Add parallel Print Page Options

Drottinn Guð lét þessa sýn bera fyrir mig: Það voru komnar engisprettulirfur, þá er háin tók til að spretta eftir konungsslátt.

En er þær höfðu gjöretið grasið af jörðinni, sagði ég: "Drottinn Guð, æ fyrirgef! Hversu má Jakob standast? Hann er svo vesall!"

Þá iðraði Drottin þessa. "Það skal ekki verða!" sagði Drottinn.

Drottinn Guð lét þessa sýn bera fyrir mig: Drottinn Guð kom til þess að hegna með eldi, og hann svalg hið mikla djúp og eyddi landið.

Þá sagði ég: "Æ, Drottinn Guð, lát af! Hversu má Jakob standast? Hann er svo vesall!"

Þá iðraði Drottin þessa. "Þetta skal ekki heldur verða!" sagði Drottinn.

Hann lét þessa sýn bera fyrir mig: Sjá, Drottinn stóð uppi á lóðréttum múrvegg og hélt á lóði.

Og Drottinn sagði við mig: "Hvað sér þú, Amos?" Ég svaraði: "Lóð." Þá sagði Drottinn: "Sjá, ég mun lóð nota mitt á meðal lýðs míns Ísraels, ég vil eigi lengur umbera hann.

Hæðir Ísaks skulu í eyði lagðar verða og helgidómar Ísraels eyddir verða, og ég vil rísa gegn Jeróbóams ætt með reiddu sverði."

10 Amasía prestur í Betel sendi boð til Jeróbóams Ísraelskonungs og lét segja: "Amos kveikir uppreisn gegn þér mitt í Ísraelsríki. Landið fær eigi þolað öll orð hans.

11 Því að svo hefir Amos sagt: ,Jeróbóam mun fyrir sverði falla og Ísrael mun herleiddur verða burt úr landi sínu."`

12 Síðan sagði Amasía við Amos: "Haf þig á burt, vitranamaður, flý til Júdalands! Afla þér þar viðurværis og spá þú þar!

13 En í Betel mátt þú eigi framar koma fram sem spámaður, því að hér er konunglegur helgidómur og ríkismusteri."

14 Þá svaraði Amos og sagði við Amasía: "Ég er enginn spámaður, og ég er ekki af spámannaflokki, heldur er ég hjarðmaður og rækta mórber.

15 En Drottinn tók mig frá hjarðmennskunni og sagði við mig: ,Far þú og spá þú hjá lýð mínum Ísrael.`

16 Og heyr því orð Drottins: Þú segir: ,Þú mátt eigi spá gegn Ísrael né láta orð þín streyma yfir Ísaks niðja.`

17 Fyrir því segir Drottinn svo: ,Konan þín skal verða skækja hér í borginni, og synir þínir og dætur skulu fyrir sverði falla. Jörð þinni skal sundur skipt verða með mælivað, og þú sjálfur skalt deyja í óhreinu landi. Og Ísraelsmenn skulu fara herleiddir af landi sínu."`

Drottinn Guð lét þessa sýn bera fyrir mig: Ég sá körfu með sumarávöxtum.

Þá sagði hann: "Hvað sér þú, Amos?" Ég svaraði: "Körfu með sumarávöxtum." Þá sagði Drottinn við mig: "Endirinn er kominn yfir lýð minn Ísrael, ég vil eigi lengur umbera hann.

Og musterissöngmeyjarnar skulu kveina á þeim degi _ segir Drottinn Guð. _ Líkin eru mörg. Alls staðar fleygja menn þeim út í kyrrþey!"

Heyrið þetta, þér sem sundur merjið hina fátæku og ætlið að gjöra út af við alla aumingja í landinu, _

sem segið: "Hvenær mun tunglkomuhátíðin líða, svo að vér megum selja korn, og hvíldardagurinn, svo að vér megum opna kornhlöðurnar?" _ sem minnkið mælinn og hækkið verðið og falsið svikavogina,

og kaupið hina snauðu fyrir silfur og fátæklinginn fyrir eina ilskó, _ sem segið: "Vér seljum þeim aðeins úrganginn úr korninu."

Drottinn hefir svarið við vegsemd Jakobs: Aldrei skal ég gleyma öllu því, er þeir hafa gjört.

Hlaut ekki jörðin að nötra af slíku og allir þeir, sem þar búa, að verða sorgbitnir, svo að hún hófst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkaði eins og fljótið á Egyptalandi?

Á þeim degi, _ segir Drottinn Guð _ vil ég láta sólina ganga til viðar um miðjan dag og senda myrkur yfir landið á ljósum degi.

10 Ég vil snúa hátíðum yðar í sorg og öllum ljóðum yðar í harmkvæði, klæða allar mjaðmir í sorgarbúning og gjöra öll höfuð sköllótt. Ég læt það verða eins og sorg eftir einkason og endalok þess sem beiskan dag.

11 Sjá, þeir dagar munu koma, _ segir Drottinn Guð, _ að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Drottins,

12 svo að menn skulu reika frá einu hafinu til annars og renna frá norðri til austurs til þess að leita eftir orði Drottins. En þeir skulu ekki finna það.

13 Á þeim degi skulu fríðar meyjar og æskumenn vanmegnast af þorsta.

14 Þeir er sverja við vansæmd Samaríu og segja: "Svo sannarlega sem Guð þinn lifir, Dan!" og: "Svo sannarlega sem Guð þinn lifir, Beerseba!" _ þeir skulu falla og ekki framar á fætur rísa.

Ég sá Drottin standa við altarið, og hann sagði: Slá þú á súluhöfuðið, svo að þröskuldarnir skjálfi. Brjót þá sundur og kasta í höfuð þeim öllum. Og síðustu leifar þeirra vil ég deyða með sverði, enginn þeirra skal komast undan á flótta og enginn þeirra bjargast.

Þótt þeir brjótist niður í undirheima, þá skal hönd mín sækja þá þangað, þótt þeir stígi upp til himins, þá skal ég steypa þeim ofan þaðan.

Þótt þeir feli sig á Karmeltindi, þá skal ég leita þá þar uppi og sækja þá þangað, og þótt þeir vilji leynast fyrir augum mínum á mararbotni, skal ég þar bjóða höggorminum að bíta þá.

Og þótt þeir fari á undan óvinum sínum í útlegð, skal ég þar bjóða sverðinu að deyða þá, og ég vil beina augum mínum á þá, þeim til óhamingju, en ekki til hamingju.

Drottinn, Guð allsherjar, hann sem snertir jörðina, svo að hún riðar, og allir þeir, sem á henni búa, verða sorgbitnir, svo að hún hefst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkar eins og fljótið á Egyptalandi,

hann sem reist hefir á himnum sali sína og grundvallað hvelfing sína á jörðinni, hann sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina _ Drottinn er nafn hans.

Eruð þér, Ísraelsmenn, mér mætari en Blálendingar? _ segir Drottinn. Hefi ég eigi flutt Ísrael af Egyptalandi og Filista frá Kaftór og Sýrlendinga frá Kír?

Sjá, auga Drottins Guðs hvílir á þessu glæpafulla konungsríki. Ég skal afmá það af jörðinni, _ og þó vil ég ekki með öllu afmá Jakobs niðja _ segir Drottinn.

Nei, ég skal svo um bjóða, að Ísraels hús verði hrist út á meðal allra þjóða, eins og korn er hrist í sáldi, án þess að nokkur steinvala falli til jarðar.

10 Allir syndarar þjóðar minnar skulu falla fyrir sverði, þeir sem segja: "Ógæfan mun eigi ná oss né yfir oss koma!"

11 Á þeim degi mun ég endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun hlaða upp í veggskörðin og reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, eins og hún var fyrr meir,

12 til þess að þeir nái undir sig leifum Edóms og öllum þeim þjóðum, sem nafn mitt hefir verið nefnt yfir _ segir Drottinn, sá er þessu mun til vegar koma.

13 Sjá, þeir dagar munu koma, _ segir Drottinn _ að erjandinn skal ná kornskurðarmanninum og víntroðslumaðurinn sáðmanninum. Þá munu fjöllin löðra í vínberjalegi og hálsarnir verða í einu flóði.

14 Þá mun ég snúa við högum lýðs míns Ísraels. Þeir munu byggja upp hinar eyddu borgir og búa í þeim, planta víngarða og drekka vín úr þeim, búa til aldingarða og eta ávöxtu þeirra.

Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund.

Og ég sá englana sjö, sem stóðu frammi fyrir Guði, og þeim voru fengnar sjö básúnur.

Og annar engill kom og nam staðar við altarið. Hann hélt á reykelsiskeri úr gulli. Honum var fengið mikið reykelsi til þess að hann skyldi leggja það við bænir allra hinna heilögu á gullaltarið frammi fyrir hásætinu.

Og reykurinn af reykelsinu steig upp með bænum hinna heilögu úr hendi engilsins frammi fyrir Guði.

Þá tók engillinn reykelsiskerið og fyllti það eldi af altarinu og varpaði ofan á jörðina. Og þrumur komu og dunur og eldingar og landskjálfti.

Og englarnir sjö, sem héldu á básúnunum sjö, bjuggu sig til að blása.

Hinn fyrsti básúnaði. Þá kom hagl og eldur, blóði blandað, og því var varpað ofan á jörðina. Og þriðjungur jarðarinnar eyddist í loga, og þriðjungur trjánna eyddist í loga, og allt grængresi eyddist í loga.

Annar engillinn básúnaði. Þá var sem miklu fjalli, logandi af eldi, væri varpað í hafið. Þriðjungur hafsins varð blóð,

og þriðjungurinn dó af lífverum þeim, sem eru í hafinu, og þriðjungur skipanna fórst.

10 Þriðji engillinn básúnaði. Þá féll stór stjarna af himni, logandi sem blys, og hún féll ofan á þriðjung fljótanna og á lindir vatnanna.

11 Nafn stjörnunnar er Remma. Þriðjungur vatnanna varð að remmu og margir menn biðu bana af vötnunum, af því að þau voru beisk orðin.

12 Fjórði engillinn básúnaði. Þá varð þriðjungur sólarinnar lostinn og þriðjungur tunglsins og þriðjungur stjarnanna, svo að þriðjungur þeirra yrði myrkur. Og dagurinn missti þriðjung birtu sinnar og nóttin hið sama.

13 Þá sá ég og heyrði örn einn fljúga um háhvolf himins. Hann kallaði hárri röddu: "Vei, vei, vei þeim, sem á jörðu búa, vegna lúðurhljóma englanna þriggja, sem eiga eftir að básúna."