Add parallel Print Page Options

Móse svaraði og sagði: "Sjá, þeir munu eigi trúa mér og eigi skipast við orð mín, heldur segja: ,Guð hefir ekki birst þér!"`

Þá sagði Drottinn við hann: "Hvað er það, sem þú hefir í hendi þér?" Hann svaraði: "Stafur er það."

Hann sagði: "Kasta þú honum til jarðar!" Og hann kastaði honum til jarðar, og stafurinn varð að höggormi, og hrökk Móse undan honum.

Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt þú út hönd þína og gríp um ormshalann!" Þá rétti hann út hönd sína og tók um hann, og varð hann þá aftur að staf í hendi hans, _

"að þeir megi trúa því, að Drottinn, Guð feðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi birst þér."

Drottinn sagði enn fremur við hann: "Sting hendi þinni í barm þér!" Og hann stakk hendi sinni í barm sér. En er hann tók hana út aftur, var höndin orðin líkþrá og hvít sem snjór.

Og hann sagði: "Sting aftur hendi þinni í barm þér!" Og hann stakk hendinni aftur í barm sér. En er hann tók hana aftur út úr barminum, var hún aftur orðin sem annað hold hans.

"Vilji þeir nú ekki trúa þér eða skipast við hið fyrra jarteiknið, þá munu þeir skipast við hið síðara.

En ef þeir vilja hvorugu þessu jarteikni trúa eða skipast láta við orð þín, þá skalt þú taka vatn úr ánni og ausa því upp á þurrt land, og mun þá það vatn er þú tekur úr ánni verða að blóði á þurrlendinu."

10 Þá sagði Móse við Drottin: "Æ, Drottinn, aldrei hefi ég málsnjall maður verið, hvorki áður fyrr né heldur síðan þú talaðir við þjón þinn, því að mér er tregt um málfæri og tungutak."

11 En Drottinn sagði við hann: "Hver gefur manninum málið, eða hver gjörir hann mállausan eða daufan eða skyggnan eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn, sem gjöri það?

12 Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla."

13 En hann svaraði: "Æ, Drottinn, send þú einhvern annan."

14 Þá reiddist Drottinn Móse og sagði: "Þá er Aron bróðir þinn, levítinn! Ég veit að hann er vel máli farinn. Og meira að segja, sjá, hann fer til móts við þig, og þá er hann sér þig, mun hann fagna í hjarta sínu.

15 Þú skalt tala til hans og leggja honum orðin í munn, en ég mun vera með munni þínum og munni hans og kenna ykkur, hvað þið skuluð gjöra.

16 Hann skal tala fyrir þig til lýðsins, og hann skal vera þér sem munnur, en þú skalt vera honum sem Guð.

17 Staf þennan skalt þú hafa í hendi þér. Með honum skalt þú jarteiknin gjöra."

18 Síðan fór Móse heim aftur til Jetró tengdaföður síns og mælti til hans: "Leyf mér að fara og hverfa aftur til ættbræðra minna, sem á Egyptalandi eru, svo að ég viti, hvort þeir eru enn á lífi." Og Jetró sagði við Móse: "Far þú í friði!"

19 Drottinn sagði við Móse í Midíanslandi: "Far þú og hverf aftur til Egyptalands, því að þeir eru allir dauðir, sem leituðu eftir lífi þínu."

20 Þá tók Móse konu sína og sonu, setti þau upp á asna og fór aftur til Egyptalands. Og Móse tók Guðs staf í hönd sér.

21 Drottinn sagði við Móse: "Sjá svo til, þá er þú kemur aftur í Egyptaland, að þú fremjir öll þau undur fyrir Faraó, sem ég hefi gefið þér vald til. En ég mun herða hjarta hans, svo að hann mun eigi leyfa fólkinu að fara.

22 En þú skalt segja við Faraó: Svo segir Drottinn: ,Ísraelslýður er minn frumgetinn sonur.

23 Ég segi þér: Lát son minn fara, að hann megi þjóna mér. En viljir þú hann eigi lausan láta, sjá, þá skal ég deyða frumgetinn son þinn."`

24 Á leiðinni bar svo við í gistingarstað einum, að Drottinn réðst í móti honum og vildi deyða hann.

25 Þá tók Sippóra hvassan stein og afsneið yfirhúð sonar síns og snerti fætur hans og sagði: "Þú ert sannlega minn blóðbrúðgumi!"

26 Þá sleppti hann honum. En ,blóðbrúðgumi` sagði hún vegna umskurnarinnar.

27 Drottinn sagði við Aron: "Far þú út í eyðimörkina til móts við Móse." Og hann fór og mætti honum á Guðs fjalli og minntist við hann.

28 Sagði Móse þá Aroni öll orð Drottins, er hann hafði fyrir hann lagt, og öll þau jarteikn, sem hann hafði boðið honum að gjöra.

29 Þeir Móse og Aron fóru nú og stefndu saman öllum öldungum Ísraelsmanna,

30 og flutti Aron öll þau orð, er Drottinn hafði mælt við Móse, og hann gjörði táknin í augsýn fólksins.

31 Og fólkið trúði. Og er þeir heyrðu, að Drottinn hafði vitjað Ísraelsmanna og litið á eymd þeirra, féllu þeir fram og tilbáðu.

Eftir það gengu þeir Móse og Aron á fund Faraós og sögðu: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraelsmanna: ,Gef fólki mínu fararleyfi, að það megi halda mér hátíð í eyðimörkinni."`

En Faraó sagði: "Hver er Drottinn, að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara? Ég þekki ekki Drottin, og Ísrael leyfi ég eigi heldur að fara."

Þeir sögðu: "Guð Hebrea hefir komið til móts við oss. Leyf oss að fara þriggja daga leið út í eyðimörkina til að færa fórnir Drottni, Guði vorum, að hann láti eigi yfir oss koma drepsótt eða sverð."

En Egyptalandskonungur sagði við þá: "Hví viljið þið, Móse og Aron, taka fólkið úr vinnunni? Farið til erfiðis yðar!"

Og Faraó sagði: "Nú, þegar fólkið er orðið svo margt í landinu, þá viljið þið láta það hætta að erfiða!"

Sama dag bauð Faraó verkstjórum þeim, er settir voru yfir fólkið, og tilsjónarmönnum þess og sagði:

"Upp frá þessu skuluð þér eigi fá fólkinu hálmstrá til að gjöra tigulsteina við, eins og hingað til. Þeir skulu sjálfir fara og safna sér stráum,

en þó skuluð þér setja þeim fyrir að gjöra jafnmarga tigulsteina og þeir hafa gjört hingað til, og minnkið ekki af við þá, því að þeir eru latir. Þess vegna kalla þeir og segja: ,Vér viljum fara og færa fórnir Guði vorum.`

Það verður að þyngja vinnuna á fólkinu, svo að það hafi nóg að starfa og hlýði ekki á lygifortölur."

10 Þá gengu verkstjórar fólksins og tilsjónarmenn þess út og mæltu þannig til fólksins: "Svo segir Faraó: ,Ég læt eigi fá yður nein hálmstrá.

11 Farið sjálfir og fáið yður strá, hvar sem þér finnið, en þó skal alls ekkert minnka vinnu yðar."`

12 Þá fór fólkið víðsvegar um allt Egyptaland að leita sér hálmleggja til að hafa í stað stráa.

13 En verkstjórarnir ráku eftir þeim og sögðu: "Ljúkið dag hvern við yðar ákveðna dagsverk, eins og meðan þér höfðuð stráin."

14 Og tilsjónarmenn Ísraelsmanna, sem verkstjórar Faraós höfðu sett yfir þá, voru barðir og sagt við þá: "Hví hafið þér eigi lokið við yðar ákveðna tigulgerðarverk, hvorki í gær né í dag, eins og áður fyrr?"

15 Tilsjónarmenn Ísraelsmanna gengu þá fyrir Faraó, báru sig upp við hann og sögðu: "Hví fer þú svo með þjóna þína?

16 Þjónum þínum eru engin strá fengin, og þó er sagt við oss: ,Gjörið tigulsteina.` Og sjá, þjónar þínir eru barðir og á þitt fólk sök á þessu."

17 En hann sagði: "Þér eruð latir og nennið engu! Þess vegna segið þér: ,Látum oss fara og færa Drottni fórnir.`

18 Farið nú og erfiðið! Og engin strá skal fá yður, en þó skuluð þér inna af hendi hina ákveðnu tigulsteina."

19 Þá sáu tilsjónarmenn Ísraelsmanna í hvert óefni komið var fyrir þeim, þegar sagt var við þá: "Þér skuluð engu færri tigulsteina gjöra, hinu ákveðna dagsverki skal aflokið hvern dag!"

20 Þegar þeir komu út frá Faraó, mættu þeir þeim Móse og Aroni, sem stóðu þar og biðu þeirra.

21 Og þeir sögðu við þá: "Drottinn líti á ykkur og dæmi, þar eð þið hafið gjört oss illa þokkaða hjá Faraó og þjónum hans og fengið þeim sverð í hendur til að drepa oss með."

22 Þá sneri Móse sér aftur til Drottins og sagði: "Drottinn, hví gjörir þú svo illa við þetta fólk? Hví hefir þú þá sent mig?

23 Því síðan ég gekk fyrir Faraó til að tala í þínu nafni, hefir hann misþyrmt þessum lýð, og þú hefir þó alls ekki frelsað lýð þinn."

En Drottinn sagði við Móse: "Þú skalt nú sjá, hvað ég vil gjöra Faraó, því að fyrir voldugri hendi skal hann þá lausa láta, fyrir voldugri hendi skal hann reka þá burt úr landi sínu."

Guð talaði við Móse og sagði við hann: "Ég er Drottinn!

Ég birtist Abraham, Ísak og Jakob sem Almáttugur Guð, en undir nafninu Drottinn hefi ég eigi opinberast þeim.

Ég gjörði og við þá sáttmála, að gefa þeim Kanaanland, dvalarland þeirra, er þeir dvöldust í sem útlendingar.

Ég hefi og heyrt kveinstafi Ísraelsmanna, sem Egyptar hafa að þrælum gjört, og ég hefi minnst sáttmála míns.

Seg því Ísraelsmönnum: ,Ég er Drottinn. Ég vil leysa yður undan ánauð Egypta og hrífa yður úr þrældómi þeirra og frelsa yður með útréttum armlegg og miklum refsidómum.

Ég vil útvelja yður til að vera mitt fólk, og ég vil vera yðar Guð, og þér skuluð reyna, að ég er Drottinn, Guð yðar, sem leysi yður undan ánauð Egypta.

Og ég vil leiða yður inn í það land, sem ég sór að gefa Abraham, Ísak og Jakob, og ég vil gefa yður það til eignar. Ég er Drottinn."`

Móse sagði Ísraelsmönnum þetta, en þeir sinntu honum ekki sökum hugleysis og vegna hins stranga þrældóms.

10 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði:

11 "Gakk á tal við Faraó, Egyptalandskonung, og bið hann leyfa Ísraelsmönnum burt úr landi sínu."

12 Og Móse talaði frammi fyrir augliti Drottins og mælti: "Sjá, Ísraelsmenn vilja eigi gefa gaum að orðum mínum. Hversu mun þá Faraó skipast við þau, þar sem ég er maður málstirður?"

13 Þá talaði Drottinn við Móse og Aron og fékk þeim það erindi til Ísraelsmanna og Faraós, Egyptalandskonungs, að þeir skyldu út leiða Ísraelsmenn af Egyptalandi.

14 Þessir eru ætthöfðingjar meðal forfeðra þeirra: Synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. Þetta eru kynþættir Rúbens.

15 Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóhar og Sál, sonur konunnar kanversku. Þetta eru kynþættir Símeons.

16 Þessi eru nöfn Leví sona eftir ættbálkum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí. En Leví varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall.

17 Synir Gersons: Líbní og Símeí eftir kynþáttum þeirra.

18 Synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel. En Kahat varð hundrað þrjátíu og þriggja ára gamall.

19 Synir Merarí: Mahelí og Músí. Þetta eru kynþættir levítanna eftir ættbálkum þeirra.

20 Amram fékk Jókebedar, föðursystur sinnar, og átti hún við honum þá Aron og Móse. En Amram varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall.

21 Synir Jísehars: Kóra, Nefeg og Síkrí.

22 Synir Ússíels: Mísael, Elsafan og Sítrí.

23 Aron fékk Elísebu, dóttur Ammínadabs, systur Nahsons, og átti hún við honum þá Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.

24 Synir Kóra: Assír, Elkana og Abíasaf. Þetta eru kynþættir Kóraíta.

25 Og Eleasar, sonur Arons, gekk að eiga eina af dætrum Pútíels, og hún ól honum Pínehas. Þetta eru ætthöfðingjar levítanna eftir kynþáttum þeirra.

26 Það var þessi Aron og Móse, sem Drottinn bauð: "Leiðið Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra."

27 Það voru þeir, sem boðuðu Faraó, Egyptalandskonungi, að þeir mundu leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi, þessi Móse og Aron.

28 Er Drottinn talaði við Móse í Egyptalandi,

29 mælti hann til hans þessum orðum: "Ég er Drottinn! Seg Faraó, Egyptalandskonungi, allt sem ég segi þér."

30 Og Móse sagði frammi fyrir augliti Drottins: "Sjá, ég er maður málstirður, hversu má Faraó þá skipast við orð mín?"

22 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott.

23 Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn.

24 En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti.

25 En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu.

26 Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: "Þetta er vofa," og æptu af hræðslu.

27 En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."

28 Pétur svaraði honum: "Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu."

29 Jesús svaraði: "Kom þú!" Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans.

30 En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: "Herra, bjarga þú mér!"

31 Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: "Þú trúlitli, hví efaðist þú?"

32 Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn.

33 En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: "Sannarlega ert þú sonur Guðs."

34 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret.

35 Fólkið á þeim stað þekkti hann og sendi boð um allt nágrennið, og menn færðu til hans alla þá, er sjúkir voru.

36 Þeir báðu hann að mega rétt snerta fald klæða hans, og allir, sem snertu hann, urðu alheilir.

Read full chapter