A A A A A
Bible Book List

Postulasagan 24-26 Icelandic Bible (ICELAND)

24 Fimm dögum síðar fór Ananías æðsti prestur ofan þangað og með honum nokkrir öldungar og Tertúllus nokkur málafærslumaður. Þeir báru sakir á Pál fyrir landstjóranum.

Hann var nú kallaður fyrir, en Tertúllus hóf málsóknina og sagði: "Fyrir þitt tilstilli, göfugi Felix, sitjum vér í góðum friði, og þjóð vor hefur sakir þinnar forsjár öðlast umbætur í öllum greinum og alls staðar.

Þetta viðurkennum vér mjög þakksamlega.

En svo að ég tefji þig sem minnst, bið ég, að þú af mildi þinni viljir heyra oss litla hríð.

Vér höfum komist að raun um, að maður þessi er skaðræði, kveikir ófrið með öllum Gyðingum um víða veröld og er forsprakki villuflokks Nasarea.

Hann reyndi meira að segja að vanhelga musterið, og þá tókum vér hann höndum.

Með því að yfirheyra hann mátt þú sjálfur ganga úr skugga um öll sakarefni vor gegn honum."

Gyðingarnir tóku undir sakargiftirnar og kváðu þetta rétt vera.

10 Landstjórinn benti þá Páli að taka til máls. Hann sagði: "Kunnugt er mér um, að þú hefur verið dómari þessarar þjóðar í mörg ár. Mun ég því ótrauður verja mál mitt.

11 Þú getur og gengið úr skugga um, að ekki eru nema tólf dagar síðan ég kom upp til Jerúsalem að biðjast fyrir.

12 Og enginn hefur staðið mig að því að vera að stæla við neinn eða æsa fólk til óspekta, hvorki í samkunduhúsunum né neins staðar í borginni.

13 Þeir geta ekki heldur sannað þér það, sem þeir eru nú að kæra mig um.

14 En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum.

15 Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.

16 Því tem ég mér og sjálfur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum.

17 Eftir margra ára fjarveru kom ég til að færa fólki mínu ölmusugjafir og til að fórna.

18 Þetta var ég að gjöra í helgidóminum og hafði látið hreinsast, og enginn var þá mannsöfnuður né uppþot, þegar menn komu að mér.

19 Þar voru Gyðingar nokkrir frá Asíu. Þeir hefðu átt að koma fyrir þig og bera fram kæru, hefðu þeir fundið mér eitthvað til saka.

20 Annars skulu þessir, sem hér eru, segja til, hvað saknæmt þeir fundu, þegar ég stóð fyrir ráðinu.

21 Nema það sé þetta eina, sem ég hrópaði, þegar ég stóð meðal þeirra: ,Fyrir upprisu dauðra er ég lögsóttur í dag frammi fyrir yður."`

22 Felix, sem var vel kunnugt um veginn, frestaði nú málinu, og mælti: "Þegar Lýsías hersveitarforingi kemur ofan hingað, skal ég skera úr máli yðar."

23 Hann bauð hundraðshöfðingjanum að hafa Pál í vægu varðhaldi og varna engum félaga hans að vitja um hann.

24 Nokkrum dögum seinna kom Felix með eiginkonu sinni, Drúsillu. Hún var Gyðingur. Hann lét sækja Pál og hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú.

25 En er hann ræddi um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm, varð Felix skelkaður og mælti: "Far burt að sinni. Ég læt kalla þig, þegar ég fæ tóm til."

26 Meðfram gjörði hann sér von um, að Páll mundi gefa sér fé. Því var það, að hann lét alloft sækja hann og átti tal við hann.

27 Þegar tvö ár voru liðin, tók Porkíus Festus við landstjórn af Felix. Felix vildi koma sér vel við Gyðinga og lét því Pál eftir í haldi.

25 Þrem dögum eftir að Festus hafði tekið við umdæmi sínu, fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem.

Æðstu prestarnir og fyrirmenn Gyðinga báru þá sakir á Pál fyrir honum og báðu hann

að veita sér að málum gegn honum og gera sér þann greiða að senda hann til Jerúsalem. En þeir hugðust búa honum fyrirsát og vega hann á leiðinni.

Festus svaraði, að Páll væri í varðhaldi í Sesareu, en sjálfur mundi hann bráðlega fara þangað.

"Látið því," sagði hann, "ráðamenn yðar verða mér samferða ofan eftir og lögsækja manninn, ef hann er um eitthvað sekur."

Festus dvaldist þar ekki lengur en í átta daga eða tíu. Síðan fór hann ofan til Sesareu. Daginn eftir settist hann á dómstólinn og bauð að leiða Pál fram.

Þegar hann kom, umkringdu hann Gyðingar þeir, sem komnir voru ofan frá Jerúsalem, og báru á hann margar þungar sakir, sem þeir gátu ekki sannað.

En Páll varði sig og sagði: "Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum."

Festus vildi koma sér vel við Gyðinga og mælti við Pál: "Vilt þú fara upp til Jerúsalem og hlíta þar dómi mínum í máli þessu?"

10 Páll svaraði: "Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans, og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gjört, það veistu fullvel.

11 Sé ég sekur og hafi framið eitthvað, sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því, sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans."

12 Festus ræddi þá við ráðunauta sína og mælti síðan: "Til keisarans hefur þú skotið máli þínu, til keisarans skaltu fara."

13 Eftir nokkra daga komu Agrippa konungur og Berníke til Sesareu að bjóða Festus velkominn.

14 Þegar þau höfðu dvalist þar nokkra daga, lagði Festus mál Páls fyrir konung og sagði: "Hér er fangi nokkur, sem Felix skildi eftir.

15 Þegar ég kom til Jerúsalem, báru æðstu prestar og öldungar Gyðinga á hann sakir og heimtuðu hann dæmdan.

16 Ég svaraði þeim, að það væri ekki venja Rómverja að selja fram nokkurn sakborning fyrr en hann hefði verið leiddur fyrir ákærendur sína og átt þess kost að bera fram vörn gegn sakargiftinni.

17 Þeir urðu nú samferða hingað, og lét ég engan drátt á verða, heldur settist daginn eftir á dómstólinn og bauð að leiða fram manninn.

18 Þegar ákærendurnir komu fram, báru þeir ekki á hann sakir fyrir nein þau illræði, sem ég hafði búist við,

19 heldur áttu þeir í einhverjum deilum við hann um átrúnað sjálfra þeirra og um Jesú nokkurn, látinn mann, sem Páll segir lifa.

20 Fannst mér vandi fyrir mig að fást við þetta og spurði Pál, hvort hann vildi fara til Jerúsalem og láta dæma málið þar.

21 En hann skaut máli sínu til keisarans og krafðist þess að vera hafður í haldi, þar til hans hátign hefði skorið úr. Því bauð ég að hafa hann í haldi, þangað til ég gæti sent hann til keisarans."

22 Agrippa sagði þá við Festus: "Ég vildi sjálfur fá að heyra manninn." Hinn svaraði: "Á morgun skalt þú hlusta á hann."

23 Daginn eftir komu Agrippa og Berníke með mikilli viðhöfn og gengu ásamt hersveitarforingjum og æðstu mönnum borgarinnar inn í málstofuna. Var þá Páll leiddur inn að boði Festusar.

24 Festus mælti: "Agrippa konungur og þér menn allir, sem hjá oss eruð staddir. Þarna sjáið þér mann, sem veldur því, að allir Gyðingar, bæði í Jerúsalem og hér, hafa leitað til mín. Þeir heimta hástöfum, að hann sé tekinn af lífi.

25 Mér varð ljóst, að hann hefur ekkert það framið, er dauða sé vert, en sjálfur skaut hann máli sínu til hans hátignar, og þá ákvað ég að senda hann þangað.

26 Nú hef ég ekkert áreiðanlegt að skrifa herra vorum um hann. Þess vegna hef ég leitt hann fram fyrir yður og einkum fyrir þig, Agrippa konungur, svo að ég hafi eitthvað að skrifa að lokinni yfirheyrslu.

27 Því það líst mér fráleitt að senda fanga og tjá eigi um leið sakargiftir gegn honum."

26 En Agrippa sagði við Pál: "Nú er þér leyft að tala þínu máli." Páll rétti þá út höndina og bar fram vörn sína:

"Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því, sem Gyðingar saka mig um,

því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig.

Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem.

Það vita þeir um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða vorra.

Og hér stend ég nú lögsóttur vegna vonarinnar um fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum

og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag. Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum.

Hvers vegna teljið þér það ótrúlegt, að Guð veki upp dauða?

Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret.

10 Það gjörði ég og í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt því jákvæði, að þeir væru teknir af lífi.

11 Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim, að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá.

12 Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum,

13 sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá, sem mér voru samferða.

14 Vér féllum allir til jarðar, og ég heyrði rödd, er sagði við mig á hebresku: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum.`

15 En ég sagði: ,Hver ert þú, herra?` Og Drottinn sagði: ,Ég er Jesús, sem þú ofsækir.

16 Rís nú upp og statt á fætur þína. Til þess birtist ég þér, að ég vel þig til þess að vera þjónn minn og vitni þess, að þú hefur séð mig bæði nú og síðar, er ég mun birtast þér.

17 Ég mun frelsa þig frá lýðnum og frá heiðingjunum, og til þeirra sendi ég þig

18 að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá Satans valdi til Guðs, svo að þeir öðlist fyrir trú á mig fyrirgefningu syndanna og arf með þeim, sem helgaðir eru.`

19 Fyrir því gjörðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun,

20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að iðrast og snúa sér til Guðs og vinna verk samboðin iðruninni.

21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana.

22 En Guð hefur hjálpað mér, og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það, sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi,

23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði lýðnum og heiðingjunum ljósið."

24 Þegar Páll var hér kominn í vörn sinni, segir Festus hárri raustu: "Óður ert þú, Páll. Þitt mikla bókvit gjörir þig óðan."

25 Páll svaraði: "Ekki er ég óður, göfugi Festus, heldur mæli ég sannleiks orð af fullu viti.

26 Konungur kann skil á þessu, og við hann tala ég djarflega. Eigi ætla ég, að honum hafi dulist neitt af þessu, enda hefur það ekki gjörst í neinum afkima.

27 Trúir þú, Agrippa konungur, spámönnunum? Ég veit, að þú gjörir það."

28 Þá sagði Agrippa við Pál: "Þú þykist ekki vera lengi að gjöra mig kristinn."

29 En Páll sagði: "Þess bið ég Guð, hvort sem lengur dregst eða skemur, að ekki einungis þú, heldur og allir, sem til mín heyra í dag, verði slíkir sem ég er, að frátöldum fjötrum mínum."

30 Þá stóð konungur upp og landstjórinn, svo og Berníke og þeir, er þar sátu með þeim.

31 Þegar þau voru farin, sögðu þau sín á milli: "Þessi maður fremur ekkert, sem varðar dauða eða fangelsi."

32 En Agrippa sagði við Festus: "Þennan mann hefði mátt láta lausan, ef hann hefði ekki skotið máli sínu til keisarans."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes