Add parallel Print Page Options

32 Hlustið, þér himnar, því að nú mun ég mæla, og jörðin hlýði á mál munns míns!

Kenning mín streymi sem regn, ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúrir á grængresið og sem þungaregn á jurtirnar.

Ég vil kunngjöra nafn Drottins: Gefið Guði vorum dýrðina!

Bjargið _ fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.

Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim, rangsnúin og rammspillt kynslóð.

Ætlið þér að launa Drottni þannig, þú heimska og óvitra þjóð? Er hann ekki faðir þinn, sá er skóp þig, sá er gjörði þig og myndaði?

Minnstu fyrri tíða, hyggið að árum liðinna alda! Spyr föður þinn, að hann megi fræða þig, gamalmenni þín, að þau megi segja þér frá!

Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona.

Því að hlutskipti Drottins er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans.

10 Hann fann hann í eyðimerkurlandi og í óbyggðum, innan um öskrið á öræfunum. Hann verndaði hann, hugði að honum, hann varðveitti hann sem sjáaldur auga síns.

11 Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum.

12 Drottinn einn leiddi hann, og enginn annar guð var með honum.

13 Hann lét hann fram bruna á hæðum landsins og lét hann njóta ávaxtar akursins. Hann lét hann sjúga hunang úr klettunum og olífuolíu úr tinnusteinunum.

14 Hann ól hann á kúarjóma og sauðamjólk, ásamt feitu kjöti af dilkum og hrútum. Hann gaf honum Basan-uxa og kjarnhafra, ásamt nýrnafeiti hveitisins. Þrúgnablóð drakkst þú sem kostavín.

15 En Jesjúrún varð feitur og sparkaði aftur undan sér, _ feitur varðst þú, digur og sællegur! Þá hafnaði hann Guði, skapara sínum, og fyrirleit bjarg hjálpræðis síns.

16 Þeir vöktu vandlæti hans með útlendum guðum, egndu hann til reiði með andstyggðum.

17 Þeir færðu fórnir vættum, sem ekki eru Guð, guðum, sem þeir höfðu eigi þekkt, nýjum guðum, nýlega upp komnum, er feður yðar höfðu engan beyg af.

18 Um bjargið, sem þig hafði getið, hirtir þú ekki og gleymdir þeim Guði, sem þig hafði alið.

19 Drottinn sá það og hafnaði þeim af gremju við sonu sína og dætur.

20 Og hann sagði: Ég vil byrgja auglit mitt fyrir þeim, ég ætla að sjá, hver afdrif þeirra verða. Því að þeir eru rangsnúin kynslóð, börn, sem engin tryggð er í.

21 Þeir hafa vakið vandlæti mitt með því, sem ekki er Guð, egnt mig til reiði með hinum fánýtu goðum sínum. Nú mun ég vekja vandlæti þeirra með því, sem ekki er þjóð, egna þá til reiði með heiðnum lýð.

22 Því að eldur kviknaði í nösum mér, og hann logar lengst niður í undirheima, eyðir jörðina og ávöxtu hennar og kveikir í undirstöðum fjallanna.

23 Ég vil hrúga yfir þá margs konar böli, eyða á þá öllum örvum mínum.

24 Þótt þeir séu megraðir af hungri og tærðir af sýki og eitraðri sótt, þá mun ég hleypa tönnum villidýranna á þá, ásamt eitri þeirra, er í duftinu skríða.

25 Sverðið mun eyða þeim úti fyrir, en hræðslan í húsum inni, bæði yngismönnum og meyjum, brjóstmylkingum og gráhærðum öldungum.

26 Ég mundi segja: Ég vil blása þeim burt, afmá minning þeirra meðal mannanna! _

27 ef ég óttaðist ekki, að mér mundi gremjast við óvinina, að mótstöðumenn þeirra mundu leggja það út á annan veg, að þeir mundu segja: Hönd vor var á lofti, og það var ekki Drottinn, sem gjörði allt þetta!

28 Því að þeir eru ráðþrota þjóð, og hjá þeim eru engin hyggindi.

29 Ef þeir væru vitrir, þá mundu þeir sjá þetta, hyggja að, hver afdrif þeirra munu verða.

30 Hvernig gæti einn maður elt þúsund og tveir rekið tíu þúsundir á flótta, ef bjarg þeirra hefði ekki selt þá, ef Drottinn hefði ekki ofurselt þá?

31 Því að bjarg þeirra er ekki eins og vort bjarg _ um það geta óvinir vorir dæmt.

32 Því að vínviður þeirra er af vínviði Sódómu, af akurlöndum Gómorru. Vínber þeirra eru eitruð vínber, þrúgur þeirra beiskar.

33 Vín þeirra er höggormsólyfjan og banvænt nöðrueitur.

34 Er þetta ekki geymt hjá mér, innsiglað í forðabúrum mínum?

35 Mín er hefndin og mitt að endurgjalda, þá er þeir gjörast valtir á fótum. Því að glötunardagur þeirra er nálægur, og það ber óðfluga að, er fyrir þeim liggur.

36 Drottinn mun rétta hluta þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína, þá er hann sér, að öll hjálp er úti og enginn er framar til, þræll né frelsingi.

37 Þá mun hann segja: Hvar eru nú guðir þeirra, bjargið, er þeir leituðu hælis hjá,

38 sem átu feiti fórna þeirra og drukku vín dreypifórna þeirra? Rísi þeir nú upp og hjálpi yður, veri þeir yður nú hlíf!

39 Sjáið nú, að ég, ég er hann, og að enginn guð er til nema ég! Ég deyði og ég lífga, ég særi og ég græði, og enginn getur frelsað af minni hendi.

40 Því að ég lyfti hendi minni til himins og segi: Svo sannarlega sem ég lifi eilíflega, _

41 þegar ég hefi hvesst mitt blikandi sverð, og ég legg hönd á dóminn, þá mun ég efna hefnd við mótstöðumenn mína og endurgjalda þeim, er hata mig!

42 Ég vil gjöra örvar mínar drukknar af blóði, og sverð mitt skal hold eta _ af blóði veginna manna og hertekinna, af höfði fyrirliða óvinanna.

43 Vegsamið, þjóðir, lýð hans! því að hann hefnir blóðs þjóna sinna. Hann efnir hefnd við mótstöðumenn sína og friðþægir fyrir land síns lýðs.

44 Móse kom og flutti lýðnum öll orð þessa kvæðis í heyranda hljóði, hann og Hósea Núnsson.

45 Og er Móse hafði lokið að mæla öll þessi orð til alls Ísraels,

46 sagði hann við þá: "Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag, til þess að þér getið brýnt þau fyrir börnum yðar, svo að þau gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.

47 Því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar, og fyrir þetta orð munuð þér lifa langa ævi í landinu, sem þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."

48 Þann hinn sama dag talaði Drottinn við Móse og sagði:

49 "Far þú þarna upp á Abarímfjall, upp á Nebófjall, sem er í Móabslandi gegnt Jeríkó, og lít yfir Kanaanland, sem ég gef Ísraelsmönnum til eignar.

50 Og þú skalt deyja á fjallinu, er þú fer upp á, og safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli og safnaðist til síns fólks,

51 af því að þið sýnduð mér ótrúmennsku mitt á meðal Ísraelsmanna hjá Meríbavötnum við Kades í Síneyðimörk, af því að þið helguðuð mig ekki meðal Ísraelsmanna.

52 Því að handan yfir skalt þú fá að líta landið, en inn í landið, sem ég gef Ísraelsmönnum, skalt þú ekki komast."

33 Þessi er blessunin, er guðsmaðurinn Móse blessaði með Ísraelsmenn, áður en hann andaðist:

Drottinn kom frá Sínaí og rann upp fyrir þeim á Seír. Hann lét ljós sitt skína frá Paranfjöllum og kom frá hinum helgu tíu þúsundum, eldingarnar í hægri hendi hans voru þeim til varnar.

Já, hann elskar sinn lýð, allir hans heilögu eru í hans hendi. Og þeir fara eftir leiðsögu þinni, sérhver þeirra meðtekur af orðum þínum.

Móse setti oss lögmál, óðal Jakobs safnaðar.

Og Drottinn varð konungur í Jesjúrún, þá er höfðingjar lýðsins söfnuðust saman, ættkvíslir Ísraels allar samt.

Lifi Rúben og deyi ekki, þannig að menn hans verði fáir að tölu.

Og þetta er blessunin um Júda: Heyr, Drottinn, bænir Júda, og leið hann aftur til þjóðar sinnar, _ með höndum sínum hefir hann barist fyrir hana _ og ver þú honum hjálp gegn fjendum hans.

Og um Leví sagði hann: Túmmím þín og úrím heyra mönnum hollvinar þíns, þess er þú reyndir hjá Massa og barðist gegn hjá Meríbavötnum,

_ heyra þeim, er sagði um föður og móður: Ég sá þau ekki, er eigi kannaðist við bræður sína og leit eigi við börnum sínum. Því að þeir varðveittu orð þitt og héldu sáttmála þinn.

10 Þeir kenna Jakob dóma þína og Ísrael lögmál þitt, þeir bera reykelsi fyrir vit þín og alfórn á altari þitt.

11 Blessa, Drottinn, styrkleik hans, og lát þér þóknast verk handa hans. Myl sundur lendar óvina hans og þeirra er hata hann, svo að þeir fái eigi risið upp aftur.

12 Um Benjamín sagði hann: Ljúflingur Drottins býr óhultur hjá honum. Hann verndar hann alla daga og hefir tekið sér bólfestu milli hálsa hans.

13 Um Jósef sagði hann: Blessað af Drottni er land hans með himinsins dýrmætustu gjöf, dögginni, og með djúpinu, er undir hvílir,

14 með hinu dýrmætasta, er sólin framleiðir, og með hinu dýrmætasta, sem tunglin láta spretta,

15 með hinu besta á hinum eldgömlu fjöllum og með hinu dýrmætasta á hinum eilífu hæðum,

16 með hinu dýrmætasta af jörðinni og öllu því, sem á henni er, og með þóknun hans, sem bjó í þyrnirunninum. Þetta komi yfir höfuð Jósefs og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna!

17 Prýðilegur er frumgetinn uxi hans, og horn hans eru sem horn vísundarins. Með þeim rekur hann þjóðir undir, allt til endimarka jarðarinnar. Þetta eru tíu þúsundir Efraíms, og þetta eru þúsundir Manasse!

18 Um Sebúlon sagði hann: Gleðst þú, Sebúlon, yfir sæförum þínum, og þú, Íssakar, yfir tjöldum þínum!

19 Þjóðflokkum bjóða þeir til fjallsins, þar fórna þeir réttum fórnum, því að þeir munu sjúga í sig nægtir hafsins og hina huldustu fjársjóðu sandsins.

20 Um Gað sagði hann: Blessaður sé sá, sem veitir Gað landrými! Hann hefir lagst niður sem ljónynja, og rífur sundur arm og hvirfil.

21 Hann valdi sér landið, er fyrst var tekið, því að þar var landshluti geymdur ætthöfðingja. Og hann kom með höfðingjum lýðsins, hann framkvæmdi réttlæti Drottins og dóma hans ásamt Ísrael.

22 Um Dan sagði hann: Dan er ljónshvolpur, sem kemur stökkvandi frá Basan.

23 Um Naftalí sagði hann: Naftalí, saddur velþóknunar og fullur af blessun Drottins, tak þú sjó og Suðurland til eignar!

24 Um Asser sagði hann: Blessaðastur af sonunum sé Asser! Veri hann eftirlæti bræðra sinna og vökvi fót sinn í olíu!

25 Slár þínar séu af járni og eir, og afl þitt réni eigi fyrr en ævina þrýtur!

26 Enginn er sem Guð Jesjúrúns, er ekur yfir himininn til hjálpar þér og á skýjunum í tign sinni!

27 Hæli er hinn eilífi Guð, og hið neðra eru eilífir armar. Hann stökkti óvinum þínum undan þér og sagði: Gjöreyð!

28 Og síðan bjó Ísrael óhultur, lind Jakobs ein sér, í landi korns og vínlagar, þar sem himinninn lætur dögg drjúpa.

29 Heill þér, Ísrael! Hver er sem þú? _ lýður, sigursæll fyrir hjálp Drottins! Hann er skjöldur þíns fulltingis, og hann er sverð tignar þinnar. Óvinir þínir munu smjaðra fyrir þér, og þú munt fram bruna á hæðum þeirra.

34 Og Móse gekk neðan af Móabsheiðum upp á Nebófjall, Pisgatind, sem er gegnt Jeríkó. Þaðan sýndi Drottinn honum gjörvallt landið: Gíleað allt til Dan,

allt Naftalí og Efraímsland og Manasse, og allt Júdaland allt til vesturhafsins,

og Suðurlandið og Jórdan-sléttlendið, dalinn hjá Jeríkó, pálmaborginni, allt til Sóar.

Og Drottinn sagði við hann: "Þetta er landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það!` Ég hefi látið þig líta það eigin augum, en yfir um þangað skalt þú ekki komast."

Móse, þjónn Drottins, dó þar í Móabslandi, eins og Drottinn hafði sagt,

og hann var grafinn í dalnum í Móabslandi, gegnt Bet Peór, en enginn maður veit enn til þessa dags, hvar gröf hans er.

Og Móse var hundrað og tuttugu ára gamall, er hann andaðist. Eigi glapnaði honum sýn, og eigi þvarr þróttur hans.

Ísraelsmenn grétu Móse á Móabsheiðum í þrjátíu daga, þá enduðu sorgargrátsdagarnir eftir Móse.

En Jósúa Núnsson var fullur vísdómsanda, því að Móse hafði lagt hendur sínar yfir hann, og Ísraelsmenn hlýddu honum og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

10 En eigi reis framar upp í Ísrael annar eins spámaður og Móse, er Drottinn umgekkst augliti til auglitis,

11 þegar litið er til allra þeirra tákna og undra, er Drottinn hafði sent hann til að gjöra í Egyptalandi á Faraó og öllum þjónum hans og öllu landi hans,