A A A A A
Bible Book List

Síðari Samúelsbók 22-24 Icelandic Bible (ICELAND)

22 Davíð flutti Drottni orð þessa ljóðs, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.

Hann mælti: Drottinn er bjarg mitt og vígi, hann er sá sem hjálpar mér.

Guð minn er hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín og hæli, frelsari minn, sem frelsar mig frá ofbeldi.

Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.

Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,

snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.

Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Í helgidómi sínum heyrði hann raust mína, óp mitt barst til eyrna honum.

Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður.

Reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.

10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.

11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.

12 Hann gjörði myrkrið í kringum sig að skýli, regnsortann og skýþykknið.

13 Frá ljómanum fyrir honum flugu hagl og eldglæringar.

14 Drottinn þrumaði af himni, hinn hæsti lét raust sína gjalla.

15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði þeim, lét eldingarnar leiftra og hræddi þá.

16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnum Drottins, fyrir andgustinum úr nösum hans.

17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.

18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.

19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.

20 Hann leiddi mig út á víðlendi, hann frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.

21 Drottinn fór með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna galt hann mér,

22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.

23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum og frá boðorðum hans hefi ég ekki vikið.

24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.

25 Drottinn galt mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.

26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,

27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.

28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir alla hrokafulla niðurlúta.

29 Já, þú ert lampi minn, Drottinn, Guð minn lýsir mér í myrkrinu.

30 Fyrir þína hjálp hleyp ég yfir virkisgrafir, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.

31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er skírt. Skjöldur er hann öllum þeim, sem leita hælis hjá honum.

32 Því að hver er Guð, nema Drottinn, og hver er hellubjarg, utan vor Guð?

33 Sá Guð, sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan.

34 Hann gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum.

35 Hann æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.

36 Þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.

37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum og ökklar mínir riðuðu ekki.

38 Ég elti óvini mína og náði þeim, og sneri ekki aftur fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.

39 Ég gjöreyddi þeim og molaði þá sundur, svo að þeir risu ekki upp framar og hnigu undir fætur mér.

40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.

41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, þeim eyddi ég, sem hata mig.

42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.

43 Ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem skarn á strætum.

44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna. Lýður, sem ég þekkti ekki, þjónar mér.

45 Framandi menn smjaðra fyrir mér, óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér.

46 Framandi menn dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.

47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns!

48 Þú Guð, sem veittir mér hefndir og braust þjóðir undir mig,

49 sem hreifst mig úr höndum óvina minna og hófst mig yfir mótstöðumenn mína. Frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.

50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.

51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.

23 Þetta eru síðustu orð Davíðs: Svo mælti Davíð Ísaíson, svo mælti maðurinn, er hátt var settur, hinn smurði Jakobs Guðs, ljúflingur Ísraels ljóða.

Andi Drottins talaði í mér og hans orð er á minni tungu.

Ísraels Guð talaði, bjarg Ísraels mælti við mig: "Sá sem ríkir yfir mönnum með réttvísi, sá sem ríkir í ótta Guðs,

hann er eins og dagsbirtan, þegar sólin rennur upp á heiðríkju-morgni, þegar grasið sprettur í glaðasólskini eftir regn."

Já, er ekki hús mitt svo fyrir Guði? Því að hann hefir gjört við mig eilífan sáttmála, ákveðinn í öllum greinum og áreiðanlegan. Já, allt sem verður mér til heilla og gleði, skyldi hann ekki veita því vöxt?

En varmennin, þau eru öll eins og þyrnar, sem út er kastað, því að enginn tekur á þeim með hendinni.

Hver, sem rekst á þau, vopnast járni og spjótskafti, og í eldi munu þau brennd verða til kaldra kola.

Þetta eru nöfnin á köppum Davíðs: Ísbaal Hakmóníti, höfðingi hinna þriggja. Hann veifaði spjóti sínu yfir átta hundruð vegnum í einu.

Honum næstur er, meðal kappanna þriggja, Eleasar Dódóson, Ahóhíti. Hann var með Davíð í Pas Dammím, en Filistar höfðu safnast þar saman til orustu. En er Ísraelsmenn hörfuðu undan,

10 stóð hann fastur fyrir og barði á Filistum, uns hann varð þreyttur í hendinni, og hönd hans var kreppt um sverðið, og Drottinn veitti mikinn sigur á þeim degi. Og liðið sneri aftur með honum aðeins til rána.

11 Næstur honum er Samma Ageson, Hararíti. Filistar söfnuðust saman og fóru til Lekí, en þar var akurspilda, alsprottin flatbaunum. En er fólkið flýði fyrir Filistum,

12 nam hann staðar í spildunni miðri, náði henni og vann sigur á Filistum. Veitti Drottinn þannig mikinn sigur.

13 Einu sinni fóru þrír af höfðingjunum þrjátíu og komu til Davíðs í hamrinum, í Adúllamvíginu, en flokkur af Filistum lá í herbúðum í Refaímdal.

14 Þá var Davíð í víginu, en varðsveit Filista var þá í Betlehem.

15 Þá þyrsti Davíð og hann sagði: "Hver vill sækja mér vatn í brunninn í Betlehem, sem er þar við hliðið?"

16 Þá brutust kapparnir þrír gegnum herbúðir Filista, jusu vatni úr brunninum í Betlehem, sem þar er við hliðið, tóku það og færðu Davíð. En hann vildi ekki drekka það, heldur dreypti því Drottni til handa

17 og mælti: "Drottinn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt! Get ég drukkið blóð þeirra manna, sem stofnuðu lífi sínu í hættu með því að fara?" _ og hann vildi ekki drekka það. Þetta gjörðu kapparnir þrír.

18 Abísaí, bróðir Jóabs, sonur Serúju, var fyrir hinum þrjátíu. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum og var frægur meðal hinna þrjátíu.

19 Af hinum þrjátíu var hann í heiðri hafður og var foringi þeirra, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki.

20 Benaja Jójadason, hraustmenni, frægur fyrir afreksverk sín, var frá Kabseel. Hann drap báða sonu Aríels frá Móab. Hann sté ofan í brunn og drap þar ljón einn dag, er snjóað hafði.

21 Hann drap og egypskan mann tröllaukinn. Egyptinn hafði spjót í hendi, en hann fór á móti honum með staf, reif spjótið úr hendi Egyptans og drap hann með hans eigin spjóti.

22 Þetta gjörði Benaja Jójadason. Hann var frægur meðal þrjátíu kappanna.

23 Af hinum þrjátíu var hann í heiðri hafður, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki. Davíð setti hann yfir lífvörð sinn.

24 Meðal hinna þrjátíu voru: Asahel, bróðir Jóabs, Elkanan Dódóson frá Betlehem,

25 Samma frá Haród, Elíka frá Haród,

26 Heles frá Pelet, Íra Íkkesson frá Tekóa,

27 Abíeser frá Anatót, Síbbekaí frá Húsa,

28 Salmón frá Ahó, Maharaí frá Netófa,

29 Heled Baanason frá Netófa, Íttaí Ríbaíson frá Gíbeu í Benjamíns ættkvísl,

30 Benaja frá Píraton, Híddaí frá Nahale Gaas,

31 Abi Albon frá Bet Araba, Asmavet frá Bahúrím,

32 Eljahba frá Saalbón, Jasen Gúníti,

33 Jónatan Sammason frá Harar, Ahíam Sararsson frá Arar,

34 Elífelet Ahasbaíson frá Maaka, Elíam Akítófelsson frá Gíló,

35 Hesró frá Karmel, Paaraí Arkíti,

36 Jígal Natansson frá Sóba, Baní frá Gað,

37 Selek Ammóníti, Naharaí frá Beerót, skjaldsveinn Jóabs Serújusonar,

38 Íra frá Jattír, Gareb frá Jattír,

39 Úría Hetíti. Til samans þrjátíu og sjö.

24 Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: "Far þú og tel Ísrael og Júda."

Þá sagði konungur við Jóab og hershöfðingjana, sem með honum voru: "Farið um allar ættkvíslir Ísraels frá Dan til Beerseba og teljið fólkið, til þess að ég fái að vita, hve margt fólkið er."

Jóab svaraði konungi: "Drottinn Guð þinn margfaldi lýðinn _ hversu margir, sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum og láti minn herra konunginn lifa það. En hvers vegna vill minn herra konungurinn gjöra þetta?"

En Jóab og hershöfðingjarnir máttu eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Gekk þá Jóab og hershöfðingjarnir burt frá konungi til þess að taka manntal í Ísrael.

Þeir fóru yfir Jórdan og byrjuðu á Aróer og borginni, sem er í dalnum í áttina til Gað og Jaser.

Síðan komu þeir til Gíleað, og til lands Hetíta, í nánd við Kades. Þá komu þeir til Dan, og frá Dan beygðu þeir við í áttina til Sídon.

Því næst komu þeir til Týruskastala og til allra borga Hevíta og Kanaaníta, fóru síðan til suðurlandsins í Júda, til Beerseba.

En er þeir höfðu farið um land allt, komu þeir eftir níu mánuði og tuttugu daga til Jerúsalem.

Og Jóab sagði konungi töluna, sem komið hafði út við manntalið: Í Ísrael voru átta hundruð þúsundir vopnfærra manna vopnbúinna, en í Júda fimm hundruð þúsundir manns.

10 En samviskan sló Davíð, er hann hafði látið telja fólkið. Þá sagði Davíð við Drottin: "Mjög hefi ég syndgað með því, sem ég hefi gjört. En Drottinn, tak nú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."

11 Er Davíð reis morguninn eftir, kom orð Drottins til Gaðs spámanns, sjáanda Davíðs, svolátandi:

12 "Far þú og seg við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."

13 Þá gekk Gað til Davíðs, sagði honum frá þessu og mælti til hans: "Hvað kýst þú, að hungur komi í þrjú ár yfir land þitt, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverðið elti þig, eða drepsótt geisi þrjá daga í landi þínu? Hugsaðu þig nú um, og sjá til, hverju ég á að svara þeim, sem sendi mig."

14 Þá sagði Davíð við Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Látum oss falla í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."

15 Davíð kaus þá drepsóttina, en hveitiuppskeran stóð yfir, þegar sóttin byrjaði, og af lýðnum frá Dan til Beerseba dóu sjötíu þúsund manns.

16 En er engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til þess að eyða hana, þá iðraði Drottin hins illa, og hann sagði við engilinn, sem eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Aravna Jebúsíta.

17 Þegar Davíð sá, hversu engillinn drap niður fólkið, þá sagði hann við Drottin: "Sjá, ég hefi syndgað, og ég hefi misgjört. En þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína."

18 Þann dag kom Gað til Davíðs og mælti við hann: "Far þú og reis Drottni altari á þreskivelli Aravna Jebúsíta."

19 Og Davíð fór eftir boði Gaðs, eins og Drottinn hafði skipað.

20 Og er Aravna leit upp og sá konung og menn hans koma til sín, þá gekk hann í móti þeim og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi.

21 Og Aravna mælti: "Hví kemur minn herra konungurinn til þjóns síns?" Davíð svaraði: "Til þess að kaupa af þér þreskivöllinn, svo að ég geti reist Drottni altari og plágunni megi létta af lýðnum."

22 Aravna svaraði Davíð: "Taki minn herra konungurinn það, sem honum þóknast, og fórni. Sjá, hér eru nautin til brennifórnar og þreskisleðarnir og aktygin af nautunum til eldiviðar.

23 Allt þetta, konungur, gefur Aravna konunginum." Og Aravna mælti við konung: "Drottinn, Guð þinn, sé þér náðugur!"

24 En konungur sagði við Aravna: "Eigi svo, en kaupa vil ég það verði af þér, því að ekki vil ég færa Drottni, Guði mínum, það í brennifórnir, er ég hefi kauplaust þegið." Síðan keypti Davíð þreskivöllinn og nautin fyrir fimmtíu sikla silfurs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes