Add parallel Print Page Options

Meðan þeir voru að tala til fólksins, komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir.

Þeir voru æfir af því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisu dauðra í Jesú.

Lögðu þeir hendur á þá og settu þá í varðhald til næsta morguns, því að kvöld var komið.

En margir þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú, og tala karlmanna varð um fimm þúsundir.

Næsta morgun komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem.

Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir, sem voru af æðsta prests ættum.

Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: "Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta?"

Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: "Þér höfðingjar lýðsins og öldungar,

með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn,

10 þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar.

11 Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn.

12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss."

13 Þegar þeir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu, að þeir voru ólærðir leikmenn, undruðust þeir. Þeir könnuðust og við, að þeir höfðu verið með Jesú.

14 Og er þeir sáu manninn, sem læknaður hafði verið, standa hjá þeim, máttu þeir ekki í móti mæla.

15 Þeir skipuðu þeim að ganga út frá ráðinu, tóku saman ráð sín og sögðu:

16 "Hvað eigum vér að gjöra við þessa menn? Því að augljóst er öllum Jerúsalembúum, að ótvírætt tákn er orðið af þeirra völdum. Vér getum ekki neitað því.

17 Þetta má ekki berast frekar út meðal lýðsins. Vér skulum því hóta þeim hörðu, að þeir tali aldrei framar í þessu nafni við nokkurn mann."

18 Síðan kölluðu þeir þá fyrir sig og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala eða kenna í Jesú nafni.

19 Pétur og Jóhannes svöruðu: "Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum.

20 Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt."

21 En þeir ógnuðu þeim enn frekar og slepptu þeim síðan, þar sem þeir sáu enga leið vegna fólksins að hegna þeim, því allir lofuðu Guð fyrir þennan atburð.

22 En maðurinn, sem læknast hafði með þessu tákni, var yfir fertugt.

23 Er þeim hafði verið sleppt, fóru þeir til félaga sinna og greindu þeim frá öllu því, sem æðstu prestarnir og öldungarnir höfðu við þá talað.

24 Þegar þeir heyrðu það, hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: "Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er,

25 þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð?

26 Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn Drottni og gegn hans Smurða.

27 Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels

28 til að gjöra allt það, er hönd þín og ráð hafði fyrirhugað, að verða skyldi.

29 Og nú, Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.

30 Rétt þú út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns, Jesú."

31 Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.

32 En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt.

33 Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti, og mikil náð var yfir þeim öllum.

34 Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið

35 og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.

36 Jósef levíti, frá Kýpur, sem postularnir kölluðu Barnabas, það þýðir huggunar sonur,

37 átti sáðland og seldi, kom með verðið og lagði fyrir fætur postulanna.

En maður nokkur, Ananías að nafni, seldi ásamt Saffíru, konu sinni, eign

og dró undan af verðinu með vitund konu sinnar, en kom með nokkuð af því og lagði fyrir fætur postulanna.

En Pétur mælti: "Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns?

Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði."

Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu.

En ungu mennirnir stóðu upp og bjuggu um hann, báru hann út og jörðuðu.

Að liðnum svo sem þrem stundum kom kona hans inn og vissi ekki, hvað við hafði borið.

Þá spurði Pétur hana: "Seg mér, selduð þið jörðina fyrir þetta verð?" En hún svaraði: "Já, fyrir þetta verð."

Pétur mælti þá við hana: "Hvernig gátuð þið orðið samþykk um að freista anda Drottins? Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra, sem greftruðu mann þinn. Þeir munu bera þig út."

10 Jafnskjótt féll hún niður við fætur hans og gaf upp öndina. Ungu mennirnir komu inn, fundu hana dauða, báru út og jörðuðu hjá manni hennar.

11 Og miklum ótta sló á allan söfnuðinn og alla, sem heyrðu þetta.

12 Fyrir hendur postulanna gjörðust mörg tákn og undur meðal lýðsins. Allur söfnuðurinn kom einum huga saman í Súlnagöngum Salómons.

13 Engir aðrir þorðu að samlagast þeim, en fólk virti þá mikils.

14 Og enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna.

15 Menn báru jafnvel sjúka út á strætin og lögðu þá á rekkjur og börur, ef verða mætti, er Pétur gengi hjá, að alltént skugginn af honum félli á einhvern þeirra.

16 Einnig kom fjöldi fólks frá borgunum umhverfis Jerúsalem og flutti með sér sjúka menn og þjáða af óhreinum öndum. Þeir læknuðust allir.

17 Þá hófst æðsti presturinn handa og allur sá flokkur, sem fylgdi honum, saddúkearnir. Fullir ofsa

18 létu þeir taka postulana höndum og varpa í fangelsið.

19 En engill Drottins opnaði um nóttina dyr fangelsisins, leiddi þá út og sagði:

20 "Farið og gangið fram í helgidóminum og talið til lýðsins öll þessi lífsins orð."

21 Þeir hlýddu og fóru í dögun í helgidóminn og kenndu. Nú kom æðsti presturinn og hans menn, kölluðu saman ráðið, alla öldunga Ísraels, og sendu þjóna til fangelsisins að sækja postulana.

22 Þeir komu í fangelsið og fundu þá ekki, sneru aftur og skýrðu svo frá:

23 "Fangelsið fundum vér að öllu tryggilega læst, og varðmennirnir stóðu fyrir dyrum, en er vér lukum upp, fundum vér engan inni."

24 Þegar varðforingi helgidómsins og æðstu prestarnir heyrðu þetta, urðu þeir ráðþrota og spurðu, hvar þetta ætlaði að lenda.

25 En þá kom maður og bar þeim þessa frétt: "Mennirnir, sem þér settuð í fangelsið, standa í helgidóminum og eru að kenna lýðnum."

26 Þá fór varðforinginn með þjónunum og sótti þá. Beittu þeir samt ekki ofbeldi, því þeir óttuðust, að fólkið grýtti þá.

27 Þegar þeir voru komnir með þá, leiddu þeir þá fram fyrir ráðið, og æðsti presturinn tók að yfirheyra þá og sagði:

28 "Stranglega bönnuðum vér yður að kenna í þessu nafni, og nú hafið þér fyllt Jerúsalem með kenningu yðar og viljið steypa yfir oss blóði þessa manns."

29 En Pétur og hinir postularnir svöruðu: "Framar ber að hlýða Guði en mönnum.

30 Guð feðra vorra hefur upp vakið Jesú, sem þér hengduð á tré og tókuð af lífi.

31 Hann hefur Guð hafið sér til hægri handar og gjört hann að foringja og frelsara til að veita Ísrael afturhvarf og fyrirgefningu synda sinna.

32 Vér erum vottar alls þessa, og heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða."

33 Þegar þeir heyrðu þetta, fylltust þeir bræði og hugðust deyða þá.

34 Reis þá upp í ráðinu farísei nokkur, Gamalíel að nafni, kennari í lögmálinu, virtur af öllum lýð. Hann bauð, að mennirnir væru látnir fara út stundarkorn.

35 Síðan sagði hann: "Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn.

36 Ekki alls fyrir löngu kom Þevdas fram og þóttist vera eitthvað. Hann aðhylltust um fjögur hundruð manns. En hann var drepinn, og allir þeir, sem fylgdu honum, tvístruðust og hurfu.

37 Eftir hann kom fram Júdas frá Galíleu á dögum skrásetningarinnar og sneri fólki til fylgis við sig. Hann fórst líka, og þeir dreifðust allir, sem fylgdu honum.

38 Og nú segi ég yður: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu,

39 en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð."

40 Þeir féllust á mál hans, kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa.

41 Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.

42 Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.

Á þessum dögum, er lærisveinum fjölgaði, fóru grískumælandi menn að kvarta út af því, að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun.

Hinir tólf kölluðu þá lærisveinahópinn saman og sögðu: "Ekki hæfir, að vér hverfum frá boðun Guðs orðs til að þjóna fyrir borðum.

Finnið því, bræður, sjö vel kynnta menn úr yðar hópi, sem fullir eru anda og visku. Munum vér setja þá yfir þetta starf.

En vér munum helga oss bæninni og þjónustu orðsins."

Öll samkoman gerði góðan róm að máli þeirra, og kusu þeir Stefán, mann fullan af trú og heilögum anda, Filippus, Prókorus, Níkanor, Tímon, Parmenas og Nikolás frá Antíokkíu, sem tekið hafði gyðingatrú.

Þeir leiddu þá fram fyrir postulana, sem báðust fyrir og lögðu hendur yfir þá.

Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.

Stefán var fullur af náð og krafti og gjörði undur og tákn mikil meðal fólksins.

Þá komu til nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu, en aðrir frá Kilikíu og Asíu, og tóku að þrátta við Stefán.

10 En þeir gátu ekki staðið gegn visku þeirri og anda, sem hann talaði af.

11 Þá fengu þeir menn nokkra til að segja: "Vér höfum heyrt hann tala lastmæli gegn Móse og Guði."

12 Þeir æstu upp fólkið, öldungana og fræðimennina, og þeir veittust að honum, gripu hann og færðu hann fyrir ráðið.

13 Þá leiddu þeir fram ljúgvotta, er sögðu: "Þessi maður er alltaf að tala gegn þessum heilaga stað og lögmálinu.

14 Vér höfum heyrt hann segja, að þessi Jesús frá Nasaret muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum, sem Móse hefur sett oss."

15 Allir sem í ráðinu sátu, störðu á hann og sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.