A A A A A
Bible Book List

Daníel 7-9 Icelandic Bible (ICELAND)

Á fyrsta ríkisári Belsasars konungs í Babýlon dreymdi Daníel draum, og sýnir bar fyrir hann í rekkju hans. Síðan skrásetti hann drauminn og sagði frá aðalatriðunum.

Daníel hóf upp og sagði: Ég sá í sýn minni á næturþeli, hversu þeir fjórir vindar himinsins rótuðu upp hinu mikla hafi.

Og fjögur stór dýr stigu upp af hafinu, hvert öðru ólíkt.

Fyrsta dýrið líktist ljóni og hafði arnarvængi. Ég horfði á það, þar til er vængir þess voru reyttir af því, og því var lyft upp frá jörðinni og reist á fæturna eins og maður, og því var fengið mannshjarta.

Og sjá, þá kom annað dýr, hið annað í röðinni. Það var líkt bjarndýri. Það var risið upp á aðra hliðina og hafði þrjú rif í munni sér milli tannanna. Til þess var mælt: "Statt upp og et mikið kjöt."

Eftir þetta sá ég enn dýr, líkt pardusdýri, og hafði það fjóra fuglsvængi á síðunum. Þetta dýr hafði fjögur höfuð, og því var vald gefið.

Eftir þetta sá ég í nætursýnum fjórða dýrið. Það var hræðilegt, ógurlegt og yfirtaks öflugt. Það hafði stórar járntennur, át og muldi sundur, og það, sem eftir varð, tróð það sundur með fótunum. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og hafði tíu horn.

Ég athugaði hornin og sá þá, hvar annað lítið horn spratt upp milli þeirra, og þrjú af fyrri hornunum voru slitin upp fyrir það. Og sjá, þetta horn hafði augu, eins og mannsaugu, og munn, sem talaði gífuryrði.

Ég horfði og horfði, þar til er stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður. Klæði hans voru hvít sem snjór og höfuðhár hans sem hrein ull. Hásæti hans var eldslogar og hjólin undir því eldur brennandi.

10 Eldstraumur gekk út frá honum, þúsundir þúsunda þjónuðu honum og tíþúsundir tíþúsunda stóðu frammi fyrir honum. Dómendurnir settust niður og bókunum var flett upp.

11 Ég horfði og horfði vegna hinna háværu stóryrða, sem hornið talaði, þar til er dýrið var drepið, líkami þess eyðilagður og honum kastað í eld til að brennast.

12 Vald hinna dýranna var og frá þeim tekið og þeim afmarkað lífskeið til ákveðins tíma og stundar.

13 Ég horfði í nætursýnunum, og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann.

14 Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.

15 Út af þessu varð ég, Daníel, sturlaður, og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig.

16 Ég gekk þá til eins af þeim, er þar stóðu, og bað hann um áreiðanlega skýring á öllu þessu. Hann talaði til mín og sagði mér svofellda þýðing alls þessa:

17 Þessi stóru dýr, fjögur að tölu, merkja það, að fjórir konungar munu hefjast á jörðinni,

18 en hinir heilögu Hins hæsta munu eignast ríkið, og þeir munu halda ríkinu ævinlega og um aldir alda.

19 Þá vildi ég fá áreiðanlega vitneskju um fjórða dýrið, sem var ólíkt öllum hinum dýrunum, ógurlegt mjög, með járntönnum og eirklóm, sem át, knosaði og sundur tróð með fótunum það, sem það leifði,

20 svo og um hornin tíu, sem voru á höfði þess, og um hitt hornið, sem þar spratt upp og þrjú hornin féllu fyrir, þetta horn, sem hafði augu og munn, er talaði gífuryrði og meira var ásýndum en hin.

21 Ég horfði á, hvernig horn þetta háði stríð við hina heilögu og hafði sigur yfir þeim,

22 þar til er hinn aldraði kom og hinir heilögu Hins hæsta fengu náð rétti sínum og sá tími kom, að hinir heilögu settust að völdum.

23 Hann sagði svo: Fjórða dýrið merkir, að fjórða konungsríkið mun rísa upp á jörðinni, sem ólíkt mun verða öllum hinum konungsríkjunum, og það mun upp svelgja öll lönd, niður troða þau og sundur merja.

24 Og hornin tíu merkja það, að af þessu ríki munu upp koma tíu konungar, og annar konungur mun upp rísa eftir þá, og hann mun verða ólíkur hinum fyrri, og þremur konungum mun hann steypa.

25 Hann mun orð mæla gegn Hinum hæsta, kúga hina heilögu Hins hæsta og hafa í hyggju að umbreyta helgitíðum og lögum, og þeir munu honum í hendur seldir verða um eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð.

26 En dómurinn mun settur verða og hann sviptur völdum til þess að afmá þau með öllu og að engu gjöra.

27 En ríki, vald og máttur allra konungsríkja, sem undir himninum eru, mun gefið verða heilögum lýð Hins hæsta. Ríki hans mun verða eilíft ríki, og öll veldi munu þjóna því og hlýða.

28 Hér er það mál á enda. En mig, Daníel, skelfdu hugsanir mínar mjög, svo að ég gjörðist litverpur, og ég geymdi þetta í hjarta mínu.

Á þriðja ríkisári Belsasars konungs birtist mér, Daníel, sýn, eftir þá, sem áður hafði birst mér.

Og ég horfði í sýninni, og var þá, er ég horfði, sem ég væri í borginni Súsa, sem er í Elamhéraði, og ég horfði í sýninni og var ég staddur við Úlaífljótið.

Þá hóf ég upp augu mín og leit hrút nokkurn standa fram við fljótið. Hann var tvíhyrndur, og há hornin, og þó annað hærra en hitt, og spratt hærra hornið síðar upp.

Ég sá hrútinn stanga hornum mót vestri, norðri og suðri, og engin dýr gátu við honum staðist, og enginn gat frelsað nokkurn undan valdi hans. Hann gjörði sem honum leist og framkvæmdi mikla hluti.

En er ég gaf nákvæmlega gætur að, sá ég að geithafur nokkur kom vestan. Leið hann yfir alla jörðina án þess að koma við hana, og hafurinn hafði afar stórt horn milli augnanna.

Hann kom til tvíhyrnda hrútsins, sem ég sá standa fram við fljótið, og rann á hann í heiftaræði.

Og ég sá hann hitta hrútinn á síðuna, og hann varð mjög illur við hann og laust hrútinn og braut bæði horn hans, svo að hrúturinn hafði ekki mátt til að veita honum viðnám. Og hann fleygði honum til jarðar og tróð hann undir, og mátti enginn frelsa hrútinn undan valdi hans.

Og geithafurinn framkvæmdi mjög mikla hluti, en er máttur hans var sem mestur, brotnaði hornið mikla, og í þess stað spruttu upp önnur fjögur, gegnt höfuðáttunum fjórum.

Og út frá einu þeirra spratt annað lítið horn og óx mjög til suðurs og austurs og mót prýði landanna.

10 Það óx og móti her himnanna og varpaði til jarðar nokkrum af hernum og af stjörnunum, og tróð þá undir.

11 Já, það óx móti höfðingja hersins, og það lét afnema hina daglegu fórn, og hans heilagi bústaður var niður rifinn.

12 Og herinn var framseldur ásamt hinni daglegu fórn vegna misgjörðarinnar, og hornið varp sannleikanum til jarðar, já, slíkt gjörði það og var giftudrjúgt.

13 Þá heyrði ég einn heilagan tala, og annar heilagur sagði við hinn, sem talaði: "Hvað á hún sér langan aldur þessi sýn um hina daglegu fórn og um hinn hræðilega glæp, frá því er hann framselur helgidóminn og herinn, svo að hann verði niður troðinn?"

14 Og hann sagði við hann: "Tvö þúsund og þrjú hundruð kveld og morgnar, og þá mun helgidómurinn aftur verða kominn í samt lag."

15 Þegar ég, Daníel, sá þessa sýn og leitaðist við að skilja hana, þá stóð allt í einu einhver frammi fyrir mér, líkur manni ásýndar.

16 Og ég heyrði mannsraust milli Úlaí-bakka, sem kallaði og sagði: "Gabríel, útskýr þú sýnina fyrir þessum manni."

17 Og hann gekk til mín, þar sem ég stóð, en er hann kom, varð ég hræddur og féll fram á ásjónu mína. En hann sagði við mig: "Gef gætur að, þú mannsson, því að sýnin á við tíð endalokanna."

18 Og meðan hann talaði við mig, leið ég í ómegin til jarðar fram á ásjónu mína, en hann snart mig og reisti mig aftur á fætur, þar er ég hafði staðið.

19 Og hann sagði: "Sjá, ég kunngjöri þér, hvað verða muni, þá er hin guðlega reiði tekur enda, því að sýnin á við tíð endalokanna.

20 Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, merkir konungana í Medíu og Persíu,

21 og hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn.

22 Og að það brotnaði og fjögur spruttu aftur upp í þess stað, það merkir, að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var.

23 En er ríki þeirra tekur enda, þá er trúrofarnir hafa fyllt mælinn, mun konungur nokkur upp rísa, bæði illúðlegur og hrekkvís.

24 Vald hans mun mikið verða, og þó eigi fyrir þrótt sjálfs hans. Hann mun gjöra ótrúlega mikið tjón og verða giftudrjúgur í því, er hann tekur sér fyrir hendur. Hann mun voldugum tjón vinna og hugur hans beinast gegn hinum heilögu.

25 Vélræðum mun hann til vegar koma með hendi sinni og hyggja á stórræði og steypa mörgum í glötun, er þeir eiga sér einskis ills von. Já, hann mun rísa gegn höfðingja höfðingjanna, en þó sundur mulinn verða án manna tilverknaðar.

26 Og sýnin um ,kveld og morgun`, sem um var talað, hún er sönn, en leyn þú þeirri sýn, því að hún á sér langan aldur."

27 En ég, Daníel, varð sjúkur um hríð. Því næst komst ég á fætur aftur og þjónaði að erindum konungs, og ég var mjög undrandi yfir sýn þessari, en skildi hana eigi.

Á fyrsta ríkisári Daríusar Ahasverussonar, sem var medískur að ætt og orðinn konungur yfir ríki Kaldea,

á fyrsta ári ríkisstjórnar hans, hugði ég, Daníel, í ritningunum að áratölu þeirri, er Jerúsalem átti að liggja í rústum, samkvæmt orði Drottins, því er til Jeremía spámanns hafði komið, sem sé sjötíu ár.

Ég sneri þá ásjónu minni til Drottins Guðs til þess að bera fram bæn mína og grátbeiðni með föstu, í sekk og ösku.

Ég bað til Drottins, Guðs míns, gjörði játningu mína og sagði: "Æ, Drottinn, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.

Vér höfum syndgað og illa gjört, vér höfum breytt óguðlega og verið þér mótsnúnir og vikið frá boðum þínum og setningum.

Vér höfum ekki hlýtt þjónum þínum, spámönnunum, sem töluðu í þínu nafni til konunga vorra, höfðingja og feðra og til alls landslýðsins.

Þú, Drottinn, ert réttlátur, en vér megum blygðast vor, sem vér og gjörum í dag, vér Júdamenn og Jerúsalembúar og allur Ísrael, bæði þeir sem nálægir eru og þeir sem fjarlægir eru í öllum þeim löndum, þangað sem þú hefir rekið þá fyrir tryggðrof þeirra, er þeir hafa í frammi við þig haft.

Drottinn, vér megum blygðast vor, konungar vorir, höfðingjar vorir og feður vorir, því að vér höfum syndgað móti þér.

En hjá Drottni, Guði vorum, er miskunnsemi og fyrirgefning, því að vér höfum verið honum mótsnúnir

10 og ekki hlýtt raustu Drottins Guðs vors, að breyta eftir boðorðum hans, þeim er hann fyrir oss lagði fyrir munn þjóna sinna, spámannanna.

11 Já, allur Ísrael hefir brotið lögmál þitt, hefir vikið frá þér, svo að hann hlýðir eigi framar raustu þinni. Þá var þeirri eiðfestu bölvan úthellt yfir oss, sem skrifuð er í lögmáli Móse, þjóns Guðs, því að vér höfum syndgað móti honum.

12 Og hann efndi orð sín, þau er hann hafði talað gegn oss og dómurum vorum, þeim er yfirráð höfðu yfir oss, að hann skyldi láta mikla ógæfu yfir oss koma, svo að hvergi á jarðríki hefir slík ógæfa orðið sem í Jerúsalem.

13 Eins og skrifað er í lögmáli Móse um alla þessa ógæfu, svo er hún yfir oss komin. Og vér höfum ekki blíðkað Drottin Guð vorn með því að hverfa frá misgjörðum vorum og gefa gætur að trúfesti þinni.

14 Og Drottinn vakti yfir ógæfunni og lét hana yfir oss koma, því að Drottinn Guð vor er réttlátur í öllum verkum sínum, þeim er hann gjörir, en vér höfum eigi hlýtt raustu hans.

15 Og nú, Drottinn Guð vor, þú sem útleiddir lýð þinn af Egyptalandi með sterkri hendi og afrekaðir þér mikið nafn fram á þennan dag, vér höfum syndgað, vér höfum breytt óguðlega.

16 Drottinn, lát þú samkvæmt réttlæti því, er þú ávallt hefir sýnt, gremi þína og heiftarreiði þína hverfa frá borg þinni Jerúsalem, þínu heilaga fjalli, því að fyrir syndir vorar og misgjörðir feðra vorra er Jerúsalem og lýður þinn orðinn að háðung hjá öllum þeim, sem umhverfis oss búa.

17 Heyr nú, Guð vor, bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans og lát ásjónu þína lýsa, fyrir sjálfs þín sakir, Drottinn, yfir helgidóm þinn, sem nú er í eyði.

18 Hneig, Guð minn, eyra þitt og heyr, ljúk upp augum þínum og sjá eyðing vora og borgina, sem nefnd er eftir nafni þínu, því að ekki framberum vér auðmjúkar bænir fyrir þig í trausti til vors eigin réttlætis, heldur í trausti til þinnar miklu miskunnsemi.

19 Drottinn, heyr! Drottinn, fyrirgef! Drottinn, hygg að og framkvæm! Tef eigi, fyrir sjálfs þín sakir, Guð minn, því að eftir þínu nafni er borg þín nefnd og lýður þinn!"

20 Meðan ég enn var að tala, baðst fyrir og játaði syndir mínar og syndir lýðs míns, Ísraels, og frambar fyrir Drottin Guð minn auðmjúka bæn fyrir hinu heilaga fjalli Guðs míns,

21 já, meðan ég enn var að tala í bæninni, kom að mér um það bil, er kveldfórn er fram borin, maðurinn Gabríel, sem ég hafði áður séð í sýninni, þá er ég hné í ómegin.

22 Hann kom og talaði við mig og sagði: "Daníel, nú er ég út genginn til þess að veita þér glöggan skilning.

23 Þegar þú byrjaðir bæn þína, út gekk orð, og er ég hingað kominn til að kunngjöra þér það, því að þú ert ástmögur Guðs. Tak því eftir orðinu og gef gætur að vitraninni.

24 Sjötíu sjöundir eru ákveðnar lýð þínum og þinni heilögu borg til þess að drýgja glæpinn til fulls og fylla mæli syndanna og til þess að friðþægja fyrir misgjörðina og leiða fram eilíft réttlæti, til þess að innsigla vitrun og spámann og vígja hið háheilaga.

25 Vit því og hygg að: Frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk, til hins smurða höfðingja, eru sjö sjöundir, og í sextíu og tvær sjöundir skulu torg hennar og stræti endurreist verða, þó að þrengingartímar séu.

26 Og eftir þær sextíu og tvær sjöundir mun hinn smurði afmáður verða, og hann mun ekkert eiga, og borgina og helgidóminn mun eyða þjóð höfðingja nokkurs, sem koma á, en hann mun farast í refsidómsflóðinu, og allt til enda mun ófriður haldast við og sú eyðing, sem fastráðin er.

27 Og hann mun gjöra fastan sáttmála við marga um eina sjöund, og um miðja sjöundina mun hann afnema sláturfórn og matfórn, og á vængjum viðurstyggðarinnar mun eyðandinn koma, en eftir það mun gjöreyðing, og hún fastráðin, steypast yfir eyðandann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes