Add parallel Print Page Options

24 Ef maður gengur að eiga konu og samrekkir henni, en hún finnur síðan ekki náð í augum hans, af því að hann verður var við eitthvað viðbjóðslegt hjá henni, og hann skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur og lætur hana fara burt af heimili sínu, _

ef hún því næst, eftir að hún er farin burt af heimili hans, fer og giftist öðrum manni,

en þessi seinni maður leggur líka óvild á hana og skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur, og lætur hana fara burt af heimili sínu _, eða ef seinni maðurinn, sem kvæntist henni, deyr,

þá má ekki fyrri maður hennar, sá er við hana skildi, taka hana aftur sér að eiginkonu, eftir að hún er saurguð orðin, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni, og þú skalt eigi flekka landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.

Þegar maður er nýkvæntur, þá skal hann ekki fara í hernað og engar álögur skulu á hann lagðar. Hann skal vera frjáls maður fyrir heimili sitt eitt ár, svo að hann gleðji konu sína, er hann hefir gengið að eiga.

Eigi skal taka kvörn eða efri kvarnarstein að veði, því að það væri að taka líf mannsins að veði.

Ef maður verður uppvís að því að stela einhverjum af bræðrum sínum, einhverjum af Ísraelsmönnum, og hann fer með hann sem þræl eða selur hann, þá skal slíkur þjófur deyja. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.

Gæt þín í líkþrárveikindum að athuga vandlega og fara eftir öllu því, sem levítaprestarnir tjá yður. Þér skuluð gæta þess að gjöra svo sem ég hefi fyrir þá lagt.

Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Mirjam á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi.

10 Þegar þú lánar náunga þínum eitthvað, hvað sem það svo er, þá skalt þú eigi ganga inn í hús hans til þess að taka veð af honum.

11 Þú skalt staðnæmast úti fyrir, og sá, er þú lánar, skal færa þér veðið út.

12 Og ef það er snauður maður, þá skalt þú ekki leggjast til hvíldar með veð hans,

13 heldur skalt þú skila honum aftur veðinu um sólarlagsbil, svo að hann geti lagst til hvíldar í yfirhöfn sinni og blessi þig, og það mun talið verða þér til réttlætis fyrir augliti Drottins Guðs þíns.

14 Þú skalt eigi beita fátækan og þurfandi daglaunamann ofríki, hvort sem hann er einn af bræðrum þínum eða útlendingum þeim, er dvelja í landi þínu innan borgarhliða þinna.

15 Þú skalt greiða honum kaup hans sama daginn, áður en sól sest, _ því að hann er fátækur, og hann langar til að fá það _, svo að hann hrópi ekki til Drottins yfir þér og það verði þér til syndar.

16 Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum. Hver skal líflátinn verða fyrir sína eigin synd.

17 Þú skalt ekki halla rétti útlends manns eða munaðarleysingja. Þú skalt ekki taka fatnað ekkjunnar að veði.

18 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig þaðan. Fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.

19 Þegar þú sker upp korn á akri þínum og gleymir kornbundini úti á akrinum, þá skalt þú ekki snúa aftur til að sækja það. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.

20 Þegar þú slær ávexti af olíutrjám þínum, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit í greinum trjánna. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það.

21 Þegar þú tínir víngarð þinn, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það.

22 Þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.

25 Þegar deila rís milli manna og þeir koma fyrir dóm, og dómur hefir upp kveðinn verið yfir þeim með þeim hætti, að hinn saklausi hefir verið sýknaður, en hinn seki dæmdur sekur,

og hinn seki hefir unnið til húðstroku, þá skal dómarinn láta leggja hann niður og láta slá hann í viðurvist sinni eins mörg högg og hæfir misgjörð hans.

Hann má láta slá hann fjörutíu högg, en ekki fleiri, til þess að bróðir þinn verði ekki fyrirlitlegur í augum þínum, ef haldið er áfram að slá hann enn mörg högg.

Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir.

Þegar bræður búa saman og einn þeirra deyr og á engan son, þá skal kona hins látna ekki giftast neinum manni úrættis. Mágur hennar skal ganga inn til hennar og taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana,

en fyrsti sonurinn, er hún fæðir, skal teljast sonur hins látna bróður hans, svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael.

En ef manninn fýsir eigi að ganga að eiga bróðurkonu sína, þá skal hún ganga upp í borgarhliðið, til öldunganna, og segja: "Mágur minn færist undan að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig."

Öldungar borgar hans skulu þá kalla hann fyrir og tala við hann, og ef hann stendur fastur fyrir og segir: "Mig fýsir eigi að ganga að eiga hana,"

þá skal mágkona hans ganga að honum í viðurvist öldunganna, draga skóinn af fæti honum, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: "Svo skal fara með hvern þann, er eigi vill reisa við ætt bróður síns."

10 Og ætt hans skal í Ísrael nefnd Berfótsætt.

11 Þegar tveir menn eru í áflogum, og kona annars hleypur að til þess að hjálpa manni sínum úr höndum þess, er slær hann, og hún réttir út höndina og tekur um hreðjar honum,

12 þá skalt þú höggva af henni höndina og eigi líta hana vægðarauga.

13 Þú skalt ekki hafa tvenns konar vogarsteina í sjóði þínum, annan stærri og hinn minni.

14 Þú skalt ekki hafa tvenns konar efu í húsi þínu, aðra stærri og hina minni.

15 Þú skalt hafa nákvæma og rétta vog, þú skalt hafa nákvæma og rétta efu, til þess að þú lifir lengi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

16 Því að hver sá, er slíkt gjörir, hver sá er ranglæti fremur, er Drottni Guði þínum andstyggilegur.

17 Minnstu þess, hvernig Amalekítar fóru með þig á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi,

18 hvernig þeir réðust á þig á leiðinni og unnu á þeim, er aftastir fóru, öllum þeim er þreyttir voru og aftur úr drógust, þegar þú varst orðinn lúinn og uppgefinn, _ og óttuðust ekki Guð.

19 Fyrir því skalt þú, þegar Drottinn Guð þinn veitir þér hvíld fyrir öllum óvinum þínum allt í kringum þig í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar, afmá nafn Amalekíta af jörðinni. Gleym því ekki.

26 Þegar þú ert kominn inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og þú hefir tekið það til eignar og ert setstur að í því,

þá skalt þú taka nokkuð af frumgróða alls ávaxtar landsins, er þú fær af landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, láta það í körfu og fara með það til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar.

Þú skalt fara til prestsins, sem þá er, og segja við hann: "Ég játa í dag fyrir Drottni Guði þínum, að ég er kominn inn í landið, sem Drottinn sór feðrum vorum að gefa oss."

Og presturinn skal taka körfuna af hendi þér og setja hana niður fyrir framan altari Drottins Guðs þíns.

Þá skalt þú taka til máls og segja frammi fyrir Drottni Guði þínum: "Faðir minn var umreikandi Aramei, og hann fór suður til Egyptalands fáliðaður og dvaldist þar sem útlendingur og varð þar að mikilli, sterkri og fjölmennri þjóð.

En Egyptar fóru illa með oss og þjáðu oss og lögðu á oss þunga þrælavinnu.

Þá hrópuðum vér til Drottins, Guðs feðra vorra, og Drottinn heyrði raust vora og sá eymd vora, þraut og ánauð.

Og Drottinn flutti oss af Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum armlegg, með mikilli skelfingu og með táknum og undrum.

Og hann leiddi oss hingað og gaf oss þetta land, land, sem flýtur í mjólk og hunangi.

10 Og nú færi ég hér frumgróðann af ávexti landsins, þess er þú, Drottinn, hefir gefið mér." Því næst skalt þú setja það niður frammi fyrir Drottni Guði þínum og falla fram fyrir Drottni Guði þínum.

11 Og þú skalt gleðjast yfir öllum þeim gæðum, sem Drottinn Guð þinn hefir gefið þér, þú og skyldulið þitt, og levítinn og útlendingurinn, sem hjá þér eru.

12 Þegar þú hefir greitt alla tíund af afrakstri þínum þriðja árið, tíundarárið, og hefir fengið hana í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni, svo að þau megi eta hana innan borgarhliða þinna og verða mett,

13 þá skalt þú segja frammi fyrir Drottni Guði þínum: "Ég hefi flutt hið heilaga burt úr húsinu og fengið það í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni og farið þannig nákvæmlega eftir boðorði þínu, því er þú hefir fyrir mig lagt. Ég hefi eigi breytt út af neinu boðorða þinna né gleymt nokkru þeirra.

14 Ég hefi eigi etið neitt af því í sorg minni, eigi flutt neitt af því burt, er ég var óhreinn, og eigi gefið dauðum manni neitt af því. Ég hefi hlýtt raustu Drottins Guðs míns og gjört allt eins og þú hefir fyrir mig lagt.

15 Lít niður frá þínum heilaga bústað, frá himnum, og blessa þú lýð þinn Ísrael og landið, sem þú hefir gefið oss, eins og þú sórst feðrum vorum, land sem flýtur í mjólk og hunangi."

16 Í dag býður Drottinn Guð þinn þér að halda þessi lög og ákvæði. Þú skalt því varðveita þau og halda þau af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.

17 Þú hefir látið Drottin lýsa yfir því í dag, að hann vilji vera þinn Guð og að þér skuluð ganga á hans vegum og varðveita lög hans, skipanir og ákvæði og hlýða hans raustu.

18 Og Drottinn hefir látið þig lýsa yfir því í dag, að þú viljir vera hans eignarlýður, eins og hann hefir boðið þér, og að þú viljir varðveita allar skipanir hans,

19 svo að hann geti hafið þig yfir allar þjóðir, er hann hefir skapað, til lofs, frægðar og heiðurs, og þú sért Drottni Guði þínum helgaður lýður, eins og hann hefir sagt.

27 Móse og öldungar Ísraels buðu lýðnum og sögðu: "Varðveitið allar þær skipanir, sem ég legg fyrir yður í dag.

Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú reisa upp stóra steina og strjúka þá utan kalki

og rita á þá öll orð lögmáls þessa, þá er þú ert kominn yfir um, til þess að þú komist inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, land sem flýtur í mjólk og hunangi, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir heitið þér.

Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan, þá skuluð þér reisa upp þessa steina, sem ég hefi mælt fyrir um í dag, á Ebalfjalli og strjúka þá utan kalki.

Þú skalt og reisa Drottni Guði þínum þar altari, altari af steinum. Þú mátt ekki bera að þeim járntól.

Af óhöggnum steinum skalt þú reisa altari Drottins Guðs þíns, og á því skalt þú fórna Drottni Guði þínum brennifórnum.

Og þú skalt slátra heillafórnum og eta þær þar og gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum.

Og þú skalt rita á steinana öll orð þessa lögmáls mjög greinilega."

Móse og levítaprestarnir töluðu til alls Ísraels og sögðu: "Ver hljóður og hlýð á, Ísrael! Í dag ert þú orðinn lýður Drottins, Guðs þíns.

10 Fyrir því skalt þú hlýða raustu Drottins Guðs þíns og halda skipanir hans og lög, sem ég legg fyrir þig í dag."

11 Þennan sama dag bauð Móse lýðnum og sagði:

12 "Þessir skulu standa á Garísímfjalli til þess að blessa lýðinn, þegar þér eruð komnir yfir Jórdan: Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Jósef og Benjamín.

13 Og þessir skulu standa á Ebalfjalli til að lýsa bölvan: Rúben, Gað, Asser, Sebúlon, Dan og Naftalí.

14 Levítarnir skulu taka til máls og segja með hárri raustu við alla Ísraelsmenn:

15 Bölvaður er sá maður, sem býr til skurðgoð eða steypt líkneski, andstyggð Drottni, handaverk smiðs, og reisir það á laun! Og allur lýðurinn skal svara: Amen.

16 Bölvaður er sá, sem óvirðir föður sinn eða móður sína! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

17 Bölvaður er sá, sem færir úr stað landamerki náunga síns! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

18 Bölvaður er sá, sem leiðir blindan mann af réttri leið! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

19 Bölvaður er sá, sem hallar rétti útlends manns, munaðarleysingja eða ekkju! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

20 Bölvaður er sá, sem leggst með konu föður síns, því að hann hefir flett upp ábreiðu föður síns! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

21 Bölvaður er sá, sem hefir samlag við nokkra skepnu! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

22 Bölvaður er sá, sem leggst með systur sinni, hvort heldur hún er dóttir föður hans eða dóttir móður hans! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

23 Bölvaður er sá, sem leggst með tengdamóður sinni! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

24 Bölvaður er sá, sem vegur náunga sinn á laun! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

25 Bölvaður er sá, sem lætur múta sér til þess að vega saklausan mann! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.

26 Bölvaður er sá, sem eigi heldur í gildi orðum þessa lögmáls með því að breyta eftir þeim! Og allur lýðurinn skal segja: Amen."