Add parallel Print Page Options

Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands með Jakob, hver með sitt heimilisfólk:

Rúben, Símeon, Leví og Júda,

Íssakar, Sebúlon og Benjamín,

Dan og Naftalí, Gað og Asser.

Alls voru niðjar Jakobs sjötíu manns, og Jósef var fyrir í Egyptalandi.

Og Jósef dó og allir bræður hans og öll sú kynslóð.

Og Ísraelsmenn voru frjósamir, jukust, margfölduðust og fjölgaði stórum, svo að landið varð fullt af þeim.

Þá hófst til ríkis í Egyptalandi nýr konungur, sem engin deili vissi á Jósef.

Hann sagði við þjóð sína: "Sjá, þjóð Ísraelsmanna er fjölmennari og aflmeiri en vér.

10 Látum oss fara kænlega að við hana, ella kynni henni að fjölga um of, og ef til ófriðar kæmi, kynni hún jafnvel að ganga í lið með óvinum vorum og berjast móti oss og fara síðan af landi burt."

11 Og þeir settu verkstjóra yfir hana til þess að þjá hana með þrælavinnu, og hún byggði vistaborgir handa Faraó, Pítóm og Raamses.

12 En því meir sem þeir þjáðu hana, því meir fjölgaði henni og breiddist út, svo að þeir tóku að óttast Ísraelsmenn.

13 Og Egyptar þrælkuðu Ísraelsmenn vægðarlaust

14 og gjörðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leireltu og tigulsteinagjörð og með alls konar akurvinnu, með allri þeirri vinnu, er þeir vægðarlaust þrælkuðu þá með.

15 En Egyptalandskonungur mælti til hinna hebresku ljósmæðra _ hét önnur Sifra, en hin Púa:

16 "Þegar þið sitjið yfir hebreskum konum," mælti hann, "þá lítið á burðarsetið. Sé barnið sveinbarn, þá deyðið það, en sé það meybarn, þá má það lifa."

17 En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gjörðu eigi það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim, heldur létu sveinbörnin lifa.

18 Þá lét Egyptalandskonungur kalla ljósmæðurnar og sagði við þær: "Hví hafið þér svo gjört, að láta sveinbörnin lifa?"

19 Ljósmæðurnar svöruðu Faraó: "Hebreskar konur eru ólíkar egypskum, því að þær eru hraustar. Áður en ljósmóðirin kemur til þeirra, eru þær búnar að fæða."

20 Og Guð lét ljósmæðrunum vel farnast, og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög.

21 Og fyrir þá sök, að ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja.

22 Þá bauð Faraó öllum lýð sínum og sagði: "Kastið í ána öllum þeim sveinbörnum, sem fæðast meðal Hebrea, en öll meybörn mega lífi halda."

Maður nokkur af Leví ætt gekk að eiga dóttur Leví.

Og konan varð þunguð og fæddi son. Og er hún sá að sveinninn var fríður, þá leyndi hún honum í þrjá mánuði.

En er hún mátti eigi leyna honum lengur, tók hún handa honum örk af reyr, bræddi hana með jarðlími og biki, lagði sveininn í hana og lét örkina út í sefið hjá árbakkanum.

En systir hans stóð þar álengdar til að vita, hvað um hann yrði.

Þá gekk dóttir Faraós ofan að ánni til að lauga sig, og gengu þjónustumeyjar hennar eftir árbakkanum. Hún leit örkina í sefinu og sendi þernu sína að sækja hana.

En er hún lauk upp örkinni, sá hún barnið, og sjá, það var sveinbarn og var að gráta. Og hún kenndi í brjósti um það og sagði: "Þetta er eitt af börnum Hebrea."

Þá sagði systir sveinsins við dóttur Faraós: "Á ég að fara og sækja fyrir þig barnfóstru, einhverja hebreska konu, að hún hafi sveininn á brjósti fyrir þig?"

Og dóttir Faraós svaraði henni: "Já, far þú." En mærin fór og sótti móður sveinsins.

Og dóttir Faraós sagði við hana: "Tak svein þennan með þér og haf hann á brjósti fyrir mig, og skal ég launa þér fyrir." Tók konan þá sveininn og hafði hann á brjósti.

10 En er sveinninn var vaxinn, fór hún með hann til dóttur Faraós. Tók hún hann í sonar stað og nefndi hann Móse, því að hún sagði: "Ég hefi dregið hann upp úr vatninu."

11 Um þær mundir bar svo við, þegar Móse var orðinn fulltíða maður, að hann fór á fund ættbræðra sinna og sá þrældóm þeirra. Sá hann þá egypskan mann ljósta hebreskan mann, einn af ættbræðrum hans.

12 Hann skimaði þá í allar áttir, og er hann sá, að þar var enginn, drap hann Egyptann og huldi hann í sandinum.

13 Daginn eftir gekk hann út og sá tvo Hebrea vera að þrátta sín á milli. Þá mælti hann við þann, sem á röngu hafði að standa: "Hví slær þú náunga þinn?"

14 En hann sagði: "Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Er þér í hug að drepa mig, eins og þú drapst Egyptann?" Þá varð Móse hræddur og hugsaði með sér: "Það er þá orðið uppvíst!"

15 Er Faraó frétti þennan atburð, leitaði hann eftir að drepa Móse, en Móse flýði undan Faraó og tók sér bústað í Midíanslandi og settist að hjá vatnsbólinu.

16 Presturinn í Midíanslandi átti sjö dætur. Þær komu þangað, jusu vatn og fylltu þrórnar til að brynna fénaði föður síns.

17 Þá komu að hjarðmenn og bægðu þeim frá. En Móse tók sig til og hjálpaði þeim og brynnti fénaði þeirra.

18 Og er þær komu heim til Regúels föður síns, mælti hann: "Hví komið þér svo snemma heim í dag?"

19 Þær svöruðu: "Egypskur maður hjálpaði oss móti hjarðmönnunum, jós líka vatnið upp fyrir oss og brynnti fénaðinum."

20 Hann sagði þá við dætur sínar: "Hvar er hann þá? Hvers vegna skilduð þér manninn eftir? Bjóðið honum heim, að hann neyti matar."

21 Móse lét sér vel líka að vera hjá þessum manni, og hann gifti Móse Sippóru dóttur sína.

22 Hún ól son, og hann nefndi hann Gersóm, því að hann sagði: "Gestur er ég í ókunnu landi."

23 Löngum tíma eftir þetta dó Egyptalandskonungur. En Ísraelsmenn andvörpuðu undir ánauðinni og kveinuðu, og ánauðarkvein þeirra sté upp til Guðs.

24 Og Guð heyrði andvarpanir þeirra og minntist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob.

25 Og Guð leit til Ísraelsmanna og kenndist við þá.

En Móse gætti sauða Jetró tengdaföður síns, prests í Midíanslandi. Og hann hélt fénu vestur yfir eyðimörkina og kom til Guðs fjalls, til Hóreb.

Þá birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunna nokkrum. Og er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki.

Þá sagði Móse: "Ég vil ganga nær og sjá þessa miklu sýn, hvað til þess kemur, að þyrnirunninn brennur ekki."

En er Drottinn sá, að hann vék þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr þyrnirunnanum og sagði: "Móse, Móse!" Hann svaraði: "Hér er ég."

Guð sagði: "Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð."

Því næst mælti hann: "Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs." Þá byrgði Móse andlit sitt, því að hann þorði ekki að líta upp á Guð.

Drottinn sagði: "Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á.

Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, á stöðvar Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.

Nú með því að kvein Ísraelsmanna er komið til mín, og ég auk þess hefi séð, hversu harðlega Egyptar þjaka þeim,

10 þá far þú nú. Ég vil senda þig til Faraós, og þú skalt leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi."

11 En Móse sagði við Guð: "Hver er ég, að ég fari til fundar við Faraó og að ég leiði Ísraelsmenn út af Egyptalandi?"

12 Þá sagði hann: "Sannlega mun ég vera með þér. Og það skalt þú til marks hafa, að ég hefi sent þig, að þá er þú hefir leitt fólkið út af Egyptalandi, munuð þér þjóna Guði á þessu fjalli."

13 Móse sagði við Guð: "En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: ,Guð feðra yðar sendi mig til yðar,` og þeir segja við mig: ,Hvert er nafn hans?` hverju skal ég þá svara þeim?"

14 Þá sagði Guð við Móse: "Ég er sá, sem ég er." Og hann sagði: "Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Ég er` sendi mig til yðar."

15 Guð sagði enn fremur við Móse: "Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Drottinn, Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.` Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns.

16 Far nú og safna saman öldungum Ísraels og mæl við þá: ,Drottinn, Guð feðra yðar birtist mér, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, og sagði: Ég hefi vitjað yðar og séð, hversu með yður hefir verið farið í Egyptalandi.

17 Og ég hefi sagt: Ég vil leiða yður úr ánauð Egyptalands inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi.`

18 Þeir munu skipast við orð þín og skaltu þá ganga með öldungum Ísraels fyrir Egyptalandskonung, og skuluð þér segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir komið til móts við oss. Leyf oss því nú að fara þrjár dagleiðir á eyðimörkina, að vér færum fórnir Drottni, Guði vorum.`

19 Veit ég þó, að Egyptalandskonungur mun eigi leyfa yður burtförina, og jafnvel ekki þótt hart sé á honum tekið.

20 En ég vil útrétta hönd mína og ljósta Egyptaland með öllum undrum mínum, sem ég mun fremja þar, og þá mun hann láta yður fara.

21 Og ég skal láta þessa þjóð öðlast hylli Egypta, svo að þá er þér farið, skuluð þér eigi tómhentir burt fara,

22 heldur skal hver kona biðja grannkonu sína og sambýliskonu um silfurgripi og gullgripi og klæði, og það skuluð þér láta sonu yðar og dætur bera, og þannig skuluð þér ræna Egypta."