Add parallel Print Page Options

16 En er Davíð var kominn spölkorn frá hæðinni, kom Síba, sveinn Mefíbósets, í móti honum með tvo söðlaða asna, klyfjaða tvö hundruð brauðum, hundrað rúsínukökum, hundrað aldinkökum og vínlegli.

Konungur mælti við Síba: "Hvað ætlar þú að gjöra við þetta?" Síba svaraði: "Asnarnir eru ætlaðir konungsfólkinu til reiðar, brauðin og aldinin til matar þjónustuliðinu og vínið til drykkjar þeim, er örmagnast kunna á eyðimörkinni."

Þá mælti konungur: "Hvar er sonur herra þíns?" Síba svaraði konungi: "Hann er kyrr í Jerúsalem, því að hann hugsaði: ,Í dag mun Ísraels hús fá mér aftur konungsríki föður míns."`

Þá sagði konungur við Síba: "Sjá, allt sem Mefíbóset á, það sé þitt!" Síba mælti: "Ég hneigi mig! Mætti ég jafnan finna náð í augum þínum, minn herra konungur."

Þegar Davíð konungur kom til Bahúrím, kom þaðan maður af kynþætti Sáls, sem Símeí hét, Gerason. Hann kom bölvandi og ragnandi

og kastaði steinum að Davíð og öllum þjónum Davíðs konungs, en allt fólkið og allir kapparnir gengu til hægri og vinstri hliðar honum.

En Símeí komst svo að orði í formælingum sínum: "Burt, burt, blóðhundurinn og hrakmennið!

Nú lætur Drottinn þér í koll koma allt blóð ættar Sáls, í hvers stað þú ert konungur orðinn, og Drottinn hefir gefið konungdóminn í hendur Absalon syni þínum, og nú er ógæfan yfir þig komin, af því að þú ert blóðhundur."

Þá mælti Abísaí Serújuson við konung: "Hví skal þessi dauði hundur formæla mínum herra konunginum? Lát mig fara og stýfa af honum hausinn."

10 En konungur svaraði: "Hvað hefi ég saman við yður að sælda, Serújusynir? Ef hann formælir og ef Drottinn hefir sagt honum: ,Formæl Davíð!` _ hver vogar þá að segja: ,Hví gjörir þú þetta?"`

11 Og Davíð sagði við Abísaí og við alla þjóna sína: "Sjá, fyrst sonur minn, sem út genginn er af lendum mínum, situr um líf mitt, hví þá ekki þessi Benjamíníti? Látið hann í friði og lofið honum að formæla, því að Drottinn hefir sagt honum það.

12 Vera má að Drottinn líti á eymd mína og bæti mér formæling hans í dag með góðu."

13 Síðan fór Davíð og menn hans leiðar sinnar, en Símeí gekk í fjallshlíðinni á hlið við hann og formælti honum í sífellu, kastaði steinum að honum og lét moldarhnausana dynja á honum.

14 Síðan kom konungur og allt fólkið, sem með honum var, uppgefið til Jórdanar og hvíldi sig þar.

15 Absalon og allir Ísraelsmenn komu til Jerúsalem og Akítófel með honum.

16 Og er Húsaí Arkíti, vinur Davíðs, kom til Absalons, sagði Húsaí við hann: "Konungurinn lifi! Konungurinn lifi!"

17 Þá sagði Absalon við Húsaí: "Er þetta kærleikur þinn til vinar þíns? Hvers vegna fórst þú ekki með vini þínum?"

18 Húsaí sagði þá við Absalon: "Nei, því að þann, sem Drottinn og þessi lýður og allir Ísraelsmenn velja, hans maður vil ég vera, og hjá honum vil ég dveljast.

19 Og í annan stað: Hverjum veiti ég þjónustu? Er það ekki syni hans? Eins og ég hefi veitt föður þínum þjónustu, svo mun ég og veita þér."

20 Þá sagði Absalon við Akítófel: "Leggið nú ráð á, hvað vér skulum gjöra!"

21 Akítófel sagði við Absalon: "Gakk þú inn til hjákvenna föður þíns, sem hann lét eftir verða til þess að gæta hallarinnar. Mun þá allur Ísrael frétta, að þú sért orðinn óþokkaður af föður þínum, og mun þá öllum þínum mönnum vaxa hugur."

22 Þá tjölduðu þeir fyrir Absalon á þakinu, og Absalon gekk inn til hjákvenna föður síns í augsýn alls Ísraels.

23 En þau ráð, er Akítófel réð, þóttu í þá daga eins góð og gild, sem gengið væri til frétta við Guð, _ svo mikils máttu sín öll ráð Akítófels, bæði hjá Davíð og Absalon.

17 Síðan sagði Akítófel við Absalon: "Ég ætla að velja úr tólf þúsund manns, leggja af stað og veita Davíð eftirför þegar í nótt

og ráðast á hann, meðan hann er þreyttur og ráðþrota, og skjóta honum skelk í bringu. Mun þá allt liðið, sem með honum er, leggja á flótta, en ég mun drepa konunginn einan.

Síðan mun ég leiða aftur allt fólkið til þín, eins og þegar brúður hverfur aftur til manns síns. Það er þó ekki nema einn maður, sem þú vilt feigan, en allur lýðurinn mun hafa frið."

Þetta ráð geðjaðist Absalon vel og öllum öldungum Ísraels.

Og Absalon sagði: "Kallið og á Húsaí Arkíta, svo að vér megum einnig heyra, hvað hann leggur til."

Þá kom Húsaí til Absalons, og Absalon sagði við hann: "Þannig hefir Akítófel talað. Eigum vér að gjöra það, sem hann segir? Ef eigi, þá tala þú!"

Þá sagði Húsaí við Absalon: "Ráð það, er Akítófel að þessu sinni hefir ráðið, er ekki gott."

Og Húsaí sagði: "Þú þekkir föður þinn og menn hans, að þeir eru hinir mestu kappar og grimmir í skapi, eins og birna á mörkinni, sem rænd er húnum sínum. Auk þess er faðir þinn maður vanur bardögum og lætur eigi fyrir berast um nætur hjá liðinu.

Sjá, hann mun nú hafa falið sig í einhverri gryfjunni eða einhvers staðar annars staðar. Ef nokkrir af þeim falla í fyrstu og það spyrst, munu menn segja: ,Lið það, sem fylgir Absalon, hefir beðið ósigur.`

10 Þá mun svo fara, að jafnvel hreystimennið með ljónshjartað mun láta hugfallast, því að allur Ísrael veit, að faðir þinn er hetja og þeir hraustmenni, sem með honum eru.

11 En þetta er mitt ráð: Allur Ísrael frá Dan til Beerseba skal saman safnast til þín, svo fjölmennur sem sandur á sjávarströndu, og sjálfur fer þú meðal þeirra.

12 Og ef vér þá hittum hann einhvers staðar, hvar sem hann nú kann að finnast, þá skulum vér steypa oss yfir hann, eins og dögg fellur á jörðu, og af honum og öllum þeim mönnum, sem með honum eru, skal ekki einn eftir verða.

13 Og ef hann leitar inn í einhverja borg, skal allur Ísrael bera vaði að þeirri borg, og síðan skulum vér draga hana ofan í ána, uns þar finnst ekki einu sinni steinvala."

14 Þá sagði Absalon og allir Ísraelsmenn: "Betra er ráð Húsaí Arkíta en ráð Akítófels!" Því að Drottinn hafði ákveðið að ónýta hið góða ráð Akítófels, til þess að hann gæti látið ógæfuna koma yfir Absalon.

15 Þá sagði Húsaí við prestana Sadók og Abjatar: "Það og það hefir Akítófel ráðið Absalon og öldungum Ísraels, og það og það hefi ég ráðið.

16 Sendið því sem skjótast og segið Davíð: ,Lát þú eigi fyrirberast í nótt við vöðin í eyðimörkinni, heldur far þú yfir um, svo að konungur og allt liðið, sem með honum er, tortímist ekki skyndilega."`

17 En Jónatan og Akímaas stóðu við Rógel-lind, og stúlka nokkur var vön að fara og færa þeim tíðindin, en þeir fóru þá jafnan og sögðu Davíð konungi frá, því að þeir máttu ekki láta sjá, að þeir kæmu inn í borgina.

18 En sveinn nokkur sá þá og sagði Absalon frá. Fóru þeir þá báðir brott í skyndi og komu til húss manns nokkurs í Bahúrím, sem átti brunn í húsagarði sínum, og stigu þeir ofan í brunninn,

19 en húsfreyja tók dúk og breiddi yfir brunninn og stráði yfir grjónum, að eigi skyldi á bera.

20 Menn Absalons komu til konunnar í húsið og sögðu: "Hvar eru þeir Akímaas og Jónatan?" Konan svaraði þeim: "Þeir eru farnir yfir ána." Þeir leituðu, en fundu þá ekki, og sneru aftur til Jerúsalem.

21 En er þeir voru burt farnir, stigu Jónatan og Akímaas upp úr brunninum, héldu áfram og fluttu Davíð konungi tíðindin. Og þeir sögðu við Davíð: "Takið yður upp og farið sem skjótast yfir ána, því að þau ráð hefir Akítófel ráðið móti yður."

22 Þá tók Davíð sig upp og allt liðið, sem með honum var, og fóru yfir Jórdan. Og er lýsti af degi, var enginn sá, er ekki hefði farið yfir Jórdan.

23 En er Akítófel sá, að eigi var farið að ráðum hans, söðlaði hann asna sinn, lagði af stað og fór heim til sín í borg sína, ráðstafaði húsi sínu og hengdi sig, og lét þannig líf sitt. Var hann síðan jarðaður hjá föður sínum.

24 Davíð var kominn til Mahanaím, þegar Absalon fór yfir Jórdan, og allir Ísraelsmenn með honum.

25 Absalon hafði sett Amasa yfir herinn í stað Jóabs, en Amasa var sonur Ísmaelíta nokkurs, er Jítra hét og gengið hafði inn til Abígal, dóttur Nahas, systur Serúju, móður Jóabs.

26 Ísrael og Absalon settu herbúðir sínar í Gíleaðlandi.

27 En er Davíð kom til Mahanaím, fluttu þeir Sóbí Nahasson frá Rabba, borg Ammóníta, Makír Ammíelsson frá Lódebar og Barsillaí Gíleaðíti frá Rógelím þangað

28 hvílur, ábreiður, skálar og leirker og færðu Davíð og liðinu, sem með honum var, hveiti, bygg, mjöl, bakað korn, baunir, flatbaunir,

29 hunang, rjóma, sauði og osta úr kúamjólk til að eta, því að þeir hugsuðu: "Liðið er orðið hungrað, þreytt og þyrst á eyðimörkinni."

18 Davíð kannaði nú liðið, sem með honum var, og setti yfir þá þúsundhöfðingja og hundraðshöfðingja.

Og Davíð skipti liðinu í þrennt. Var þriðjungur undir forustu Jóabs, þriðjungur undir forustu Abísaí Serújusonar, bróður Jóabs, og þriðjungur undir forustu Íttaí frá Gat. Og konungur sagði við liðið: "Ég er fastráðinn í að fara með yður í stríðið."

Liðið svaraði: "Þú skalt hvergi fara. Því að þótt vér flýjum, munu þeir eigi hirða um oss, og þótt helmingurinn af oss félli, mundu þeir ekki hirða um oss, því að þú ert sem tíu þúsundir af oss. Er og betra, að þú sért viðbúinn að koma oss til liðs úr borginni."

Þá sagði konungur við þá: "Svo vil ég gjöra, sem yður líst." Þá nam konungur staðar öðrumegin við borgarhliðið, en allt liðið hélt af stað, hundruðum og þúsundum saman.

En konungur lagði svo fyrir þá Jóab, Abísaí og Íttaí: "Farið vægilega með sveininn Absalon." Og allt liðið heyrði konung bjóða hershöfðingjunum svo um Absalon.

Síðan hélt liðið út til bardaga við Ísrael, og hófst orusta í Efraímskógi.

Biðu Ísraelsmenn þar ósigur fyrir Davíðs mönnum. Varð þar mikið mannfall á þeim degi: tuttugu þúsund manns.

Dreifðist bardaginn þar um allt landið, og varð skógurinn fleiri mönnum að líftjóni heldur en sverðið hafði orðið þann dag.

Þá vildi svo til, að Absalon rakst á menn Davíðs. Absalon reið múl einum, og rann múllinn inn undir þétt lim mikillar eikar og festist höfuð hans í eikinni. Hékk hann þar milli himins og jarðar, en múllinn, sem hann reið, rann undan honum.

10 Þetta sá maður nokkur, sagði Jóab frá því og mælti: "Sjá, ég sá Absalon hanga í eik einni."

11 Þá sagði Jóab við manninn, sem færði honum tíðindin: "Nú, fyrst þú sást hann, hví vannst þú þá ekki þegar á honum? Þá skyldi ég hafa gefið þér tíu sikla silfurs og belti."

12 Þá sagði maðurinn við Jóab: "Þó að taldir væru í lófa mér þúsund siklar silfurs, mundi ég samt ekki leggja hönd á konungsson, því að í áheyrn vorri lagði konungur svo fyrir þig, Abísaí og Íttaí: ,Gætið sveinsins Absalons.`

13 En ef ég hefði breytt sviksamlega við hann _ og enginn hlutur er konungi hulinn _, þá mundir þú hafa staðið fjarri."

14 Þá sagði Jóab: "Ekki má ég þá lengur tefja hjá þér," _ greip þrjú skotspjót og rak þau í brjóst Absalons. En með því að hann var enn með lífi í limi eikarinnar,

15 þustu að tíu knapar, skjaldsveinar Jóabs, og lustu Absalon til bana.

16 Þá lét Jóab þeyta lúðurinn, og liðið hætti að elta Ísrael, því að Jóab stöðvaði herinn.

17 Síðan tóku þeir Absalon, köstuðu honum í gryfju eina mikla þar í skóginum og urpu yfir hann afar mikla steindys, en allir Ísraelsmenn flýðu, hver heim til sín.

18 Absalon hafði þegar í lifanda lífi tekið merkissteininn í Kóngsdal og reist hann sér að minnisvarða, með því að hann hugsaði: "Ég á engan son til að halda uppi nafni mínu," og nefnt merkissteininn nafni sínu. Fyrir því er hann enn í dag nefndur Absalonsvarði.

19 Akímaas Sadóksson mælti: "Ég ætla að hlaupa og færa konungi fagnaðartíðindin, að Drottinn hafi rétt hluta hans á óvinum hans."

20 En Jóab sagði við hann: "Þú ert ekki maður til að flytja tíðindin í dag. Öðru sinni getur þú flutt tíðindin, en í dag getur þú ekki flutt tíðindin, því að konungsson er dauður."

21 Því næst sagði Jóab við Blálendinginn: "Far þú og seg konunginum það, sem þú hefir séð." Þá laut Blálendingurinn Jóab og hljóp af stað.

22 Akímaas Sadóksson kom enn að máli við Jóab og mælti: "Komi hvað sem koma vill: Leyf og mér að fara og hlaupa á eftir Blálendingnum." Jóab svaraði: "Til hvers viltu vera að hlaupa þetta, sonur minn, þar sem þér þó eigi munu greidd verða nein sögulaunin."

23 Hann svaraði: "Komi hvað sem koma vill: Ég hleyp." Þá sagði Jóab við hann: "Hlauptu þá!" Þá hljóp Akímaas af stað veginn yfir Jórdansléttlendið og komst á undan Blálendingnum.

24 Davíð sat milli borgarhliðanna tveggja. En sjónarvörðurinn steig upp á þak hliðsins upp á múrinn, hóf upp augu sín og sá, hvar maður kom hlaupandi einn saman.

25 Sjónarvörðurinn kallaði og sagði konungi frá því. En konungur mælti: "Ef hann fer einn saman, þá flytur hann góð tíðindi." En hinn hljóp í sífellu og bar hann óðum nær.

26 Þá sá sjónarvörðurinn annan mann koma hlaupandi. Kallaði sjónarvörðurinn þá niður í hliðið og mælti: "Þarna kemur annar maður hlaupandi einn saman." Þá mælti konungur: "Sá mun og flytja góð tíðindi."

27 Þá sagði sjónarvörðurinn: "Mér sýnist hlaup hins fyrra vera líkt hlaupi Akímaas Sadókssonar." Konungur mælti: "Hann er drengur góður og mun koma með góð tíðindi."

28 Akímaas bar þá að og mælti hann við konung: "Sit heill!" og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi og mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem framselt hefir þá menn, er upplyftu hendi sinni gegn mínum herra, konunginum."

29 Konungur mælti: "Líður sveininum Absalon vel?" Akímaas svaraði: "Ég sá mannþröng mikla, er Jóab sendi þjón þinn af stað, en ekki vissi ég hvað um var að vera."

30 Þá sagði konungur: "Gakk til hliðar og stattu þarna." Og hann gekk til hliðar og nam þar staðar.

31 Í því kom Blálendingurinn. Og Blálendingurinn sagði: "Minn herra konungurinn meðtaki þau fagnaðartíðindi, að Drottinn hefir rétt hluta þinn í dag á öllum þeim, er risið hafa í gegn þér."

32 Þá sagði konungur við Blálendinginn: "Líður sveininum Absalon vel?" Blálendingurinn mælti: "Fari svo fyrir óvinum míns herra konungsins og öllum þeim, er gegn þér rísa til að vinna þér tjón, sem sveini þessum!"

33 Þá varð konungi bilt. Gekk hann upp í þaksalinn uppi yfir hliðinu og grét. Og er hann gekk, mælti hann svo: "Sonur minn Absalon, sonur minn, sonur minn Absalon! Ó, að ég hefði dáið í þinn stað, Absalon, sonur minn, sonur minn!"