A A A A A
Bible Book List

Síðari Samúelsbók 13-15 Icelandic Bible (ICELAND)

13 Nú segir frá því, að Absalon sonur Davíðs átti fríða systur, sem hét Tamar, og Amnon sonur Davíðs felldi hug til hennar.

Og Amnon píndist svo, að hann varð sjúkur út af Tamar, systur sinni, því að hún var mey, og Amnon virtist eigi unnt að gjöra henni neitt.

En Amnon átti vin, sem Jónadab hét, sonur Símea, bróður Davíðs. Jónadab þessi var mjög kænn maður.

Og hann sagði við Amnon: "Hví megrast þú svo, konungsson, dag frá degi? Viltu ekki segja mér það?" Amnon sagði við hann: "Ég felli hug til Tamar, systur Absalons bróður míns."

Þá sagði Jónadab við hann: "Leggst þú í rekkju og lát sem þú sért sjúkur, og þegar faðir þinn kemur til þess að vitja um þig, þá skaltu segja við hann: ,Lát Tamar systur mína koma og gefa mér að eta. Ef hún byggi til matinn fyrir augum mér, svo að ég gæti horft á, þá mundi ég eta úr hendi hennar."`

Síðan lagðist Amnon og lést vera sjúkur. En er konungur kom að vitja um hann, sagði Amnon við konung: "Lát Tamar systur mína koma og gjöra tvær kökur að mér áhorfandi, svo að ég megi eta þær úr hendi hennar."

Þá sendi Davíð boð heim til Tamar og lét segja henni: "Far þú í hús Amnons bróður þíns og matreið handa honum."

Þá gekk Tamar í hús Amnons bróður síns, en hann lá í rúminu. Og hún tók deig og hnoðaði og gjörði úr því kökur að honum áhorfandi og bakaði kökurnar.

Og hún tók pönnuna og steypti úr henni frammi fyrir honum, en hann vildi ekki eta. Og Amnon mælti: "Látið alla ganga út frá mér." Og allir gengu út frá honum.

10 Þá sagði Amnon við Tamar: "Kom þú með matinn inn í svefnhúsið, svo að ég megi eta úr hendi þinni." Og Tamar tók kökurnar, sem hún hafði gjört, og færði Amnon bróður sínum inn í svefnhúsið.

11 En er hún rétti honum þær að eta, þreif hann til hennar og sagði við hana: "Kom þú og leggst með mér, systir mín!"

12 En hún sagði við hann: "Nei, bróðir minn, svívirð mig eigi, því að slíkt viðgengst ekki í Ísrael. Frem þú eigi slíka óhæfu.

13 Og hvað ætti ég af mér að gjöra með vansæmd mína? Og þú mundir talinn eitt hið versta varmenni í Ísrael. Tala þú heldur við konung, því að hann mun ekki synja þér um mig."

14 En hann vildi ekki hlýða orðum hennar, heldur lét hana kenna aflsmunar og nauðgaði henni og lagðist með henni.

15 En síðan fékk Amnon mjög mikla óbeit á henni, svo að hin mikla óbeit, er hann hafði á henni, var meiri en ástin, sem hann hafði haft á henni. Og Amnon sagði við hana: "Statt upp og haf þig á burt."

16 Þá sagði hún við hann: "Nei, bróðir minn, því að þetta væri enn meira vonskuverk en það, er þú hefir á mér framið, að senda mig nú burt." En hann vildi ekki hlýða orðum hennar.

17 Og hann kallaði á svein sinn, er þjónaði honum, og mælti: "Kom þessari konu burt frá mér út á götuna, og lokaðu dyrunum á eftir henni."

18 En hún var í dragkyrtli, því að svo voru fyrrum konungsdætur klæddar, meðan þær voru meyjar. Og þjónn hans fór með hana út á götuna og lokaði dyrunum á eftir henni.

19 Þá jós Tamar mold yfir höfuð sér og reif sundur dragkyrtilinn sem hún var í, lagði síðan hönd á höfuð sér og gekk hljóðandi burt.

20 Og Absalon bróðir hennar sagði við hana: "Hefir Amnon bróðir þinn verið með þér? Þegi þú nú, systir mín, hann er bróðir þinn. Láttu þetta ekki á þig fá." Og Tamar dvaldi ein og yfirgefin í húsi Absalons bróður síns.

21 Þegar Davíð konungur frétti allt þetta, varð hann reiður mjög, en hann vildi eigi hryggja Amnon son sinn, því að hann elskaði hann, af því að hann var frumgetningur hans.

22 En Absalon mælti eigi orð við Amnon, hvorki illt né gott, því að Absalon hataði Amnon fyrir það, að hann hafði svívirt Tamar systur hans.

23 Tveimur árum síðar bar svo við, að Absalon lét klippa sauði sína í Baal Hasór, sem er hjá Efraím, og bauð hann til öllum sonum konungs.

24 Absalon gekk og fyrir konung og mælti: "Sjá, þjónn þinn lætur nú klippa sauði sína, og bið ég að konungurinn og þjónar hans komi með þjóni þínum."

25 En konungur sagði við Absalon: "Nei, sonur minn, eigi skulum vér allir fara, svo að vér gjörum þér eigi átroðning." Og þótt Absalon legði að honum, vildi hann ekki fara, en bað hann vel fara.

26 Þá sagði Absalon: "Fyrst þú vilt ekki fara, þá leyf þú að Amnon bróðir minn fari með oss." Konungur svaraði honum: "Hví skal hann með þér fara?"

27 En Absalon lagði fast að honum. Lét hann þá Amnon fara með honum og alla konungssonu. Absalon gjörði veislu, svo sem konungsveisla væri.

28 Og hann lagði svo fyrir sveina sína: "Gefið gætur, þegar Amnon gjörist hreifur af víninu og ég segi við yður: ,Drepið Amnon!` _ þá skuluð þér vega hann. Óttist ekki, það er ég, sem lagt hefi þetta fyrir yður. Verið hugrakkir og sýnið karlmennsku."

29 Og sveinar Absalons gjörðu svo við Amnon sem Absalon hafði fyrir þá lagt. Þá spruttu allir synir konungs upp, stigu á bak múlum sínum og flýðu.

30 Meðan þeir voru á leiðinni, kom sú fregn til konungs, að Absalon hefði drepið alla sonu konungs og að enginn þeirra væri eftir skilinn.

31 Þá stóð konungur upp og reif sundur klæði sín og lagðist á jörðu, og allir þjónar hans, þeir er stóðu umhverfis hann, rifu sundur klæði sín.

32 Þá tók Jónadab, sonur Símea, bróður Davíðs, til máls og sagði: "Herra minn, hugsa þú ekki, að þeir hafi drepið alla hina ungu menn, sonu konungsins, því að Amnon einn er dauður, enda vissi á illt svipurinn, sem legið hefir um munn Absalons, síðan er Amnon nauðgaði Tamar systur hans.

33 Minn herra konungurinn láti þetta því eigi á sig fá og hugsi ekki, að allir synir konungsins séu dauðir. Nei, Amnon einn er dauður."

34 Absalon flýði. En er varðsveininum varð litið upp, sá hann margt manna koma ofan fjallið á veginum til Hórónaím. Varðmaðurinn kom og sagði konungi frá og mælti: "Ég sá menn koma af veginum til Hórónaím niður undan fjallinu."

35 Þá sagði Jónadab við konung: "Sjá, þar koma synir konungsins. Svo hefir allt til gengið, sem þjónn þinn sagði."

36 Og er hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá komu synir konungs og grétu hástöfum. Konungur og þjónar hans tóku þá að gráta ákaflega.

37 Absalon flýði og fór til Talmaí Ammíhúðssonar konungs í Gesúr. Og konungur harmaði son sinn alla daga.

38 Absalon flýði og fór til Gesúr og var þar í þrjú ár.

39 En konungur þráði að fara til Absalons, því að hann hafði huggast látið yfir því, að Amnon var dáinn.

14 Og er Jóab Serújuson sá, að Absalon var konungi enn hjartfólginn,

þá sendi Jóab til Tekóa og lét sækja þangað vitra konu og sagði við hana: "Þú skalt láta sem þú sért harmþrungin og klæðast sorgarbúningi. Smyr þig ekki með olíu, heldur vertu eins og kona, er um langan tíma hefir syrgt látinn mann.

Gakk síðan fyrir konung og mæl til hans á þessa leið: _" og Jóab lagði henni orð í munn.

Síðan gekk konan frá Tekóa fyrir konung, féll fram á ásjónu sína til jarðar og sýndi honum lotningu og mælti: "Hjálpa mér, konungur!"

Konungur sagði við hana: "Hvað gengur að þér?" Hún svaraði: "Æ, ég er ekkja og maður minn er dáinn.

Ambátt þín átti tvo sonu. Þeir urðu missáttir úti á akri og enginn var til að skilja þá. Laust þá annar þeirra bróður sinn og drap hann.

Sjá, þá reis öll ættin upp á móti ambátt þinni og sagði: ,Sel fram bróðurmorðingjann, og munum vér drepa hann fyrir líf bróður hans, er hann myrti, og tortíma erfingjanum um leið.` Og þann veg vilja þeir slökkva þann neista, sem mér er eftir skilinn, svo að maðurinn minn láti hvorki eftir sig nafn né niðja á jörðinni."

Og konungur sagði við konuna: "Far þú heim til þín. Skipa mun ég fyrir um mál þitt."

En konan frá Tekóa sagði við konunginn: "Á mér hvíli sektin, minn herra konungur, og á ættfólki mínu, en konungurinn sé sýkn saka og hásæti hans."

10 Þá sagði konungur: "Ef einhver segir eitthvað við þig, þá kom þú með hann til mín, og skal hann eigi framar áreita þig."

11 Þá mælti hún: "Minnstu, konungur, Drottins, Guðs þíns, svo að hefnandinn gjöri ekki enn meira tjón, og þeir tortími ekki syni mínum." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt hár sonar þíns falla til jarðar."

12 Þá mælti konan: "Leyf þú ambátt þinni að tala eitt orð við þig, minn herra konungur!" Hann svaraði: "Tala þú."

13 Þá mælti konan: "Hvers vegna hefir þú slíkt í hyggju gegn Guðs lýð? Og fyrst konungurinn hefir kveðið upp þennan dóm, þá er hann sem sekur maður, þar sem hann lætur ekki útlaga sinn hverfa heim aftur.

14 Því að deyja hljótum vér, og vér erum eins og vatn, sem hellt er á jörðina og eigi verður náð upp aftur, og Guð hrífur eigi burt líf þess manns, sem á það hyggur að láta ekki útlagann vera lengur útskúfaðan frá sér.

15 En fyrir því er ég komin til þess að tala þessi orð við minn herra konunginn, að fólkið gjörði mig hrædda. Þá hugsaði ambátt þín með sér: ,Ég skal tala við konunginn. Má vera að konungurinn gjöri bón ambáttar sinnar.

16 Því að konungurinn mun gjöra þá bón ambáttar sinnar að frelsa hana af hendi mannsins, sem leitast við að afmá bæði mig og son minn úr arfleifð Guðs.`

17 Þá hugsaði þerna þín með sjálfri sér: ,Orð míns herra konungsins skulu verða mér til fróunar, því að minn herra konungurinn líkist í því engli Guðs, að hann hlýðir á gott og illt.` Og Drottinn Guð þinn sé með þér."

18 Þá svaraði konungur og sagði við konuna: "Leyn þú mig engu, er ég vil spyrja þig." Konan svaraði: "Tala þú, minn herra konungur!"

19 Þá mælti konungur: "Er ekki Jóab í ráðum með þér um allt þetta?" Konan svaraði og sagði: "Svo sannarlega sem þú lifir, minn herra konungur, er eigi unnt að fara utan um nokkuð af því, sem minn herra konungurinn hefir sagt, hvorki til hægri né vinstri handar. Það var einmitt þjónn þinn Jóab, sem bauð mér þetta, og hann lagði þernu þinni öll þessi orð í munn.

20 Jóab þjónn þinn hefir gjört þetta til þess að láta málið líta öðruvísi út, en herra minn jafnast við engil Guðs að visku, svo að hann veit allt, sem við ber á jörðinni."

21 Þá sagði konungur við Jóab: "Gott og vel, ég skal gjöra það. Far þú og sæk þú sveininn Absalon."

22 Þá féll Jóab fram á andlit sitt til jarðar og laut konungi og kvaddi hann og mælti: "Nú veit þjónn þinn, að ég hefi fundið náð í augum míns herra konungsins, þar sem konungurinn hefir látið að orðum þjóns síns."

23 Síðan lagði Jóab af stað og fór til Gesúr og hafði Absalon aftur heim með sér til Jerúsalem.

24 En konungur sagði: "Fari hann heim til sín, en fyrir mín augu skal hann ekki koma." Þá fór Absalon heim til sín og kom ekki fyrir augu konungs.

25 Í öllum Ísrael var enginn maður eins fríður og Absalon, og fór mikið orð af því. Frá hvirfli til ilja voru engin lýti á honum.

26 Og þegar hann lét skera hár sitt, _ en hann lét jafnan skera það á árs fresti, af því að það varð honum svo þungt, að hann hlaut að láta skera það _, þá vó hárið af höfði hans tvö hundruð sikla á konungsvog.

27 Og Absalon fæddust þrír synir og ein dóttir, er Tamar hét. Hún var kona fríð sýnum.

28 Absalon var svo tvö ár í Jerúsalem, að hann kom ekki fyrir augu konungs.

29 Þá sendi hann boð til Jóabs þess erindis, að hann færi til konungs, en Jóab vildi ekki koma til hans. Sendi hann þá í annað sinn, en hann vildi ekki koma.

30 Þá sagði Absalon við þjóna sína: "Sjáið, Jóab á akur áfastan við minn og þar hefir hann bygg. Farið og kveikið í honum." Og þjónar Absalons kveiktu í akrinum.

31 Þá fór Jóab af stað og kom í hús Absalons og sagði við hann: "Hví hafa þjónar þínir kveikt í akri mínum?"

32 Absalon sagði við Jóab: "Sjá, ég sendi boð til þín og lét segja: ,Kom þú hingað og vil ég senda þig til konungs með þessa orðsending: Til hvers kom ég frá Gesúr? Betra væri mér að vera þar enn. En nú vil ég fá að koma fyrir augu konungs. Sé ég sekur, þá drepi hann mig."`

33 Þá gekk Jóab fyrir konung og sagði honum þetta. Lét hann þá kalla Absalon, og gekk hann fyrir konung og laut á andlit sitt til jarðar fyrir konungi. Og konungur kyssti Absalon.

15 Eftir þetta bar það til, að Absalon fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu.

Og hann lagði það í vana sinn að nema staðar snemma morguns við veginn, sem lá inn að borgarhliðinu. Og hann kallaði á hvern þann mann, er í máli átti og fyrir því leitaði á konungs fund til þess að fá úrskurð hans, og mælti: "Frá hvaða borg ert þú?" Og segði hann: "Þjónn þinn er af einni ættkvísl Ísraels,"

þá sagði Absalon við hann: "Sjá, málefni þitt er gott og rétt, en konungur hefir engan sett, er veiti þér áheyrn."

Og Absalon sagði: "Ég vildi óska að ég væri skipaður dómari í landinu, svo að hver maður, sem ætti í þrætu eða hefði mál að sækja, gæti komið til mín. Þá skyldi ég láta hann ná rétti sínum."

Og þegar einhver kom til hans til þess að lúta honum, rétti hann fram höndina, dró hann að sér og kyssti hann.

Svo gjörði Absalon við alla Ísraelsmenn, þá er leituðu á konungs fund til þess að fá úrskurð hans. Og þann veg stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna.

Og það bar til fjórum árum síðar, að Absalon sagði við konung: "Leyf mér að fara og efna heit mitt í Hebron, það er ég hefi gjört Drottni.

Því að þjónn þinn gjörði svolátandi heit, þá er hann dvaldist í Gesúr á Sýrlandi: ,Ef Drottinn flytur mig aftur til Jerúsalem, þá skal ég þjóna Drottni."`

Konungur svaraði honum: "Far þú í friði!" Lagði hann þá af stað og fór til Hebron.

10 En Absalon gjörði menn á laun til allra ættkvísla Ísraels með svolátandi orðsending: "Þegar þér heyrið lúðurhljóm, þá segið: ,Absalon er konungur orðinn í Hebron!"`

11 Með Absalon fóru tvö hundruð manns úr Jerúsalem, er hann kvaddi til farar með sér. Fóru þeir í grandleysi og vissu ekki, hvað undir bjó.

12 Og er Absalon var að fórnum, sendi hann eftir Akítófel Gílóníta, ráðgjafa Davíðs, til Gíló, ættborgar hans. Og samsærið magnaðist og æ fleiri og fleiri menn gengu í lið með Absalon.

13 Nú komu menn til Davíðs og sögðu honum: "Hugur Ísraelsmanna hefir snúist til Absalons."

14 Þá sagði Davíð við alla þjóna sína, þá er með honum voru í Jerúsalem: "Af stað! Vér skulum flýja, því að öðrum kosti munum vér ekki komast undan Absalon. Hraðið yður, svo að hann komi ekki skyndilega og nái oss, færi oss ógæfu að höndum og taki borgina herskildi."

15 Þjónar konungs svöruðu honum: "Alveg eins og minn herra konungurinn vill, sjá, vér erum þjónar þínir."

16 Þá lagði konungur af stað og allt hans hús með honum. En konungur lét tíu hjákonur eftir verða til þess að gæta hússins.

17 Konungur lagði af stað og allir þjónar hans með honum. Og þeir námu staðar við ysta húsið,

18 en allt fólkið og allir Kretar og Pletar gengu fram hjá honum. Enn fremur gengu allir menn Íttaís frá Gat, sex hundruð manns, er komnir voru með honum frá Gat, fram hjá í augsýn konungs.

19 Þá sagði konungur við Íttaí frá Gat: "Hvers vegna fer þú og með oss? Snú aftur og ver með hinum konunginum, því að þú ert útlendingur og meira að segja útlægur gjör úr átthögum þínum.

20 Þú komst í gær, og í dag ætti ég að fá þig til að reika um með oss, þar sem ég verð að fara þangað sem verkast vill. Snú þú aftur og haf með þér sveitunga þína. Drottinn mun auðsýna þér miskunn og trúfesti."

21 En Íttaí svaraði konungi: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem minn herra konungurinn lifir: Á þeim stað, sem minn herra konungurinn verður _ hvort sem það verður til dauða eða lífs, _ þar mun og þjónn þinn verða."

22 Þá sagði Davíð við Íttaí: "Jæja, far þú þá fram hjá." Þá fór Íttaí frá Gat fram hjá og allir hans menn og öll börnin, sem með honum voru.

23 En allt landið grét hástöfum, meðan allt fólkið gekk fram hjá. En konungur stóð í Kídrondal, meðan allt fólkið gekk fram hjá honum í áttina til olíutrésins, sem er í eyðimörkinni.

24 Þar var og Sadók, og Abjatar og allir levítarnir með honum. Báru þeir sáttmálsörk Guðs. Og þeir settu niður örk Guðs, uns allur lýðurinn úr borginni var kominn fram hjá.

25 Og konungur sagði við Sadók: "Flyt þú örk Guðs aftur inn í borgina. Finni ég náð í augum Drottins, mun hann leiða mig heim aftur og láta mig sjá sjálfan sig og bústað sinn.

26 En ef hann hugsar svo: ,Ég hefi ekki þóknun á þér,` _ þá er ég hér, gjöri hann við mig sem honum gott þykir."

27 Þá mælti konungur við Sadók höfuðprest: "Far þú aftur til borgarinnar í friði og Akímaas sonur þinn og Jónatan sonur Abjatars _ báðir synir ykkar með ykkur.

28 Hyggið að! Ég ætla að hafast við hjá vöðunum í eyðimörkinni, þar til er mér kemur frá yður tíðindasögn."

29 Síðan fluttu þeir Sadók og Abjatar örk Guðs aftur til Jerúsalem og dvöldust þar.

30 Davíð gekk upp Olíufjallið. Fór hann grátandi og huldu höfði. Hann gekk berfættur, og allt fólkið, sem með honum var, huldi höfuð sín og gekk grátandi.

31 Og er Davíð bárust þau tíðindi, að Akítófel væri meðal þeirra, er samsærið höfðu gjört við Absalon, þá sagði Davíð: "Gjör þú, Drottinn, ráð Akítófels að heimsku."

32 En er Davíð var kominn efst upp á fjallið, þar sem menn voru vanir að tilbiðja Guð, þá mætti honum Húsaí Arkíti í rifnum kyrtli og með mold á höfði sér.

33 Davíð sagði við hann: "Farir þú með mér, verður þú mér til þyngsla.

34 En ef þú fer aftur til borgarinnar og segir við Absalon: ,Þér vil ég þjóna, konungur. Föður þínum hefi ég áður þjónað, en nú vil ég þjóna þér,` _ þá getur þú ónýtt ráð Akítófels fyrir mig.

35 Þar hefir þú hjá þér prestana Sadók og Abjatar. Allt sem þú fréttir úr konungshöllinni, skalt þú segja prestunum Sadók og Abjatar.

36 Þeir hafa þar hjá sér báða sonu sína, Sadók Akímaas og Abjatar Jónatan. Látið þá færa mér öll þau tíðindi, sem þér fáið."

37 Síðan fór Húsaí, stallari Davíðs, til borgarinnar. Absalon fór og til Jerúsalem.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes