A A A A A
Bible Book List

Fimmta bók Móse 21-23 Icelandic Bible (ICELAND)

21 Ef maður finnst veginn í landi því, er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, liggjandi úti á víðavangi, en enginn veit, hver hann hefir drepið,

þá skulu öldungar þínir og dómendur fara út og mæla fjarlægðina til borganna, er liggja hringinn í kringum hinn vegna.

Og sú borg, sem næst er hinum vegna, _ öldungar þeirrar borgar skulu taka kvígu, sem eigi hefir höfð verið til vinnu né gengið hefir undir oki.

Því næst skulu öldungar borgarinnar fara með kvíguna ofan í dal með sírennandi vatni, sem hvorki er yrktur né sáinn, og þar í dalnum skulu þeir brjóta kvíguna úr hálsliðnum.

Þá skulu prestarnir, synir Leví, ganga fram, _ því að þá hefir Drottinn Guð þinn útvalið til að þjóna sér og til þess að blessa í nafni Drottins, og eftir atkvæði þeirra skal skera úr öllum þrætumálum og meiðslamálum _,

og allir öldungar þeirrar borgar, þeir er næstir eru hinum vegna, skulu þvo hendur sínar yfir kvígunni, sem hálsbrotin var í dalnum,

og þeir skulu taka til orða og segja: "Vorar hendur hafa ekki úthellt þessu blóði og augu vor hafa ekki séð það.

Fyrirgef, Drottinn, lýð þínum, Ísrael, er þú hefir leyst, og lát ekki lýð þinn Ísrael gjalda saklauss blóðs!" Og þeim skal blóðsökin upp gefin verða.

Þannig skalt þú hreinsa þig af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins.

10 Þegar þú fer í hernað við óvini þína og Drottinn Guð þinn gefur þá í hendur þér og þú hertekur fólk meðal þeirra,

11 og þú sér meðal hinna herteknu konu fríða sýnum og fellir hug til hennar og vilt taka hana þér fyrir konu,

12 þá skalt þú leiða hana inn í hús þitt, og hún skal raka höfuð sitt og skera neglur sínar

13 og fara úr fötum þeim, er hún var hernumin í. Síðan skal hún dvelja í húsi þínu og gráta föður sinn og móður heilan mánuð. Eftir það mátt þú ganga inn til hennar og samrekkja henni og hún vera kona þín.

14 En fari svo, að þú hafir eigi lengur þokka til hennar, þá skalt þú láta hana algjörlega lausa og mátt alls eigi selja hana við verði. Þú skalt ekki fara með hana sem ambátt, fyrir því að þú hefir spjallað hana.

15 Ef maður á tvær konur, og hefir mætur á annarri en lætur sér fátt um hina, og þær fæða honum sonu, bæði sú er hann hefir mætur á og sú er hann lætur sér fátt um, og frumgetni sonurinn er sonur þeirrar, er hann lætur sér fátt um,

16 þá skal honum ekki heimilt vera, er hann skiptir því sem hann á meðal sona sinna, að gjöra son konunnar, sem hann hefir mætur á, frumgetinn fram yfir son þeirrar, er hann lætur sér fátt um og frumgetinn er,

17 heldur skal hann viðurkenna frumgetninginn, son þeirrar, er hann lætur sér fátt um, og gefa honum tvöfaldan hlut af öllu því, er hann á, því að hann er frumgróði styrkleika hans, honum heyrir frumburðarrétturinn.

18 Ef maður á þrjóskan son og ódælan, sem eigi vill hlýða föður sínum og móður, og hann hlýðnast þeim ekki að heldur, þótt þau hirti hann,

19 þá skal faðir hans og móðir taka hann og fara með hann til öldunga borgar hans, að borgarhliðinu, þar sem hann á heima,

20 og segja við öldunga borgar hans: "Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og vill ekki hlýða okkur, hann er svallari og drykkjurútur."

21 Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér, og allur Ísrael skal heyra það og skelfast.

22 Þegar maður drýgir synd, sem varðar lífláti, og hann er líflátinn og þú hengir hann á tré,

23 þá skal líkami hans ekki vera náttlangt á trénu, heldur skalt þú jarða hann samdægurs. Því að sá er bölvaður af Guði, sem hengdur er, og þú skalt ekki saurga land þitt, það er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.

22 Þegar þú sér naut eða sauð bróður þíns á slæðingi, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim, heldur skalt þú reka þau aftur til bróður þíns.

En ef bróðir þinn býr eigi í grennd við þig eða ef þú þekkir hann ekki, þá skalt þú taka það heim til þín og hafa hjá þér, uns bróðir þinn leitar þess. Þá skalt þú fá honum það aftur.

Eins skalt þú og fara með asna hans, og eins skalt þú fara með klæðnað hans, og eins skalt þú fara með hvern þann týndan hlut, er bróðir þinn hefir misst og þú fundið. Þú mátt eigi leiða það hjá þér.

Ef þú sér asna eða uxa bróður þíns liggja afvelta á veginum, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim. Þú skalt vissulega hjálpa honum til að reisa þá á fætur.

Eigi skal kona ganga í karlmannsbúningi og eigi skal karlmaður fara í kvenmannsföt, því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni Guði þínum andstyggilegur.

Ef fuglshreiður verður fyrir þér á leið þinni, uppi í tré eða á jörðinni, með ungum í eða eggjum, og móðirin liggur á ungunum eða eggjunum, þá skalt þú ekki taka móðurina ásamt ungunum.

Þú skalt sleppa móðurinni, en taka ungana eina, til þess að þér vegni vel og þú lifir langa ævi.

Þegar þú reisir nýtt hús, skalt þú gjöra brjóstrið allt í kring uppi á þakinu, svo að ekki bakir þú húsi þínu blóðsekt, ef einhver kynni að detta ofan af því.

Þú skalt eigi sá víngarð þinn tvenns konar sæði, svo að allt falli ekki undir helgidóminn, sæðið, sem þú sáir, og eftirtekjan af víngarðinum.

10 Þú skalt ekki plægja með uxa og asna saman.

11 Þú skalt ekki fara í föt, sem ofin eru af tvenns konar efni, af ull og hör saman.

12 Þú skalt gjöra þér skúfa á fjögur skaut skikkju þinnar, þeirrar er þú sveipar um þig.

13 Nú gengur maður að eiga konu, en fær óbeit á henni, er hann hefir samrekkt henni,

14 og ber á hana svívirðilegar sakir og ófrægir hana og segir: "Ég gekk að eiga þessa konu, en er ég kom nærri henni, fann ég ekki meydómsmerki hjá henni,"

15 þá skulu foreldrar stúlkunnar taka meydómsmerki hennar og fara með þau til öldunga borgarinnar í borgarhliðið,

16 og faðir stúlkunnar skal segja við öldungana: "Dóttur mína gaf ég þessum manni að eiginkonu, en hann hefir óbeit á henni.

17 Nú ber hann svívirðilegar sakir á hana og segir: ,Ég fann eigi meydómsmerki hjá dóttur þinni.` En hér eru sannanir fyrir meydómi dóttur minnar!" Og þau skulu breiða út rekkjuklæðið í augsýn öldunga borgarinnar.

18 Og öldungar borgarinnar skulu taka manninn og refsa honum,

19 og þeir skulu gjöra bætur á hendur honum, hundrað sikla silfurs, og greiða þá föður stúlkunnar, fyrir það að hann ófrægði mey í Ísrael. Og hún skal vera kona hans, honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína.

20 En ef það reynist satt, og sönnur verða eigi á það færðar að stúlkan hafi hrein mey verið,

21 þá skal fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar, og borgarmenn skulu lemja hana grjóti til bana, því að hún hefir framið óhæfuverk í Ísrael, með því að hórast í föðurgarði. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.

22 Ef maður er staðinn að því að liggja hjá konu annars manns, þá skulu þau bæði deyja, maðurinn, sem lá hjá konunni, og konan sjálf. Þannig skalt þú útrýma hinu illa úr Ísrael.

23 Nú er mey manni föstnuð, og karlmaður hittir hana innan borgar og leggst með henni,

24 þá skuluð þér leiða þau bæði að borgarhliðinu og lemja þau grjóti til bana, stúlkuna vegna þess að hún kallaði ekki, þó að hún væri inni í borginni, og manninn vegna þess að hann spjallaði konu náunga síns. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.

25 En ef maðurinn hittir föstnuðu stúlkuna úti á víðavangi, og hann tekur hana með valdi og leggst með henni, þá skal maðurinn einn deyja, sá er með henni lagðist.

26 En stúlkunni skalt þú ekkert gjöra. Hún hefir ekki framið neitt það, sem dauða sé vert, því að hér stóð eins á og þegar maður ræðst á náunga sinn og drepur hann.

27 Því að þar sem hann hitti hana úti á víðavangi, kann fastnaða stúlkan að hafa kallað, en enginn verið við til að hjálpa henni.

28 Ef maður hittir mey, sem eigi er föstnuð, og hann tekur hana og leggst með henni og komið er að þeim,

29 þá skal maðurinn, er lagðist með henni, greiða föður stúlkunnar fimmtíu sikla silfurs, en hún skal verða kona hans, fyrir því að hann hefir spjallað hana. Honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína.

30 Eigi skal maður ganga að eiga konu föður síns né fletta upp ábreiðu föður síns.

23 Enginn sá, er meiddur hefir verið eistnamari eða hreðurskorinn, má vera í söfnuði Drottins.

Enginn bastarður má vera í söfnuði Drottins, jafnvel ekki tíundi maður frá honum má vera í söfnuði Drottins.

Enginn Ammóníti eða Móabíti má vera í söfnuði Drottins. Jafnvel ekki tíundi maður frá þeim má vera í söfnuði Drottins að eilífu,

vegna þess að þeir komu ekki í móti yður með brauð og vatn, þá er þér voruð á leiðinni frá Egyptalandi, og vegna þess að þeir keyptu í móti þér Bíleam Beórsson frá Petór í Mesópótamíu til þess að bölva þér.

En Drottinn Guð þinn vildi ekki hlýða á Bíleam, og Drottinn Guð þinn sneri bölvaninni í blessan fyrir þig, af því að Drottinn Guð þinn elskaði þig.

Þú skalt aldrei alla ævi þína láta þér annt um farsæld þeirra og velgengni.

Þú skalt eigi hafa andstyggð á Edómítum, því að þeir eru bræður þínir. Þú skalt eigi hafa andstyggð á Egyptum, því að þú dvaldir sem útlendingur í landi þeirra.

Afkomendur þeirra í þriðja lið mega vera í söfnuði Drottins.

Þegar þú fer í hernað móti óvinum þínum, þá skalt þú gæta þín við öllum illum hlutum.

10 Ef einhver, sem með þér er, er ekki hreinn vegna þess, sem hann hefir hent um nóttina, þá skal hann ganga út fyrir herbúðirnar og má eigi koma inn í herbúðirnar,

11 en að áliðnum degi skal hann lauga sig í vatni, og er sól er setst, má hann aftur ganga inn í herbúðirnar.

12 Þú skalt og hafa afvikinn stað fyrir utan herbúðirnar. Þangað skalt þú fara erinda þinna.

13 Og þú skalt hafa spaða í tækjum þínum, og er þú þarft að setjast niður úti, þá skalt þú grafa holu með honum, moka því næst aftur yfir og hylja saurindin.

14 Því að Drottinn Guð þinn er á gangi um herbúðir þínar til þess að frelsa þig og gefa óvini þína á þitt vald; fyrir því skulu herbúðir þínar helgar vera, svo að hann sjái ekkert óþokkalegt hjá þér og snúi sér burt frá þér.

15 Þú skalt eigi framselja í hendur húsbónda þræl, sem flúið hefir til þín frá húsbónda sínum.

16 Hann skal setjast að hjá þér, í landi þínu, á þeim stað, er hann sjálfur velur, í einhverri af borgum þínum, þar sem honum best líkar. Þú skalt ekki sýna honum ójöfnuð.

17 Á meðal Ísraels dætra má engin vera, sú er helgi sig saurlifnaði, og á meðal Ísraels sona má enginn vera, sá er helgi sig saurlifnaði.

18 Þú skalt eigi bera skækjulaun eða hundsgjald inn í hús Drottins Guðs þíns eftir neinu heiti, því að einnig hvort tveggja þetta er Drottni Guði þínum andstyggilegt.

19 Þú skalt ekki taka fjárleigu af bróður þínum, hvorki fyrir peninga, matvæli né nokkurn hlut annan, er ljá má gegn leigu.

20 Af útlendum manni mátt þú taka fjárleigu, en af bróður þínum mátt þú ekki taka fjárleigu, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur í landinu, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.

21 Þegar þú gjörir Drottni Guði þínum heit, þá skalt þú ekki láta dragast að efna það, því að ella mun Drottinn Guð þinn krefjast þess af þér og það verða þér til syndar.

22 En þótt þú sleppir því að gjöra heit, þá hvílir engin sekt á þér fyrir það.

23 Það sem komið hefir yfir varir þínar, skalt þú halda og breyta eftir því, eins og þú sjálfviljuglega hefir heitið Drottni Guði þínum, það sem þú hefir talað með munni þínum.

24 Þegar þú kemur í víngarð náunga þíns, þá mátt þú eta vínber eins og þig lystir, þar til er þú ert mettur, en í ker þitt mátt þú ekkert láta.

25 Þegar þú kemur á kornakur náunga þíns, þá mátt þú tína öx með hendinni, en sigð mátt þú ekki sveifla yfir kornstöngum náunga þíns.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes