Add parallel Print Page Options

Og hann sagði við mig: "Mannsson, et bókrollu þessa, far síðan og tala til Ísraelsmanna!"

Þá upplauk ég munni mínum, en hann fékk mér bókrolluna að eta

og sagði við mig: "Þú mannsson, þú skalt renna henni niður í magann og fylla kvið þinn með bókrollu þeirri, er ég fæ þér." Og ég át hana og var hún í munni mér sæt sem hunang.

Þá sagði hann við mig: "Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra.

Því að þú ert ekki sendur til fólks, er mæli á torskilda tungu,

eigi til margra þjóða, er þú skilur eigi, heldur hefi ég sent þig til Ísraelsmanna. Þeir geta skilið þig.

En Ísraelsmenn munu eigi vilja hlýða á þig, því að þeir vilja eigi hlýða á mig, því að allir Ísraelsmenn hafa hörð enni og þverúðarfull hjörtu.

Sjá, ég gjöri andlit þitt hart, eins og andlit þeirra, og enni þitt hart, eins og enni þeirra,

ég gjöri enni þitt sem demant, harðara en klett. Þú skalt eigi óttast þá, né skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð."

10 Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, hugfest þér öll orð mín, þau er ég til þín tala, og lát þau þér í eyrum loða.

11 Far síðan til hinna herleiddu, til samlanda þinna, og tala til þeirra og seg við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` hvort sem þeir svo hlýða á það eða gefa því engan gaum."

12 Þá hóf andinn mig upp, en að baki mér heyrði ég dunur af miklum landskjálfta, er dýrð Drottins hófst upp af stað sínum,

13 svo og þyt af vængjum veranna, er snertu hver aðra, og hark frá hjólunum samtímis og dunur af miklum landskjálfta.

14 Og andinn hóf mig upp og hreif mig burt, og ég hélt af stað hryggur og í mikilli geðshræring, og hönd Drottins lá þungt á mér.

15 Og ég kom til hinna herleiddu í Tel Abíb við Kebarfljótið, þar er þeir bjuggu, og ég sat þar sjö daga utan við mig meðal þeirra.

16 Að liðnum sjö dögum kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

17 "Mannsson, ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. Þegar þú heyrir orð af mínum munni, skalt þú vara þá við í mínu nafni.

18 Ef ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt deyja!` og þú varar hann ekki við og segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við óguðlegri breytni hans, til þess að bjarga lífi hans, þá mun hinn óguðlegi að vísu deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi.

19 En varir þú hinn óguðlega við og snúi hann sér þó ekki frá guðleysi sínu og óguðlegri breytni sinni, þá mun hann deyja fyrir misgjörð sína, en þá hefir þú frelsað sál þína.

20 Ef hins vegar ráðvandur maður snýr sér frá ráðvendni sinni og fremur ranglæti, og ég legg fótakefli fyrir hann, svo að hann deyr, hafir þú þá eigi varað hann við, þá mun hann deyja fyrir synd sína, og ráðvendni sú, er hann hafði sýnt, eigi til álita koma, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi.

21 En varir þú hinn ráðvanda við syndinni, og hann, hinn ráðvandi, syndgar þá ekki, þá mun hann lífi halda, af því að hann var varaður við, og hefir þú þá frelsað sál þína."

22 Hönd Drottins kom þar yfir mig, og hann sagði við mig: "Statt upp, gakk ofan í dalinn, þar vil ég tala við þig."

23 Þá stóð ég upp og gekk niður í dalinn, og sjá, þar stóð dýrð Drottins, sú hin sama, er ég hafði séð við Kebarfljótið. Þá féll ég fram á ásjónu mína.

24 Og í mig kom andi, sem reisti mig á fætur, og hann talaði til mín og sagði við mig: "Far og loka þig inni í húsi þínu.

25 Og sjá, þú mannsson, menn munu leggja bönd á þig og fjötra þig með þeim, til þess að þú getir eigi gengið út og inn meðal þeirra.

26 Og tungu þína mun ég láta loða við góm þér, svo að þú verðir orðlaus og náir ekki að hirta þá með aðfinningum, því að þeir eru þverúðug kynslóð.

27 En þegar ég tala við þig, mun ég ljúka upp munni þínum, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` Hver sem heyra vill, hann heyri, og hver sem ekki vill gefa því gaum, hann leiði það hjá sér, því að þeir eru þverúðug kynslóð."

Þú mannsson, tak þér tigulstein, legg hann fyrir framan þig og drag þar upp borg, sem sé Jerúsalem.

Og reis þú hervirki gegn henni og hlað víggarð gegn henni. Hleyp upp jarðhrygg gegn henni, skipa hersetuliði um hana og set víghrúta umhverfis hana.

Og tak þér járnplötu og set hana sem járnvegg milli þín og borgarinnar. Snú því næst andliti þínu gegn henni, svo að hún komist undir hersetu og þú sitjir um hana. Þetta skal vera Ísraelsmönnum tákn.

En legg þú þig á vinstri hliðina og tak á þig misgjörð Ísraels húss. Alla þá daga, er þú liggur á henni, skalt þú bera misgjörð þeirra.

Og tel ég þér misgjörðarár þeirra til jafnmargra daga, _ þrjú hundruð og níutíu daga _, og þannig skalt þú bera misgjörð Ísraels húss.

Og þegar þú hefir fullnað þessa daga, þá skalt þú leggjast á hægri hliðina hið annað sinn og bera misgjörð Júda húss, fjörutíu daga. Tel ég þér dag fyrir ár hvert.

Og þú skalt snúa andliti þínu og nöktum armlegg þínum gegn umsátri Jerúsalem, og þú skalt spá í gegn henni.

Og sjá, ég legg bönd á þig, svo að þú skalt ekki ná að snúa þér af einni hlið á aðra, uns þú hefir af lokið umsátursdögum þínum.

En tak þér hveiti, bygg, baunir, linsubaunir, hirsi og speldi. Lát það allt í eitt ker og gjör þér brauð af. Skalt þú hafa það til matar allan þann tíma, er þú liggur á hliðinni.

10 Og vega skal þér mat þinn, þann er þú neytir, tuttugu sikla á dag. Skalt þú neyta hans á ákveðnum tíma einu sinni á dag.

11 Mæla skal þér og vatn að drekka, sjöttung hínar í hvert sinn. Skalt þú drekka það á ákveðnum tíma einu sinni á dag.

12 Skalt þú eta það sem byggkökur, og þær skaltu baka við mannaþrekk fyrir augum þeirra.

13 Og Drottinn sagði: "Svo munu Ísraelsmenn eta brauð sitt óhreint hjá þjóðum þeim, er ég rek þá til."

14 Þá sagði ég: "Æ, Drottinn Guð! Sjá, ég hefi aldrei saurgað mig, og allt í frá barnæsku minni og fram á þennan dag hefi ég aldrei etið það, er sjálfdautt væri eða dýrrifið, og óhreint kjöt hefi ég aldrei lagt mér til munns."

15 Þá sagði hann við mig: "Sjá þú, ég leyfi þér að hafa nautatað í stað mannaþrekks. Við það skalt þú gjöra brauð þitt."

16 Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, sjá, ég brýt sundur staf brauðsins í Jerúsalem, og þeir skulu eta brauðið eftir skammti og með angist, og vatnið skulu þeir drekka eftir mæli og með skelfingu,

17 til þess að þá skorti brauð og vatn og þeir skelfist hver með öðrum og veslist upp vegna misgjörðar sinnar."

20 Fyrir trú blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig um ókomna tíma.

21 Fyrir trú blessaði Jakob báða sonu Jósefs, er hann var að dauða kominn og "laut fram á stafshúninn og baðst fyrir".

22 Fyrir trú minntist Jósef við ævilokin á brottför Ísraelssona og gjörði ráðstöfun fyrir beinum sínum.

23 Fyrir trú leyndu foreldrar Móse honum í þrjá mánuði eftir fæðingu hans, af því að þau sáu, að sveinninn var fríður, og þau létu eigi skelfast af skipun konungsins.

24 Fyrir trú hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós,

25 og kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.

26 Hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands, því að hann horfði fram til launanna.

27 Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.

28 Fyrir trú hélt hann páska og lét rjóða blóðinu á húsin, til þess að eyðandi frumburðanna skyldi ekki snerta þá.

29 Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land, og er Egyptar freistuðu þess, drukknuðu þeir.

30 Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar, er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga.

31 Fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu, þar sem hún hafði tekið vinsamlega móti njósnarmönnunum.

32 Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta, og af Davíð, Samúel og spámönnunum.

33 Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna,

34 slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta.

35 Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu.

36 Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi.

37 Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.

38 Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum.

39 En þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína, hlutu þeir þó eigi fyrirheitið.

40 Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var: Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða.

Read full chapter