Add parallel Print Page Options

25 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, snú þér að Ammónítum og spá gegn þeim

og seg við Ammóníta: Heyrið orð Drottins Guðs! Svo segir Drottinn Guð: Af því að þú hlakkaðir yfir því, að helgidómur minn var vanhelgaður og yfir því að Ísraelsland var í eyði lagt og yfir því að Júdamenn urðu að fara í útlegð,

sjá, fyrir því gef ég þig austurbyggjum til eignar, að þeir setji tjöld sín í þér og reisi búðir sínar í þér. Þeir munu eta ávöxtu þína og þeir munu drekka mjólk þína.

Og ég vil gjöra Rabba að beitilandi fyrir úlfalda og land Ammóníta að fjárbóli, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

Því að svo segir Drottinn Guð: Af því að þú klappaðir lof í lófa og stappaðir með fætinum og fagnaðir með fullri fyrirlitning í hjarta yfir Ísraelslandi,

sjá, fyrir því rétti ég út hönd mína í móti þér og læt þig verða heiðingjum að herfangi og afmái þig úr tölu þjóðanna og týni þér úr tölu landanna. Ég vil tortíma þér, til þess að þú viðurkennir, að ég er Drottinn.

Svo segir Drottinn Guð: Af því að Móab segir: Sjá, Júdalýður er eins og allar aðrar þjóðir!

Sjá, fyrir því opna ég hlíðar Móabs, til þess að landið verði borgalaust, missi borgir sínar allt til hinnar ystu: prýði landsins, Bet Jesímót, Baal Meon og Kirjataím.

10 Austurbyggjum gef ég það til eignar, í viðbót við land Ammóníta, til þess að Ammóníta verði eigi framar minnst meðal þjóðanna.

11 Og ég mun framkvæma refsidóma á Móab, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.

12 Svo segir Drottinn Guð: Af því að Edóm hefir breytt við Júdamenn af mikilli hefndargirni og misgjört stórlega með því að hefna sín á þeim,

13 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Ég vil rétta út hönd mína gegn Edóm og eyða þar mönnum og fénaði og gjöra landið að auðn. Frá Teman allt til Dedan skulu þeir fyrir sverði falla.

14 Og ég fel lýð mínum Ísrael að framkvæma hefnd mína á Edóm, svo að þeir fari með Edóm samkvæmt reiði minni og heift, og hann fái að kenna á hefnd minni, _ segir Drottinn Guð.

15 Svo segir Drottinn Guð: Af því að Filistar sýndu af sér hefnigirni og hefndu sín með fyrirlitning í hjarta, hyggjandi á tortíming með ævarandi fjandskap,

16 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég mun rétta út hönd mína gegn Filistum og útrýma Kretum og eyða þeim, sem eftir eru á sjávarströndinni.

17 Og ég mun koma miklum hefndum fram á þeim með grimmilegum hirtingum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, þá er ég læt hefnd mína koma fram á þeim."

26 En á ellefta árinu, hinn fyrsta dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, af því að Týrus hlakkaði yfir Jerúsalem og sagði: ,Nú er þjóðahliðið brotið upp, hefir opnast að mér, nú vil ég fylla mig, er hún er komin í auðn!` _

fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal finna þig, Týrus, ég skal leiða í móti þér margar þjóðir, eins og þegar hafið lætur öldur sínar að streyma.

Þær skulu brjóta múra Týrusar og rífa niður turna hennar, og ég mun sjálfur sópa burt öllum jarðveg af henni og gjöra hana að berum kletti.

Hún skal verða að þerrireit fyrir fiskinet úti í hafinu, því að ég hefi talað það, _ segir Drottinn Guð, _ og hún skal verða þjóðunum að herfangi.

En dætur hennar, sem eru á landi, skulu drepnar verða með sverði, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn.

Því að svo segir Drottinn Guð: Sjá ég leiði Nebúkadresar konung í Babýlon, konung konunganna, gegn Týrus úr norðri, með hestum, vögnum, riddurum og mannsöfnuði margra þjóða.

Hann mun drepa dætur þínar á landi með sverði, hlaða víggarða gegn þér, hleypa upp jarðhrygg gegn þér og reisa skjöldu í móti þér.

Og hann mun hleypa víghrút sínum á múra þína og rífa niður turna þína með járntólum sínum.

10 Af mergð hesta hans munt þú hulin verða jóreyk, og múrar þínir munu gnötra af gný riddaranna, hjólanna og vagnanna, þegar hann fer inn um borgarhlið þín, eins og þegar farið er inn í hertekna borg.

11 Með hófum hesta sinna mun hann troða sundur öll stræti þín. Lýð þinn mun hann brytja niður með sverði, og þínar voldugu súlur munu hrapa til jarðar.

12 Og þeir munu ræna auð þínum og hrifsa burt kaupeyri þinn, brjóta niður borgarveggi þína, rífa niður þín dýrlegu hús og varpa á sjó út húsagrjótinu, viðunum og rofinu.

13 Ég skal lægja klið ljóða þinna, og hljómur harpna þinna skal ekki framar heyrast.

14 Og ég skal gjöra þig að berum kletti: Þú skalt verða að þerrireit fyrir fiskinet, þú skalt aldrei framar endurreist verða, því að ég, Drottinn, hefi talað það, _ segir Drottinn Guð.

15 Svo segir Drottinn Guð um Týrus: Munu ekki eyjarnar gnötra við dynkinn af hruni þínu, þá er hinir vegnu stynja, þá er sverðið brytjar fólkið niður í þér?

16 Og allir þjóðhöfðingjar við hafið munu stíga niður af hásætum sínum og leggja af sér skikkjur sínar og fara úr litklæðum sínum. Þeir munu íklæðast skelfingu, þeir munu setjast á jörðina, þeir munu vera síhræddir og sem agndofa þín vegna.

17 Og þeir munu hefja upp harmljóð yfir þér og segja um þig: Hversu ert þú eydd, horfin frá hafinu, þú vegsamaða borg, sem voldug varst á hafinu, hún og íbúar hennar, sem skutu skelk í bringu öllum nábúum sínum.

18 Nú nötra sælöndin á degi falls þíns og eyjarnar í hafinu eru skelfdar yfir afdrifum þínum.

19 Því að svo segir Drottinn Guð: Þegar ég gjöri þig að eyddri borg, eins og þær borgir, sem óbyggðar eru, þegar ég læt hafsjóinn streyma yfir þig, svo að hin miklu vötn hylji þig,

20 þá steypi ég þér niður til þeirra, sem ofan eru farnir í gröfina, til manna frá fyrri tíðum, og bý þér stað í undirheimum, eins og ævagömlum rústum, hjá þeim sem ofan eru farnir í gröfina, til þess að þú verðir ekki byggð framar og standir ekki framar á landi lifandi manna.

21 Ég sel þig á vald voveiflegri glötun, og þú munt farast. Þín mun verða leitað, en þú munt aldrei finnast til eilífðar, _ segir Drottinn Guð."

27 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Þú mannsson, hef upp harmljóð um Týrus

og seg við Týrus, sem liggur við víkurnar og rekur verslun við þjóðirnar til margra eylanda: Svo segir Drottinn Guð: Týrus, þú hugsaðir: ,Ég er algjör að fegurð!`

Landsvæði þitt er úti í hafinu, þeir, er reistu þig, hafa gjört þig aðdáanlega fagra.

Af kýprestrjám frá Senír gjörðu þeir alla innviði þína, þeir tóku sedrusvið frá Líbanon til þess að gjöra af siglutré þitt.

Árar þínar gjörðu þeir úr eikitrjám frá Basan, þiljurnar gjörðu þeir úr buksviði frá eyjum Kitta og greyptu inn í þær fílsbein.

Glitofið lín frá Egyptalandi var það, sem þú breiddir út, til þess að hafa það að veifu. Tjöld þín voru úr bláum og rauðum purpura frá Elísaströndum.

Sídoningar og Arvadbúar voru hásetar hjá þér, hinir kænstu menn, sem til voru hjá þér, Týrus, voru stýrimenn þínir.

Fyrirmenn frá Gebal og listkænir menn þaðan voru þeir, sem gjörðu við lekann á þér, öll hafskip og áhöfn þeirra kom til þín til þess að kaupa varning þinn.

10 Menn frá Paras, Lúd og Pút voru í her þínum sem hermenn þínir, skjöld og hjálm festu þeir upp hjá þér, þeir gjörðu þig veglega.

11 Arvadmenn og her þeirra voru umhverfis á múrum þínum og Gammadar í turnum þínum. Þeir festu skjöldu sína upp á múra þína hringinn í kring, þeir gjörðu þig aðdáanlega fagra.

12 Tarsis átti kaupskap við þig, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris. Silfur, járn, tin og blý fluttu þeir á kauptorg þitt.

13 Javan, Túbal og Mesek keyptu við þig, mansmenn og eirílát fluttu þeir til kaupstefnu þinnar.

14 Tógarmamenn fluttu áburðarhesta, reiðhesta og múlasna á kauptorg þitt.

15 Ródusmenn keyptu við þig, margar eyjar voru þínir kaupunautar, fílsbein og íbenvið greiddu þeir þér í skatt.

16 Aram átti kaupskap við þig, sökum þess að þú áttir gnótt iðnaðarvarnings. Karbunkulrauðan purpura, glitvefnað, býssus, kóralla og jaspis fluttu þeir á kauptorg þitt.

17 Júda og Ísraelsland keyptu við þig. Hveiti frá Minnít, vax, hunang, olíu og balsam fluttu þeir til kaupstefnu þinnar.

18 Damaskus átti kaupskap við þig um þinn margháttaða iðnaðarvarning, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris, um vín frá Helbón og ull frá Sahar.

19 Og vín frá Úsal fluttu þeir á kauptorg þitt, smíðað járn, kanelviður og ilmreyr kom til kaupstefnu þinnar.

20 Dedan verslaði við þig með söðuláklæði til að ríða á.

21 Arabar og allir höfðingjar Kedars voru kaupunautar þínir, þeir seldu þér lömb, hrúta og hafra.

22 Kaupmenn frá Saba og Raema keyptu við þig. Hinar bestu kryddjurtir, alls konar dýrindis steina og gull fluttu þeir á kauptorg þitt.

23 Haran, Kanne og Eden voru kaupunautar þínir, og Assýría og öll Medía keyptu við þig.

24 Þeir versluðu við þig með skartklæði, með skikkjur úr bláum purpura og glitofnar, og með ofnar ábreiður marglitar, og með snúnar og fast undnar snúrur á sölutorgi þínu.

25 Tarsis-knerrir fluttu vörur þínar, og þannig fylltir þú þig og varðst mjög hlaðin úti á hafinu.

26 Þeir, er reru þér, fluttu þig út á rúmsjó. Austanvindurinn braut þig í spón úti á miðju hafi.

27 Auðæfi þín, kaupeyrir þinn og vörur þínar, hásetar þínir og stýrimenn, þeir sem gjörðu við lekann á þér og þeir sem seldu vörur þínar og allir hermenn þínir, sem í þér eru, og allur mannfjöldinn, sem í þér er, munu sökkva í hafið þann dag, er þú ferst.

28 Af hljóðum stýrimanna þinna munu öldudjúpin skjálfa.

29 Þá munu allir þeir, er á árum halda, stíga af skipum sínum, hásetarnir, allir stýrimenn á sjónum munu ganga á land.

30 Og þeir munu æpa hástöfum yfir þér og hljóða sáran og ausa moldu yfir höfuð sér, velta sér í ösku.

31 Þeir munu raka á sig skalla þín vegna og gyrðast hærusekk og gráta yfir þér kvíðafullir í sárri hryggð.

32 Og þeir munu hefja upp harmljóð um þig og harma þig: ,Hver var sem Týrus, er nú er í eyði lögð úti í hafinu!`

33 Þegar varningur þinn kom af sjónum, mettaðir þú margar þjóðir, með gnótt auðlegðar þinnar og kaupeyris þíns auðgaðir þú konunga jarðarinnar.

34 Nú liggur þú brotin á hafinu, í djúpum hafsins, varningur þinn sökk og allur mannfjöldinn, sem í þér var.

35 Allir þeir, sem strandlendin byggja, eru agndofa yfir þér, og konungum þeirra blöskrar svo, að ásjónur þeirra blikna.

36 Verslunarmenn þjóðanna blístra að þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfin."