Add parallel Print Page Options

Nebúkadnesar konungur sendir kveðju sína öllum mönnum, sem á jörðinni búa, hverrar þjóðar, hvaða lands og hverrar tungu sem eru: "Gangi yður allt til gæfu!

Mér hefir þóknast að kunngjöra þau tákn og furðuverk, sem hinn hæsti Guð hefir gjört við mig.

Hversu mikil eru tákn hans og hversu máttug eru furðuverk hans! Ríki hans er eilíft ríki og máttarveldi hans varir frá kyni til kyns.

Ég, Nebúkadnesar, lifði áhyggjulaus í húsi mínu og átti góða daga í höll minni.

Þá dreymdi mig draum, sem gjörði mig óttasleginn, og hugsanirnar í rekkju minni og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig.

Ég lét því þá skipun út ganga, að leiða skyldi fyrir mig alla vitringa í Babýlon til þess að segja mér þýðing draumsins.

Þá komu spásagnamennirnir, særingamennirnir, Kaldearnir og stjörnuspekingarnir, og sagði ég þeim drauminn, en þeir gátu ekki sagt mér þýðing hans.

En loks kom Daníel til mín, sem kallaður er Beltsasar eftir nafni guðs míns. Í honum býr andi hinna heilögu guða, og ég sagði honum drauminn:

Beltsasar, þú æðsti forstjóri spásagnamannanna! Ég veit að í þér býr andi hinna heilögu guða og að enginn leyndardómur er þér ofvaxinn. Seg mér sýnir draums míns, þær er fyrir mig bar, og hvað þær þýða.

10 Sýnir þær, er fyrir mig bar í rekkju minni, voru þessar: Ég horfði, og sjá, tré nokkurt stóð á jörðinni, og var það geysihátt.

11 Tréð var mikið og sterkt, og svo hátt að upp tók til himins, og mátti sjá það alla vega frá endimörkum jarðarinnar.

12 Limar þess voru fagrar og ávöxturinn mikill, og fæðsla handa öllum var á því. Skógardýrin lágu í forsælu undir því, fuglar himinsins bjuggu á greinum þess, og allar skepnur nærðust af því.

13 Ég horfði á í sýnum þeim, sem fyrir mig bar í rekkju minni, og sá heilagan vörð stíga niður af himni.

14 Hann kallaði hárri röddu og mælti svo: ,Höggvið upp tréð, sníðið af greinarnar, slítið af því limarnar og dreifið ávöxtunum víðs vegar, svo að dýrin flýi burt undan því og fuglarnir af greinum þess.

15 Samt skuluð þér láta stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi. Hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrunum í grösum jarðarinnar.

16 Hjarta hans skal umbreytast, svo að í honum skal ekki mannshjarta vera, heldur skal honum dýrshjarta fengið verða, og sjö tíðir skulu yfir hann líða.

17 Skipunin hvílir á ályktun varðanna, og þetta eru fyrirmæli hinna heilögu, til þess að hinir lifandi viðurkenni, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og gefur hann hverjum sem hann vill, og að hann getur upphafið hinn lítilmótlegasta meðal mannanna til konungdóms.`

18 Þetta er draumurinn, sem mig, Nebúkadnesar konung, dreymdi, en þú, Beltsasar, seg þýðingu hans, fyrst enginn af vitringunum í ríki mínu getur sagt mér, hvað hann þýðir. En þú getur það, því að í þér býr andi hinna heilögu guða."

19 Þá stóð Daníel, sem kallaður var Beltsasar, agndofa um stund, og hugsanir hans skelfdu hann. En konungur tók til máls og sagði: "Beltsasar! Lát eigi drauminn né þýðing hans skelfa þig." Beltsasar svaraði og sagði: "Ég vildi óska, herra, að draumurinn rættist á óvinum þínum og þýðing hans á mótstöðumönnum þínum.

20 Tréð, sem þú sást og bæði var mikið og sterkt og svo hátt að upp tók til himins og séð varð um alla jörðina,

21 limar þess fagrar og ávöxturinn mikill og fæðsla á því handa öllum, skógardýrin bjuggu undir því og fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum þess,

22 það ert þú, konungur, sem ert orðinn mikill og voldugur og mikilleiki þinn vaxinn svo mjög, að hann nær til himins og veldi þitt til endimarka jarðar.

23 En þar er konungurinn sá heilagan vörð stíga niður af himni og segja: ,Höggvið upp tréð og eyðileggið það, en látið samt stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi, hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrum merkurinnar, uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar,` _

24 þá er þýðingin þessi, konungur, og ráðstöfun Hins hæsta er það, sem komið er fram við minn herra, konunginn:

25 Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og þú munt vökna af dögg himinsins, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.

26 En þar er sagt var, að stofn trésins með rótum sínum skyldi eftir verða, það merkir, að þú skalt halda ríki þínu, er þú kannast við, að allt valdið er á himnum.

27 Lát þér því, konungur, geðjast ráð mitt: Losa þig af syndum þínum með réttlætisverkum og af misgjörðum þínum með líknsemi við aumingja, ef vera mætti, að hamingja þín yrði við það langærri."

28 Allt þetta kom fram við Nebúkadnesar konung.

29 Þegar konungur tólf mánuðum síðar einu sinni var á gangi í konungshöllinni í Babýlon,

30 tók hann til máls og sagði: "Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?"

31 Áður en þessi orð voru liðin af vörum konungs, kom raust af himni: "Þér gjörist hér með vitanlegt, Nebúkadnesar konungur, að konungdómurinn er vikinn frá þér.

32 Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill."

33 Þessi ummæli rættust samstundis á Nebúkadnesar. Hann var út rekinn úr mannafélagi og át gras eins og uxar, og líkami hans vöknaði af dögg himinsins, og um síðir óx hár hans sem arnarfjaðrir og neglur hans sem fuglaklær.

34 "Ég, Nebúkadnesar, hóf að liðnum þessum tíma augu mín til himins, og fékk ég þá vit mitt aftur. Og ég lofaði Hinn hæsta og vegsamaði og tignaði þann, sem lifir eilíflega, því að veldi hans er eilíft veldi, og ríki hans varir frá kyni til kyns.

35 Allir þeir, sem á jörðinni búa, eru sem ekkert hjá honum, og hann fer með himnanna her og byggjendur jarðarinnar eins og hann sjálfur vill, og enginn er sá, er fái honum tálmun gjört og við hann sagt: ,Hvað gjörir þú?`

36 Samstundis fékk ég vit mitt aftur, og til heiðurs fyrir ríki mitt komst ég aftur til tignar og vegsemdar. Ráðgjafar mínir og stórmenni leituðu mín, og ég var aftur skipaður yfir ríki mitt, og mér var gefið enn meira veldi en áður.

37 Nú vegsama ég, Nebúkadnesar, göfga og tigna konung himnanna, því að allar gjörðir hans eru sannleikur, vegir hans réttlæti og hann megnar að lægja þá, sem fram ganga í dramblæti."

Belsasar konungur hélt veislu mikla þúsund stórmennum sínum og drakk vín í augsýn þeirra þúsund.

En er menn tóku að gjörast vínhreifir, bauð Belsasar að sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar faðir hans hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem, til þess að konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur mættu drekka af þeim.

Þá voru fram borin gullker þau, sem tekin höfðu verið úr musterinu, húsi Guðs í Jerúsalem, og konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur drukku af þeim.

Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.

Á sömu stundu komu fram fingur af mannshendi og rituðu á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, og konungurinn sá fingur handarinnar, sem ritaði.

Þá gjörðist konungur litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu.

Konungur kallaði hástöfum, að sækja skyldi særingamennina, Kaldeana og stjörnuspekingana. Konungur tók til máls og sagði við vitringana í Babýlon: "Hver sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, skal klæddur verða purpura og bera gullfesti á hálsi sér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu!"

Þá komu allir vitringar konungs þangað, en þeir gátu ekki lesið letrið og sagt konungi þýðing þess.

Þá varð Belsasar konungur mjög felmtsfullur og gjörðist litverpur, en fát mikið kom á stórmenni hans.

10 Út af orðræðu konungs og stórmenna hans gekk drottning inn í veislusalinn. Drottning tók til máls og sagði: "Konungurinn lifi eilíflega! Lát eigi hugsanir þínar skelfa þig og gjörst eigi svo litverpur.

11 Sá maður er í ríki þínu, er andi hinna heilögu guða býr í, og á dögum föður þíns fannst með honum skýrleikur, þekking og speki, lík speki guðanna, og Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, gjörði hann að yfirhöfðingja spásagnamannanna, særingamannanna, Kaldeanna og stjörnuspekinganna. Þetta gjörði faðir þinn, konungur,

12 af því að með Daníel, er konungurinn kallaði Beltsasar, fannst frábær andi og kunnátta og þekking til að þýða drauma, ráða gátur og greiða úr vandamálum. Lát nú kalla Daníel, og mun hann segja, hvað þetta merkir."

13 Þá var Daníel leiddur inn fyrir konung. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Ert þú Daníel, einn af þeim herleiddu Gyðingum, sem konungurinn, faðir minn, flutti burt frá Júda?

14 Ég hefi um þig heyrt, að andi guðanna búi í þér og að skýrleikur, þekking og frábær speki finnist með þér.

15 Nú hefi ég látið leiða inn fyrir mig vitringana og særingamennina til þess að lesa þetta letur og segja mér þýðing þess, en þeir geta ekki sagt, hvað þessi orð þýða.

16 En ég hefi heyrt um þig, að þú kunnir þýðingar að finna og úr vandamálum að greiða. Ef þú nú getur lesið þetta letur og sagt mér þýðing þess, þá skalt þú klæddur verða purpura, bera gullfesti á hálsi þér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu."

17 Þá tók Daníel til máls og sagði við konung: "Haltu sjálfur gáfum þínum og gef einhverjum öðrum gjafir þínar, en letrið mun ég lesa fyrir konunginn og segja honum þýðing þess.

18 Þú konungur! Guð hinn hæsti veitti Nebúkadnesar föður þínum ríki, vald, vegsemd og tign.

19 Og sökum þess veldis, sem hann hafði veitt honum, hræddust hann allir lýðir, þjóðir og tungur, og stóð þeim ótti af honum. Hann tók af lífi hvern sem hann vildi og hann lét lífi halda hvern sem hann vildi, hann hóf hvern er hann vildi og hann lægði hvern er hann vildi.

20 En er hjarta hans metnaðist og hugur hans gjörðist ofdrambsfullur, þá var honum hrundið úr konungshásætinu og tignin tekin frá honum.

21 Hann var rekinn úr mannafélagi og hjarta hans varð líkt dýrshjarta. Hann átti byggð meðal skógarasna, og honum var gefið gras að eta eins og uxum, og líkami hans vöknaði af dögg himins, þar til er hann kannaðist við, að Guð hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og veitir hann hverjum sem hann vill.

22 Og þú, Belsasar, sonur hans, hefir ekki lítillætt hjarta þitt, þótt þú vissir allt þetta,

23 heldur hefir þú sett þig upp á móti Drottni himnanna og látið færa þér kerin úr húsi hans, og þú og stórmenni þín, konur þínar og hjákonur hafið drukkið vín af þeim. Og þú hefir vegsamað guði úr silfri, gulli, eiri, járni, tré og steini, sem ekki sjá, ekki heyra og ekkert vita, en þann Guð, sem hefir lífsanda þinn í hendi sér og ráð hefir á öllum högum þínum, hann hefir þú ekki tignað.

24 Samstundis voru fingur handarinnar frá honum sendir og þetta letur ritað.

25 En letrið, sem ritað er, er þetta: mene, mene, tekel ufarsin.

26 Þessi er þýðing orðanna: mene, Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda;

27 tekel, þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn;

28 peres, ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum."

29 Því næst bauð Belsasar að klæða Daníel purpura og láta gullfesti um háls honum og gjöra heyrinkunnugt, að hann skyldi vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.

30 Á hinni sömu nótt var Belsasar Kaldeakonungur drepinn.

Daríus frá Medalandi tók við ríkinu og hafði þá tvo vetur um sextugt.

Daríusi þóknaðist að setja yfir ríkið hundrað og tuttugu jarla, er skipað skyldi niður um allt ríkið,

og yfir þá þrjá yfirhöfðingja, og var Daníel einn af þeim. Skyldu jarlarnir gjöra þeim skilagrein, svo að konungur biði engan skaða.

Þá bar Daníel þessi af yfirhöfðingjunum og jörlunum, sökum þess að hann hafði frábæran anda, og hugði konungur að setja hann yfir allt ríkið.

Þá leituðu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir að finna Daníel eitthvað til saka viðvíkjandi ríkisstjórninni, en gátu enga sök eða ávirðing fundið, því að hann var trúr, svo að ekkert tómlæti né ávirðing fannst hjá honum.

Þá sögðu þessir menn: "Vér munum ekkert fundið geta Daníel þessum til saka, nema ef vér finnum honum eitthvað að sök í átrúnaði hans."

Þá þustu þessir yfirhöfðingjar og jarlar til konungs og sögðu svo við hann: "Daríus konungur lifi eilíflega!

Öllum yfirhöfðingjum ríkisins, landstjórum, jörlum, ráðgjöfum og landshöfðingjum hefir komið ásamt um að gefa út þá konungsskipun og staðfesta það forboð, að hver sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju.

Nú skalt þú, konungur, gefa út forboð þetta og láta það skriflegt út ganga, svo að því verði ekki breytt, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa."

10 Samkvæmt þessu lét konungur gefa skriflega út skipunina og bannið.

11 En er Daníel varð þess vísari, að þessi skipun var út gefin, gekk hann inn í hús sitt. Þar hafði hann uppi í loftstofu sinni opna glugga, er sneru móti Jerúsalem, og þrem sinnum á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann, eins og hann hafði áður verið vanur að gjöra.

12 Þá þustu þessir menn að og fundu Daníel, þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn.

13 Síðan gengu þeir inn fyrir konung og spurðu hann viðvíkjandi konungsforboðinu: "Hefir þú eigi gefið út það forboð, að hver sá maður, sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju?" Konungur svaraði og sagði: "Það stendur fast, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa."

14 Þá svöruðu þeir og sögðu við konung: "Daníel, einn af hinum herleiddu Gyðingum, skeytir hvorki um þig, konungur, né um það forboð, sem þú hefir út gefið, heldur gjörir bæn sína þrem sinnum á dag."

15 Þegar konungur heyrði þetta, féll honum það næsta þungt, og lagði hann allan hug á að frelsa Daníel, og allt til sólarlags leitaði hann alls við, að hann fengi borgið honum.

16 Þá þustu þessir sömu menn til konungs og sögðu við hann: "Þú veist, konungur, að það eru lög hjá Medum og Persum, að ekki má raska því banni eða boði, sem konungur hefir út gefið."

17 Þá bauð konungur að leiða Daníel fram og kasta honum í ljónagryfjuna. Og konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Guð þinn, sem þú dýrkar án afláts, frelsi þig!"

18 Síðan var sóttur steinn og lagður yfir gryfjumunnann, og innsiglaði konungur hann með innsiglishring sínum og með innsiglishringum stórhöfðingja sinna, til þess að sú ráðstöfun, sem gjörð hafði verið við Daníel, skyldi eigi raskast.

19 Eftir það gekk konungur heim til hallar sinnar og var þar um nóttina fastandi. Frillur lét hann eigi leiða inn til sín, og eigi kom honum dúr á auga.

20 Síðan reis konungur á fætur í dögun, þá er lýsa tók, og skundaði til ljónagryfjunnar.

21 Og er hann kom að gryfjunni, kallaði hann á Daníel með sorgfullri raust. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Daníel, þú þjónn hins lifanda Guðs, hefir Guð þinn, sá er þú dýrkar án afláts, megnað að frelsa þig frá ljónunum?"

22 Þá sagði Daníel við konung: "Konungurinn lifi eilíflega!

23 Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna, svo að þau gjörðu mér ekkert mein, af því að ég er saklaus fundinn frammi fyrir honum, og hefi ekki heldur framið neitt brot gagnvart þér, konungur!"

24 Þá varð konungur næsta glaður og bauð að draga Daníel upp úr gryfjunni. Var Daníel þá dreginn upp úr gryfjunni, og fannst ekki að honum hefði neitt að skaða orðið, því að hann hafði treyst Guði sínum.

25 En konungur bauð að leiða fram menn þá, er rægt höfðu Daníel, og kasta þeim, börnum þeirra og konum í ljónagryfjuna. Og áður en þeir komust til botns í gryfjunni, hremmdu ljónin þá og muldu sundur öll bein þeirra.

26 Síðan ritaði Daríus konungur öllum lýðum, þjóðum og tungum, sem búa á allri jörðinni: "Gangi yður allt til gæfu!

27 Ég læt þá skipun út ganga, að í öllu veldi ríkis míns skulu menn hræðast og óttast Guð Daníels, því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans gengur ekki á grunn og veldi hans varir allt til enda.

28 Hann frelsar og bjargar, hann gjörir tákn og furðuverk á himni og jörðu, hann sem frelsaði Daníel undan ljónunum."

29 Og Daníel þessi var í miklu gengi á ríkisstjórnarárum Daríusar og á ríkisstjórnarárum Kýrusar hins persneska.