Add parallel Print Page Options

Þessi eru þau orð, er Móse talaði við allan Ísrael hinumegin Jórdanar í eyðimörkinni, á sléttlendinu gegnt Súf, á milli Paran, Tófel, Laban, Haserót og Dí-Sahab. (

Eru ellefu dagleiðir frá Hóreb til Kades Barnea, þegar farin er leiðin, sem liggur til Seírfjalla.)

Á fertugasta ári, á fyrsta degi hins ellefta mánaðar, birti Móse Ísraelsmönnum allt það, er Drottinn hafði boðið honum um þá,

eftir að hann hafði unnið á Síhon Amorítakonungi, sem hafði aðsetur í Hesbon, og Óg, konungi í Basan, sem hafði aðsetur í Astarót, hjá Edreí.

Hinumegin Jórdanar, í Móabslandi, tók Móse að skýra lögmál þetta og mælti:

Drottinn, Guð vor, talaði við oss á Hóreb á þessa leið: "Þér hafið nú dvalið nógu lengi á þessu fjalli.

Snúið á leið, leggið af stað og haldið til fjalllendis Amoríta og allra nábúa þeirra á sléttlendinu, í fjalllendinu, á láglendinu, í Suðurlandinu, á sjávarströndinni, inn í land Kanaaníta og til Líbanon, allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins.

Sjá, ég fæ yður landið. Farið og takið til eignar landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim og niðjum þeirra eftir þá."

Þá sagði ég við yður: "Ég rís ekki einn undir yður.

10 Drottinn, Guð yðar, hefir margfaldað yður, og sjá, þér eruð í dag að fjölda til sem stjörnur himins.

11 Drottinn, Guð feðra yðar, gjöri yður þúsund sinnum fleiri en þér eruð og blessi yður, eins og hann hefir heitið yður.

12 Hvernig fæ ég einn borið þyngslin af yður, þunga yðar og deilur yðar!

13 Veljið til vitra menn, skynsama og valinkunna af hverri kynkvísl yðar, og mun ég skipa þá höfðingja yfir yður."

14 Þá svöruðuð þér mér og sögðuð: "Það er vel til fallið að gjöra það, sem þú talar um."

15 Tók ég þá ætthöfðingja yðar, vitra menn og valinkunna, og skipaði þá höfðingja yfir yður, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu, og tilsjónarmenn meðal ættkvísla yðar.

16 Ég lagði þá svo fyrir dómendur yðar: "Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega, hvort heldur mann greinir á við bróður sinn eða útlending, er hjá honum dvelur.

17 Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs. En ef eitthvert mál er yður ofvaxið, þá skjótið því til mín, og skal ég sinna því."

18 Þannig lagði ég þá fyrir yður allt það, er þér skylduð gjöra.

19 Því næst lögðum vér upp frá Hóreb og fórum yfir alla eyðimörkina miklu og hræðilegu, sem þér hafið séð, leiðina til fjalllendis Amoríta, eins og Drottinn Guð vor hafði fyrir oss lagt. Og vér komum til Kades Barnea.

20 Þá sagði ég við yður: "Þér eruð komnir að fjalllendi Amoríta, sem Drottinn, Guð vor, gefur oss.

21 Sjá, Drottinn Guð þinn hefir fengið þér landið. Far þú og tak það til eignar, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir boðið þér. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast."

22 Þá genguð þér allir til mín og sögðuð: "Sendum menn á undan oss, að þeir megi kanna landið fyrir oss og færa oss fregnir af veginum, sem vér eigum að fara, og af borgunum, er vér munum koma til."

23 Mér féll þetta vel í geð, og tók ég tólf menn af yður, einn mann af ættkvísl hverri.

24 Og þeir fóru af stað og héldu norður til fjalla og komust í Eskóldal og könnuðu landið.

25 Tóku þeir með sér nokkuð af ávöxtum landsins og færðu oss. Og þeir fluttu oss fregnir og sögðu: "Gott er landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss."

26 En þér vilduð eigi fara þangað og óhlýðnuðust skipun Drottins, Guðs yðar.

27 Og þér mögluðuð í tjöldum yðar og sögðuð: "Af því að Drottinn hataði oss, hefir hann leitt oss burt af Egyptalandi til þess að selja oss í hendur Amorítum, svo að þeir eyði oss.

28 Hvert erum vér að fara? Bræður vorir hafa skelft hjörtu vor með því að segja: ,Fólkið er stærra og hærra að vexti en vér. Borgirnar eru stórar og víggirtar hátt í loft upp. Vér höfum meira að segja séð þar Anakíta."`

29 Þá sagði ég við yður: "Látið eigi hugfallast og hræðist þá ekki.

30 Drottinn Guð yðar, sem fyrir yður fer, mun berjast fyrir yður, eins og hann hjálpaði yður bersýnilega í Egyptalandi

31 og á eyðimörkinni, þar sem þú sást, hvernig Drottinn, Guð þinn bar þig, eins og faðir ber barn sitt, alla þá leið, er þér hafið farið, þar til er þér komuð hingað."

32 En þrátt fyrir allt þetta vilduð þér ekki treysta Drottni Guði yðar,

33 sem gekk á undan yður á leiðinni til að leita upp tjaldstaði handa yður, á næturnar í eldi til þess að vísa yður veginn, sem þér ættuð að halda, en á daginn í skýi.

34 En er Drottinn heyrði umtölur yðar, varð hann reiður, sór og sagði:

35 "Sannlega skal enginn af þessum mönnum, af þessari illu kynslóð, fá að sjá landið góða, sem ég sór að gefa feðrum yðar,

36 nema Kaleb Jefúnneson, hann skal fá að sjá það. Honum mun ég gefa landið, sem hann hefir stigið fæti á, og sonum hans, sökum þess að hann hefir fylgt Drottni trúlega."

37 Drottinn reiddist mér einnig yðar vegna og sagði: "Þú skalt ekki heldur komast þangað.

38 Jósúa Núnsson, sem stendur fyrir augliti þínu, hann skal komast þangað. Tel þú hug í hann, því að hann mun úthluta því Ísrael til eignar.

39 Börn yðar, sem þér sögðuð að mundu verða fjandmönnunum að bráð, og synir yðar, sem í dag vita eigi grein góðs og ills, munu komast þangað. Þeim vil ég gefa það, og þeir skulu fá það til eignar.

40 En þér skuluð snúa á leið og halda inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins."

41 Þá svöruðuð þér og sögðuð við mig: "Vér höfum syndgað gegn Drottni. Vér viljum fara og berjast, eins og Drottinn Guð vor hefir boðið oss." Og þér gyrtuð yður, hver sínum hervopnum, og tölduð það hægðarleik að leggja upp á fjöllin.

42 Þá sagði Drottinn við mig: "Seg þeim: ,Þér skuluð eigi fara þangað og eigi berjast, því að ég er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar."`

43 Og ég talaði til yðar, en þér gegnduð ekki, heldur óhlýðnuðust skipun Drottins og gjörðuð yður svo djarfa að leggja upp á fjöllin.

44 Fóru þá Amorítar, sem bjuggu á fjöllum þessum, í móti yður, eltu yður, eins og býflugur gjöra, og tvístruðu yður alla leið frá Seír til Horma.

45 Og þér hurfuð aftur og grétuð frammi fyrir Drottni, en Drottinn heyrði ekki bænir yðar og hlýddi ekki á yður.

46 Þannig hélduð þér kyrru fyrir í Kades langan tíma, eins langan tíma og þér dvölduð þar.

Síðan snerum vér á leið og héldum inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins, eins og Drottinn hafði boðið mér, og vér fórum í kringum Seírfjöll marga daga.

Þá sagði Drottinn við mig:

"Þér hafið farið nógu lengi í kringum fjöll þessi. Haldið nú í norður.

En bjóð þú lýðnum og seg: ,Þér farið nú yfir landamerki bræðra yðar, Esaú sona, sem búa í Seír, og þeir munu verða hræddir við yður. En gætið þess vandlega

að gjöra þeim engan ófrið, því að ekki mun ég gefa yður svo mikið sem þverfet af landi þeirra, því að ég hefi gefið Esaú Seírfjöll til eignar.

Mat skuluð þér kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið eta, og vatn skuluð þér einnig kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið drekka.

Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur. Hann hefir borið umhyggju fyrir för þinni um þessa miklu eyðimörk. Í fjörutíu ár hefir Drottinn Guð þinn nú verið með þér; ekkert hefir þig skort."`

Síðan héldum vér áfram burt frá bræðrum vorum Esaú sonum, sem búa í Seír, burt frá veginum yfir sléttlendið, burt frá Elat og Esjón Geber, og beygðum við og héldum leiðina til Móabseyðimerkur.

Þá sagði Drottinn við mig: "Leitið eigi á Móabíta og hefjið engan ófrið við þá, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi þeirra til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum Ar til eignar.

10 (Emítar bjuggu þar forðum, mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar.

11 Þeir voru og taldir Refaítar, eins og Anakítar, en Móabítar kölluðu þá Emíta.

12 Hórítar bjuggu og forðum í Seír, en Esaú synir hröktu þá burt og eyddu þeim, en settust sjálfir að löndum þeirra, eins og Ísrael gjörði við eignarland sitt, er Drottinn hafði gefið þeim.)

13 Takið yður nú upp og farið yfir Seredá." Og vér fórum yfir Seredá.

14 Í þrjátíu og átta ár vorum vér á leiðinni frá Kades Barnea, til þess er vér fórum yfir Seredá, uns öll kynslóðin, hinir vopnfæru menn, var dáin úr herbúðunum, eins og Drottinn hafði svarið þeim.

15 Hönd Drottins var einnig á móti þeim, svo að hann eyddi þeim úr herbúðunum, uns enginn þeirra var eftir.

16 En er allir vopnfærir menn af lýðnum voru dánir,

17 þá mælti Drottinn til mín þessum orðum:

18 "Þú fer í dag um land Móabíta, fram hjá Ar,

19 og munt þú þá koma í nánd við Ammóníta, en eigi skalt þú leita á þá né gjöra þeim nokkurn ófrið, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi Ammóníta til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum það til eignar.

20 (Það er og talið land Refaíta. Refaítar bjuggu þar forðum og kölluðu Ammónítar þá Samsúmmíta,

21 mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar. En Drottinn eyddi þeim fyrir Ammónítum, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað,

22 eins og hann gjörði fyrir Esaú sonu, sem búa í Seír, þá er hann eyddi Hórítum fyrir þeim, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað, og er svo enn í dag.

23 Svo var og um Avíta, sem bjuggu í þorpum allt til Gasa. Kaftórítar komu frá Kaftór og eyddu þeim og settust sjálfir að löndum þeirra.)

24 Takið yður nú upp og haldið af stað og farið yfir Arnoná. Sjá, ég hefi gefið á þitt vald Amorítann Síhon, konung í Hesbon, og land hans. Tak nú til að vinna landið og legg til orustu við hann.

25 Skal ég láta það hefjast í dag, að öllum þjóðum undir himninum standi af þér ótti og hræðsla. Ef þær heyra þig nefndan á nafn, skulu þær fá í sig hræðslu og kvíða fyrir þér."

26 Þá gjörði ég menn úr Kedemóteyðimörk á fund Síhons, konungs í Hesbon, með svolátandi friðarorð:

27 "Leyf mér að fara um land þitt. Mun ég fara rétta þjóðleið og skal ég eigi sveigja af til hægri né vinstri.

28 Mat munt þú selja mér fyrir silfur, að ég megi eta, og vatn skalt þú láta mig fá fyrir silfur, að ég megi drekka. Leyf mér aðeins að fara um fótgangandi _,

29 eins og þeir leyfðu mér, Esaú synir, sem búa í Seír, og Móabítar, sem búa í Ar _, uns ég fer yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss."

30 En Síhon, konungur í Hesbon, vildi ekki leyfa oss að fara um land sitt, því að Drottinn Guð þinn herti anda hans og gjörði hjarta hans þverúðarfullt, af því að hann vildi gefa hann í þínar hendur, eins og nú er fram komið.

31 Drottinn sagði við mig: "Sjá, ég hefi byrjað að selja þér í hendur Síhon og land hans. Tak nú til að vinna það, svo að þú megir eignast land hans."

32 Fór Síhon þá í móti oss með öllu liði sínu og átti orustu við oss hjá Jahas.

33 En Drottinn Guð vor gaf hann á vort vald, svo að vér unnum sigur á honum, sonum hans og öllu liði hans.

34 Þá unnum vér og á sama tíma allar borgir hans og gjöreyddum hverja borg að karlmönnum, konum og börnum. Vér létum engan undan komast.

35 Fénaðinn einn tókum vér að herfangi, svo og ránsfenginn úr borgunum, er vér höfðum unnið.

36 Frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og frá borginni, sem liggur í dalnum, alla leið til Gíleað var engin sú borg, er oss væri ókleift að vinna. Drottinn Guð vor gaf þær allar á vort vald.

37 Aðeins komst þú ekki nærri landi Ammóníta, héraðinu fram við Jabboká, borgunum í fjalllendinu, né nokkru því, sem Drottinn Guð vor hafði bannað oss.

Snerum vér nú á leið og héldum veginn, sem liggur til Basan. En Óg, konungur í Basan, fór í móti oss með öllu liði sínu til þess að heyja bardaga hjá Edreí.

Þá sagði Drottinn við mig: "Eigi skalt þú óttast hann, því að ég gef hann og lið hans allt og land hans í þínar hendur, og skalt þú svo fara með hann eins og þú fórst með Síhon, Amorítakonung, er bjó í Hesbon."

Drottinn Guð vor gaf oss þannig og í hendur Óg, konung í Basan, og lið hans allt, og vér felldum hann, svo að enginn var eftir skilinn, er undan kæmist.

Þá unnum vér allar borgir hans. Var engin sú borg, að vér eigi næðum henni frá þeim: sextíu borgir, allt Argóbhérað, konungsríki Ógs í Basan.

Allt voru þetta borgir víggirtar háum múrveggjum, hliðum og slagbröndum, auk mikils fjölda af óumgirtum þorpum.

Og vér gjöreyddum þær, eins og vér höfðum áður gjört við Síhon, konung í Hesbon, með því að gjöreyða hverja borg að karlmönnum, konum og börnum.

En fénaðinn allan og ránsfenginn úr borgunum tókum vér að herfangi.

Þannig tókum vér í það skipti úr höndum beggja Amorítakonunga land allt hinumegin Jórdanar frá Arnoná til Hermonfjalls

(Hermon kalla Sídoningar Sirjon, en Amorítar kalla það Senír),

10 allar borgir á sléttlendinu, Gíleað allt og Basan, alla leið til Salka og Edreí, þær borgir í Basan, er heyrðu konungsríki Ógs.

11 Því að Óg, konungur í Basan, var sá eini, sem eftir var af Refaítum. Sjá, líkkista hans var gjör úr járni og er enn til í Rabba hjá Ammónítum. Hún er níu álna löng og fjögra álna breið eftir venjulegu alinmáli.

12 Þetta land tókum vér þá til eignar. Frá Aróer, sem liggur við Arnoná, og hálft Gíleaðfjalllendi og borgirnar í því gaf ég Rúbenítum og Gaðítum,

13 en það, sem eftir var af Gíleað, og allt Basan, konungsríki Ógs, gaf ég hálfri ættkvísl Manasse, allt Argóbhérað. Basan allt er kallað Refaítaland.

14 Jaír, son Manasse, nam allt Argóbhérað allt að landamærum Gesúríta og Maakatíta og kallaði það, sem sé Basan, eftir nafni sínu Jaírsþorp, og helst það nafn enn í dag.

15 Makír gaf ég Gíleað,

16 og Rúbenítum og Gaðítum gaf ég land frá Gíleað suður að Arnoná, í dalinn miðjan, _ voru það suðurtakmörkin, _ og alla leið að Jabboká, sem er á landamærum Ammóníta.

17 Enn fremur sléttlendið með Jórdan á mörkum, frá Genesaretvatni suður að vatninu á sléttlendinu, Saltasjó, undir Pisgahlíðum, austanmegin.

18 Þá bauð ég yður og sagði: "Drottinn Guð yðar hefir gefið yður þetta land til eignar. Farið vígbúnir fyrir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, allir þér sem vopnfærir eruð.

19 En konur yðar og börn og búsmali yðar _ ég veit að þér eigið mikinn fénað _ skal verða eftir í borgunum, sem ég hefi gefið yður,

20 þar til er Drottinn Guð yðar veitir bræðrum yðar hvíld, eins og yður, og þeir hafa líka tekið til eignar land það, er Drottinn Guð yðar gefur þeim hinumegin Jórdanar. Þá megið þér snúa aftur, hver til óðals síns, er ég hefi gefið yður."

21 Jósúa bauð ég þá og sagði: "Þú hefir séð allt það með eigin augum, sem Drottinn Guð yðar hefir gjört þessum tveimur konungum. Eins mun Drottinn fara með öll þau konungaríki, sem þú ert á leið til.

22 Eigi skuluð þér óttast þau, því að Drottinn Guð yðar berst fyrir yður."

23 Þá bað ég Drottin líknar og sagði:

24 "Ó Drottinn Guð! Þú hefir nú þegar sýnt þjóni þínum, hve mikill þú ert og hve sterk hönd þín er, því að hver er sá guð á himni eða jörðu, sem gjöri önnur eins verk og þú og jafnmikil máttarverk?

25 Æ, leyf mér að fara yfir um og sjá landið góða, sem er hinumegin Jórdanar, þetta fagra fjalllendi og Líbanon."

26 En Drottinn reiddist mér yðar vegna og bænheyrði mig ekki, og Drottinn sagði við mig: "Nóg um það. Tala eigi meira um þetta mál við mig.

27 Far þú upp á Pisgatind og horf þú í vestur, norður, suður og austur og lít það með augum þínum, því að þú munt ekki komast yfir hana Jórdan.

28 En skipa þú Jósúa foringja og tel hug í hann og gjör hann öruggan, því að hann skal fara yfir um fyrir þessu fólki og hann skal skipta milli þeirra landinu, sem þú sér."

29 Dvöldum vér nú um hríð í dalnum á móts við Bet Peór.

32 Þeir voru nú á leið upp til Jerúsalem. Jesús gekk á undan þeim, en þeir voru skelfdir, og þeir sem eftir fylgdu voru hræddir. Og enn tók hann til sín þá tólf og fór að segja þeim, hvað fram við sig ætti að koma.

33 "Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum.

34 Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta, en eftir þrjá daga mun hann upp rísa."

35 Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: "Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig."

36 Hann spurði þá: "Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?"

37 Þeir svöruðu: "Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri."

38 Jesús sagði við þá: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?"

39 Þeir sögðu við hann: "Það getum við." Jesús mælti: "Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist.

40 En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið."

41 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes.

42 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.

43 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.

44 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll.

45 Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."

46 Þeir komu til Jeríkó. Og þegar hann fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda, sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður.

47 Þegar hann heyrði, að þar færi Jesús frá Nasaret, tók hann að hrópa: "Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!"

48 Margir höstuðu á hann, að hann þegði, en hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"

49 Jesús nam staðar og sagði: "Kallið á hann." Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: "Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig."

50 Hann kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú.

51 Jesús spurði hann: "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Blindi maðurinn svaraði honum: "Rabbúní, að ég fái aftur sjón."

52 Jesús sagði við hann: "Far þú, trú þín hefur bjargað þér." Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.

Read full chapter