Add parallel Print Page Options

28 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, seg tignarmönnunum í Týrus: Svo segir Drottinn Guð: Af því að hjarta þitt var hrokafullt, svo að þú sagðir: ,Ég er guð, ég sit í guðasæti mitt úti í hafi!` _ þar sem þú ert þó maður og enginn guð, en leist á þig eins og guð, _

já, þú varst vitrari en Daníel, ekkert hulið var þér of myrkt,

með speki þinni og hyggindum aflaðir þú þér auðæfa og safnaðir gulli og silfri í féhirslur þínar . . .

Með viskugnótt þinni, með verslun þinni jókst þú auðæfi þín, og hjarta þitt varð hrokafullt af auðæfunum _

fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þú leist á sjálfa þig eins og guð,

sjá, fyrir því læt ég útlenda menn yfir þig koma, hinar grimmustu þjóðir, þeir skulu bregða sverðum sínum gegn snilldarfegurð þinni og vanhelga prýði þína.

Þeir munu steypa sér niður í gröfina og þú munt deyja dauða hins vopnbitna úti í hafi.

Hvort munt þú þá segja: ,Ég er guð!` frammi fyrir banamanni þínum, þar sem þú ert þó maður og enginn guð á valdi veganda þíns?

10 Þú skalt deyja dauða óumskorinna manna fyrir hendi útlendinga, því að ég hefi talað það, _ segir Drottinn Guð."

11 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

12 "Mannsson, hef upp harmljóð yfir konunginum í Týrus og seg við hann: Svo segir Drottinn Guð: Þú varst ímynd innsiglishrings, fullur af speki og fullkominn að fegurð!

13 Þú varst í Eden, aldingarði Guðs, þú varst þakinn alls konar dýrum steinum: karneól, tópas, jaspis, krýsolít, sjóam, onýx, safír, karbunkul, smaragð, og umgjörðir þínar og útflúr var gjört af gulli. Daginn, sem þú varst skapaður, var það búið til.

14 Ég hafði skipað þig verndar-kerúb, þú varst á hinu heilaga goðafjalli, þú gekkst innan um glóandi steina.

15 Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi, er þú varst skapaður, þar til er yfirsjón fannst hjá þér.

16 Fyrir þína miklu verslun fylltir þú þig hið innra ofríki og syndgaðir. Þá óhelgaði ég þig og rak þig burt af goðafjallinu og tortímdi þér, þú verndar-kerúb, burt frá hinum glóandi steinum.

17 Hjarta þitt varð hrokafullt af fegurð þinni, þú gjörðir speki þína að engu vegna viðhafnarljóma þíns. Ég varpaði þér til jarðar, ofurseldi þig konungum, svo að þeir mættu horfa nægju sína á þig.

18 Með hinum mörgu misgjörðum þínum, með hinni óráðvöndu kaupverslun þinni vanhelgaðir þú helgidóma þína. Þá lét ég eld brjótast út frá þér, hann eyddi þér, og ég gjörði þig að ösku á jörðinni í augsýn allra, er sáu þig.

19 Allir þeir meðal þjóðanna, er þekktu þig, voru agndofa yfir þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfinn."

20 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

21 "Mannsson, snú þér að Sídon og spá gegn henni

22 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Sídon, og gjöra mig vegsamlegan í þér miðri, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, er ég framkvæmi refsidóma í henni og auglýsi heilagleik minn á henni.

23 Og ég mun senda drepsótt í hana og blóðsúthelling á stræti hennar, og menn skulu í henni falla helsærðir fyrir sverði, er alla vega skal yfir hana ganga, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.

24 En fyrir Ísraelsmenn mun eigi framar vera til neinn kveljandi þyrnir né stingandi þistill af öllum þeim, sem umhverfis þá eru, þeim er óvirtu þá, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn Guð þeirra.

25 Svo segir Drottinn Guð: Þegar ég safna Ísraelsmönnum saman frá þjóðunum, þangað sem þeim var tvístrað, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn þjóðanna, og þeir skulu búa í landi sínu, því er ég gaf þjóni mínum Jakob.

26 Og þeir munu búa þar óhultir og reisa hús og planta víngarða og búa óhultir, með því að ég læt refsidóma ganga yfir alla nágranna þeirra, er þá hafa óvirt, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð þeirra."

29 Á tíunda árinu, tólfta dag hins tíunda mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, snú þér að Faraó, Egyptalandskonungi, og spá gegn honum og gegn öllu Egyptalandi.

Tala og seg: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Faraó, Egyptalandskonungur, þú mikli krókódíll, sem liggur milli árkvíslanna og segir: ,Fljótið er mitt, ég hefi sjálfur búið það til!`

Og ég skal setja króka í kjálka þína og láta fiskana í fljótum þínum loða á hreistri þínu og draga þig upp úr fljótum þínum, ásamt öllum fiskunum í fljótum þínum, þeim er loða á hreistri þínu.

Og ég skal varpa þér út á eyðimörk, þér og öllum fiskunum í fljótum þínum. Þú skalt falla úti á bersvæði, þú munt ekki verða tekinn upp né jarðaður. Ég gef þig dýrum jarðarinnar og fuglum himinsins til fæðslu.

Þá skulu allir íbúar Egyptalands viðurkenna, að ég er Drottinn, af því að þú ert Ísraelsmönnum ekki annað en stafur úr sefreyr.

Þegar þeir grípa um þig með hendinni, þá brotnar þú og fleiðrar alla höndina á þeim, og þegar þeir styðjast við þig, þá brestur þú í sundur og linar þá í öllum mjöðmunum.

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal láta sverðið koma yfir þig og gjöreyða hjá þér mönnum og fénaði.

Og Egyptaland skal verða að auðn og öræfum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. Af því að þú hefir sagt: ,Fljótið er mitt og ég hefi búið það til!`

10 sjá, fyrir því skal ég finna þig og árkvíslar þínar og gjöra Egyptaland að öræfum, að eyðiöræfum frá Migdól til Sýene og allt að landamerkjum Blálands.

11 Enginn maður skal stíga þar fæti sínum og engin skepna skal stíga þar fæti sínum, og það skal vera óbyggt í fjörutíu ár.

12 Og ég skal gjöra Egyptaland að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess skulu liggja í eyði innan um borgir, sem liggja í rústum, í fjörutíu ár, og ég mun tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin.

13 Svo segir Drottinn Guð: Þegar fjörutíu ár eru liðin, mun ég saman safna Egyptum frá þeim þjóðum, þangað sem þeim var tvístrað,

14 og ég mun snúa við högum Egyptalands og flytja þá aftur inn í landið Patrós, landið þar sem þeir eru upprunnir, og þar munu þeir vera lítilfjörlegt ríki.

15 Það mun verða lítilfjörlegra en hin ríkin og ekki framar hefja sig upp yfir þjóðirnar, og ég gjöri þá fámenna, til þess að þeir geti ekki drottnað yfir þjóðunum.

16 Þá mun Egyptaland ekki framar vera Ísraelsmönnum traust, er minni á misgjörð þeirra, er þeir leita bandalags við það, og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn Guð."

17 En á tuttugasta og sjöunda árinu, hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

18 "Mannsson, Nebúkadresar konungur í Babýlon hefir látið herlið sitt vinna mikið verk á Týrus. Höfuð allra manna hans eru orðin hárlaus og axlir þeirra gnúnar, og þó hefir hvorki hann né herlið hans fengið nein laun frá Týrus fyrir það verk, er hann hefir á henni unnið.

19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég gef Nebúkadresar Babelkonungi Egyptaland. Hann skal flytja burt auðæfi þess og fara þar með rán og rifs, það skulu vera launin handa herliði hans.

20 Sem endurgjald handa því, er það hefir unnið fyrir, gef ég því Egyptaland, _ segir Drottinn Guð.

21 Á þeim degi vil ég láta Ísraels húsi horn vaxa, og þá mun ég gefa þér að upp ljúka munni þínum meðal þeirra, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

30 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, spá og seg: Svo segir Drottinn Guð: Æpið vei yfir deginum!

Því að dagur er nálægur, já, dagur Drottins er nálægur, dagur skýþykknis, endadægur þjóðanna mun það verða.

Og sverð mun koma til Egyptalands, og Bláland mun skelfast, þá er menn hníga helsærðir á Egyptalandi, og auðæfi þess verða burt flutt og undirstöðum þess rótað upp.

Blálendingar, Pútítar, Lúdítar og allur þjóðblendingurinn og Líbýumenn og Kretar munu fyrir sverði falla ásamt þeim.

Svo segir Drottinn: Þá munu stoðir Egyptalands falla og hið dýrlega skraut þess hníga. Frá Migdól og allt til Sýene skulu menn fyrir sverði falla í því, _ segir Drottinn Guð.

Og það mun verða að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess munu liggja innan um borgir, sem eru í rústum.

Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég legg eld í Egyptaland og allir liðveislumenn þess verða muldir sundur.

Á þeim degi munu sendiboðar fara frá mér á skipum, til þess að færa hinum ugglausu Blálendingum hin hræðilegu tíðindi, og þeir munu skelfast vegna ógæfudags Egyptalands, því að sjá, hann kemur.

10 Svo segir Drottinn Guð: Þannig mun ég láta Nebúkadresar konung í Babýlon enda gjöra á mikillæti Egyptalands.

11 Hann mun verða sóttur og lið hans með honum, hinar grimmustu þjóðir, til þess að herja landið, og þeir munu bregða sverðum sínum gegn Egyptalandi og fylla landið vegnum mönnum.

12 Og ég mun þurrka upp árkvíslarnar og selja Egyptaland í hendur illmenna og láta útlenda menn eyða landið og öllu, sem í því er. Ég, Drottinn, hefi talað það.

13 Svo segir Drottinn Guð: Ég gjöri skurðgoðin að engu og uppræti falsguðina úr Nóf og höfðingjana af Egyptalandi, svo að engir skulu þar framar til vera, og ég mun skelfa Egyptaland.

14 Og ég eyði Patrós og legg eld í Sóan og framkvæmi refsidóma á Nó.

15 Og ég úthelli heift minni yfir Sín, varnarvirki Egyptalands, og tortími hinum ysmikla múg í Nó.

16 Ég legg eld í Egyptaland, Sín mun nötra og skarð mun brotið verða inn í Nó og múrar hennar niður rifnir.

17 Æskumennirnir í Ón og Píbeset munu fyrir sverði falla og íbúar annarra borga fara í útlegð.

18 Í Takpanes mun dagurinn myrkvast, er ég sundurbrýt þar veldissprota Egyptalands og hið dýrlega skraut þess verður að engu gjört. Skýþykkni mun hylja hana, og dætur hennar munu fara í útlegð.

19 Þannig mun ég láta refsidóma koma yfir Egyptaland, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

20 En á ellefta árinu, sjöunda dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

21 "Mannsson, ég hefi brotið armlegg Faraós, Egyptalandskonungs, og sjá, það skal eigi verða um hann bundið, til þess að gjöra hann heilan, með því að setja á hann sáraumbúðir, til þess að hann styrktist aftur og fengi gripið sverðið.

22 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal finna Faraó, Egyptalandskonung, ég skal brjóta armleggi hans, hinn heila og hinn brotna, og slá sverðið úr hendi hans.

23 Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin.

24 Og ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon og fá honum sverð mitt í hönd, en armleggi Faraós skal ég brjóta, svo að hann skal liggja stynjandi fyrir fótum hans, eins og helstunginn maður.

25 Ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon, en armleggir Faraós skulu niður síga, og menn skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég fæ Babelkonungi sverð mitt í hönd, og hann reiðir það að Egyptalandi.

26 Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."