Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

22 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Þú mannsson, vilt þú dæma, vilt þú dæma hina blóðseku borg? Leið henni þá fyrir sjónir allar svívirðingar hennar

og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ó borg, sem úthellti blóði innan borgarveggja sinna, til þess að tími hennar kæmi, og gjörði sér skurðgoð til þess að saurga sig.

Fyrir blóðið, sem þú hefir úthellt, ert þú sek orðin, og fyrir skurðgoðin, sem þú gjörðir, ert þú óhrein orðin. Þú hefir flýtt fyrir degi þínum, og ævilok þín eru komin. Þess vegna gjöri ég þig að háðung meðal þjóðanna og að athlægi allra landa.

Þeir sem eru nálægt þér og þeir sem eru langt frá þér munu hæða þig, þú borg með flekkað mannorð, full af róstum.

Sjá, höfðingjar Ísraels, sem í þér búa, úthella blóði, hver sem betur getur.

Hjá þér eru faðir og móðir fyrirlitin, við útlendinga beita menn kúgun í þér, munaðarleysingja og ekkjur undiroka menn hjá þér.

Þú fyrirlítur helgidóma mína og vanhelgar hvíldardaga mína.

Hjá þér eru bakmælgismenn, sem koma manndrápum til leiðar, hjá þér eta menn fórnarkjöt á fjöllunum, menn fremja saurlifnað í þér miðri.

10 Hjá þér bera menn blygðan föður síns, hjá þér nauðga menn konum, sem óhreinar eru vegna tíða.

11 Einn fremur svívirðu með konu náunga síns, annar flekkar tengdadóttur sína með saurlifnaði og enn annar nauðgar hjá þér systur sinni, dóttur föður síns.

12 Menn þiggja mútur hjá þér til þess að úthella blóði. Þú hefir tekið fjárleigu og vexti og haft af náunga þínum með ofríki, en mér hefir þú gleymt, _ segir Drottinn Guð.

13 En sjá: Ég slæ höndum saman yfir því rangfengna fé, sem þú hefir dregið þér, og yfir blóðskuld þeirri, sem í þér er.

14 Mun kjarkur þinn standast og hendur þínar haldast styrkar, þegar þeir dagarnir koma, er ég tek þig fyrir? Ég, Drottinn, tala það og mun framkvæma það.

15 Og ég mun tvístra þér meðal þjóðanna og dreifa þér út um löndin og gjörsamlega uppræta óhreinleik þinn úr þér,

16 og þú skalt vanhelguð verða í augsýn heiðingjanna, og þá skalt þú viðurkenna, að ég er Drottinn."

17 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

18 "Mannsson, Ísraelsmenn eru orðnir fyrir mér eins og sori. Þeir eru allir eins og eir og tin og járn og blý í bræðsluofni, þeir eru orðnir sorasilfur.

19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þér eruð allir orðnir að sora, þá vil ég safna yður saman í Jerúsalem.

20 Eins og silfur og eir og járn og blý og tin er látið saman inn í bræðsluofn til þess að blása eldi að því og bræða það, þannig mun ég safna yður saman í reiði minni og gremi, láta yður þar inn og bræða yður.

21 Og ég mun stefna yður saman og blása að yður eldi gremi minnar, svo að þér skuluð bráðna þar.

22 Eins og silfrið er brætt í bræðsluofninum, svo skuluð þér bráðna í borginni og þá munuð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi úthellt reiði minni yfir yður."

23 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

24 "Þú mannsson, seg við hana: Þú ert eins og land, sem ekki rigndi á, sem eigi var vökvað á degi reiðinnar,

25 en þjóðhöfðingjar þess voru í því sem öskrandi ljón, er rífur sundur bráð sína. Mannslífum hafa þeir eytt, eignir og dýrgripi hafa þeir tekið og fjölgað ekkjum í landinu.

26 Prestar hennar hafa brjálað lögmáli mínu og vanhelgað helgidóma mína. Þeir hafa engan mun gjört á því, sem heilagt er og óheilagt, og eigi frætt menn um muninn á óhreinu og hreinu, og þeir hafa lokað augum sínum fyrir hvíldardögum mínum, svo að ég vanhelgaðist meðal þeirra.

27 Yfirmenn hennar voru í henni eins og sundurrífandi vargar og hugsuðu ekki um annað en að úthella blóði og eyða mannslífum til þess að afla sér rangfengins gróða.

28 En spámenn hennar riðu á kalki fyrir þá með því að boða þeim hégómasýnir og flytja þeim lygispádóma og segja: ,Svo segir Drottinn Guð!` þótt Drottinn hafi ekki talað.

29 Landslýðurinn hefir haft kúgun og rán í frammi, þeir hafa undirokað volaða og snauða og kúgað útlendinga án nokkurs réttar.

30 Og ég leitaði að einhverjum meðal þeirra, er hlaða vildi garð eða skipa sér í skarðið móti mér, landinu til varnar, til þess að ég legði það ekki í eyði, en ég fann engan.

31 Þá úthellti ég reiði minni yfir þá, gjöreyddi þeim með eldi gremi minnar, ég lét athæfi þeirra þeim í koll koma, _ segir Drottinn Guð."

23 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, konur voru tvær, dætur sömu móður.

Þær frömdu hórdóm á Egyptalandi, þær hóruðust í æsku. Þar létu þær þukla um brjóst sér og þar fóru menn höndum um meyjarbarm þeirra.

Hin eldri hét Ohola og systir hennar Oholíba. Og ég eignaðist þær báðar, og þær ólu sonu og dætur. Og Ohola hét síðar Samaría og Oholíba Jerúsalem.

En Ohola tók fram hjá mér og brann af girnd til friðla sinna, til Assýringa, hinna nafntoguðu,

sem klæddir voru bláum purpura, jarlar og landstjórar, allt saman fríðir æskumenn, riddarar ríðandi hestum.

Og hún helgaði þeim hóranir sínar, öllum úrvalsmönnum Assýringa, og hún saurgaði sig á skurðgoðum allra þeirra, er hún brann af girnd til.

Þó lét hún ekki af hórunum sínum frá Egyptalandi, því að þeir höfðu legið með henni í ungdæmi hennar og farið höndum um meyjarbarm hennar og hellt yfir hana hóran sinni.

Fyrir því seldi ég hana í hendur friðla sinna, í hendur Assýringa, er hún brann af girnd til.

10 Þeir beruðu blygðan hennar, tóku burt sonu hennar og dætur og vógu hana sjálfa með sverði, svo að hún varð öðrum konum til viðvörunar, og framkvæmdu þannig refsingardóminn á henni.

11 En þótt systir hennar Oholíba sæi það, þá varð hún þó enn frekari í lostanum og drýgði enn meiri saurlifnað en systir hennar.

12 Hún brann af girnd til Assýringa, nafntogaðra jarla og landstjóra, sem voru frábærlega prúðbúnir, til riddara, sem riðu hestum, allt saman fríðir æskumenn.

13 Og ég sá, hversu hún saurgaði sig. Eitt og hið sama var háttalag beggja þeirra systra.

14 En hún hélt áfram að drýgja hórdóm, og er hún sá menn dregna á vegg, myndir af Kaldeum, málaða með menju,

15 gyrta belti um lendarnar, með vefjarhöttu um höfuðin, alla saman hina hermannlegustu, mynd af Babýloníumönnum, en ættland þeirra er Kaldea,

16 _ þá brann hún af girnd til þeirra, er hún leit þá augum, og gjörði sendimenn til þeirra til Kaldeu.

17 Og Babýloníumenn gengu inn til hennar, til ástasamlags við hana, og flekkuðu hana með saurlifnaði sínum, og hún saurgaði sig á þeim. Þá sneri sál hennar sér frá þeim.

18 Og er hún framdi saurlifnað sinn berlega og beraði blygðan sína, þá sneri sál mín sér frá henni, eins og sál mín hafði snúið sér frá systur hennar.

19 En hún varð enn frekari í hórdómi sínum, með því að hún minntist æskudaga sinna, þá er hún framdi saurlifnað á Egyptalandi.

20 Og hún brann af girnd til friðla þeirra, sem voru eins hreðurmiklir og asnar og gusan úr þeim sem úr stóðhestum.

21 Og þú saknaðir saurlifnaðar æsku þinnar, þá er Egyptar fóru höndum um barm þinn og þukluðu um meyjarbrjóst þín.

22 Fyrir því, Oholíba, svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun egna friðla þína upp í móti þér, þá er sál þín hefir snúið sér frá, og láta þá veitast að þér úr öllum áttum:

23 Babýloníumenn og alla Kaldea, Pekód, Sjóa og Kóa og alla Assýringa með þeim, allt saman fríða æskumenn, jarla og landstjóra, tóma liðsforingja og nafntogaða menn, ríðandi hestum.

24 Og þeir munu koma í móti þér úr norðri með vögnum og hjólum og liðsafnaði margra þjóða. Törgu, skjöld og hjálm munu þeir setja upp í móti þér hringinn í kring, og ég mun leggja fyrir þá málið, og þeir skulu dæma þig eftir sínum lögum.

25 Og ég mun snúa vandlæting minni gegn þér, og þeir munu fara grimmdarlega með þig. Þeir munu skera af þér nef og eyru, og það, sem eftir verður af þér, skal fyrir sverði falla. Sonu þína og dætur munu þeir hafa á burt, og það, sem eftir verður af þér, mun eyðast af eldi.

26 Og þeir munu færa þig af klæðum og taka af þér skartgripi þína.

27 Og ég vil gjöra enda á saurlifnaði þínum og hórdómi þínum frá Egyptalandi, svo að þú hefjir eigi framar augu þín til þeirra og hugsir eigi framar um Egyptaland.

28 Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun selja þig á vald þeirra, er þú hatar, á vald þeirra, er sál þín hefir snúið sér frá.

29 Og þeir munu fara haturslega með þig og hafa á burt allan afla þinn og láta þig eftir nakta og bera, og þá mun verða flett ofan af hinni hórgjörnu blygðan þinni, lauslæti þínu og saurlifnaði þínum.

30 Svo mun með þig farið, af því að þú eltir þjóðirnar, fyrir þá sök að þú saurgaðir þig á skurðgoðum þeirra.

31 Þú hefir gengið götu systur þinnar, þess vegna rétti ég að þér bikar hennar.

32 Svo segir Drottinn Guð: Þú skalt drekka bikar systur þinnar, hinn djúpa og víða, sem tekur svo mikið, _

33 vímu og hörmung skalt þú fyllast _, bikar hryllings og skelfingar, bikar Samaríu systur þinnar.

34 Og þú skalt drekka hann og tæma og sötra dreggjarnar og sundurrífa brjóst þín, því að ég hefi talað það, segir Drottinn Guð.

35 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sökum þess að þú hefir gleymt mér og varpað mér aftur fyrir bak þér, þá skalt þú nú og gjöld taka fyrir lauslæti þitt og saurlifnað."

36 Og Drottinn sagði við mig: "Mannsson, vilt þú dæma Oholu og Oholíbu? Leið þeim þá fyrir sjónir svívirðingar þeirra,

37 hversu þær hafa hórdóm drýgt og flekkað hendur sínar með blóði, og hversu þær hafa drýgt hórdóm með skurðgoðum sínum og jafnvel látið sonu sína, er þær fæddu mér, ganga gegnum eld þeim til fæðslu.

38 Enn fremur gjörðu þær mér þetta: Þær saurguðu sama daginn helgidóm minn og vanhelguðu hvíldardaga mína.

39 Og þegar þær slátruðu sonum sínum skurðgoðunum til fórnar, gengu þær sama daginn inn í helgidóm minn til þess að vanhelga hann. Já, slíkt höfðust þær að í mínu eigin musteri.

40 Þær sendu jafnvel eftir mönnum, er komu af fjarlægum löndum, og er sendimaður hafði verið gjörður til þeirra, komu þeir. Þeirra vegna laugaðir þú þig, barst lit í augu þér og bjóst þig í skart.

41 Síðan settist þú á veglegan hvílubekk, fyrir framan hann stóð uppbúið borð, og á það lagðir þú reykelsi mitt og olífuolíu mína.

42 Og með háværum söng hvíldu þeir á bekknum, og auk mannanna úr mannfjöldanum var komið með Sabea úr eyðimörkinni. Þeir spenntu armbaugum um handleggi kvennanna og settu dýrlega kórónu á höfuð þeirra.

43 Þá sagði ég: ,Mun hin útslitna enn drýgja hórdóm? Munu menn enn hórast með henni?`

44 Og menn gengu inn til hennar, eins og gengið er inn til hórkonu, þannig gengu þeir inn til Oholu og Oholíbu, saurlífiskvennanna.

45 En réttlátir menn munu dæma þær sama dómi og hórkonur eru dæmdar og þær konur, er úthella blóði, því að hórkonur eru þær, og hendur þeirra eru blóði flekkaðar.

46 Svo segir Drottinn Guð: Mannsafnaður sé gjörður að þeim og þær framseldar til misþyrmingar og rána.

47 Og mannsafnaðurinn skal lemja þær grjóti og höggva þær sundur með sverðum sínum. Sonu þeirra og dætur skulu menn drepa og brenna hús þeirra í eldi.

48 Þannig vil ég útrýma saurlifnaðinum úr landinu, til þess að allar konur láti sér að kenningu verða og breyti eigi eftir saurlifnaðar-dæmi yðar.

49 Og menn munu láta saurlifnað yðar koma niður á yður, og þér skuluð gjalda þeirra synda, er þér hafið framið með skurðgoðum yðar, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn Guð."

Pétur postuli Jesú Krists heilsar hinum útvöldu, sem eru dreifðir sem útlendingar í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu,

en útvaldir samkvæmt fyrirvitund Guðs föður og helgaðir af anda hans til að hlýðnast Jesú Kristi og verða hreinsaðir með blóði hans. Náð og friður margfaldist með yður.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum,

til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.

Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma.

Fagnið því, þótt þér nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum.

Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.

Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði,

þegar þér eruð að ná takmarki trúar yðar, frelsun sálna yðar.

10 Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð, sem yður mundi hlotnast.

11 Þeir rannsökuðu, til hvers eða hvílíks tíma andi Krists, sem í þeim bjó, benti, þá er hann vitnaði fyrirfram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir.

12 En þeim var opinberað, að eigi væri það fyrir sjálfa þá, heldur fyrir yður, að þeir þjónuðu að þessu, sem yður er nú kunngjört af þeim, sem boðuðu yður fagnaðarerindið í heilögum anda, sem er sendur frá himni. Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast.

13 Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists.

14 Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar.

15 Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað.

16 Ritað er: "Verið heilagir, því ég er heilagur."

17 Fyrst þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma yðar.

18 Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar,

19 heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.

20 Hann var útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð, en var opinberaður í lok tímanna vegna yðar.

21 Fyrir hann trúið þér á Guð, er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð, svo að trú yðar skyldi jafnframt vera von til Guðs.

22 Þér hafið hreinsað yður með því að hlýða sannleikanum og berið hræsnislausa bróðurelsku í brjósti. Elskið því hver annan af heilu hjarta.

23 Þér eruð endurfæddir, ekki af forgengilegu sæði, heldur óforgengilegu, fyrir orð Guðs, sem lifir og varir.

24 Því að: Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur.

25 En orð Drottins varir að eilífu. Og þetta orð er fagnaðarerindið, sem yður hefur verið boðað.