A A A A A
Bible Book List

Amos 4-6 Icelandic Bible (ICELAND)

Heyrið þetta orð, þér Basans kvígur á Samaríufjalli, sem kúgið hina snauðu, misþyrmið hinum fátæku, sem segið við menn yðar: "Dragið að, svo að vér megum drekka!"

Drottinn Guð hefir svarið við heilagleik sinn: Sjá, þeir dagar munu yfir yður koma, að þér skuluð verða burt færðar með önglum og hinar síðustu af yður með goggum.

Þá munuð þér fara út um veggskörðin, hver beint sem horfir, og yður mun verða varpað til Hermon, _ segir Drottinn.

Farið til Betel og syndgið, til Gilgal og syndgið enn þá meir! Berið fram sláturfórnir yðar að morgni dags, á þriðja degi tíundir yðar!

Brennið sýrð brauð í þakkarfórn, boðið til sjálfviljafórna, gjörið þær heyrinkunnar! Því að það er yðar yndi, Ísraelsmanna, _ segir Drottinn Guð.

Ég hefi látið yður halda hreinum tönnum í öllum borgum yðar og látið mat skorta í öllum bústöðum yðar. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.

Ég synjaði yður um regn, þá er þrír mánuðir voru til uppskeru, og ég lét rigna í einni borg, en ekki í annarri. Ein akurspildan vökvaðist af regni, en önnur akurspilda, sem regnið vökvaði ekki, hún skrælnaði.

Menn ráfuðu úr tveimur, þremur borgum til einnar borgar til að fá sér vatn að drekka, en fengu þó eigi slökkt þorstann. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.

Ég refsaði yður með korndrepi og gulnan. Ég eyddi aldingarða yðar og víngarða, engisprettur upp átu fíkjutré yðar og olíutré. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.

10 Ég sendi yður drepsótt eins og á Egyptalandi, ég deyddi æskumenn yðar með sverði, auk þess voru hestar yðar fluttir burt hernumdir, og ég lét hrævadauninn úr herbúðum yðar leggja fyrir vit yðar. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.

11 Ég olli umturnun meðal yðar, eins og þegar Guð umturnaði Sódómu og Gómorru, og þér voruð eins og brandur úr báli dreginn. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.

12 Fyrir því vil ég svo með þig fara, Ísrael. Af því að ég ætla að fara svo með þig, þá ver viðbúinn að mæta Guði þínum, Ísrael!

13 Sjá, hann er sá, sem myndað hefir fjöllin og skapað vindinn, sá sem boðar mönnunum það, er hann hefir í hyggju, sá er gjörir myrkur að morgunroða og gengur eftir hæðum jarðarinnar. Drottinn, Guð allsherjar er nafn hans.

Heyrið þetta orð, sem ég mæli yfir yður sem harmkvæði, þér Ísraelsmenn!

Fallin er mærin Ísrael, rís aldrei aftur, flöt liggur hún á sínu eigin landi, enginn reisir hana.

Svo segir Drottinn Guð: Sú borg, sem sendir frá sér þúsund manns, mun hafa eftir hundrað, og sú sem sendir frá sér hundrað, mun hafa eftir tíu í Ísraelsríki.

Svo segir Drottinn við Ísraels hús: Leitið mín, til þess að þér megið lífi halda.

En leitið ekki til Betel! Og til Gilgal skuluð þér ekki fara og yfir til Beerseba skuluð þér ekki halda. Því að Gilgal skal fara í útlegð og Betel verða að auðn.

Leitið Drottins, til þess að þér megið lífi halda. Ella mun hann ráðast á Jósefs hús eins og eldur og eyða, án þess að nokkur sé í Betel, sem slökkvi.

Þeir sem umhverfa réttinum í malurt og varpa réttlætinu til jarðar,

Hann, sem skóp sjöstjörnuna og Óríon, sem gjörir niðmyrkrið að björtum morgni og dag að dimmri nótt, sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina, Drottinn er nafn hans.

Hann lætur eyðing leiftra yfir hina sterku, og eyðing kemur yfir vígi.

10 þeir hata þann, sem ver réttinn í borgarhliðinu, og hafa viðbjóð á þeim, sem talar satt.

11 Sökum þess að þér fótum troðið hina snauðu og takið af þeim gjafir í korni, þá skuluð þér að vísu byggja hús úr höggnu grjóti, en eigi búa í þeim, skuluð planta yndislega víngarða, en ekki drekka vínið, sem úr þeim kemur.

12 Því að ég veit, að misgjörðir yðar eru margar og syndir yðar miklar. Þér þröngvið hinum saklausa, þiggið mútur og hallið rétti hinna fátæku í borgarhliðinu.

13 Fyrir því þegir hygginn maður á slíkri tíð, því að það er vond tíð.

14 Leitið hins góða, en ekki hins illa, til þess að þér megið lífi halda, og þá mun Drottinn, Guð allsherjar vera með yður, eins og þér hafið sagt.

15 Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu. Má vera að Drottinn, Guð allsherjar miskunni sig þá yfir leifar Jósefs.

16 Fyrir því segir Drottinn, Guð allsherjar, Drottinn: Á öllum torgum skal vera harmakvein, og á öllum strætum skal sagt verða: "Vei, vei!" Og akurmennirnir skulu kalla þá er kveina kunna, til sorgarathafnar og harmakveins,

17 og í öllum víngörðum skal vera harmakvein, þá er ég fer um land þitt, _ segir Drottinn.

18 Vei þeim, sem óska þess, að dagur Drottins komi. Hvað skal yður dagur Drottins? Hann er dimmur, en ekki bjartur _

19 eins og ef maður flýði undan ljóni, en yrði á vegi fyrir bjarndýri, kæmist þó heim og styddi hendi sinni við húsvegginn, en þá biti höggormur hann.

20 Já, dimmur er dagur Drottins, en ekki bjartur, myrkur og án nokkurrar ljósglætu.

21 Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar og hefi enga unun af hátíðasamkomum yðar.

22 Þótt þér færið mér brennifórnir, þá hefi ég enga velþóknun á fórnargjöfum yðar, ég lít ekki við heillafórnum af alikálfum yðar.

23 Burt frá mér með glamur ljóða þinna, ég vil ekki heyra hljóm harpna þinna.

24 Lát heldur réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk.

25 Færðuð þér mér, Ísraels hús, sláturfórnir og matfórnir í fjörutíu ár á eyðimörkinni?

26 En þér skuluð fá að bera Sikkút, konung yðar, og stjörnu Guðs yðar, Kevan, guðalíkneski yðar, er þér hafið gjört yður,

27 og ég vil herleiða yður austur fyrir Damaskus, _ segir Drottinn. Guð allsherjar er nafn hans.

Vei hinum andvaralausu á Síon og hinum öruggu á Samaríufjalli, aðalsmönnum hinnar ágætustu meðal þjóðanna, og þeim, er Ísraels hús streymir til.

Farið til Kalne og litist um, og haldið þaðan til Hamat hinnar miklu og farið ofan til Gat í Filisteu. Eruð þér betri en þessi konungsríki, eða er land yðar stærra en land þeirra?

Þeir ímynda sér, að hinn illi dagur sé hvergi nærri, og efla yfirdrottnun ranglætisins.

Þeir hvíla á legubekkjum af fílsbeini og liggja flatir á hvílbeðjum sínum. Þeir eta lömb af sauðahjörðinni og ungneyti úr alistíunni.

Þeir raula undir með hörpunni, setja saman ljóð eins og Davíð.

Þeir drekka vínið úr skálum og smyrja sig með úrvals-olíu _ en eyðing Jósefs rennur þeim ekki til rifja.

Fyrir því skulu þeir nú herleiddir verða í fararbroddi hinna herleiddu, og þá skal fagnaðaróp flatmagandi sælkeranna þagna.

Drottinn Guð hefir svarið við sjálfan sig, _ segir Drottinn, Guð allsherjar: Ég hefi viðbjóð á ofmetnaði Jakobs, ég hata hallir hans og framsel borgina og allt, sem í henni er.

Ef tíu menn eru eftir í einu húsi, skulu þeir deyja,

10 og ef frændi hans og líkbrennumaður tekur hann upp til þess að bera beinin út úr húsinu og segir við þann, sem er í innsta afkima hússins: "Er nokkur eftir hjá þér?" og hinn segir: "Nei!" þá mun hann segja: "Þei, þei!" Því að nafn Drottins má ekki nefna.

11 Því sjá, Drottinn býður að slá skuli stóru húsin, þar til er þau hrynja, og litlu húsin, þar til er þau rifna.

12 Hlaupa hestar yfir kletta, eða erja menn sjóinn með uxum, úr því þér umhverfið réttinum í eitur og ávöxtum réttlætisins í malurt?

13 Þér gleðjist yfir Lódebar, þér segið: "Höfum vér ekki fyrir eigin rammleik unnið Karnaím?"

14 Já, sjá, gegn yður, Ísraelsmenn, _ segir Drottinn, Guð allsherjar _ mun ég hefja þjóð, og hún skal kreppa að yður þaðan frá, er leið liggur til Hamat, allt að læknum á sléttlendinu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Opinberun Jóhannesar 7 Icelandic Bible (ICELAND)

Eftir þetta sá ég fjóra engla, er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar. Þeir héldu fjórum vindum jarðarinnar, til þess að eigi skyldi vindur blása yfir jörðina né hafið né yfir nokkurt tré.

Og ég sá annan engil stíga upp í austri. Hann hélt á innsigli lifanda Guðs og hrópaði hárri röddu til englanna fjögurra, sem gefið var vald til að granda jörðinni og hafinu,

og sagði: "Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors."

Og ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir af öllum ættkvíslum Ísraelssona voru merktar innsigli.

Af Júda ættkvísl voru tólf þúsund merkt innsigli, af Rúbens ættkvísl tólf þúsund, af Gaðs ættkvísl tólf þúsund,

af Assers ættkvísl tólf þúsund, af Naftalí ættkvísl tólf þúsund, af Manasse ættkvísl tólf þúsund,

af Símeons ættkvísl tólf þúsund, af Leví ættkvísl tólf þúsund, af Íssakars ættkvísl tólf þúsund,

af Sebúlons ættkvísl tólf þúsund, af Jósefs ættkvísl tólf þúsund, af Benjamíns ættkvísl tólf þúsund menn merktir innsigli.

Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.

10 Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.

11 Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð

12 og sögðu: Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?"

14 Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það." Hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.

15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.

16 Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.

17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes