A A A A A
Bible Book List

Fimmta bók Móse 14-16 Icelandic Bible (ICELAND)

14 Þér eruð börn Drottins, Guðs yðar. Þér skuluð eigi rista skinnsprettur á yður né raka yður krúnu eftir framliðinn mann.

Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður, og þig hefir Drottinn kjörið til að vera eignarlýður hans umfram allar þjóðir, sem á jörðinni eru.

Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt.

Þessi eru þau ferfætt dýr, sem þér megið eta: naut, sauðfé og geitfé,

hirtir, skógargeitur, dáhirtir, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur.

Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta.

Af þeim sem jórtra, og af þeim sem alklofnar klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, hérann og stökkhérann, því að þeir jórtra að sönnu, en hafa eigi klaufir; þeir séu yður óhreinir, _

og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta.

Af lagardýrunum megið þér eta þessi: Öll þau, sem hafa sundugga og hreistur, megið þér eta,

10 en öll þau, sem ekki hafa sundugga og hreistur, megið þér ekki eta; þau séu yður óhrein.

11 Alla hreina fugla megið þér eta,

12 en þessa megið þér ekki eta: örninn, skegggamminn og gamminn,

13 gleðuna og fálkakynið, _

14 allt hrafnakynið, _

15 strútinn, svöluna, mávinn og haukakynið, _

16 ugluna, náttugluna og hornugluna,

17 pelíkanann, hrægamminn og súluna,

18 storkinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblökuna.

19 Öll fleyg skriðkvikindi séu yður óhrein; þau má eigi eta.

20 Öll hrein flugdýr megið þér eta.

21 Þér skuluð ekki eta neitt sjálfdautt. Útlendum manni, sem er innan borgarhliða þinna, mátt þú gefa það til að eta, eða selja það aðkomnum manni, því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.

22 Þú skalt tíunda vandlega allan ávöxt af útsæði þínu, allt það er vex á mörkinni, á ári hverju,

23 og þú skalt eta frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann velur til þess að láta nafn sitt búa þar, tíundina af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni og frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, svo að þú lærir að óttast Drottin Guð þinn alla daga.

24 Og sé vegurinn of langur fyrir þig og getir þú eigi borið það, af því að staðurinn, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er langt í burtu frá þér, þegar Drottinn Guð þinn hefir blessað þig,

25 þá skalt þú koma því í peninga, taka silfrið með þér og geyma þess vel og fara til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur.

26 Og fyrir silfrið skalt þú kaupa hvað sem þig lystir, nautgripi, sauðfé, vín, áfengan drykk eða hvað annað, sem þig langar í, og þú skalt neyta þess þar frammi fyrir Drottni Guði þínum og gleðja þig ásamt fjölskyldu þinni.

27 Og levítana, sem eru innan borgarhliða þinna, skalt þú ekki setja hjá, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér.

28 Þriðja hvert ár skalt þú færa út alla tíund af ávexti þínum það árið og leggja hana niður innan borgarhliða þinna,

29 svo að levítar, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér, útlendingar, munaðarleysingjar og ekkjur þær, sem eru innan borgarhliða þinna, megi koma og eta sig mett, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur að gjöra.

15 Sjöunda hvert ár skalt þú veita umlíðun skulda.

En þeirri umlíðun er svo farið: Sérhver lánardrottinn skal veita umlíðun á því, sem hann hefir lánað náunga sínum. Hann skal eigi ganga hart að náunga sínum og bróður, því að umlíðun hefir boðuð verið Drottni til dýrðar.

Að útlendum manni mátt þú ganga hart, en það, sem þú átt hjá bróður þínum, skalt þú líða hann um.

Reyndar mun enginn fátækur hjá þér vera, því að Drottinn mun blessa þig ríkulega í landi því, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar,

ef þú aðeins hlýðir kostgæfilega raustu Drottins Guðs þíns með því að gæta þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag.

Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig, eins og hann hefir heitið þér, svo að þú munt lána mörgum þjóðum, en sjálfur eigi þurfa að taka lán, og þú munt drottna yfir mörgum þjóðum, en þær munu eigi drottna yfir þér.

Ef með þér er fátækur maður, einhver af bræðrum þínum, í einhverri af borgum þínum í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki herða hjarta þitt og eigi afturlykja hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum,

heldur skalt þú upp ljúka hendi þinni fyrir honum og lána honum fúslega það, er nægi til að bæta úr skorti hans.

Gæt þín, að eigi komi sú ódrengskaparhugsun upp í hjarta þínu: "Sjöunda árið, umlíðunarárið, er fyrir hendi!" og að þú lítir eigi fátækan bróður þinn óblíðu auga og gefir honum ekkert, svo að hann hrópi til Drottins yfir þér, og það verði þér til syndar.

10 Miklu fremur skalt þú gefa honum og eigi gjöra það með illu geði, því að fyrir það mun Drottinn Guð þinn blessa þig í öllu verki þínu og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur,

11 því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu. Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt fúslega upp ljúka hendi þinni fyrir bróður þínum, fyrir þurfamanninum og hinum fátæka í landi þínu.

12 Ef bróðir þinn, hebreskur maður eða hebresk kona, selur sig þér, þá skal hann þjóna þér í sex ár, en sjöunda árið skalt þú láta hann lausan frá þér fara.

13 Og þegar þú lætur hann lausan frá þér fara, þá skalt þú ekki láta hann fara tómhentan.

14 Þú skalt gjöra hann vel úr garði og gefa honum af hjörð þinni, úr láfa þínum og vínþröng þinni, þú skalt gefa honum af því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með.

15 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig. Fyrir því legg ég þetta fyrir þig í dag.

16 En segi hann við þig: "Ég vil ekki fara frá þér," af því að honum er orðið vel við þig og skyldulið þitt, með því að honum líður vel hjá þér,

17 þá skalt þú taka al og stinga í gegnum eyra honum inn í hurðina, og skal hann síðan vera þræll þinn ævinlega. Á sömu leið skalt þú og fara með ambátt þína.

18 Lát þér eigi fallast um það, þótt þú eigir að láta hann lausan frá þér fara, því að í sex ár hefir hann unnið þér tvöfalt, miðað við kaup kaupamanns. Og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í öllu, sem þú gjörir.

19 Alla frumburði karlkyns, sem fæðast á meðal nautgripa þinna og sauðfjár þíns, skalt þú helga Drottni Guði þínum. Frumburði nauta þinna skalt þú ekki hafa til vinnu né klippa frumburði sauðfjár þíns.

20 Frammi fyrir augliti Drottins Guðs þíns skalt þú eta þá á ári hverju á þeim stað, sem Drottinn velur, ásamt skylduliði þínu.

21 En ef einhver lýti eru á þeim, ef þeir eru haltir eða blindir eða hafa einhvern annan slæman galla, þá skalt þú eigi fórna þeim Drottni Guði þínum.

22 Innan borgarhliða þinna skalt þú eta þá, og það jafnt óhreinn sem hreinn, sem væri það skógargeit eða hjörtur.

23 Blóðsins eins skalt þú ekki neyta; þú skalt hella því á jörðina sem vatni.

16 Gæt þess að halda Drottni Guði þínum páska í abíbmánuði, því að í abíbmánuði leiddi Drottinn Guð þinn þig á náttarþeli út af Egyptalandi.

Og þú skalt slátra sauðum og nautum í páskafórn til handa Drottni Guði þínum á þeim stað, sem Drottinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar.

Þú mátt ekki eta sýrt brauð með því; í sjö daga skalt þú eta með því ósýrð brauð, neyðarbrauð _ því að í flýti fórst þú af Egyptalandi, _ til þess að þú minnist brottfarardags þíns af Egyptalandi alla ævi þína.

Ekki má súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja í sjö daga, og ekkert af kjöti því, er þú fórnar að kveldi fyrsta daginn, skal liggja náttlangt til morguns.

Þú mátt eigi slátra páskafórninni í einhverri af borgum þeim, er Drottinn Guð þinn gefur þér,

heldur skalt þú slátra páskafórninni á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, að kveldi um sólarlagsbil,

í það mund, er þú fórst af Egyptalandi. Og þú skalt sjóða það og eta á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, og morguninn eftir skalt þú snúa á leið og halda heim til tjalda þinna.

Sex daga skalt þú eta ósýrð brauð, og sjöunda daginn skal vera hátíðafundur til handa Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna.

Sjö vikur skalt þú telja. Frá þeim tíma, er sigðin fyrst var borin að kornstöngunum, skalt þú byrja að telja sjö vikur.

10 Þá skalt þú halda Drottni Guði þínum viknahátíðina með sjálfviljagjöfum þeim, er þú innir af hendi, eftir því sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig.

11 Og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem með þér eru, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar.

12 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, og þú skalt gæta þess að halda þessi lög.

13 Laufskálahátíðina skalt þú halda í sjö daga, er þú alhirðir af láfa þínum og úr vínþröng þinni.

14 Og þú skalt gleðjast á hátíð þinni, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem eru innan borgarhliða þinna.

15 Í sjö daga skalt þú halda Drottni Guði þínum hátíð á þeim stað, sem Drottinn velur, því að Drottinn Guð þinn mun láta þér blessast allan jarðargróða þinn og öll handaverk þín. Fyrir því skalt þú gleðjast mikillega.

16 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann mun velja: á hátíð hinna ósýrðu brauða, á viknahátíðinni og á laufskálahátíðinni. Og fyrir Drottin skal enginn koma tómhentur.

17 Hver og einn skal koma með það, er hann getur látið af hendi rakna, eftir þeirri blessun, sem Drottinn Guð þinn hefir veitt þér.

18 Dómendur og tilsjónarmenn skalt þú skipa í öllum borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér, eftir ættkvíslum þínum, og þeir skulu dæma lýðinn réttlátum dómi.

19 Þú skalt eigi halla réttinum. Þú skalt eigi gjöra þér mannamun og eigi þiggja mútu, því að mútan blindar augu hinna vitru og umhverfir máli hinna réttlátu.

20 Réttlætinu einu skalt þú fram fylgja, til þess að þú megir lifa og fá til eignar landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

21 Þú skalt ekki gróðursetja aséru af neins konar tré hjá altari Drottins Guðs þíns, því er þú gjörir þér.

22 Þú skalt ekki reisa þér neinn merkisstein, þann er Drottinn Guð þinn hatar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes