Add parallel Print Page Options

18 Eftir þetta fór Páll frá Aþenu og kom til Korintu.

Þar hitti hann Gyðing nokkurn, Akvílas að nafni, ættaðan frá Pontus, nýkominn frá Ítalíu, og Priskillu konu hans, en Kládíus hafði skipað svo fyrir, að allir Gyðingar skyldu fara burt úr Róm. Páll fór til þeirra,

og af því hann stundaði sömu iðn, settist hann að hjá þeim og vann með þeim. Þeir voru tjaldgjörðarmenn að iðn.

Hann ræddi við menn í samkunduhúsinu hvern hvíldardag og reyndi að sannfæra bæði Gyðinga og Grikki.

Þegar þeir Sílas og Tímóteus komu norðan frá Makedóníu, gaf Páll sig allan að boðun orðsins og vitnaði fyrir Gyðingum, að Jesús væri Kristur.

En er þeir stóðu í gegn og lastmæltu, hristi hann dustið af klæðum sínum og sagði við þá: "Blóð yðar komi yfir höfuð yðar. Ekki er mér um að kenna. Upp frá þessu fer ég til heiðingjanna."

Og hann fór þaðan og kom í hús manns nokkurs, er hét Títus Jústus og dýrkaði Guð. Hús hans var hjá samkunduhúsinu.

Krispus samkundustjóri tók trú á Drottin og allt heimili hans, og margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast.

En Drottinn sagði við Pál um nótt í sýn: "Óttast þú eigi, heldur tala þú og þagna ekki,

10 ég er með þér. Enginn skal ráðast að þér og vinna þér mein, því að ég á margt fólk í þessari borg."

11 Hann var þar um kyrrt þrjú misseri og kenndi þeim orð Guðs.

12 En þegar Gallíón var landstjóri í Akkeu, bundust Gyðingar samtökum gegn Páli, drógu hann fyrir dómstólinn

13 og sögðu: "Maður þessi tælir menn til að dýrka Guð gagnstætt lögmálinu."

14 Páll bjóst til að svara, og þá sagði Gallíón við Gyðingana: "Væri hér um einhver lögbrot eða illvirki að ræða, bæri mér að sinna yður, Gyðingar.

15 En fyrst það eru þrætur um orð og nöfn og lögmál yðar, þá ráðið sjálfir fram úr því. Dómari í þeim sökum vil ég ekki vera."

16 Og hann rak þá burt frá dómstólnum.

17 Þá tóku þeir allir Sósþenes samkundustjóra og fóru að berja hann fyrir framan dómstólinn, og lét Gallíón sig það engu skipta.

18 Páll var þar enn um kyrrt allmarga daga, kvaddi síðan bræðurna og sigldi til Sýrlands og með honum Priskilla og Akvílas. Lét hann áður skera hár sitt í Kenkreu, því að heit hafði hvílt á honum.

19 Þeir komu til Efesus. Þar skildi hann við þá, en gekk sjálfur inn í samkunduhúsið og ræddi við Gyðinga.

20 Þeir báðu hann að standa lengur við, en hann varð ekki við því,

21 heldur kvaddi þá og sagði: "Ég skal koma aftur til yðar, ef Guð lofar." Síðan lét hann í haf frá Efesus,

22 lenti í Sesareu, fór upp eftir til Jerúsalem og heilsaði söfnuðinum. Síðan hélt hann norður til Antíokkíu.

23 Þegar hann hafði dvalist þar um hríð, hélt hann af stað og fór eins og leið liggur um Galataland og Frýgíu og styrkti alla lærisveinana.

24 En Gyðingur nokkur, Apollós að nafni, ættaður frá Alexandríu, kom til Efesus. Hann var maður vel máli farinn og fær í ritningunum.

25 Hann hafði verið fræddur um veg Drottins, og brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar.

26 Þessi maður tók nú að tala djarflega í samkunduhúsinu. Priskilla og Akvílas heyrðu til hans, tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.

27 Hann fýsti að fara yfir til Akkeu. Bræðurnir hvöttu hann til þess og rituðu lærisveinunum þar að taka honum vel. Hann kom þangað og varð til mikillar hjálpar þeim, sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú,

28 því hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum, að Jesús væri Kristur.

19 Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina.

Hann sagði við þá: "Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú?" Þeir svöruðu: "Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til."

Hann sagði: "Upp á hvað eruð þér þá skírðir?" Þeir sögðu: "Skírn Jóhannesar."

Þá mælti Páll: "Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú."

Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú.

Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu.

Þessir menn voru alls um tólf.

Páll sótti nú samkunduna í þrjá mánuði og talaði þar djarflega og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki.

En nokkrir brynjuðu sig og vildu ekki trúa. Þegar þeir tóku að illmæla veginum í áheyrn fólksins, sagði Páll skilið við þá, greindi lærisveinana frá þeim, og síðan talaði hann daglega í skóla Týrannusar.

10 Þessu fór fram í tvö ár, svo að allir þeir, sem í Asíu bjuggu, heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.

11 Guð gjörði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls.

12 Það bar við, að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka, og hurfu þá veikindi þeirra, og illir andar fóru út af þeim.

13 En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim, er höfðu illa anda. Þeir sögðu: "Ég særi yður við Jesú þann, sem Páll prédikar."

14 Þeir er þetta frömdu, voru sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests.

15 En illi andinn sagði við þá: "Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér?"

16 Og maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart, að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu.

17 Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla, og nafn Drottins Jesú varð miklað.

18 Margir þeirra, sem trú höfðu tekið, komu, gjörðu játningu og sögðu frá athæfi sínu.

19 Og allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga.

20 Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.

21 Þá er þetta var um garð gengið, tók Páll þá ákvörðun að ferðast um Makedóníu og Akkeu og fara síðan til Jerúsalem. Hann sagði: "Þegar ég hef verið þar, ber mér líka að sjá Róm."

22 Hann sendi tvo aðstoðarmenn sína, þá Tímóteus og Erastus, til Makedóníu, en dvaldist sjálfur um tíma í Asíu.

23 Í þann tíma urðu miklar æsingar út af veginum.

24 Demetríus hét maður og var silfursmiður. Bjó hann til Artemisar-musteri úr silfri og veitti smiðum eigi litla atvinnu.

25 Hann stefndi þeim saman og öðrum, sem að slíku unnu, og sagði: "Góðir menn, þér vitið, að velmegun vor hvílir á þessari atvinnu.

26 Og þér sjáið og heyrið, að Páll þessi hefur með fortölum sínum snúið fjölda fólks, ekki einungis í Efesus, heldur nær um gjörvalla Asíu. Hann segir, að eigi séu það neinir guðir, sem með höndum eru gjörðir.

27 Nú horfir þetta ekki einungis iðn vorri til smánar, heldur einnig til þess, að helgidómur hinnar miklu gyðju, Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll Asía og heimsbyggðin dýrkar, verði svipt tign sinni."

28 Er þeir heyrðu þetta, urðu þeir afar reiðir og æptu: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"

29 Og öll borgin komst í uppnám, menn þustu hver um annan til leikvangsins og þrifu með sér þá Gajus og Aristarkus, förunauta Páls úr Makedóníu.

30 En er Páll vildi ganga inn í mannþröngina, leyfðu lærisveinarnir honum það ekki.

31 Nokkrir höfðingjar skattlandsins, sem voru vinir hans, sendu einnig til hans og báðu hann að hætta sér ekki inn á leikvanginn.

32 Menn hrópuðu nú sitt hver, því að mannsöfnuðurinn var í uppnámi, og vissu fæstir, hvers vegna þeir voru saman komnir.

33 Nokkrir í mannþrönginni töldu það vera vegna Alexanders, því að Gyðingar ýttu honum fram, en Alexander benti til hljóðs með hendinni og vildi verja mál sitt fyrir fólkinu.

34 Þegar menn urðu þess vísir, að hann var Gyðingur, lustu allir upp einu ópi og hrópuðu í nærfellt tvær stundir: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"

35 En borgarritarinn gat sefað fólkið og mælti: "Efesusmenn, hver er sá maður, að hann viti ekki, að borg Efesusmanna geymir musteri hinnar miklu Artemisar og steininn helga af himni?

36 Þar sem enginn má gegn því mæla, ber yður að vera stilltir og hrapa ekki að neinu.

37 Þér hafið dregið þessa menn hingað, þótt þeir hafi hvorki framið helgispjöll né lastmælt gyðju vorri.

38 Eigi nú Demetríus og smiðirnir, sem honum fylgja, sök við nokkurn, þá eru þingdagar haldnir, og til eru landstjórar. Eigist þeir lög við.

39 En ef þér hafið annars að krefja, má gjöra út um það á löglegu þingi.

40 Vér eigum á hættu að verða sakaðir um uppreisn fyrir þetta í dag og getum ekki bent á neitt tilefni, sem gæti afsakað slík ólæti." Að svo mæltu lét hann mannsöfnuðinn fara.

20 Þegar þessum látum linnti, sendi Páll eftir lærisveinunum, uppörvaði þá og kvaddi síðan og lagði af stað til Makedóníu.

Hann fór nú um þau héruð og uppörvaði menn með mörgum orðum. Síðan hélt hann til Grikklands.

Dvaldist hann þar þrjá mánuði. Þá bjóst hann til að sigla til Sýrlands, en þar eð Gyðingar brugguðu honum launráð, tók hann til bragðs að hverfa aftur um Makedóníu.

Í för með honum voru þeir Sópater Pýrrusson frá Beroju, Aristarkus og Sekúndus frá Þessaloníku, Gajus frá Derbe, Tímóteus og Asíumennirnir Týkíkus og Trófímus.

Þeir fóru á undan og biðu vor í Tróas.

En vér sigldum eftir daga ósýrðu brauðanna frá Filippí og komum til þeirra í Tróas á fimmta degi. Þar stóðum vér við í sjö daga.

Fyrsta dag vikunnar, er vér vorum saman komnir til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis.

Mörg ljós voru í loftstofunni, þar sem vér vorum saman komnir.

Ungmenni eitt, Evtýkus að nafni, sat í glugganum. Seig á hann svefnhöfgi, er Páll ræddi svo lengi, og féll hann sofandi ofan af þriðja lofti. Hann var liðinn, þegar hann var tekinn upp.

10 Páll gekk ofan, varpaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði: "Verið stilltir, það er líf með honum."

11 Fór hann síðan upp, braut brauðið og neytti og talaði enn lengi, allt fram í dögun. Að svo búnu hélt hann brott.

12 En þeir fóru með sveininn lifandi og hugguðust mikillega.

13 Vér fórum á undan til skips og sigldum til Assus. Þar ætluðum vér að taka Pál. Svo hafði hann fyrir lagt, því hann vildi fara landveg.

14 Þegar hann hafði hitt oss í Assus, tókum vér hann á skip og héldum til Mitýlene.

15 Þaðan sigldum vér daginn eftir og komumst til móts við Kíos. Á öðrum degi fórum vér til Samos og komum næsta dag til Míletus.

16 En Páll hafði sett sér að sigla fram hjá Efesus, svo að hann tefðist ekki í Asíu. Hann hraðaði ferð sinni, ef verða mætti, að hann kæmist til Jerúsalem á hvítasunnudag.

17 Frá Míletus sendi hann til Efesus og boðaði til sín öldunga safnaðarins.

18 Þegar þeir komu til hans, sagði hann við þá: "Þér vitið, hvernig ég hef hagað mér hjá yður alla tíð frá þeim degi, er ég kom fyrst til Asíu.

19 Ég þjónaði Drottni í allri auðmýkt, með tárum og í raunum, sem að mér hafa steðjað af launráðum Gyðinga.

20 Þér vitið, að ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum

21 og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.

22 Og nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af andanum. Ekki veit ég, hvað þar mætir mér,

23 nema að heilagur andi birtir mér í hverri borg, að fjötrar og þrengingar bíði mín.

24 En mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.

25 Nú veit ég, að þér munuð ekki framar sjá mig, engir þér, sem ég hef komið til og boðað ríkið.

26 Þess vegna vitna ég fyrir yður nú í dag, að ekki er mig um að saka, þótt einhver glatist,

27 því að ég hef boðað yður allt Guðs ráð og ekkert dregið undan.

28 Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.

29 Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni.

30 Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.

31 Vakið því og verið þess minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár.

32 Og nú fel ég yður Guði og orði náðar hans, sem máttugt er að uppbyggja yður og gefa yður arfleifð með öllum þeim, sem helgaðir eru.

33 Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns.

34 Sjálfir vitið þér, að þessar hendur unnu fyrir öllu því, er ég þurfti með og þeir, er með mér voru.

35 Í öllu sýndi ég yður, að með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ,Sælla er að gefa en þiggja."`

36 Þegar hann hafði þetta mælt, féll hann á kné og baðst fyrir ásamt þeim öllum.

37 Allir tóku að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann.

38 Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann. Síðan fylgdu þeir honum til skips.