A A A A A
Bible Book List

Esekíel 18-20 Icelandic Bible (ICELAND)

18 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Hvað kemur til, að þér hafið þetta orðtak um Ísraelsland: ,Feðurnir átu súr vínber, og tennur barnanna urðu sljóar`?

Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skuluð þér ekki framar hafa þetta orðtak í Ísrael.

Sjá, mínar eru sálirnar allar, sál föðurins eins og sál sonarins, mínar eru þær. Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.

Hver sá maður, sem er ráðvandur og iðkar rétt og réttlæti,

sem etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns og kemur ekki nærri konu meðan hún hefir klæðaföll,

sem engan undirokar og skilar aftur skuldaveði sínu, tekur ekki neitt frá öðrum með ofbeldi, sem gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum,

sem lánar ekki fé gegn leigu og tekur ekki vexti af lánsfé, sem heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, og dæmir rétt í deilumálum manna,

sem breytir eftir boðorðum mínum og varðveitir skipanir mínar, með því að gjöra það sem rétt er, _ hann er ráðvandur og skal vissulega lifa, segir Drottinn Guð.

10 En eignist hann ofbeldisfullan son, sem úthellir blóði og fremur ranglæti,

11 sem ekki fetar í fótspor síns ráðvanda föður, heldur etur fórnarkjöt á fjöllunum og flekkar konu náunga síns,

12 undirokar volaða og snauða, tekur frá öðrum með ofbeldi, skilar ekki aftur veði og hefur augu sín til skurðgoða, fremur svívirðingar,

13 lánar fé gegn leigu og tekur vexti af lánsfé, _ ætti hann að halda lífi? Hann skal ekki lífi halda! Af því að hann hefir framið allar þessar svívirðingar, skal hann vissulega deyja. Blóð hans komi yfir hann!

14 En eignist hann son, sem sér allar þær syndir, sem faðir hans drýgði, og óttast og breytir ekki eftir þeim,

15 etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns

16 og undirokar engan, tekur ekkert veð og tekur ekkert frá öðrum með ofbeldi, gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum,

17 heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, tekur ekki vexti né fjárleigu, heldur skipanir mínar og breytir eftir boðorðum mínum, _ sá skal ekki deyja sakir misgjörða föður síns, heldur skal hann vissulega lífi halda.

18 En af því að faðir hans hefir beitt kúgun og tekið frá öðrum með ofbeldi og gjört það, sem ekki var gott, meðal þjóðar sinnar, þá hlýtur hann að deyja fyrir misgjörð sína.

19 Og þá segið þér: ,Hví geldur sonurinn ekki misgjörðar föður síns?` Þar sem þó sonurinn iðkaði rétt og réttlæti, varðveitti öll boðorð mín og breytti eftir þeim, skal hann vissulega lífi halda.

20 Sá maður, sem syndgar, hann skal deyja. Sonur skal eigi gjalda misgjörðar föður síns og faðir skal eigi gjalda misgjörðar sonar síns. Ráðvendni hins ráðvanda skal koma niður á honum og óguðleiki hins óguðlega skal koma niður á honum.

21 Ef hinn óguðlegi hverfur frá öllum syndum sínum, sem hann hefir drýgt, og heldur öll mín boðorð og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann vissulega lífi halda og ekki deyja.

22 Öll hans afbrot, sem hann hefir drýgt, skulu honum þá eigi tilreiknuð verða. Vegna ráðvendninnar, sem hann hefir iðkað, skal hann lífi halda.

23 Ætli ég hafi þóknun á dauða hins óguðlega _ segir Drottinn Guð _ og ekki miklu fremur á því, að hann hverfi frá sinni illu breytni og haldi lífi?

24 En hverfi hinn ráðvandi frá ráðvendni sinni og fremji það, sem rangt er, í líkingu við allar þær svívirðingar, er hinn óguðlegi hefir framið, þá skal öll sú ráðvendni, er hann hefir iðkað, ekki til álita koma. Fyrir það tryggðrof, sem hann hefir sýnt, og þá synd, sem hann hefir drýgt, fyrir þær skal hann deyja.

25 En er þér segið: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` _ þá heyrið, þér Ísraelsmenn: Ætli það sé mitt atferli, sem ekki er rétt? Ætli það sé ekki fremur yðar atferli, sem ekki er rétt?

26 Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og gjörir það, sem rangt er, þá hlýtur hann að deyja vegna þess. Vegna glæps þess, er hann hefir framið, hlýtur hann að deyja.

27 En þegar óguðlegur maður hverfur frá óguðleik sínum, sem hann hefir í frammi haft, og iðkar rétt og réttlæti, þá mun hann bjarga lífi sínu.

28 Því að hann sneri sér frá öllum syndum sínum, er hann hafði framið, fyrir því mun hann vissulega lífi halda og ekki deyja.

29 Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` _ ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt?

30 Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar.

31 Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn?

32 Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, _ segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa."

19 Kyrja þú upp harmljóð yfir höfðingjum Ísraels

og seg: Hvílík ljónynja var móðir þín meðal ljóna. Hún lá meðal ungra ljóna, ól upp ljónshvolpa sína.

Og hún kom upp einum af hvolpum sínum, hann varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn.

Þá höfðu þjóðirnar útboð í móti honum, hann var veiddur í gröf þeirra, og þeir teymdu hann á nasahring til Egyptalands.

En er hún sá, að hún hafði breytt heimskulega, að von hennar var horfin, tók hún annan af hvolpum sínum og gjörði hann að ungljóni.

Og hann gekk meðal ljóna og varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn.

Og hann gjörði margar meðal þeirra að ekkjum og eyddi borgir þeirra, svo að landið fylltist skelfingu og allt, sem í því var, vegna öskurs hans.

Þá settu þjóðir sig móti honum, úr héruðunum umhverfis, og köstuðu neti sínu yfir hann, í gröf þeirra varð hann veiddur.

Og þeir drógu hann á nasahring í búr og fluttu hann til Babelkonungs og settu hann í dýflissu, til þess að rödd hans heyrðist ekki framar á Ísraels fjöllum.

10 Móðir þín var eins og vínviður, sem gróðursettur var hjá vatni. Hann varð ávaxtarsamur og fjölgreinóttur af vatnsgnóttinni.

11 Þá spratt fram sterk grein og varð veldissproti og óx hátt upp í milli þéttra greina og var frábær fyrir hæðar sakir, því að angar hennar voru svo margir.

12 Þá var vínviðinum rykkt upp í heift og varpað til jarðar, og austanvindurinn skrældi ávöxt hans. Hin sterka grein hans skrælnaði, eldur eyddi henni.

13 Og nú er hann gróðursettur í eyðimörk, í þurru og vatnslausu landi.

14 Og eldur braust út frá grein hans, sem eyddi öngum hans, og engin sterk grein var framar á honum, enginn veldissproti. Þetta eru harmljóð og voru sungin sem harmljóð.

20 Á sjöunda árinu, tíunda dag hins fimmta mánaðar, komu nokkrir af öldungum Ísraels til þess að ganga til frétta við Drottin, og settust niður frammi fyrir mér.

Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: "Mannsson, tala þú til öldunga Ísraels og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

Þér eruð komnir til þess að ganga til frétta við mig? Svo sannarlega sem ég lifi vil ég eigi láta yður ganga til frétta við mig, _ segir Drottinn Guð.

En viljir þú dæma þá, viljir þú dæma, mannsson, þá leið þeim fyrir sjónir svívirðingar feðra þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

Þegar ég útvaldi Ísrael, vann ég niðjum Jakobs húss eið og gjörði mig þeim kunnan á Egyptalandi. Þá vann ég þeim eið og sagði: Ég er Drottinn, Guð yðar!

Þann dag vann ég þeim eið að því að leiða þá burt af Egyptalandi til þess lands, er ég hafði kannað fyrir þá, er flyti í mjólk og hunangi, _ það er prýði meðal landanna.

Og ég sagði við þá: Sérhver yðar varpi burt þeim viðurstyggðum, er þér hafið fyrir augum, og saurgið yður ekki á skurðgoðum Egyptalands. Ég er Drottinn, Guð yðar.

En þeir voru mér mótsnúnir og vildu eigi hlýða mér. Þeir vörpuðu eigi burt viðurstyggðum þeim, er þeir höfðu fyrir augum, og þeir yfirgáfu eigi skurðgoð Egyptalands. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í Egyptalandi.

En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er þeir bjuggu meðal, því að í augsýn þeirra hafði ég gjört mig þeim kunnan, til þess að flytja þá burt af Egyptalandi.

10 Og ég flutti þá burt af Egyptalandi og leiddi þá inn í eyðimörkina.

11 Og ég gaf þeim setningar mínar og kunngjörði þeim lög mín, þau er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa.

12 Ég gaf þeim og hvíldardaga mína, að þeir væru sambandstákn milli mín og þeirra, til þess að menn skyldu viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá, sem helgar þá.

13 En Ísraelsmenn voru mér mótsnúnir í eyðimörkinni. Þeir breyttu eigi eftir setningum mínum og höfnuðu lögum mínum, þeim er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa, og hvíldardaga mína vanhelguðu þeir stórum. Þá hugði ég að úthella reiði yfir þá í eyðimörkinni til þess að gjöreyða þeim.

14 En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á að ég flutti þá burt.

15 Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi ekki leiða þá inn í landið, sem ég hafði gefið þeim og flýtur í mjólk og hunangi, _ það er prýði meðal landanna _,

16 af því að þeir höfnuðu lögum mínum og breyttu ekki eftir boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína, því að hjarta þeirra elti skurðgoð þeirra.

17 En ég kenndi í brjósti um þá meir en svo að ég vildi tortíma þeim, og gjörði því ekki út af við þá í eyðimörkinni.

18 Og ég sagði við sonu þeirra í eyðimörkinni: ,Breytið ekki eftir siðvenjum feðra yðar og haldið eigi lög þeirra og saurgið yður ekki á skurðgoðum þeirra.

19 Ég er Drottinn, Guð yðar, lifið eftir boðorðum mínum og haldið lög mín og breytið eftir þeim.

20 Og haldið helga hvíldardaga mína, og séu þeir sambandstákn milli mín og yðar, til þess að menn viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð yðar.`

21 En synirnir voru mér mótsnúnir: Þeir lifðu ekki eftir boðorðum mínum og héldu ekki lög mín, svo að þeir breyttu eftir þeim, sem maðurinn þó á að halda, til þess að hann megi lifa; hvíldardaga mína vanhelguðu þeir. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í eyðimörkinni.

22 En ég dró höndina aftur að mér og gjörði það ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á, að ég flutti þá burt.

23 Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi tvístra þeim meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin,

24 af því að þeir héldu ekki lög mín og höfnuðu boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína og höfðu ekki augun af skurðgoðum feðra sinna.

25 Ég gaf þeim þá og boðorð, sem ekki voru holl, og lög, er þeim eigi voru til lífs lagin.

26 Ég lét þá saurga sig á fórnargjöfum sínum, á því að brenna í eldi alla frumburði, til þess að þeim skyldi ofbjóða, svo að þeir yrðu að kannast við, að ég er Drottinn.

27 Tala þú þess vegna til Ísraelsmanna, mannsson, og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Enn fremur hafa feður yðar smánað mig með þessu, að þeir rufu trúnað við mig.

28 Þegar ég hafði flutt þá inn í landið, sem ég hafði heitið þeim með eiði að gefa þeim, og þeir komu einhvers staðar auga á háa hæð og þéttlaufgað tré, þá slátruðu þeir þar fórnum sínum og báru þar fram hinar andstyggilegu gjafir sínar og létu þar þægilegan ilm sinn upp stíga og dreyptu þar dreypifórnum sínum.

29 Þá sagði ég við þá: ,Hvaða blóthæð er þetta, sem þér farið upp á?` Fyrir því er hún kölluð ,hæð` allt til þessa dags.

30 Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Viljið þér saurga yður á sama hátt og feður yðar og drýgja hór með viðurstyggðum þeirra?

31 Já, með því að bera fram fórnargjafir yðar, með því að láta sonu yðar ganga gegnum eld, saurgið þér yður á öllum skurðgoðum yðar allt til þessa dags, og ég ætti að láta yður ganga til frétta við mig, þér Ísraelsmenn? Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, vil ég ekki láta yður ganga til frétta við mig.

32 Ekki skal það heldur verða, sem yður hefir til hugar komið. Þér hugsið: ,Vér viljum vera sem aðrar þjóðir, sem kynslóðir heiðnu landanna, og tilbiðja stokka og steina.`

33 Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ skal ég ríkja yfir yður með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift.

34 Og ég mun flytja yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift,

35 og leiða yður inn í eyðimörkina milli þjóðanna og ganga þar í dóm við yður augliti til auglitis.

36 Eins og ég gekk í dóm við feður yðar í Egyptalands eyðimörk, svo mun ég og ganga í dóm við yður, _ segir Drottinn Guð.

37 Ég mun láta yður renna fram hjá mér undir stafnum og láta yður gangast undir skyldukvöð sáttmálans.

38 Og ég skil þá frá yður, er gjörðust mér mótsnúnir og rufu trúnað við mig. Ég vil flytja þá burt úr því landi, þar sem þeir dvöldust sem útlendingar, en inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, svo að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

39 En þér, Ísraelsmenn, _ svo segir Drottinn Guð: Fari hver yðar og þjóni skurðgoðum sínum. En eftir þetta skuluð þér vissulega hlýða á mig og eigi framar vanhelga mitt heilaga nafn með fórnargjöfum yðar og skurðgoðum.

40 Því að á mínu heilaga fjalli, á fjallhnjúki Ísraels, segir Drottinn Guð, munu allir Ísraelsmenn, eins og þeir eru margir til, þjóna mér. Þar mun ég taka þeim náðarsamlega, og þar mun ég girnast fórnargjafir yðar og frumgróðafórnir ásamt öllu, sem þér helgið.

41 Ég mun taka yður náðarsamlega sem þægilegum ilm, þegar ég flyt yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, og þá skal ég sýna mig heilagan á yður í augsýn þjóðanna.

42 Og þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég leiði yður inn í Ísraelsland, inn í landið, sem ég sór að gefa feðrum yðar.

43 Þar munuð þér þá minnast breytni yðar og allra verka yðar, er þér saurguðuð yður á, og yður mun bjóða við sjálfum yður sökum allra þeirra illverka, er þér hafið framið.

44 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég fer svo með yður vegna nafns míns, en fer ekki með yður eftir yðar vondu breytni og yðar glæpsamlegu verkum, Ísraelsmenn, _ segir Drottinn Guð."

45 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

46 "Mannsson, horf þú í suðurátt og lát orð þín streyma mót hádegisstað og spá móti skóginum í Suðurlandinu,

47 og seg við skóginn í Suðurlandinu: Heyr orð Drottins! Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég kveiki eld í þér, sem eyða skal hverju grænu tré og hverjum þurrum viði, sem í þér er. Eldsloginn skal ekki slokkna, og öll andlit skulu sviðna af honum frá suðri til norðurs.

48 Og allir menn skulu sjá, að ég, Drottinn, hefi kveikt hann, hann skal ekki slokkna."

49 Þá sagði ég: "Æ, Drottinn Guð! Þeir segja um mig: ,Talar hann ekki ávallt í ráðgátum?"`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes