Add parallel Print Page Options

13 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði:

"Þú skalt helga mér alla frumburði. Hvað eina sem opnar móðurlíf meðal Ísraelsmanna, hvort heldur er menn eða fénaður, það er mitt."

Móse sagði við fólkið: "Verið minnugir þessa dags, er þér fóruð burt úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, því með voldugri hendi leiddi Drottinn yður út þaðan: Sýrð brauð má eigi eta.

Í dag farið þér af stað, í abíb-mánuði.

Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Hevíta og Jebúsíta, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi, þá skaltu halda þennan sið í þessum sama mánuði.

Sjö daga skaltu eta ósýrt brauð, og á hinum sjöunda degi skal vera hátíð Drottins.

Ósýrt brauð skal eta í þá sjö daga, ekkert sýrt brauð má sjást hjá þér, og ekki má heldur súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja.

Á þeim degi skaltu gjöra syni þínum grein fyrir þessu og segja: ,Það er sökum þess sem Drottinn gjörði fyrir mig, þá er ég fór út af Egyptalandi.`

Og þetta skal vera þér til merkis á hendi þinni og til minningar á milli augna þinna, svo að lögmál Drottins sé þér æ á vörum, því með voldugri hendi leiddi Drottinn þig út af Egyptalandi.

10 Þessa skipun skaltu því halda á ákveðnum tíma ár frá ári.

11 Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, eins og hann sór þér og feðrum þínum, og gefur þér það,

12 þá skaltu eigna Drottni allt það, sem opnar móðurlíf. Og allir frumburðir, sem koma undan þeim fénaði, er þú átt, skulu heyra Drottni til, séu þeir karlkyns.

13 Alla frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. En alla frumburði manna meðal barna þinna skaltu leysa.

14 Og þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: ,Hvað á þetta að þýða?` þá svara honum: ,Með voldugri hendi leiddi Drottinn oss út af Egyptalandi, úr þrælahúsinu,

15 því þegar Faraó synjaði oss þverlega fararleyfis, þá deyddi Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, bæði frumburði manna og frumburði fénaðar. Þess vegna fórnfæri ég Drottni öllu, sem opnar móðurlíf, en alla frumburði barna minna leysi ég.`

16 Og það skal vera merki á hendi þér og minningarband á milli augna þinna um það, að Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi með voldugri hendi."

17 Þegar Faraó hafði gefið fólkinu fararleyfi, leiddi Guð þá ekki á leið til Filistalands, þótt sú leið væri skemmst, _ því að Guð sagði: "Vera má að fólkið iðrist, þegar það sér, að ófriðar er von, og snúi svo aftur til Egyptalands,"

18 _ heldur lét Guð fólkið fara í bug eyðimerkurveginn til Sefhafsins, og fóru Ísraelsmenn vígbúnir af Egyptalandi.

19 Móse tók með sér bein Jósefs, því að hann hafði tekið eið af Ísraelsmönnum og sagt: "Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan burt með yður."

20 Þeir tóku sig upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur.

21 Drottinn gekk fyrir þeim á daginn í skýstólpa til að vísa þeim veg, en á nóttunni í eldstólpa til að lýsa þeim, svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag.

22 Skýstólpinn vék ekki frá fólkinu á daginn, né heldur eldstólpinn á nóttunni.

14 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Seg Ísraelsmönnum, að þeir snúi aftur og setji búðir sínar fyrir framan Pí-Hakírót, milli Migdóls og hafsins, gegnt Baal Sefón. Þar andspænis skuluð þér setja búðir yðar við hafið.

Og Faraó mun segja um Ísraelsmenn: ,Þeir fara villir vega í landinu, eyðimörkin hefir innibyrgt þá.`

Og ég vil herða hjarta Faraós, og hann skal veita þeim eftirför. Ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, svo að Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn." Og þeir gjörðu svo.

Þegar Egyptalandskonungi var sagt, að fólkið væri flúið, varð hugur Faraós og þjóna hans mótsnúinn fólkinu og þeir sögðu: "Hví höfum vér gjört þetta, að sleppa Ísrael úr þjónustu vorri?"

Lét hann þá beita fyrir vagna sína og tók menn sína með sér.

Og hann tók sex hundruð valda vagna og alla vagna Egyptalands og setti kappa á hvern þeirra.

En Drottinn herti hjarta Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann veitti Ísraelsmönnum eftirför, því að Ísraelsmenn höfðu farið burt með upplyftri hendi.

Egyptar sóttu nú eftir þeim, allir hestar og vagnar Faraós, riddarar hans og her hans, og náðu þeim þar sem þeir höfðu sett búðir sínar við hafið, hjá Pí-Hakírót, gegnt Baal Sefón.

10 Þegar Faraó nálgaðist, hófu Ísraelsmenn upp augu sín, og sjá, Egyptar sóttu eftir þeim. Urðu Ísraelsmenn þá mjög óttaslegnir og hrópuðu til Drottins.

11 Og þeir sögðu við Móse: "Tókst þú oss burt til þess að deyja hér á eyðimörk, af því að engar væru grafir til í Egyptalandi? Hví hefir þú gjört oss þetta, að fara með oss burt af Egyptalandi?

12 Kemur nú ekki fram það, sem vér sögðum við þig á Egyptalandi: ,Lát oss vera kyrra, og viljum vér þjóna Egyptum, því að betra er fyrir oss að þjóna Egyptum en að deyja í eyðimörkinni`?"

13 Þá sagði Móse við lýðinn: "Óttist ekki. Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins, er hann í dag mun láta fram við yður koma, því að eins og þér sjáið Egyptana í dag, munuð þér aldrei nokkurn tíma framar sjá þá.

14 Drottinn mun berjast fyrir yður, en þér skuluð vera kyrrir."

15 Þá sagði Drottinn við Móse: "Hví hrópar þú til mín? Seg Ísraelsmönnum, að þeir haldi áfram,

16 en lyft þú upp staf þínum og rétt út hönd þína yfir hafið og kljúf það, og Ísraelsmenn skulu ganga á þurru mitt í gegnum hafið.

17 Sjá, ég mun herða hjörtu Egypta, svo að þeir skulu sækja á eftir þeim, og ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, á vögnum hans og riddurum.

18 Og Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn, þá er ég sýni dýrð mína á Faraó, á vögnum hans og riddurum."

19 Engill Guðs, sem gekk á undan liði Ísraels, færði sig og gekk aftur fyrir þá, og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færðist og stóð að baki þeim.

20 Og hann bar á milli herbúða Egypta og herbúða Ísraels, og var skýið myrkt annars vegar, en annars vegar lýsti það upp nóttina, og færðust hvorugir nær öðrum alla þá nótt.

21 En Móse rétti út hönd sína yfir hafið, og Drottinn lét hvassan austanvind blása alla nóttina og bægja sjónum burt og gjörði hafið að þurrlendi. Og vötnin klofnuðu,

22 og Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim.

23 Og Egyptar veittu þeim eftirför og sóttu eftir þeim mitt út í hafið, allir hestar Faraós, vagnar hans og riddarar.

24 En á morgunvökunni leit Drottinn yfir lið Egypta í eld- og skýstólpanum, og sló felmti í lið Egypta,

25 og hann lét vagna þeirra ganga af hjólunum, svo að þeim sóttist leiðin erfiðlega. Þá sögðu Egyptar: "Flýjum fyrir Ísrael, því að Drottinn berst með þeim móti Egyptum."

26 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt út hönd þína yfir hafið, og skulu þá vötnin aftur falla yfir Egypta, yfir vagna þeirra og riddara."

27 Móse rétti hönd sína út yfir hafið, og sjórinn féll aftur undir morguninn í farveg sinn, en Egyptar flýðu beint í móti aðfallinu, og keyrði Drottinn þá mitt í hafið.

28 Og vötnin féllu að og huldu vagnana og riddarana, allan liðsafla Faraós, sem eftir þeim hafði farið út í hafið. Ekki nokkur einn þeirra komst lífs af.

29 En Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim.

30 Þannig frelsaði Drottinn Ísrael á þeim degi undan valdi Egypta, og Ísrael sá Egypta liggja dauða á sjávarströndinni.

31 Og er Ísrael sá hið mikla undur, sem Drottinn hafði gjört á Egyptum, þá óttaðist fólkið Drottin, og þeir trúðu á Drottin og þjón hans Móse.

15 Þá söng Móse og Ísraelsmenn Drottni þennan lofsöng: Ég vil lofsyngja Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann niður í hafið.

Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mitt hjálpræði. Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann, Guð föður míns, og ég vil tigna hann.

Drottinn er stríðshetja, Drottinn er hans nafn.

Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið, og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða.

Undirdjúpin huldu þá, þeir sukku niður í sjávardjúpið eins og steinn.

Þín hægri hönd, Drottinn, hefir sýnt sig dýrlega í krafti, þín hægri hönd, Drottinn, sundurkremur fjandmennina.

Og með mikilleik þinnar hátignar leggur þú mótstöðumenn þína að velli, þú útsendir þína reiði, og hún eyðir þeim eins og hálmleggjum.

Og fyrir blæstri nasa þinna hlóðust vötnin upp, rastirnar stóðu eins og veggur, öldurnar stirðnuðu mitt í hafinu.

Óvinurinn sagði: "Ég skal elta þá, ég skal ná þeim, ég skal skipta herfangi, ég skal skeyta skapi mínu á þeim, ég skal bregða sverði mínu, hönd mín skal eyða þeim."

10 Þú blést með þínum anda, hafið huldi þá, þeir sukku sem blý niður í hin miklu vötn.

11 Hver er sem þú, Drottinn, meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik, dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir?

12 Þú útréttir þína hægri hönd, jörðin svalg þá.

13 Þú hefir leitt fólkið, sem þú frelsaðir, með miskunn þinni, þú fylgdir því með þínum krafti til þíns heilaga bústaðar.

14 Þjóðirnar heyrðu það og urðu felmtsfullar, ótti gagntók íbúa Filisteu.

15 Þá skelfdust ættarhöfðingjarnir í Edóm, hræðsla greip forystumennina í Móab, allir íbúar Kanaanlands létu hugfallast.

16 Skelfingu og ótta sló yfir þá. Fyrir mikilleik þíns armleggs urðu þeir hljóðir sem steinninn, meðan fólk þitt, Drottinn, fór leiðar sinnar, meðan fólkið, sem þú hefir aflað þér, fór leiðar sinnar.

17 Þú leiddir þá inn og gróðursettir þá á fjalli arfleifðar þinnar, þeim stað, sem þú, Drottinn, hefir gjört að þínum bústað, þeim helgidóm, sem þínar hendur, Drottinn, hafa reist.

18 Drottinn skal ríkja um aldur og að eilífu!

19 Þegar hestar Faraós ásamt vögnum hans og riddurum fóru út í hafið, lét Drottinn vötn sjávarins flæða yfir þá, en Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið.

20 Þá tók Mirjam spákona, systir Arons, bumbu í hönd sér, og allar konurnar gengu á eftir henni með bumbum og dansi.

21 Og Mirjam söng fyrir þeim: Lofsyngið Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann í hafið.

22 Móse lét Ísrael hefja ferð sína frá Sefhafinu, og héldu þeir til Súr-eyðimerkur. Gengu þeir þrjá daga um eyðimörkina og fundu ekkert vatn.

23 Þá komu þeir til Mara, en þeir gátu ekki drukkið vatnið fyrir beiskju, því að það var beiskt. Fyrir því var sá staður kallaður Mara.

24 Þá möglaði fólkið móti Móse og sagði: "Hvað eigum vér að drekka?"

25 En hann hrópaði til Drottins, og vísaði Drottinn honum þá á tré nokkurt. Kastaði hann því í vatnið, og varð vatnið þá sætt. Þar setti hann þeim lög og rétt, og þar reyndi hann þá.

26 Og hann sagði: "Ef þú hlýðir gaumgæfilega raust Drottins Guðs þíns og gjörir það, sem rétt er fyrir honum, gefur gaum boðorðum hans og heldur allar skipanir hans, þá vil ég engan þann sjúkdóm á þig leggja, sem ég lagði á Egypta, því ég er Drottinn, græðari þinn."

27 Síðan komu þeir til Elím. Þar voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmar, og settu þeir búðir sínar þar við vatnið.