Add parallel Print Page Options

En þessa nótt gat konungur ekki sofið. Bauð hann þá að koma með Annálabókina, og var hún lesin fyrir konungi.

Þá fannst þar skrifað, hversu Mordekai hefði komið upp um þá Bigtan og Teres, tvo geldinga konungs, af þeim er geymdu dyranna, sem höfðu leitast við að leggja hönd á Ahasverus konung.

Þá sagði konungur: "Hverja sæmd og upphefð hefir Mordekai hlotið fyrir þetta?" Þá sögðu sveinar konungs, þeir er þjónuðu honum: "Hann hefir ekkert hlotið fyrir."

Og konungur sagði: "Hver er í forgarðinum?" Í sama bili hafði Haman komið inn í ytri forgarð konungshallarinnar til þess að tala um það við konung að láta festa Mordekai á gálga þann, er hann hafði reist handa honum.

Og sveinar konungs sögðu við hann: "Sjá, Haman stendur í forgarðinum." Konungur mælti: "Látið hann koma inn."

En er Haman var inn kominn, sagði konungur við hann: "Hvað á að gjöra við þann mann, er konungur vill heiður sýna?" Þá hugsaði Haman með sjálfum sér: "Hverjum mun konungur vilja heiður sýna öðrum en mér?"

Og Haman sagði við konung: "Ef konungur vill sýna einhverjum heiður,

þá skal sækja konunglegan skrúða, sem konungur hefir klæðst, og hest, sem konungur hefir riðið, og konungleg kóróna er sett á höfuð hans.

Og skrúðann og hestinn skal fá í hendur einum af höfðingjum konungs, tignarmönnunum, og færa þann mann, sem konungur vill sýna heiður, í skrúðann og láta hann ríða hestinum um borgartorgið og hrópa fyrir honum: Þannig er gjört við þann mann, er konungur vill heiður sýna."

10 Þá sagði konungur við Haman: "Sæk sem skjótast skrúðann og hestinn, svo sem þú hefir sagt, og gjör þannig við Mordekai Gyðing, sem situr hér í konungshliði. Lát ekkert niður falla af öllu því, er þú hefir sagt."

11 Þá sótti Haman skrúðann og hestinn, færði Mordekai í og lét hann ríða um borgartorgið og hrópaði fyrir honum: "Þannig er gjört við þann mann, er konungurinn vill heiður sýna."

12 Síðan sneri Mordekai aftur í konungshliðið. En Haman skundaði heim til sín, hryggur og með huldu höfði.

13 Og Haman sagði Seres konu sinni og öllum vinum sínum frá öllu því, er fyrir hann hafði komið. Þá sögðu vitringar hans við hann og Seres kona hans: "Ef Mordekai, sem þú ert tekinn að falla fyrir, er af ætt Gyðinga, þá megnar þú ekkert á móti honum, heldur munt þú gjörsamlega falla fyrir honum."

14 Meðan þeir voru enn við hann að tala, komu geldingar konungs, og fóru þeir í skyndi með Haman til veislunnar, er Ester hafði búið.

Þá er þeir konungur og Haman voru komnir til þess að drekka hjá Ester drottningu,

þá sagði konungur við Ester einnig þennan hinn annan dag, þá er þau voru setst að víndrykkjunni: "Hver er bón þín, Ester drottning? Hún mun veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið."

Þá svaraði Ester drottning og sagði: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, konungur, og þóknist konunginum svo, þá sé mér gefið líf mitt vegna bænar minnar og þjóð minni vegna beiðni minnar.

Því að vér erum seldir, ég og þjóð mín, til eyðingar, deyðingar og tortímingar. Og ef vér hefðum aðeins verið seldir að þrælum og ambáttum, þá mundi ég hafa þagað, þótt mótstöðumaðurinn hefði eigi verið fær um að bæta konungi skaðann."

Þá mælti Ahasverus konungur og sagði við Ester drottningu: "Hver er sá og hvar er sá, er dirfðist að gjöra slíkt?"

Ester mælti: "Mótstöðumaðurinn og óvinurinn er þessi vondi Haman!" En Haman varð hræddur við konung og drottningu.

Og konungur stóð upp frá víndrykkjunni í reiði og gekk út í hallargarðinn, en Haman stóð eftir til þess að biðja Ester drottningu um líf sitt, því að hann sá sér ógæfu búna af konungi.

En þegar konungur kom aftur utan úr hallargarðinum inn í veislusalinn, þá hafði Haman látið fallast á hvílubekk þann, sem Ester sat á. Þá sagði konungur: "Mun hann einnig ætla að nauðga drottningunni hjá mér hér í höllinni?" Óðara en þessi orð voru komin út af vörum konungs, huldu menn auglit Hamans.

Og Harbóna, einn af geldingum þeim, er þjónuðu konungi, mælti: "Sjá, gálginn, sem Haman lét gjöra handa Mordekai, sem þó hafði talað það, er konungi varð til heilla, stendur búinn í húsagarði Hamans, fimmtíu álna hár." Þá mælti konungur: "Festið hann á hann!"

10 Og þeir festu Haman á gálgann, sem hann hafði reisa látið handa Mordekai. Þá rann konungi reiðin.

Þennan sama dag gaf Ahasverus konungur Ester drottningu hús Hamans, fjandmanns Gyðinga. En Mordekai gekk fyrir konung, því að Ester hafði sagt honum, hvað hann væri sér.

Og konungur dró innsiglishringinn af hendi sér, þann er hann hafði látið taka af Haman, og fékk Mordekai hann. En Ester setti Mordekai yfir hús Hamans.

Og Ester talaði enn við konung, féll honum til fóta og bað hann grátandi að ónýta illskuráð Hamans Agagíta, þau er hann hafði upp hugsað gegn Gyðingum.

En konungur rétti gullsprotann út í móti Ester. Þá stóð Ester upp og gekk fyrir konung

og mælti: "Ef konunginum þóknast svo og hafi ég fundið náð í augum hans og sé konunginum það ekki ógeðfellt og ef hann hefir mætur á mér, þá sé nú gefin út skrifleg skipun til þess að afturkalla bréfin, ráðagerð Hamans Hamdatasonar Agagíta, þau er hann ritaði til þess að láta eyða Gyðingum í öllum skattlöndum konungs.

Því að hvernig mundi ég fá afborið að horfa upp á ógæfu þá, er koma á yfir þjóð mína, og hvernig mundi ég fá afborið að horfa upp á tortíming kynsmanna minna?"

Þá sagði Ahasverus konungur við Ester drottningu og Mordekai Gyðing: "Sjá, hús Hamans hefi ég gefið Ester, og sjálfur hefir hann verið festur á gálga, fyrir þá sök, að hann hafði lagt hendur á Gyðinga.

En skrifið þið nú um Gyðinga það er ykkur líkar í nafni konungs og innsiglið það með innsiglishring konungs. Því að ekkert það bréf, sem skrifað er í nafni konungs og innsiglað með innsiglishring konungs, verður afturkallað."

Og skrifurum konungs var þá stefnt saman, hinn tuttugasta og þriðja dag hins þriðja mánaðar _ það er mánaðarins sívan _ og var þá skrifað með öllu svo sem Mordekai bauð, til Gyðinga og til jarlanna og til landstjóranna og til höfðingja skattlandanna frá Indlandi til Blálands, til skattlandanna hundrað tuttugu og sjö, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu, og einnig til Gyðinga með þeirra skrift og á þeirra tungu.

10 Og hann skrifaði í nafni Ahasverusar konungs og innsiglaði með innsiglishring konungs, og hann sendi bréf með ríðandi hraðboðum, sem riðu fyrirmannagæðingum úr stóði konungs,

11 þar sem konungur leyfði Gyðingum í öllum borgum að safnast saman og verja líf sitt og að eyða, deyða og tortíma öllum liðsafla þeirrar þjóðar og lands, er sýndi þeim fjandskap, jafnvel börnum og konum, og ræna fjármunum þeirra,

12 á einum degi í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, hinn þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar.

13 Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum og til þess að Gyðingar skyldu vera viðbúnir þennan dag að hefna sín á óvinum sínum.

14 Hraðboðarnir, sem riðu fyrirmannagæðingunum, fóru af stað með skyndingu og flýti, að boði konungs, þegar er lagaboðið var gefið út í borginni Súsa.

15 En Mordekai gekk út frá konungi í konunglegum skrúða, purpurabláum og hvítum, með stóra gullkórónu og í möttli úr býssus og rauðum purpura, og í borginni Súsa varð gleði mikil og fögnuður.

16 Og hjá Gyðingum var ljós og gleði, fögnuður og dýrð.

17 Og í öllum skattlöndum og öllum borgum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, var gleði og fögnuður meðal Gyðinga, veisluhöld og hátíðisdagur. Og margir hinna heiðnu landsbúa gjörðust Gyðingar, því að ótti við Gyðinga var yfir þá kominn.

Á þessum dögum, er lærisveinum fjölgaði, fóru grískumælandi menn að kvarta út af því, að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun.

Hinir tólf kölluðu þá lærisveinahópinn saman og sögðu: "Ekki hæfir, að vér hverfum frá boðun Guðs orðs til að þjóna fyrir borðum.

Finnið því, bræður, sjö vel kynnta menn úr yðar hópi, sem fullir eru anda og visku. Munum vér setja þá yfir þetta starf.

En vér munum helga oss bæninni og þjónustu orðsins."

Öll samkoman gerði góðan róm að máli þeirra, og kusu þeir Stefán, mann fullan af trú og heilögum anda, Filippus, Prókorus, Níkanor, Tímon, Parmenas og Nikolás frá Antíokkíu, sem tekið hafði gyðingatrú.

Þeir leiddu þá fram fyrir postulana, sem báðust fyrir og lögðu hendur yfir þá.

Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.

Stefán var fullur af náð og krafti og gjörði undur og tákn mikil meðal fólksins.

Þá komu til nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu, en aðrir frá Kilikíu og Asíu, og tóku að þrátta við Stefán.

10 En þeir gátu ekki staðið gegn visku þeirri og anda, sem hann talaði af.

11 Þá fengu þeir menn nokkra til að segja: "Vér höfum heyrt hann tala lastmæli gegn Móse og Guði."

12 Þeir æstu upp fólkið, öldungana og fræðimennina, og þeir veittust að honum, gripu hann og færðu hann fyrir ráðið.

13 Þá leiddu þeir fram ljúgvotta, er sögðu: "Þessi maður er alltaf að tala gegn þessum heilaga stað og lögmálinu.

14 Vér höfum heyrt hann segja, að þessi Jesús frá Nasaret muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum, sem Móse hefur sett oss."

15 Allir sem í ráðinu sátu, störðu á hann og sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.