A A A A A
Bible Book List

Postulasagan 20-22 Icelandic Bible (ICELAND)

20 Þegar þessum látum linnti, sendi Páll eftir lærisveinunum, uppörvaði þá og kvaddi síðan og lagði af stað til Makedóníu.

Hann fór nú um þau héruð og uppörvaði menn með mörgum orðum. Síðan hélt hann til Grikklands.

Dvaldist hann þar þrjá mánuði. Þá bjóst hann til að sigla til Sýrlands, en þar eð Gyðingar brugguðu honum launráð, tók hann til bragðs að hverfa aftur um Makedóníu.

Í för með honum voru þeir Sópater Pýrrusson frá Beroju, Aristarkus og Sekúndus frá Þessaloníku, Gajus frá Derbe, Tímóteus og Asíumennirnir Týkíkus og Trófímus.

Þeir fóru á undan og biðu vor í Tróas.

En vér sigldum eftir daga ósýrðu brauðanna frá Filippí og komum til þeirra í Tróas á fimmta degi. Þar stóðum vér við í sjö daga.

Fyrsta dag vikunnar, er vér vorum saman komnir til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis.

Mörg ljós voru í loftstofunni, þar sem vér vorum saman komnir.

Ungmenni eitt, Evtýkus að nafni, sat í glugganum. Seig á hann svefnhöfgi, er Páll ræddi svo lengi, og féll hann sofandi ofan af þriðja lofti. Hann var liðinn, þegar hann var tekinn upp.

10 Páll gekk ofan, varpaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði: "Verið stilltir, það er líf með honum."

11 Fór hann síðan upp, braut brauðið og neytti og talaði enn lengi, allt fram í dögun. Að svo búnu hélt hann brott.

12 En þeir fóru með sveininn lifandi og hugguðust mikillega.

13 Vér fórum á undan til skips og sigldum til Assus. Þar ætluðum vér að taka Pál. Svo hafði hann fyrir lagt, því hann vildi fara landveg.

14 Þegar hann hafði hitt oss í Assus, tókum vér hann á skip og héldum til Mitýlene.

15 Þaðan sigldum vér daginn eftir og komumst til móts við Kíos. Á öðrum degi fórum vér til Samos og komum næsta dag til Míletus.

16 En Páll hafði sett sér að sigla fram hjá Efesus, svo að hann tefðist ekki í Asíu. Hann hraðaði ferð sinni, ef verða mætti, að hann kæmist til Jerúsalem á hvítasunnudag.

17 Frá Míletus sendi hann til Efesus og boðaði til sín öldunga safnaðarins.

18 Þegar þeir komu til hans, sagði hann við þá: "Þér vitið, hvernig ég hef hagað mér hjá yður alla tíð frá þeim degi, er ég kom fyrst til Asíu.

19 Ég þjónaði Drottni í allri auðmýkt, með tárum og í raunum, sem að mér hafa steðjað af launráðum Gyðinga.

20 Þér vitið, að ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum

21 og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.

22 Og nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af andanum. Ekki veit ég, hvað þar mætir mér,

23 nema að heilagur andi birtir mér í hverri borg, að fjötrar og þrengingar bíði mín.

24 En mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.

25 Nú veit ég, að þér munuð ekki framar sjá mig, engir þér, sem ég hef komið til og boðað ríkið.

26 Þess vegna vitna ég fyrir yður nú í dag, að ekki er mig um að saka, þótt einhver glatist,

27 því að ég hef boðað yður allt Guðs ráð og ekkert dregið undan.

28 Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.

29 Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni.

30 Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.

31 Vakið því og verið þess minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár.

32 Og nú fel ég yður Guði og orði náðar hans, sem máttugt er að uppbyggja yður og gefa yður arfleifð með öllum þeim, sem helgaðir eru.

33 Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns.

34 Sjálfir vitið þér, að þessar hendur unnu fyrir öllu því, er ég þurfti með og þeir, er með mér voru.

35 Í öllu sýndi ég yður, að með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ,Sælla er að gefa en þiggja."`

36 Þegar hann hafði þetta mælt, féll hann á kné og baðst fyrir ásamt þeim öllum.

37 Allir tóku að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann.

38 Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann. Síðan fylgdu þeir honum til skips.

21 Þegar vér höfðum slitið oss frá þeim, létum vér í haf og héldum beina leið til Kós, næsta dag til Ródus og þaðan til Patara.

Þar hittum vér á skip, er fara átti til Fönikíu. Stigum vér á það og létum í haf.

Vér höfðum landsýn af Kýpur, létum hana á bakborða og sigldum til Sýrlands og tókum höfn í Týrus. Þar átti skipið að leggja upp farminn.

Vér fundum lærisveinana og dvöldumst þar sjö daga. Þeir sögðu Páli af gift andans, að hann skyldi ekki halda áfram til Jerúsalem.

Að þessum dögum liðnum lögðum vér af stað. Fylgdu þeir oss allir á veg með konum og börnum út fyrir borgina. Vér féllum á kné í fjörunni og báðumst fyrir.

Þar kvöddumst vér. Vér stigum á skip, en hinir sneru aftur heim til sín.

Vér komum til Ptólemais frá Týrus og lukum þar sjóferðinni. Vér heilsuðum bræðrunum og dvöldumst hjá þeim einn dag.

Daginn eftir fórum vér þaðan og komum til Sesareu, gengum inn í hús Filippusar trúboða, sem var einn af þeim sjö, og dvöldumst hjá honum.

Hann átti fjórar ógiftar dætur, gæddar spádómsgáfu.

10 Þegar vér höfðum dvalist þar nokkra daga, kom spámaður einn ofan frá Júdeu, Agabus að nafni.

11 Hann kom til vor, tók belti Páls, batt fætur sína og hendur og mælti: "Svo segir heilagur andi: ,Þannig munu Gyðingar í Jerúsalem binda þann mann, sem þetta belti á, og selja hann í hendur heiðingjum."`

12 Þegar vér heyrðum þetta, lögðum vér og heimamenn að Páli að fara ekki upp til Jerúsalem.

13 En hann sagði: "Hví grátið þér og hrellið hjarta mitt? Ég er eigi aðeins reiðubúinn að láta binda mig, heldur og að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú."

14 Honum varð eigi talið hughvarf. Þá létum vér kyrrt og sögðum: "Verði Drottins vilji."

15 Að þessum dögum liðnum bjuggumst vér til ferðar og héldum upp til Jerúsalem.

16 Nokkrir lærisveinar frá Sesareu urðu oss samferða. Þeir fóru með oss til Mnasons nokkurs frá Kýpur, lærisveins frá elstu tíð, og skyldum vér gista hjá honum.

17 Þegar vér komum til Jerúsalem, tóku bræðurnir oss feginsamlega.

18 Næsta dag gekk Páll með oss til Jakobs, og allir öldungarnir komu þangað.

19 Páll heilsaði þeim og lýsti síðan nákvæmlega öllu, sem Guð hafði gjört meðal heiðingjanna með þjónustu hans.

20 Þeir vegsömuðu Guð fyrir það, sem þeir heyrðu, og sögðu við hann: "Þú sérð, bróðir hve margir tugir þúsunda það eru meðal Gyðinga, sem trú hafa tekið, og allir eru þeir vandlátir um lögmálið.

21 En þeim hefur verið sagt, að þú kennir öllum Gyðingum, sem eru meðal heiðingja, að hverfa frá Móse og segir, að þeir skuli hvorki umskera börn sín né fylgja siðum vorum.

22 Hvað á nú að gjöra? Víst mun það spyrjast, að þú ert kominn.

23 Gjör því þetta, sem vér nú segjum þér. Hjá oss eru fjórir menn, sem heit hvílir á.

24 Tak þá með þér, lát hreinsast með þeim og ber kostnaðinn fyrir þá, að þeir geti látið raka höfuð sín. Þá mega allir sjá, að ekkert er hæft í því, sem þeim hefur verið sagt um þig, heldur gætir þú lögmálsins sjálfur í breytni þinni.

25 En um heiðingja, sem trú hafa tekið, höfum vér gefið út bréf og ályktað, að þeir skuli varast kjöt fórnað skurðgoðum, blóð, kjöt af köfnuðum dýrum og saurlifnað."

26 Páll tók að sér mennina og lét hreinsast með þeim daginn eftir. Síðan gekk hann inn í helgidóminn og gjörði kunnugt, hvenær hreinsunardagarnir væru á enda og fórnin fyrir hvern þeirra skyldi fram borin.

27 Þegar dagarnir sjö voru nær liðnir, sáu Gyðingar frá Asíu Pál í helgidóminum. Þeir komu öllu fólkinu í uppnám, lögðu hendur á hann

28 og hrópuðu: "Ísraelsmenn, veitið nú lið. Þetta er maðurinn, sem alls staðar kennir öllum það, sem er andstætt lýðnum, lögmálinu og þessum stað. Og nú hefur hann auk heldur farið með Grikki inn í helgidóminn og saurgað þennan heilaga stað."

29 En þeir höfðu áður séð Trófímus frá Efesus með honum í borginni og hugðu, að Páll hefði farið með hann inn í helgidóminn.

30 Öll borgin varð uppvæg, fólk þusti að, þeir tóku Pál og drógu hann út úr helgidóminum. Jafnskjótt var dyrunum læst.

31 Þeir ætluðu að lífláta hann, en hersveitarforingjanum var tjáð, að öll Jerúsalem væri í uppnámi.

32 Hann brá við og tók með sér hermenn og hundraðshöfðingja og hljóp niður til þeirra. Þegar þeir sáu hersveitarforingjann og hermennina, hættu þeir að berja Pál.

33 Hersveitarforinginn kom þá að, tók hann og skipaði að binda hann tvennum fjötrum og spurði, hver hann væri og hvað hann hefði gjört.

34 En sitt kallaði hver í mannfjöldanum. Þegar hann gat ekki orðið neins vísari sökum óróans, bauð hann að fara með hann upp í kastalann.

35 Þegar komið var að þrepunum, urðu hermennirnir að bera hann vegna ofsans í fólkinu,

36 en múgur manns fylgdi eftir og æpti: "Burt með hann!"

37 Um leið og fara átti með Pál inn í kastalann, segir hann við hersveitarforingjann: "Leyfist mér að tala nokkur orð við þig?" Hann svaraði: "Kannt þú grísku?

38 Ekki ert þú þá Egyptinn, sem æsti til uppreisnar á dögunum og fór með morðvargana fjögur þúsund út í óbyggðir."

39 Páll sagði: "Ég er Gyðingur, frá Tarsus í Kilikíu, borgari í ekki ómerkum bæ. Ég bið þig, leyf mér að tala til fólksins."

40 Hann leyfði það. Páll bandaði hendi til fólksins, þar sem hann stóð á þrepunum. Þegar hann hafði fengið gott hljóð, mælti hann til þeirra á hebreska tungu:

22 "Bræður og feður, hlustið á það, sem ég ætla að flytja yður mér til varnar."

En er þeir heyrðu hann ávarpa sig á hebresku, urðu þeir enn hljóðari. Hann heldur áfram:

"Ég er Gyðingur, fæddur í Tarsus í Kilikíu, en alinn upp í þessari borg. Við fætur Gamalíels hlaut ég fyllstu uppfræðslu í lögmáli feðra vorra. Guðs stríðsmaður vildi ég vera ekki síður en þér allir í dag.

Ég ofsótti þá, sem voru þessa vegar, og sparði ekki líf þeirra, færði í fjötra og hneppti í fangelsi karla og konur.

Æðsti presturinn og allt öldungaráðið geta borið mér vitni um þetta. Hjá þeim fékk ég bréf til bræðranna í Damaskus og fór þangað til að flytja einnig þá, er þar voru, í böndum til Jerúsalem, að þeim yrði refsað.

En á leiðinni, er ég nálgaðist Damaskus, bar svo við um hádegisbil, að ljós mikið af himni leiftraði skyndilega um mig.

Ég féll til jarðar og heyrði raust, er sagði við mig: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?`

Ég svaraði: ,Hver ert þú, herra?` Og hann sagði við mig: ,Ég er Jesús frá Nasaret, sem þú ofsækir.`

Þeir, sem með mér voru, sáu ljósið, en raust þess, er við mig talaði, heyrðu þeir ekki.

10 Þá sagði ég: ,Hvað á ég að gjöra, herra?` En Drottinn sagði við mig: ,Rís upp og far til Damaskus. Þar mun þér verða sagt allt, sem þér er ætlað að gjöra.`

11 En með því að ég var blindaður af ljóma þessa ljóss, urðu förunautar mínir að leiða mig, og þannig komst ég til Damaskus.

12 En Ananías nokkur, maður guðrækinn eftir lögmálinu og í góðum metum hjá öllum Gyðingum, er þar bjuggu,

13 kom til mín, nam staðar hjá mér og sagði: ,Sál, bróðir, fá þú aftur sjón þína!` Á sömu stundu fékk ég sjónina og sá hann.

14 En hann sagði: ,Guð feðra vorra hefur útvalið þig til að þekkja vilja sinn, að sjá hinn réttláta og heyra raustina af munni hans.

15 Því að þú skalt honum vottur vera hjá öllum mönnum um það, sem þú hefur séð og heyrt.

16 Hvað dvelur þig nú? Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum.`

17 En þegar ég var kominn aftur til Jerúsalem og baðst fyrir í helgidóminum, varð ég frá mér numinn

18 og sá hann, og hann sagði við mig: ,Flýt þér og far sem skjótast burt úr Jerúsalem, því að þeir munu ekki veita viðtöku vitnisburði þínum um mig.`

19 Ég sagði: ,Drottinn, þeir vita, að ég hef verið að hneppa í fangelsi þá, sem trúðu á þig, og láta húðstrýkja þá í samkunduhúsunum.

20 Og þegar úthellt var blóði Stefáns, vottar þíns, stóð ég sjálfur þar hjá og lét mér vel líka og varðveitti klæði þeirra, sem tóku hann af lífi.`

21 Hann sagði við mig: ,Far þú, því að ég mun senda þig til heiðingja langt í burtu."`

22 Allt að þessu orði hlýddu þeir á hann, en nú hófu þeir upp raust sína og hrópuðu: "Burt með slíkan mann af jörðinni! Eigi hæfir, að hann lifi!"

23 Nú sem þeir æptu og vingsuðu klæðum sínum og þyrluðu ryki í loft upp,

24 skipaði hersveitarforinginn að fara með hann inn í kastalann og hýða hann og kúga hann með því til sagna, svo að hann kæmist að því, fyrir hverja sök þeir gjörðu slík óp að honum.

25 En þá er þeir strengdu hann undir höggin, sagði Páll við hundraðshöfðingjann, er hjá stóð: "Leyfist yður að húðstrýkja rómverskan mann og það án dóms og laga?"

26 Þegar hundraðshöfðinginn heyrði þetta, fór hann til hersveitarforingjans, skýrði honum frá og sagði: "Hvað ert þú að gjöra? Maður þessi er rómverskur."

27 Hersveitarforinginn kom þá og sagði við Pál: "Seg mér, ert þú rómverskur borgari?" Páll sagði: "Já."

28 Hersveitarforinginn sagði: "Fyrir ærið fé keypti ég þennan þegnrétt." En Páll sagði: "Ég er meira að segja með honum fæddur."

29 Þeir, sem áttu að kúga hann til sagna, viku nú jafnskjótt frá honum. Og hersveitarforinginn varð hræddur, er hann varð þess vís, að það var rómverskur maður, sem hann hafði látið binda.

30 Daginn eftir vildi hann ganga úr skugga um, fyrir hvað Gyðingar kærðu hann, lét leysa hann og bauð, að æðstu prestarnir og allt ráðið kæmi saman. Síðan kom hann ofan með Pál og leiddi hann fram fyrir þá.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes