnbitnum mönnum og bera vanvirðu sína með þeim, er niður stignir eru í gröfina.

31 Faraó mun sjá þá og huggast yfir öllu glæsiliði sínu. Vopnbitinn er Faraó og allur hans her, _ segir Drottinn Guð.

32 Hann lét eitt sinn standa ógn af sér á landi lifandi manna, þess vegna skal hann lagður verða meðal óumskorinna, hjá vopnbitnum mönnum, Faraó og allt hans glæsilið, _ segir Drottinn Guð."

Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd,

hann lifir ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.

Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.

Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.

En þeir munu verða að gjöra reikningsskil þeim, sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða.

Því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir, þótt dæmdir væru líkamlega með mönnum, mættu lifa í andanum með Guði.

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.

Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.

Verið gestrisnir hver við annan án möglunar.

10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.

11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

12 Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.

13 Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.

14 Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.

15 Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við.

16 En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni.

17 Því að nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs. En ef hann byrjar á oss, hver munu þá verða afdrif þeirra, sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs?

18 Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda?

19 Þess vegna skulu þeir, sem líða eftir vilja Guðs, fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gjöra hið góða.