Add parallel Print Page Options

27 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Þú mannsson, hef upp harmljóð um Týrus

og seg við Týrus, sem liggur við víkurnar og rekur verslun við þjóðirnar til margra eylanda: Svo segir Drottinn Guð: Týrus, þú hugsaðir: ,Ég er algjör að fegurð!`

Landsvæði þitt er úti í hafinu, þeir, er reistu þig, hafa gjört þig aðdáanlega fagra.

Af kýprestrjám frá Senír gjörðu þeir alla innviði þína, þeir tóku sedrusvið frá Líbanon til þess að gjöra af siglutré þitt.

Árar þínar gjörðu þeir úr eikitrjám frá Basan, þiljurnar gjörðu þeir úr buksviði frá eyjum Kitta og greyptu inn í þær fílsbein.

Glitofið lín frá Egyptalandi var það, sem þú breiddir út, til þess að hafa það að veifu. Tjöld þín voru úr bláum og rauðum purpura frá Elísaströndum.

Sídoningar og Arvadbúar voru hásetar hjá þér, hinir kænstu menn, sem til voru hjá þér, Týrus, voru stýrimenn þínir.

Fyrirmenn frá Gebal og listkænir menn þaðan voru þeir, sem gjörðu við lekann á þér, öll hafskip og áhöfn þeirra kom til þín til þess að kaupa varning þinn.

10 Menn frá Paras, Lúd og Pút voru í her þínum sem hermenn þínir, skjöld og hjálm festu þeir upp hjá þér, þeir gjörðu þig veglega.

11 Arvadmenn og her þeirra voru umhverfis á múrum þínum og Gammadar í turnum þínum. Þeir festu skjöldu sína upp á múra þína hringinn í kring, þeir gjörðu þig aðdáanlega fagra.

12 Tarsis átti kaupskap við þig, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris. Silfur, járn, tin og blý fluttu þeir á kauptorg þitt.

13 Javan, Túbal og Mesek keyptu við þig, mansmenn og eirílát fluttu þeir til kaupstefnu þinnar.

14 Tógarmamenn fluttu áburðarhesta, reiðhesta og múlasna á kauptorg þitt.

15 Ródusmenn keyptu við þig, margar eyjar voru þínir kaupunautar, fílsbein og íbenvið greiddu þeir þér í skatt.

16 Aram átti kaupskap við þig, sökum þess að þú áttir gnótt iðnaðarvarnings. Karbunkulrauðan purpura, glitvefnað, býssus, kóralla og jaspis fluttu þeir á kauptorg þitt.

17 Júda og Ísraelsland keyptu við þig. Hveiti frá Minnít, vax, hunang, olíu og balsam fluttu þeir til kaupstefnu þinnar.

18 Damaskus átti kaupskap við þig um þinn margháttaða iðnaðarvarning, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris, um vín frá Helbón og ull frá Sahar.

19 Og vín frá Úsal fluttu þeir á kauptorg þitt, smíðað járn, kanelviður og ilmreyr kom til kaupstefnu þinnar.

20 Dedan verslaði við þig með söðuláklæði til að ríða á.

21 Arabar og allir höfðingjar Kedars voru kaupunautar þínir, þeir seldu þér lömb, hrúta og hafra.

22 Kaupmenn frá Saba og Raema keyptu við þig. Hinar bestu kryddjurtir, alls konar dýrindis steina og gull fluttu þeir á kauptorg þitt.

23 Haran, Kanne og Eden voru kaupunautar þínir, og Assýría og öll Medía keyptu við þig.

24 Þeir versluðu við þig með skartklæði, með skikkjur úr bláum purpura og glitofnar, og með ofnar ábreiður marglitar, og með snúnar og fast undnar snúrur á sölutorgi þínu.

25 Tarsis-knerrir fluttu vörur þínar, og þannig fylltir þú þig og varðst mjög hlaðin úti á hafinu.

26 Þeir, er reru þér, fluttu þig út á rúmsjó. Austanvindurinn braut þig í spón úti á miðju hafi.

27 Auðæfi þín, kaupeyrir þinn og vörur þínar, hásetar þínir og stýrimenn, þeir sem gjörðu við lekann á þér og þeir sem seldu vörur þínar og allir hermenn þínir, sem í þér eru, og allur mannfjöldinn, sem í þér er, munu sökkva í hafið þann dag, er þú ferst.

28 Af hljóðum stýrimanna þinna munu öldudjúpin skjálfa.

29 Þá munu allir þeir, er á árum halda, stíga af skipum sínum, hásetarnir, allir stýrimenn á sjónum munu ganga á land.

30 Og þeir munu æpa hástöfum yfir þér og hljóða sáran og ausa moldu yfir höfuð sér, velta sér í ösku.

31 Þeir munu raka á sig skalla þín vegna og gyrðast hærusekk og gráta yfir þér kvíðafullir í sárri hryggð.

32 Og þeir munu hefja upp harmljóð um þig og harma þig: ,Hver var sem Týrus, er nú er í eyði lögð úti í hafinu!`

33 Þegar varningur þinn kom af sjónum, mettaðir þú margar þjóðir, með gnótt auðlegðar þinnar og kaupeyris þíns auðgaðir þú konunga jarðarinnar.

34 Nú liggur þú brotin á hafinu, í djúpum hafsins, varningur þinn sökk og allur mannfjöldinn, sem í þér var.

35 Allir þeir, sem strandlendin byggja, eru agndofa yfir þér, og konungum þeirra blöskrar svo, að ásjónur þeirra blikna.

36 Verslunarmenn þjóðanna blístra að þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfin."

28 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, seg tignarmönnunum í Týrus: Svo segir Drottinn Guð: Af því að hjarta þitt var hrokafullt, svo að þú sagðir: ,Ég er guð, ég sit í guðasæti mitt úti í hafi!` _ þar sem þú ert þó maður og enginn guð, en leist á þig eins og guð, _

já, þú varst vitrari en Daníel, ekkert hulið var þér of myrkt,

með speki þinni og hyggindum aflaðir þú þér auðæfa og safnaðir gulli og silfri í féhirslur þínar . . .

Með viskugnótt þinni, með verslun þinni jókst þú auðæfi þín, og hjarta þitt varð hrokafullt af auðæfunum _

fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þú leist á sjálfa þig eins og guð,

sjá, fyrir því læt ég útlenda menn yfir þig koma, hinar grimmustu þjóðir, þeir skulu bregða sverðum sínum gegn snilldarfegurð þinni og vanhelga prýði þína.

Þeir munu steypa sér niður í gröfina og þú munt deyja dauða hins vopnbitna úti í hafi.

Hvort munt þú þá segja: ,Ég er guð!` frammi fyrir banamanni þínum, þar sem þú ert þó maður og enginn guð á valdi veganda þíns?

10 Þú skalt deyja dauða óumskorinna manna fyrir hendi útlendinga, því að ég hefi talað það, _ segir Drottinn Guð."

11 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

12 "Mannsson, hef upp harmljóð yfir konunginum í Týrus og seg við hann: Svo segir Drottinn Guð: Þú varst ímynd innsiglishrings, fullur af speki og fullkominn að fegurð!

13 Þú varst í Eden, aldingarði Guðs, þú varst þakinn alls konar dýrum steinum: karneól, tópas, jaspis, krýsolít, sjóam, onýx, safír, karbunkul, smaragð, og umgjörðir þínar og útflúr var gjört af gulli. Daginn, sem þú varst skapaður, var það búið til.

14 Ég hafði skipað þig verndar-kerúb, þú varst á hinu heilaga goðafjalli, þú gekkst innan um glóandi steina.

15 Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi, er þú varst skapaður, þar til er yfirsjón fannst hjá þér.

16 Fyrir þína miklu verslun fylltir þú þig hið innra ofríki og syndgaðir. Þá óhelgaði ég þig og rak þig burt af goðafjallinu og tortímdi þér, þú verndar-kerúb, burt frá hinum glóandi steinum.

17 Hjarta þitt varð hrokafullt af fegurð þinni, þú gjörðir speki þína að engu vegna viðhafnarljóma þíns. Ég varpaði þér til jarðar, ofurseldi þig konungum, svo að þeir mættu horfa nægju sína á þig.

18 Með hinum mörgu misgjörðum þínum, með hinni óráðvöndu kaupverslun þinni vanhelgaðir þú helgidóma þína. Þá lét ég eld brjótast út frá þér, hann eyddi þér, og ég gjörði þig að ösku á jörðinni í augsýn allra, er sáu þig.

19 Allir þeir meðal þjóðanna, er þekktu þig, voru agndofa yfir þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfinn."

20 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

21 "Mannsson, snú þér að Sídon og spá gegn henni

22 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Sídon, og gjöra mig vegsamlegan í þér miðri, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, er ég framkvæmi refsidóma í henni og auglýsi heilagleik minn á henni.

23 Og ég mun senda drepsótt í hana og blóðsúthelling á stræti hennar, og menn skulu í henni falla helsærðir fyrir sverði, er alla vega skal yfir hana ganga, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.

24 En fyrir Ísraelsmenn mun eigi framar vera til neinn kveljandi þyrnir né stingandi þistill af öllum þeim, sem umhverfis þá eru, þeim er óvirtu þá, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn Guð þeirra.

25 Svo segir Drottinn Guð: Þegar ég safna Ísraelsmönnum saman frá þjóðunum, þangað sem þeim var tvístrað, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn þjóðanna, og þeir skulu búa í landi sínu, því er ég gaf þjóni mínum Jakob.

26 Og þeir munu búa þar óhultir og reisa hús og planta víngarða og búa óhultir, með því að ég læt refsidóma ganga yfir alla nágranna þeirra, er þá hafa óvirt, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð þeirra."

29 Á tíunda árinu, tólfta dag hins tíunda mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, snú þér að Faraó, Egyptalandskonungi, og spá gegn honum og gegn öllu Egyptalandi.

Tala og seg: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Faraó, Egyptalandskonungur, þú mikli krókódíll, sem liggur milli árkvíslanna og segir: ,Fljótið er mitt, ég hefi sjálfur búið það til!`

Og ég skal setja króka í kjálka þína og láta fiskana í fljótum þínum loða á hreistri þínu og draga þig upp úr fljótum þínum, ásamt öllum fiskunum í fljótum þínum, þeim er loða á hreistri þínu.

Og ég skal varpa þér út á eyðimörk, þér og öllum fiskunum í fljótum þínum. Þú skalt falla úti á bersvæði, þú munt ekki verða tekinn upp né jarðaður. Ég gef þig dýrum jarðarinnar og fuglum himinsins til fæðslu.

Þá skulu allir íbúar Egyptalands viðurkenna, að ég er Drottinn, af því að þú ert Ísraelsmönnum ekki annað en stafur úr sefreyr.

Þegar þeir grípa um þig með hendinni, þá brotnar þú og fleiðrar alla höndina á þeim, og þegar þeir styðjast við þig, þá brestur þú í sundur og linar þá í öllum mjöðmunum.

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal láta sverðið koma yfir þig og gjöreyða hjá þér mönnum og fénaði.

Og Egyptaland skal verða að auðn og öræfum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. Af því að þú hefir sagt: ,Fljótið er mitt og ég hefi búið það til!`

10 sjá, fyrir því skal ég finna þig og árkvíslar þínar og gjöra Egyptaland að öræfum, að eyðiöræfum frá Migdól til Sýene og allt að landamerkjum Blálands.

11 Enginn maður skal stíga þar fæti sínum og engin skepna skal stíga þar fæti sínum, og það skal vera óbyggt í fjörutíu ár.

12 Og ég skal gjöra Egyptaland að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess skulu liggja í eyði innan um borgir, sem liggja í rústum, í fjörutíu ár, og ég mun tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin.

13 Svo segir Drottinn Guð: Þegar fjörutíu ár eru liðin, mun ég saman safna Egyptum frá þeim þjóðum, þangað sem þeim var tvístrað,

14 og ég mun snúa við högum Egyptalands og flytja þá aftur inn í landið Patrós, landið þar sem þeir eru upprunnir, og þar munu þeir vera lítilfjörlegt ríki.

15 Það mun verða lítilfjörlegra en hin ríkin og ekki framar hefja sig upp yfir þjóðirnar, og ég gjöri þá fámenna, til þess að þeir geti ekki drottnað yfir þjóðunum.

16 Þá mun Egyptaland ekki framar vera Ísraelsmönnum traust, er minni á misgjörð þeirra, er þeir leita bandalags við það, og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn Guð."

17 En á tuttugasta og sjöunda árinu, hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

18 "Mannsson, Nebúkadresar konungur í Babýlon hefir látið herlið sitt vinna mikið verk á Týrus. Höfuð allra manna hans eru orðin hárlaus og axlir þeirra gnúnar, og þó hefir hvorki hann né herlið hans fengið nein laun frá Týrus fyrir það verk, er hann hefir á henni unnið.

19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég gef Nebúkadresar Babelkonungi Egyptaland. Hann skal flytja burt auðæfi þess og fara þar með rán og rifs, það skulu vera launin handa herliði hans.

20 Sem endurgjald handa því, er það hefir unnið fyrir, gef ég því Egyptaland, _ segir Drottinn Guð.

21 Á þeim degi vil ég láta Ísraels húsi horn vaxa, og þá mun ég gefa þér að upp ljúka munni þínum meðal þeirra, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna,

þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.

Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur,

heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs.

Þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar,

eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra. Og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður.

Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.

Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir.

Gjaldið ekki illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir að erfa blessunina.

10 Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, haldi tungu sinni frá vondu og vörum sínum frá að mæla svik.

11 Hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum.

12 Því að augu Drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En auglit Drottins er gegn þeim, sem illt gjöra.

13 Hver er sá, er mun gjöra yður illt, ef þér kappkostið það sem gott er?

14 En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum.

15 En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.

16 En gjörið það með hógværð og virðingu, og hafið góða samvisku, til þess að þeir, sem lasta góða hegðun yðar sem kristinna manna, verði sér til skammar í því, sem þeir mæla gegn yður.

17 Því að það er betra, ef Guð vill svo vera láta, að þér líðið fyrir að breyta vel, heldur en fyrir að breyta illa.

18 Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.

19 Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi.

20 Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar _ það er átta _ sálir í vatni.

21 Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists,

22 sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.