Add parallel Print Page Options

Eftir þessa atburði veitti Ahasverus konungur Haman Hamdatasyni Agagíta mikinn frama og hóf hann til vegs og setti stól hans ofar öllum stólum höfðingja þeirra, er með honum voru.

Og allir þjónar konungs, þeir er voru í hliði konungs, féllu á kné og lutu Haman, því að svo hafði konungur um hann boðið. En Mordekai féll hvorki á kné né laut honum.

Þá sögðu þjónar konungs, þeir er voru í konungshliði, við Mordekai: "Hví brýtur þú boð konungs?"

Höfðu þeir daglega orð á þessu við hann, en hann hlýddi þeim ekki. Sögðu þeir þá Haman frá því til þess að sjá, hvort orð Mordekai yrðu tekin gild, því að hann hafði sagt þeim, að hann væri Gyðingur.

Og er Haman sá, að Mordekai féll eigi á kné né laut honum, þá fylltist Haman reiði.

En honum þótti einskis vert að leggja hendur á Mordekai einan, því að menn höfðu sagt honum frá, hverrar þjóðar Mordekai var, og leitaðist Haman því við að gjöreyða öllum Gyðingum, sem voru í öllu ríki Ahasverusar, samlöndum Mordekai.

Í fyrsta mánuðinum _ það er í mánuðinum nísan _ á tólfta ríkisári Ahasverusar konungs var varpað púr, það er hlutkesti, í viðurvist Hamans, frá einum degi til annars og frá einum mánuði til annars, og féll hlutkestið á þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar.

Og Haman sagði við Ahasverus konung: "Ein er sú þjóð, sem lifir dreifð og fráskilin meðal þjóðanna í öllum skattlöndum ríkis þíns. Og lög þeirra eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða, og lög konungs halda þeir ekki, og hlýðir eigi að konungur láti þá afskiptalausa.

Ef konungi þóknast svo, þá verði skriflega fyrirskipað að afmá þá. En tíu þúsund talentur silfurs skal ég vega í hendur fjárgæslumönnunum, svo að þeir flytji það í féhirslur konungs."

10 Þá dró konungur innsiglishring sinn af hendi sér og fékk hann Haman Hamdatasyni Agagíta, fjandmanni Gyðinga.

11 Síðan sagði konungur við Haman: "Silfrið er þér gefið, og með þjóðina mátt þú fara svo sem þér vel líkar."

12 Þá var skrifurum konungs stefnt saman, þrettánda dag hins fyrsta mánaðar, og var nú skrifað með öllu svo sem Haman mælti fyrir til jarla konungs og til landstjóranna í öllum skattlöndunum og til höfðingja allra þjóðanna, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu. Var þetta skrifað í nafni Ahasverusar konungs og innsiglað með innsiglishring konungs.

13 Og bréfin voru send með hraðboðum í öll skattlönd konungs, þess efnis, að eyða skyldi, deyða og tortíma öllum Gyðingum, bæði ungum og gömlum, börnum og konum, á einum degi, þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar _ og ræna fjármunum þeirra.

14 Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi, til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum, svo að þær gætu verið viðbúnar þennan dag.

15 Hraðboðarnir fóru af stað í skyndi að boði konungs, þegar er lögin voru útgefin í borginni Súsa. Og konungur og Haman settust að drykkju, en felmt sló á bæinn Súsa.

En er Mordekai varð alls þessa áskynja, er gjörst hafði, þá reif hann klæði sín, klæddist sekk og ösku, gekk út í miðja borgina og kveinaði hástöfum og beisklega.

Síðan gekk hann fast að konungshliðinu, því að enginn mátti inn ganga í konungshliðið klæddur hærusekk.

Og í öllum þeim skattlöndum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, varð mikill harmur meðal Gyðinga og fasta, grátur og kveinan. Flestir breiddu undir sig sekk og ösku.

Þá komu þjónustumeyjar Esterar og geldingar hennar og sögðu henni frá þessu. Varð drottning þá mjög óttaslegin. Og hún sendi klæði, er Mordekai skyldi færður í og hann fara úr sekknum, en hann vildi ekki taka við þeim.

Þá kallaði Ester Hatak til sín, einn af geldingum konungs, er hann hafði sett til að þjóna henni, og bauð honum að fara til Mordekai og fá að vita, hvað þetta ætti að þýða og hverju það sætti.

Þá gekk Hatak til Mordekai út á bæjartorgið, er var fyrir utan konungshliðið.

En Mordekai sagði honum allt, sem fyrir hann hafði komið, og upphæð fjárins, er Haman hafði heitið að vega í féhirslur konungs fyrir Gyðinga, til þess að fá þeim eytt.

Auk þess fékk hann honum eftirrit af konungsbréfi því, er út hafði verið gefið í Súsa, um að eyða þeim. Skyldi hann sýna Ester það og segja henni frá og bjóða henni að ganga fyrir konung og biðja hann miskunnar og leita vægðar hjá honum þjóð sinni til handa.

Og Hatak kom og flutti Ester orð Mordekai.

10 En Ester sagði við Hatak og bauð honum að flytja Mordekai það:

11 ,Öllum þjónum konungs og fólkinu í skattlöndum konungs er kunnugt, að um hvern þann mann eða konu, sem gengur fyrir konung inn í hinn innri forgarð og er eigi kallaður, gilda ein lög, að hann skal af lífi taka, nema konungur rétti út í móti honum gullsprotann sem merki þess, að hann megi lífi halda. En ég hefi eigi verið kölluð inn fyrir konung nú í þrjátíu daga.`

12 Og Mordekai voru flutt orð Esterar.

13 Þá lét Mordekai skila aftur til Esterar: ,Ekki skalt þú ímynda þér, að þú ein af öllum Gyðingum komist undan, af því að þú ert í höll konungs.

14 Því þótt svo færi, að þú þegðir nú, þá mun Gyðingum samt koma frelsun og hjálp úr einhverjum öðrum stað, en þú og ættfólk þitt munuð farast. Hver veit nema þú sért til ríkis komin einmitt vegna þessara tíma!`

15 Þá lét Ester skila aftur til Mordekai:

16 ,Far þú og kalla saman alla Gyðinga, sem nú eru í Súsa, og fastið mín vegna, etið hvorki né drekkið í þrjá daga, hvorki nótt né dag. Ég og þjónustumeyjar mínar munum og fasta á sama hátt. Síðan mun ég ganga inn fyrir konung, þótt það sé í móti lögunum, og ef ég þá á að farast, þá ferst ég.`

17 Gekk Mordekai þá burt og fór með öllu svo sem Ester hafði boðið honum.

En á þriðja degi skrýddist Ester konunglegum skrúða og gekk inn í hinn innri forgarð konungshallarinnar, gegnt konungshöllinni, en konungur sat í konungshásæti sínu í konungshöllinni gegnt dyrum hallarinnar.

En er konungur leit Ester drottningu standa í forgarðinum, fann hún náð í augum hans, og konungur rétti út í móti Ester gullsprotann, er hann hafði í hendi sér. Þá gekk Ester nær og snart oddinn á sprotanum.

Og konungur sagði við hana: "Hvað er þér á höndum, Ester drottning, og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal þér það veita."

Þá mælti Ester: "Ef konunginum þóknast svo, þá komi konungurinn, ásamt Haman, í dag til veislu þeirrar, er ég hefi búið honum."

Þá sagði konungur: "Sækið Haman í skyndi, svo að vér megum gjöra það, sem Ester hefir um beðið." Þegar nú konungur, ásamt Haman, var kominn til veislunnar, er Ester hafði búið,

sagði konungur við Ester, þá er þau voru sest að víndrykkjunni: "Hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið."

Þá svaraði Ester og sagði: "Bæn mín og beiðni er þessi:

Hafi ég fundið náð í augum konungsins og þóknist konunginum að veita mér bæn mína og gjöra það, er ég beiðist, þá komi konungurinn og Haman til veislu þeirrar, er ég mun búa þeim. Mun ég þá á morgun gjöra það, sem konungurinn hefir óskað."

Þann dag gekk Haman burt glaður og í góðu skapi. En er Haman sá Mordekai í konungshliðinu og að hann hvorki stóð upp fyrir honum né hrærði sig, þá fylltist Haman reiði gegn Mordekai.

10 Þó stillti Haman sig. En er hann kom heim til sín, sendi hann og lét sækja vini sína og Seres konu sína.

11 Sagði Haman þeim frá hinum miklu auðæfum sínum og fjölda sona sinna og frá öllum þeim frama, sem konungur hafði veitt honum, og hversu konungur hefði hafið hann til vegs framar öðrum höfðingjum sínum og þjónum.

12 Og Haman mælti: "Já, Ester drottning lét engan koma með konungi til veislu þeirrar, er hún gjörði, nema mig. Hún hefir og boðið mér á morgun með konunginum.

13 En allt þetta er mér ekki nóg, meðan ég sé Mordekai Gyðing sitja í konungshliði."

14 Þá sagði Seres kona hans við hann og allir vinir hans: "Lát reisa fimmtíu álna háan gálga, og talaðu á morgun um það við konung, að Mordekai verði festur á hann. Far síðan glaður með konungi til veislunnar." Þetta ráð líkaði Haman vel og lét hann reisa gálgann.

22 Þeir komu í fangelsið og fundu þá ekki, sneru aftur og skýrðu svo frá:

23 "Fangelsið fundum vér að öllu tryggilega læst, og varðmennirnir stóðu fyrir dyrum, en er vér lukum upp, fundum vér engan inni."

24 Þegar varðforingi helgidómsins og æðstu prestarnir heyrðu þetta, urðu þeir ráðþrota og spurðu, hvar þetta ætlaði að lenda.

25 En þá kom maður og bar þeim þessa frétt: "Mennirnir, sem þér settuð í fangelsið, standa í helgidóminum og eru að kenna lýðnum."

26 Þá fór varðforinginn með þjónunum og sótti þá. Beittu þeir samt ekki ofbeldi, því þeir óttuðust, að fólkið grýtti þá.

27 Þegar þeir voru komnir með þá, leiddu þeir þá fram fyrir ráðið, og æðsti presturinn tók að yfirheyra þá og sagði:

28 "Stranglega bönnuðum vér yður að kenna í þessu nafni, og nú hafið þér fyllt Jerúsalem með kenningu yðar og viljið steypa yfir oss blóði þessa manns."

29 En Pétur og hinir postularnir svöruðu: "Framar ber að hlýða Guði en mönnum.

30 Guð feðra vorra hefur upp vakið Jesú, sem þér hengduð á tré og tókuð af lífi.

31 Hann hefur Guð hafið sér til hægri handar og gjört hann að foringja og frelsara til að veita Ísrael afturhvarf og fyrirgefningu synda sinna.

32 Vér erum vottar alls þessa, og heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða."

33 Þegar þeir heyrðu þetta, fylltust þeir bræði og hugðust deyða þá.

34 Reis þá upp í ráðinu farísei nokkur, Gamalíel að nafni, kennari í lögmálinu, virtur af öllum lýð. Hann bauð, að mennirnir væru látnir fara út stundarkorn.

35 Síðan sagði hann: "Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn.

36 Ekki alls fyrir löngu kom Þevdas fram og þóttist vera eitthvað. Hann aðhylltust um fjögur hundruð manns. En hann var drepinn, og allir þeir, sem fylgdu honum, tvístruðust og hurfu.

37 Eftir hann kom fram Júdas frá Galíleu á dögum skrásetningarinnar og sneri fólki til fylgis við sig. Hann fórst líka, og þeir dreifðust allir, sem fylgdu honum.

38 Og nú segi ég yður: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu,

39 en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð."

40 Þeir féllust á mál hans, kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa.

41 Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.

42 Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.

Read full chapter