A A A A A
Bible Book List

Fimmta bók Móse 5-7 Icelandic Bible (ICELAND)

Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Heyr þú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég birti yður í dag. Lærið þau og varðveitið þau, svo að þér haldið þau.

Drottinn Guð vor gjörði við oss sáttmála á Hóreb.

Ekki gjörði Drottinn þennan sáttmála við feður vora, heldur við oss, oss sem hér erum allir lifandi í dag.

Drottinn talaði við yður á fjallinu augliti til auglitis út úr eldinum.

Ég stóð þá á milli Drottins og yðar til þess að flytja yður orð Drottins, því að þér hræddust eldinn og fóruð ekki upp á fjallið. Hann sagði:

"Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, og í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata,

10 en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

11 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

12 Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér.

13 Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk,

14 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú.

15 Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð Drottinn Guð þinn þér að halda hvíldardaginn.

16 Heiðra föður þinn og móður þína, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér, svo að þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

17 Þú skalt ekki morð fremja.

18 Þú skalt ekki drýgja hór.

19 Þú skalt ekki stela.

20 Þú skalt ekki bera falsvitni gegn náunga þínum.

21 Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, og ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."

22 Þessi orð talaði Drottinn með hárri röddu til alls safnaðar yðar á fjallinu út úr eldinum, skýinu og sortanum. Bætti hann þar engu við, og hann ritaði þau á tvær steintöflur og fékk mér þær.

23 Er þér heyrðuð röddina út úr myrkrinu og fjallið stóð í björtu báli, þá genguð þér til mín, allir höfðingjar ættkvísla yðar og öldungar yðar,

24 og sögðuð: "Sjá, Drottinn Guð vor hefir sýnt oss dýrð sína og mikilleik, og vér heyrðum rödd hans úr eldinum. Vér höfum séð það í dag, að Guð getur talað við mann, og maðurinn þó haldið lífi.

25 Hví skulum vér þá deyja? því að þessi mikli eldur ætlar að eyða oss. Ef vér höldum áfram að hlusta á raust Drottins Guðs vors, munum vér deyja.

26 Því að hver er sá af öllu holdi, að hann hafi heyrt rödd hins lifandi Guðs tala út úr eldinum, eins og vér, og þó haldið lífi?

27 Far þú og hlýð þú á allt það, sem Drottinn Guð vor segir, og seg þú oss allt það, er Drottinn Guð vor talar við þig, svo að vér megum hlýða á það og breyta eftir því."

28 Drottinn heyrði ummæli yðar, er þér töluðuð við mig, og Drottinn sagði við mig: "Ég heyrði ummæli þessa fólks, er þeir töluðu við þig. Er það allt vel mælt, sem þeir sögðu.

29 Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi.

30 Far þú og seg þeim: ,Hverfið aftur í tjöld yðar!`

31 En þú, þú skalt standa hér hjá mér meðan ég legg fyrir þig allar þær skipanir, lög og ákvæði, sem þú átt að kenna þeim, svo að þeir breyti eftir þeim í því landi, sem ég gef þeim til eignar."

32 Gætið því þess að gjöra svo sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður. Víkið eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri.

33 Gangið í öllu þann veg, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður, svo að þér megið lífi halda og yður vegni vel og þér lifið lengi í landinu, sem þér fáið til eignar.

Þetta eru þá skipanir þær, lög og ákvæði, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið, að þér skylduð læra og breyta eftir í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að fá það til eignar,

svo að þú óttist Drottin Guð þinn og varðveitir öll lög hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig, bæði þú sjálfur og sonur þinn og sonarsonur þinn, alla ævidaga þína og svo að þú verðir langlífur.

Heyr því, Ísrael, og gæt þess að breyta eftir þeim, svo að þér vegni vel og yður megi fjölga stórum, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir heitið þér, í landi, sem flýtur í mjólk og hunangi.

Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn!

Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.

Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst.

Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.

Þú skalt binda þau til merkis á hönd þér og hafa þau sem minningarbönd á milli augna þinna

og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín.

10 Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þér, stórar og fagrar borgir, sem þú hefir ekki reist,

11 og hús full af öllum góðum hlutum, án þess að þú hafir fyllt þau, og úthöggna brunna, sem þú hefir eigi út höggvið, víngarða og olíutré, sem þú hefir ekki gróðursett, og þú etur og verður saddur,

12 þá gæt þú þín, að þú gleymir ekki Drottni, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

13 Drottin Guð þinn skalt þú óttast, og hann skalt þú dýrka og við nafn hans skalt þú sverja.

14 Eigi skuluð þér elta neina aðra guði af guðum þjóða þeirra, er umhverfis yður búa _,

15 því að Drottinn Guð þinn, sem býr hjá þér, er vandlátur Guð, _ til þess að eigi upptendrist reiði Drottins Guðs þíns í gegn þér og hann eyði þér úr landinu.

16 Eigi skuluð þér freista Drottins Guðs yðar, eins og þér freistuðuð hans í Massa.

17 Varðveitið kostgæfilega skipanir Drottins Guðs yðar og fyrirmæli hans og lög, þau er hann hefir fyrir þig lagt.

18 Þú skalt gjöra það, sem rétt er og gott í augum Drottins, svo að þér vegni vel og þú komist inn í og fáir til eignar landið góða, sem Drottinn sór feðrum þínum,

19 með því að hann stökkvir burt öllum óvinum þínum undan þér, eins og Drottinn hefir heitið.

20 Þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: "Hvað eiga fyrirmælin, lögin og ákvæðin að þýða, sem Drottinn Guð vor hefir fyrir yður lagt?"

21 þá skalt þú segja við son þinn: "Vér vorum þrælar Faraós í Egyptalandi, en Drottinn leiddi oss af Egyptalandi með sterkri hendi.

22 Og hann gjörði mikil og skæð tákn og undur á hendur Egyptalandi, Faraó og öllu húsi hans að oss ásjáandi.

23 Og hann leiddi oss út þaðan til þess að fara með oss hingað og gefa oss landið, sem hann sór feðrum vorum.

24 Og hann bauð oss að halda öll þessi lög með því að óttast Drottin Guð vorn, svo að oss mætti vegna vel alla daga og hann halda oss á lífi, eins og allt til þessa.

25 Og vér munum taldir verða réttlátir, ef vér gætum þess að breyta eftir öllum þessum skipunum fyrir augliti Drottins Guðs vors, eins og hann hefir boðið oss."

Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, og hann hefir stökkt burt undan þér mörgum þjóðum: Hetítum, Gírgasítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, sjö þjóðum, sem eru fjölmennari og voldugri en þú, _

og er Drottinn Guð þinn gefur þær á vald þitt og þú sigrast á þeim, þá skalt þú gjöreyða þeim. Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þær né sýna þeim vægð.

Og eigi skalt þú mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa sonum þeirra dætur þínar né heldur taka dætur þeirra til handa sonum þínum.

Því að þær mundu snúa sonum þínum frá hlýðni við mig og koma þeim til að dýrka aðra guði. Mundi reiði Drottins þá upptendrast í gegn yður og hann eyða þér skyndilega.

Heldur skuluð þér svo með þá fara: Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, höggva sundur asérur þeirra og brenna skurðgoð þeirra í eldi.

Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þig hefir Drottinn Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans um fram allar þjóðir, sem eru á yfirborði jarðarinnar.

Ekki var það fyrir þá sök, að þér væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir, að Drottinn lagði ást á yður og kjöri yður, því að þér eruð allra þjóða minnstir.

En sökum þess að Drottinn elskar yður og af því að hann vildi halda eiðinn, sem hann sór feðrum yðar, þá leiddi hann yður burt með sterkri hendi og leysti þig úr þrælahúsinu, undan valdi Faraós, Egyptalandskonungs.

Fyrir því skalt þú vita, að Drottinn Guð þinn er hinn sanni Guð, hinn trúfasti Guð, er heldur sáttmálann og miskunnsemina í þúsund ættliði við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.

10 En þeim, sem hann hata, geldur hann líka hverjum og einum sjálfum með því að láta þá farast. Hann dregur það eigi fyrir þeim, sem hata hann; hverjum og einum geldur hann þeim sjálfum.

11 Fyrir því skalt þú varðveita skipanir þær, lög og ákvæði, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þú breytir eftir þeim.

12 Ef þér nú hlýðið lögum þessum og varðveitið þau og breytið eftir þeim, þá mun Drottinn Guð þinn halda við þig þann sáttmála og miskunnsemi, sem hann sór feðrum þínum.

13 Hann mun elska þig, blessa þig og margfalda þig, og hann mun blessa ávöxt kviðar þíns og ávöxt lands þíns, korn þitt, aldinlög þinn og olíu þína, viðkomu nautgripa þinna og burði hjarðar þinnar í landinu, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér.

14 Þú munt blessuð verða öllum þjóðum framar, meðal karlmanna þinna og kvenmanna skal enginn vera ófrjósamur, né heldur meðal fénaðar þíns.

15 Og Drottinn mun bægja frá þér hvers konar sjúkleik, og enga af hinum vondu egypsku sóttum, sem þú þekkir, mun hann á þig leggja, heldur mun hann senda þær öllum þeim, er þig hata.

16 En þú skalt eyða öllum þeim þjóðum, sem Drottinn Guð þinn gefur á þitt vald. Þú skalt ekki líta þær vægðarauga og þú skalt eigi dýrka guði þeirra, því að það mundi verða þér að tálsnöru.

17 Ef þú skyldir segja í hjarta þínu: "Þessar þjóðir eru fjölmennari en ég; hvernig fæ ég rekið þær burt?"

18 þá ver þú ekki hræddur við þær. Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Faraó og alla Egypta,

19 hinna miklu máttarverka, er þú sást með eigin augum, táknanna og stórmerkjanna, og hvernig Drottinn Guð þinn leiddi þig út með sterkri hendi og útréttum armlegg. Eins mun Drottinn, Guð þinn, fara með allar þær þjóðir, sem þú nú ert hræddur við.

20 Já, jafnvel skelfingu mun Drottinn Guð þinn senda meðal þeirra, uns allir þeir eru dauðir, sem eftir hafa orðið og falið hafa sig fyrir þér.

21 Þú skalt ekki hræðast þá, því að Drottinn, Guð þinn, er með þér, hinn mikli og ógurlegi Guð.

22 Drottinn Guð þinn mun stökkva þessum þjóðum á burt undan þér smám saman; þú mátt ekki eyða þeim skjótlega, svo að villidýrunum fjölgi eigi um of fyrir þig.

23 En Drottinn Guð þinn mun gefa þær á þitt vald og koma miklum ruglingi á þær, uns þær eru gjöreyddar.

24 Og hann mun gefa konunga þeirra í hendur þér, og þú munt afmá nöfn þeirra undir himninum. Enginn mun standast fyrir þér, uns þú hefir gjöreytt þeim.

25 Skurðlíkneski guða þeirra skalt þú brenna í eldi. Þú skalt eigi girnast silfrið og gullið, sem á þeim er, né taka það handa þér, svo að það verði þér eigi að tálsnöru, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni Guði þínum.

26 Og eigi skalt þú færa andstyggilegan hlut inn í hús þitt, svo að þú fallir ekki í sama bannið, sem hann er í. Þú skalt hafa megnan viðbjóð og andstyggð á því, því að það er bannfærður hlutur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes