A A A A A
Bible Book List

Fimmta bók Móse 30-31 Icelandic Bible (ICELAND)

30 Þegar allt þetta, blessunin og bölvunin, sem ég hefi lagt fyrir þig í dag, kemur fram við þig, og þú hugfestir það meðal allra þeirra þjóða, er Drottinn Guð þinn rekur þig til,

og þú snýr þér aftur til Drottins Guðs þíns og hlýðir raustu hans í öllu, sem ég býð þér í dag, bæði þú og börn þín, af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni,

þá mun Drottinn Guð þinn snúa við högum þínum og miskunna þér og safna þér aftur saman frá öllum þjóðum, þeim er Drottinn Guð þinn hefir dreift þér á meðal.

Þótt þínir brottreknu væru yst við skaut himins, þá mun Drottinn Guð þinn saman safna þér þaðan og sækja þig þangað.

Og Drottinn Guð þinn mun leiða þig inn í landið, sem feður þínir áttu, og þú skalt taka það til eignar, og hann mun gjöra enn betur til þín og fjölga þér enn meir en feðrum þínum.

Drottinn Guð þinn mun umskera hjarta þitt og hjarta niðja þinna, svo að þú elskir Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni, til þess að þú megir lifa.

Og Drottinn Guð þinn mun láta allar þessar bölvanir bitna á óvinum þínum og fjendum, þeim er hafa ofsótt þig.

En þú munt aftur hlýða raustu Drottins og halda allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag.

Drottinn Guð þinn mun veita þér gnægð gæða í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, í ávexti kviðar þíns og í ávexti fénaðar þíns og í ávexti lands þíns, því að Drottinn mun aftur gleðjast yfir þér, þér til heilla, eins og hann gladdist yfir feðrum þínum,

10 ef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns og varðveitir skipanir hans og lög, sem rituð eru í þessari lögmálsbók, ef þú snýr þér til Drottins Guðs þíns af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.

11 Þetta boðorð, sem ég legg fyrir þig í dag, er þér eigi um megn, og það er eigi fjarlægt þér.

12 Ekki er það uppi í himninum, svo að þú þurfir að segja: "Hver ætli fari fyrir oss upp í himininn og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?"

13 Og það er eigi hinumegin hafsins, svo að þú þurfir að segja: "Hver ætli fari fyrir oss yfir hafið og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?"

14 Heldur er orðið harla nærri þér, í munni þínum og hjarta þínu, svo að þú getur breytt eftir því.

15 Sjá, ég hefi í dag lagt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.

16 Ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, að elska Drottin Guð þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa og margfaldast, og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.

17 En ef hjarta þitt gjörist fráhverft og þú verður óhlýðinn og lætur tælast til að falla fram fyrir öðrum guðum og dýrka þá,

18 þá boða ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast. Þér munuð þá eigi lifa mörg árin í landi því, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar.

19 Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa,

20 með því að elska Drottin Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn, svo að þú megir búa í landinu, sem Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim.

31 Móse fór og flutti öllum Ísrael þessi orð

og sagði við þá: "Ég er nú hundrað og tuttugu ára. Ég get ekki lengur gengið út og inn, og Drottinn hefir sagt við mig: ,Þú skalt ekki komast yfir hana Jórdan.`

Drottinn Guð þinn fer sjálfur yfir um fyrir þér, hann mun sjálfur eyða þessum þjóðum fyrir þér, svo að þú getir tekið lönd þeirra til eignar. Jósúa skal fara yfir um fyrir þér, eins og Drottinn hefir sagt.

Og Drottinn mun fara með þær eins og hann fór með Síhon og Óg, konunga Amoríta, og land þeirra, sem hann eyddi.

Og Drottinn mun gefa þær yður á vald, og þér skuluð fara með þær nákvæmlega eftir skipun þeirri, er ég hefi fyrir yður lagt.

Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að Drottinn Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig."

Móse kallaði þá á Jósúa og sagði við hann í augsýn alls Ísraels: "Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða þetta fólk inn í landið, sem Drottinn sór feðrum þeirra að gefa þeim, og þú munt skipta því milli þeirra.

Og Drottinn mun sjálfur fara fyrir þér, hann mun vera með þér, hann mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast."

Móse ritaði lögmál þetta og fékk það í hendur prestunum, sonum Leví, er bera sáttmálsörk Drottins, og öllum öldungum Ísraels.

10 Og Móse lagði svo fyrir þá: "Sjöunda hvert ár, umlíðunarárið, á laufskálahátíðinni,

11 þegar allur Ísrael kemur til að birtast fyrir augliti Drottins Guðs þíns á þeim stað, sem hann velur, þá skalt þú lesa lögmál þetta fyrir öllum Ísrael í heyranda hljóði.

12 Safna þú saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum, og útlendingum þeim, sem hjá þér eru innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri að óttast Drottin Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.

13 Og börn þeirra, þau er enn ekki þekkja það, skulu hlýða á og læra að óttast Drottin Guð yðar alla þá daga, sem þér lifið í því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."

14 Drottinn sagði við Móse: "Sjá, andlátstími þinn nálgast. Kalla þú á Jósúa og gangið inn í samfundatjaldið, svo að ég megi leggja fyrir hann skipanir mínar." Þá fóru þeir Móse og Jósúa og gengu inn í samfundatjaldið.

15 En Drottinn birtist í tjaldinu í skýstólpa, og skýstólpinn nam staðar við tjalddyrnar.

16 Drottinn sagði við Móse: "Sjá, þú munt nú leggjast til hvíldar hjá feðrum þínum. Þá mun lýður þessi rísa upp og taka fram hjá með útlendum guðum lands þess, er hann heldur nú inn í, en yfirgefa mig og rjúfa sáttmála minn, þann er ég við hann gjörði.

17 Þá mun reiði mín upptendrast gegn þeim, og ég mun yfirgefa þá og byrgja auglit mitt fyrir þeim, og lýðurinn mun eyddur verða og margs konar böl og þrengingar yfir hann koma. Þá mun hann segja: ,Vissulega er þetta böl yfir mig komið, af því að Guð minn er ekki hjá mér.`

18 En á þeim degi mun ég byrgja auglit mitt vandlega vegna allrar þeirrar illsku, sem hann hefir í frammi haft, er hann sneri sér til annarra guða.

19 Skrifa þú nú upp kvæði þetta og kenn það Ísraelsmönnum, legg þeim það í munn, til þess að kvæði þetta megi verða mér til vitnisburðar gegn Ísraelsmönnum.

20 Því að ég mun leiða þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra, sem flýtur í mjólk og hunangi, og þeir munu eta og verða saddir og feitir og snúa sér til annarra guða og dýrka þá, en mér munu þeir hafna og rjúfa sáttmála minn.

21 Og þegar margs konar böl og þrengingar koma yfir þá, þá mun kvæði þetta bera vitni gegn þeim, því að það mun eigi gleymast í munni niðja þeirra. Því að ég veit, hvað þeim býr innanbrjósts nú þegar, áður en ég hefi leitt þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra."

22 Og Móse skrifaði upp kvæði þetta þann hinn sama dag og kenndi það Ísraelsmönnum.

23 Drottinn lagði skipanir sínar fyrir Jósúa Núnsson og sagði: "Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða Ísraelsmenn inn í landið, sem ég sór þeim, og ég mun vera með þér."

24 Þegar Móse hafði algjörlega lokið því að rita orð þessa lögmáls í bók,

25 þá bauð hann levítunum, sem bera sáttmálsörk Drottins, og sagði:

26 "Takið lögmálsbók þessa og leggið hana við hliðina á sáttmálsörk Drottins Guðs yðar, svo að hún geymist þar til vitnisburðar gegn þér.

27 Því að ég þekki mótþróa þinn og þrjósku. Sjá, meðan ég enn er lifandi hjá yður í dag, hafið þér óhlýðnast Drottni, og hvað mun þá síðar verða að mér dauðum!

28 Safnið saman til mín öllum öldungum ættkvísla yðar og tilsjónarmönnum yðar, að ég megi flytja þeim þessi orð í heyranda hljóði og kveðja himin og jörð til vitnis móti þeim.

29 Því að ég veit, að eftir dauða minn munuð þér gjörspillast og víkja af þeim vegi, sem ég hefi boðið yður. Þá mun og ógæfan koma yfir yður á komandi tímum, er þér gjörið það sem illt er í augum Drottins, svo að þér egnið hann til reiði með athæfi yðar."

30 Móse flutti þá öllum söfnuði Ísraels orð þessa kvæðis, uns því var lokið:

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Markúsarguðspjall 15:1-25 Icelandic Bible (ICELAND)

15 Þegar að morgni gjörðu æðstu prestarnir samþykkt með öldungunum, fræðimönnunum og öllu ráðinu. Þeir létu binda Jesú og færa brott og framseldu hann Pílatusi.

Pílatus spurði hann: "Ert þú konungur Gyðinga?" Hann svaraði: "Þú segir það."

En æðstu prestarnir báru á hann margar sakir.

Pílatus spurði hann aftur: "Svarar þú engu? Þú heyrir, hve þungar sakir þeir bera á þig."

En Jesús svaraði engu framar, og undraðist Pílatus það.

En á hátíðinni var hann vanur að gefa þeim lausan einn bandingja, þann er þeir báðu um.

Maður að nafni Barabbas var þá í böndum ásamt upphlaupsmönnum. Höfðu þeir framið manndráp í upphlaupinu.

Nú kom mannfjöldinn og tók að biðja, að Pílatus veitti þeim hið sama og hann væri vanur.

Pílatus svaraði þeim: "Viljið þér, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?"

10 Hann vissi, að æðstu prestarnir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann.

11 En æðstu prestarnir æstu múginn til að heimta, að hann gæfi þeim heldur Barabbas lausan.

12 Pílatus tók enn til máls og sagði við þá: "Hvað á ég þá að gjöra við þann, sem þér kallið konung Gyðinga?"

13 En þeir æptu á móti: "Krossfestu hann!"

14 Pílatus spurði: "Hvað illt hefur hann þá gjört?" En þeir æptu því meir: "Krossfestu hann!"

15 En með því að Pílatus vildi gjöra fólkinu til hæfis, gaf hann þeim Barabbas lausan. Hann lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.

16 Hermennirnir fóru með hann inn í höllina, aðsetur landshöfðingjans, og kölluðu saman alla hersveitina.

17 Þeir færa hann í purpuraskikkju, flétta þyrnikórónu og setja á höfuð honum.

18 Þá tóku þeir að heilsa honum: "Heill þú, konungur Gyðinga!"

19 Og þeir slógu höfuð hans með reyrsprota og hræktu á hann, féllu á kné og hylltu hann.

20 Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr purpuraskikkjunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.

21 En maður nokkur átti leið þar hjá og var að koma utan úr sveit. Hann neyða þeir til að bera kross Jesú. Það var Símon frá Kýrene, faðir þeirra Alexanders og Rúfusar.

22 Þeir fara með hann til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir "hauskúpustaður."

23 Þeir báru honum vín, blandað myrru, en hann þáði ekki.

24 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir skiptu með sér klæðum hans og köstuðu hlutum um, hvað hver skyldi fá.

25 En það var um dagmál, er þeir krossfestu hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes