Add parallel Print Page Options

10 Því næst sagði Drottinn við Móse: "Gakk inn fyrir Faraó, því að ég hefi hert hjarta hans og hjörtu þjóna hans til þess að ég fremji þessi tákn mín meðal þeirra

og til þess að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum frá því, hvernig ég hefi farið með Egypta, og frá þeim táknum, sem ég hefi á þeim gjört, svo að þér vitið, að ég er Drottinn."

Síðan gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og sögðu við hann: "Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: ,Hve lengi vilt þú færast undan að auðmýkja þig fyrir mér?

Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér, því að færist þú undan að leyfa fólki mínu að fara, þá skal ég á morgun láta engisprettur færast inn yfir landamæri þín.

Og þær skulu hylja yfirborð landsins, svo að ekki skal sjást til jarðar. Skulu þær upp eta leifarnar, sem bjargað var og þér eigið eftir óskemmdar af haglinu, og naga öll tré yðar, sem spretta á mörkinni.

Þær skulu fylla hús þín og hús allra þjóna þinna og hús allra Egypta, og hafa hvorki feður þínir né feður feðra þinna séð slíkt, frá því þeir fæddust í heiminn og allt til þessa dags."` Síðan sneri hann sér við og gekk út frá Faraó.

Þá sögðu þjónar Faraós við hann: "Hversu lengi á þessi maður að verða oss að meini? Gef mönnunum fararleyfi, að þeir megi þjóna Drottni Guði sínum! Veistu ekki enn, að Egyptaland er í eyði lagt?"

Þá voru þeir Móse og Aron sóttir aftur til Faraós og sagði hann við þá: "Farið og þjónið Drottni Guði yðar! En hverjir eru það, sem ætla að fara?"

Móse svaraði: "Vér ætlum að fara með börn vor og gamalmenni. Með sonu vora og dætur, sauðfé vort og nautgripi ætlum vér að fara, því að vér eigum að halda Drottni hátíð."

10 En hann sagði við þá: "Svo framt sé Drottinn með yður, sem ég gef yður og börnum yðar fararleyfi! Sannlega hafið þér illt í huga.

11 Eigi skal svo vera. Farið þér karlmennirnir og þjónið Drottni, því að um það hafið þér beðið." Síðan voru þeir reknir út frá Faraó.

12 Þá mælti Drottinn við Móse: "Rétt út hönd þína yfir Egyptaland, svo að engisprettur komi yfir landið og upp eti allan jarðargróða, allt það, sem haglið eftir skildi."

13 Þá rétti Móse út staf sinn yfir Egyptaland. Og Drottinn lét austanvind blása inn yfir landið allan þann dag og alla nóttina, en með morgninum kom austanvindurinn með engispretturnar.

14 Engispretturnar komu yfir allt Egyptaland, og mesti aragrúi af þeim kom niður í öllum héruðum landsins. Hafði aldrei áður verið slíkur urmull af engisprettum, og mun ekki hér eftir verða.

15 Þær huldu allt landið, svo að hvergi sá til jarðar, og þær átu allt gras jarðarinnar og allan ávöxt trjánna, sem haglið hafði eftir skilið, svo að í öllu Egyptalandi varð ekkert grænt eftir, hvorki á trjánum né á jurtum merkurinnar.

16 Þá gjörði Faraó í skyndi boð eftir Móse og Aroni og sagði: "Ég hefi syndgað á móti Drottni Guði yðar, og á móti yður.

17 En fyrirgefið mér synd mína aðeins í þetta sinn og biðjið Drottin, Guð yðar, að hann fyrir hvern mun létti þessari voðaplágu af mér."

18 Síðan gekk hann út frá Faraó og bað til Drottins.

19 Þá sneri Drottinn veðrinu í mjög hvassan vestanvind, sem tók engispretturnar og fleygði þeim í Rauðahafið, svo að ekki var eftir ein engispretta nokkurs staðar í Egyptalandi.

20 En Drottinn herti hjarta Faraós, svo að hann leyfði ekki Ísraelsmönnum burt að fara.

21 Því næst sagði Drottinn við Móse: "Rétt hönd þína til himins, og skal þá koma þreifandi myrkur yfir allt Egyptaland."

22 Móse rétti þá hönd sína til himins, og varð þá niðamyrkur í öllu Egyptalandi í þrjá daga.

23 Enginn sá annan, og enginn hreyfði sig, þaðan sem hann var staddur, í þrjá daga, en bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra.

24 Þá lét Faraó kalla Móse og sagði: "Farið og þjónið Drottni, látið aðeins sauðfénað yðar og nautgripi eftir verða. Börn yðar mega einnig fara með yður."

25 En Móse svaraði: "Þú verður einnig að fá oss dýr til sláturfórnar og brennifórnar, að vér megum fórnir færa Drottni Guði vorum.

26 Kvikfé vort skal og fara með oss, ekki skal ein klauf eftir verða, því að af því verðum vér að taka til þess að þjóna Drottni Guði vorum. En eigi vitum vér, hverju vér skulum fórnfæra Drottni, fyrr en vér komum þangað."

27 En Drottinn herti hjarta Faraós og hann vildi ekki gefa þeim fararleyfi.

28 Og Faraó sagði við hann: "Haf þig á burt frá mér og varast að koma oftar fyrir mín augu, því að á þeim degi, sem þú kemur í augsýn mér, skaltu deyja."

29 Móse svaraði: "Rétt segir þú. Ég skal aldrei framar koma þér fyrir augu."

11 Þá sagði Drottinn við Móse: "Ég vil enn láta eina plágu koma yfir Faraó og Egyptaland. Eftir það mun hann leyfa yður að fara héðan. Þegar hann gefur yður fullt fararleyfi, þá mun hann jafnvel reka yður burt héðan.

Seg nú í áheyrn fólksins, að hver maður skuli biðja granna sinn og hver kona grannkonu sína um silfurgripi og gullgripi."

Drottinn lét fólkið öðlast hylli Egypta, enda var Móse mjög mikils virtur maður í Egyptalandi, bæði af þjónum Faraós og lýðnum.

Þá sagði Móse: "Svo segir Drottinn: ,Um miðnætti vil ég ganga mitt í gegnum Egyptaland,

og þá skulu allir frumburðir í Egyptalandi deyja, frá frumgetnum syni Faraós, sem situr í hásæti sínu, til frumgetnings ambáttarinnar, sem stendur við kvörnina, og allir frumburðir fénaðarins.

Þá skal verða svo mikið harmakvein um allt Egyptaland, að jafnmikið hefir ekki verið og mun aldrei verða.

En eigi skal svo mikið sem rakki gelta að nokkrum Ísraelsmanna, hvorki að mönnum né skepnum, svo að þér vitið, að Drottinn gjörir greinarmun á Ísraelsmönnum og Egyptum.

Þá skulu allir þessir þjónar þínir koma til mín, falla til jarðar fyrir mér og segja: Far þú á burt og allt það fólk, sem þér fylgir, _ og eftir það mun ég á burt fara."` Síðan gekk hann út frá Faraó og var hinn reiðasti.

En Drottinn sagði við Móse: "Faraó mun ekki láta að orðum yðar, svo að stórmerki mín verði mörg í Egyptalandi."

10 En þeir Móse og Aron gjörðu öll þessi stórmerki fyrir Faraó. En Drottinn herti hjarta Faraós, og ekki leyfði hann Ísraelsmönnum að fara burt úr landi sínu.

12 Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið:

"Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður.

Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: ,Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili.

En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið.

Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið.

Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur.

Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið.

Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það.

Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innýflum.

10 Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi.

11 Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins.

12 Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn.

13 Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland.

14 Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli.`

15 ,Í sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Þegar á fyrsta degi skuluð þér flytja súrdeig burt úr húsum yðar, því að hver sem etur sýrt brauð frá fyrsta degi til hins sjöunda, hann skal upprættur verða úr Ísrael.

16 Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar.

17 Þér skuluð halda helga hátíð hinna ósýrðu brauða, því að einmitt á þessum degi leiddi ég hersveitir yðar út af Egyptalandi. Fyrir því skuluð þér halda heilagt þennan dag, kynslóð eftir kynslóð, eftir ævarandi lögmáli.

18 Í fyrsta mánuðinum skuluð þér ósýrt brauð eta frá því um kveldið hinn fjórtánda dag mánaðarins og til þess um kveldið hinn tuttugasta og fyrsta dag mánaðarins.

19 Í sjö daga skal súrdeig ekki finnast í húsum yðar, því að hver sem þá etur sýrt brauð, sá maður skal upprættur verða úr söfnuði Ísraels, hvort sem hann er útlendur eða innlendur.

20 Þér skuluð ekkert sýrt brauð eta. Í öllum bústöðum yðar skuluð þér eta ósýrt brauð."`

21 Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: "Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu.

22 Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni.

23 Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður.

24 Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín.

25 Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið.

26 Og þegar börn yðar segja við yður: ,Hvaða siður er þetta, sem þér haldið?`

27 þá skuluð þér svara: ,Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum."` Þá féll lýðurinn fram og tilbað.

28 Og Ísraelsmenn fóru og gjörðu þetta. Þeir gjörðu eins og Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.

29 Um miðnæturskeið laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, frá frumgetnum syni Faraós, sem sat í hásæti sínu, allt til frumgetnings bandingjans, sem í myrkvastofu sat, og alla frumburði fénaðarins.

30 Þá reis Faraó upp um nóttina, hann og allir þjónar hans, og allir Egyptar. Gjörðist þá mikið harmakvein í Egyptalandi, því að ekki var það hús, að eigi væri lík inni.

31 Lét hann kalla þá Móse og Aron um nóttina og sagði: "Takið yður upp og farið burt frá minni þjóð, bæði þið og Ísraelsmenn. Farið og þjónið Drottni, eins og þið hafið um talað.

32 Takið með yður bæði sauðfé yðar og nautgripi, eins og þið hafið um talað, farið því næst af stað og biðjið einnig mér blessunar."

33 Og Egyptar ráku hart eftir fólkinu til þess að koma þeim sem fyrst burt úr landinu, því að þeir sögðu: "Vér munum allir deyja."

34 Fólkið tók þá deigið, sem það hafði, áður en það sýrðist, batt deigtrogin innan í klæði sín og bar þau á öxlum sér.

35 En Ísraelsmenn höfðu gjört eftir fyrirmælum Móse og beðið Egypta um gullgripi og silfurgripi og klæði,

36 og hafði Drottinn látið fólkið öðlast hylli Egypta, svo að þeir urðu við bæn þeirra, og þannig rændu þeir Egypta.

37 Tóku Ísraelsmenn sig nú upp frá Ramses og fóru til Súkkót, hér um bil sex hundruð þúsund fótgangandi manna, auk barna.

38 Þar að auki fór með þeim mikill fjöldi af alls konar lýð, svo og stórar hjarðir sauða og nauta.

39 Og þeir bökuðu ósýrðar kökur af deiginu, sem þeir höfðu með sér úr Egyptalandi, því að deigið hafði ekki sýrst, þar eð þeir voru reknir burt úr Egyptalandi og máttu engar viðtafir hafa og höfðu því ekkert búið sér til veganestis.

40 Ísraelsmenn höfðu þá búið í Egyptalandi fjögur hundruð og þrjátíu ár.

41 Og að liðnum þeim fjögur hundruð og þrjátíu árum, einmitt á þeim degi, fóru allar hersveitir Drottins út af Egyptalandi.

42 Þetta er vökunótt Drottins, með því að hann leiddi þá út af Egyptalandi. Þessa sömu nótt halda allir Ísraelsmenn helga sem vökunótt Drottins frá kyni til kyns.

43 Drottinn sagði við þá Móse og Aron: "Þetta eru ákvæðin um páskalambið: Enginn útlendur maður má af því eta.

44 Sérhver þræll, sem er verði keyptur, má eta af því, er þú hefir umskorið hann.

45 Enginn útlendur búandi eða daglaunamaður má eta af því.

46 Menn skulu eta það í einu húsi. Ekkert af kjötinu mátt þú bera út úr húsinu. Ekkert bein í því megið þér brjóta.

47 Allur söfnuður Ísraels skal svo gjöra.

48 Ef nokkur útlendingur býr hjá þér og vill halda Drottni páska, þá skal umskera allt karlkyn hjá honum, og má hann þá koma og halda hátíðina, og skal hann vera sem innborinn maður. En enginn óumskorinn skal þess neyta.

49 Sömu lög skulu vera fyrir innborna menn sem fyrir þá útlendinga, er meðal yðar búa."

50 Allir Ísraelsmenn gjörðu svo, þeir gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.

51 Einmitt á þessum degi leiddi Drottinn Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra.