A A A A A
Bible Book List

Síðari bók konunganna 22-23 Icelandic Bible (ICELAND)

22 Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jedída Adajadóttir og var frá Boskat.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði algjörlega í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri.

Á átjánda ríkisári Jósía konungs sendi konungur Safan Asaljason, Mesúllamssonar, kanslara, í musteri Drottins og sagði:

"Gakk þú til Hilkía æðsta prests og innsigla fé það, er borið hefir verið í musteri Drottins, það er dyraverðirnir hafa safnað saman af lýðnum,

og fá það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón hafa með musteri Drottins, þeir skulu fá það í hendur verkamönnunum, sem vinna að því í musteri Drottins að gjöra við skemmdir á musterinu,

trésmiðunum og byggingamönnunum og múrurunum, svo og til að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við musterið.

Þó er ekki haldinn reikningur við þá á fénu, sem þeim var fengið í hendur, heldur gjöra þeir það upp á æru og trú."

Þá mælti Hilkía æðsti prestur við Safan kanslara: "Ég hefi fundið lögbók í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina og hann las hana.

Síðan fór Safan kanslari til konungs og skýrði konungi frá erindislokum og mælti: "Þjónar þínir hafa látið af hendi fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur verkstjórunum, sem umsjón hafa með musteri Drottins."

10 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: "Hilkía prestur fékk mér bók." Og Safan las hana fyrir konungi.

11 En er konungur heyrði orð lögbókarinnar, reif hann klæði sín.

12 Og hann bauð þeim Hilkía presti, Ahíkam Safanssyni, Akbór Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið:

13 "Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir lýðinn og fyrir allan Júda um þessa nýfundnu bók, því að mikil er heift Drottins, sú er upptendruð er í gegn oss, af því að feður vorir hafa eigi hlýtt orðum bókar þessarar með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í henni."

14 Þá fóru þeir Hilkía prestur, Ahíkam, Akbór, Safan og Asaja til Huldu spákonu, konu Sallúms Tikvasonar, Harhasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana.

15 Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín:

16 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar ógnanir bókar þessarar, er Júdakonungur hefir lesið,

17 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, og heift mín skal upptendrast gegn þessum stað og eigi slokkna.

18 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels:

19 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir Drottni, er þú heyrðir, hvað ég hafði talað gegn þessum stað og íbúum hans, að þeir skyldu verða undrunarefni og formælingar, og af því að þú reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig _ segir Drottinn.

20 Fyrir því vil ég láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað." Fluttu þeir konungi svarið.

23 Þá sendi konungur út menn til þess að safna til sín öllum öldungum í Júda og Jerúsalem.

Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn, bæði ungir og gamlir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins.

Og konungur gekk að súlunni og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta og af allri sálu til þess að fullnægja þannig orðum sáttmála þessa, þau er rituð voru í þessari bók. Og allur lýðurinn gekkst undir sáttmálann.

Síðan bauð konungur Hilkía æðsta presti og óæðri prestunum og dyravörðunum að taka burt úr aðalhúsi musteris Drottins öll áhöld, þau er gjörð höfðu verið handa Baal og Aséru og öllum himinsins her. Og hann lét brenna þau fyrir utan Jerúsalem á Kídronvöllum, og askan af þeim var flutt til Betel.

Hann rak og burt skurðgoðaprestana, er Júdakonungar höfðu skipað og fært höfðu reykelsisfórnir á fórnarhæðunum í borgum Júda og í grenndinni við Jerúsalem, svo og þá er fært höfðu Baal fórnir og sólinni, tunglinu, stjörnumerkjunum og öllum himinsins her.

Hann lét flytja aséruna burt úr musteri Drottins, út fyrir Jerúsalem, og brenndi hana í Kídrondal, muldi hana mjölinu smærra og stráði duftinu á grafir múgamanna.

Þá braut hann og niður hús þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði, þau er voru við musteri Drottins, þar sem konur ófu hjúpa á aséruna.

Hann lét alla presta koma frá borgunum í Júda og afhelgaði fórnarhæðirnar, þar sem prestarnir höfðu fórnað, frá Geba til Beerseba. Hann braut og niður hæðir hafurlíkneskjanna, sem stóðu úti fyrir hliði Jósúa borgarstjóra, en það er á vinstri hönd, þá er inn er gengið um borgarhliðið.

Þó máttu hæðaprestarnir eigi ganga upp að altari Drottins í Jerúsalem, heldur átu þeir ósýrð brauð meðal bræðra sinna.

10 Hann afhelgaði brennslugrófina í Hinnomssonardal, til þess að enginn léti framar son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn Mólok til handa.

11 Hann tók og burt hesta þá, sem Júdakonungar höfðu sett til vegsemdar sólinni við innganginn að musteri Drottins, nálægt herbergi Netan Meleks hirðmanns, sem var í forgarðinum. En vagna sólarinnar brenndi hann í eldi.

12 Og ölturun, sem voru á þakinu yfir veggsvölum Akasar, er Júdakonungar höfðu reist, og ölturun, er Manasse hafði reist í báðum forgörðum musteris Drottins, reif konungur niður, og hann skundaði þaðan og kastaði öskunni af þeim í Kídrondal.

13 Konungur afhelgaði og fórnarhæðirnar, sem voru fyrir austan Jerúsalem, sunnanvert við Skaðræðisfjall, og Salómon Ísraelskonungur hafði reist Astarte, viðurstyggð Sídoninga, og Kamos, viðurstyggð Móabíta, og Milkóm, svívirðing Ammóníta.

14 Hann braut og sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar og fyllti staðinn, þar sem þær höfðu verið, með mannabeinum.

15 Sömuleiðis altarið í Betel, fórnarhæðina, sem Jeróbóam Nebatsson hafði gjöra látið, sá er kom Ísrael til að syndga _ einnig þetta altari og fórnarhæðina reif hann niður. Og hann brenndi aséruna og muldi hana mjölinu smærra.

16 En er Jósía sneri sér við og sá grafirnar, sem voru þar á fjallinu, þá sendi hann menn og lét sækja beinin í grafirnar, brenndi þau á altarinu og afhelgaði það samkvæmt orði Drottins, því er guðsmaðurinn hafði boðað, sá er boðaði þessa hluti.

17 Síðan sagði hann: "Hvaða legsteinn er þetta, sem ég sé?" Og borgarmenn svöruðu honum: "Það er gröf guðsmannsins, sem kom frá Júda og boðaði þessa hluti, sem þú hefir nú gjört, gegn altarinu í Betel."

18 Þá mælti hann: "Látið hann vera, enginn ónáði bein hans!" Þannig létu þeir bein hans og bein spámannsins, sem kominn var frá Samaríu, vera í friði.

19 Auk þess afnam Jósía öll hæðahofin, sem voru í borgum Samaríu, þau er Ísraelskonungar höfðu reist til þess að egna Drottin til reiði, og fór alveg eins með þau eins og hann hafði gjört í Betel.

20 Og hann slátraði öllum hæðaprestunum, sem þar voru, á ölturunum og brenndi mannabein á þeim. Síðan sneri hann aftur til Jerúsalem.

21 Konungur bauð öllum lýðnum á þessa leið: "Haldið Drottni Guði yðar páska, eins og ritað er í sáttmálsbók þessari."

22 Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið frá því á dögum dómaranna, er dæmt höfðu í Ísrael, né heldur alla daga Ísraelskonunga og Júdakonunga,

23 en á átjánda ríkisári Jósía konungs voru Drottni haldnir þessir páskar í Jerúsalem.

24 Enn fremur eyddi Jósía þeim mönnum, er höfðu þjónustuanda, svo og spásagnamönnum, húsgoðum og skurðgoðum og öllum þeim viðurstyggðum, er sáust í Júda og Jerúsalem, til þess að fullnægja fyrirmælum lögmálsins, þeim er rituð voru í bókinni, sem Hilkía prestur hafði fundið í musteri Drottins.

25 Og hans maki hafði enginn konungur verið á undan honum, er svo hafði snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum, alveg eftir lögmáli Móse, og eftir hann kom enginn honum líkur.

26 Þó lét Drottinn eigi af sinni brennandi heiftarreiði, af því að reiði hans var upptendruð gegn Júda vegna allrar þeirrar móðgunar, er Manasse hafði egnt hann með.

27 Og Drottinn mælti: "Ég vil einnig afmá Júda frá augliti mínu eins og ég hefi afmáð Ísrael, og ég vil hafna þessari borg, er ég hefi útvalið, Jerúsalem, og musterinu, er ég sagði um, að nafn mitt skyldi vera þar."

28 Það sem meira er að segja um Jósía og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

29 Á hans dögum fór Faraó Nekó Egyptalandskonungur herför móti Assýríukonungi austur að Efratfljóti. Þá fór Jósía konungur í móti honum, en Nekó drap hann í Megiddó, þegar er hann sá hann.

30 Óku menn hans honum dauðum frá Megiddó, fluttu hann til Jerúsalem og grófu hann í gröf hans. En landslýðurinn tók Jóahas Jósíason og smurði hann og tók hann til konungs í stað föður hans.

31 Jóahas var tuttugu og þriggja ára að aldri, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna.

32 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört höfðu forfeður hans.

33 Faraó Nekó lét fjötra hann í Ribla í Hamathéraði, til þess að hann skyldi eigi framar ríkja í Jerúsalem, og lagði skattgjald á landið, hundrað talentur silfurs og tíu talentur gulls.

34 Og Faraó Nekó gjörði Eljakím Jósíason að konungi í stað Jósía föður hans og breytti nafni hans í Jójakím, en tók Jóahas með sér, og fór hann til Egyptalands og dó þar.

35 Jójakím greiddi Faraó silfur og gull. Hann varð að leggja skatt á landið til þess að geta goldið fé það, er Faraó krafðist. Heimti hann silfrið og gullið saman af landslýðnum, eftir því sem jafnað hafði verið niður á hvern og einn, til þess að geta greitt Faraó Nekó það.

36 Jójakím var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sebúdda Pedajadóttir og var frá Rúma.

37 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört höfðu forfeður hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Síðari Kroníkubók 34-35 Icelandic Bible (ICELAND)

34 Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri.

Á áttunda ríkisári sínu, er hann sjálfur var enn ungur að aldri, tók hann að leita Guðs Davíðs, forföður síns, og á tólfta ári tók hann að rýma burt úr Júda og Jerúsalem fórnarhæðum og asérum, skurðgoðum og líkneskjum.

Ölturu Baalanna voru rifin niður að honum ásjáandi, og sólsúlurnar, er á þeim voru, hjó hann sundur, og asérurnar og skurðgoðin og líkneskin braut hann sundur og muldi þau, og stráði duftinu á grafir þeirra, er höfðu fært þeim fórnir.

Og bein prestanna brenndi hann á ölturum þeirra, og hreinsaði svo Júda og Jerúsalem.

Og í borgum Manasse og Efraíms og Símeons og allt til Naftalí, allt um kring í eyðiborgum þeirra,

reif hann niður ölturun, mölvaði og muldi asérurnar og skurðgoðin, og hjó sundur sólsúlurnar í öllu Ísraelslandi. Síðan sneri hann heim aftur til Jerúsalem.

Á átjánda ríkisári hans, meðan hann var að hreinsa landið og musterið, sendi hann Safan Asaljason og Maaseja borgarstjóra og Jóak Jóahasson ríkisritara til þess að láta gjöra við musteri Drottins, Guðs síns.

Og er þeir komu til Hilkía æðsta prests, afhentu þeir fé það, er fært hafði verið musteri Guðs, það er levítarnir, þröskuldsverðirnir, höfðu safnað af Manasse, Efraím og öllum öðrum Ísraelsmönnum, og öllum Júda og Benjamín og Jerúsalembúum.

10 Fengu þeir það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón höfðu með musteri Drottins, en þeir fengu það í hendur verkamönnunum, er unnu að því í musteri Drottins að bæta skemmdir og gjöra við musterið.

11 Fengu þeir það í hendur trésmiðunum og byggingamönnunum til þess að kaupa fyrir höggna steina og viðu í tengibjálka, svo og til að fá viðu í hús þau, er Júdakonungar höfðu látið falla.

12 Unnu mennirnir að verkinu upp á æru og trú, en yfir þá voru settir til umsjónar þeir Jahat og Óbadía, levítar af Meraríniðjum, og Sakaría og Mesúllam af Kahatítaniðjum. Og levítarnir _ hver sá, er kunni á hljóðfæri _

13 voru settir yfir burðarmennina, og umsjónarmenn voru yfir öllum þeim, er nokkurt starf höfðu á hendi. Nokkrir af levítunum voru og ritarar og tilsjónarmenn og hliðverðir.

14 En er þeir reiddu fram féð, er borið var í musteri Drottins, fann Hilkía prestur lögmálsbók Drottins, er gefin var fyrir Móse.

15 Þá tók Hilkía til máls og mælti við Safan kanslara: "Ég hefi fundið lögmálsbókina í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina.

16 Fór þá Safan með bókina til konungs og skýrði honum jafnframt frá erindislokum og mælti: "Þjónar þínir hafa gjört allt það, er þeim var falið á hendur.

17 Þeir hafa og afhent fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur umsjónarmönnunum og verkstjórunum."

18 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: "Hilkía prestur fékk mér bók." Og Safan las í henni fyrir konungi.

19 En er konungur heyrði lögmálsorðin, reif hann klæði sín.

20 Og konungur bauð þeim Hilkía, Ahíkam Safanssyni, Abdón Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið:

21 "Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir leifarnar af Ísrael og Júda um bókina, sem fundin er, því að mikil er heift Drottins, er hann hefir úthellt yfir oss, af því að feður vorir hafa eigi gefið gætur að boði Drottins með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í bók þessari."

22 Fór þá Hilkía með þeim, er konungur hafði til þess kvatt, til Huldu spákonu, konu Sallúms Tókhatssonar, Hasrasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana um þetta.

23 Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín:

24 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar þær formælingar, er ritaðar eru í bókinni, er lesin var fyrir Júdakonungi,

25 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, þess vegna úthellti ég reiði minni yfir þennan stað, og hún skal eigi slokkna.

26 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels:

27 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú hefir auðmýkt þig fyrir Guði, er þú heyrðir orð hans gegn þessum stað og íbúum hans, og af því að þú auðmýktir þig fyrir mér og reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég bænheyrt þig, _ segir Drottinn.

28 Sjá, ég vil láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað." Fluttu þeir konungi svarið.

29 Þá sendi konungur og safnaði saman öllum öldungum í Júda og Jerúsalem.

30 Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og levítarnir og allur lýðurinn, bæði gamlir og ungir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins.

31 Og konungur gekk á sinn stað og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, til þess að breyta þannig eftir orðum sáttmálans, þeim er rituð voru í þessari bók.

32 Og hann lét alla þá, er voru í Jerúsalem og Benjamín, gangast undir sáttmálann, og Jerúsalembúar breyttu samkvæmt sáttmála Guðs, Guðs feðra þeirra.

33 En Jósía afnam allar svívirðingar úr öllum héruðum Ísraelsmanna, og þröngvaði öllum þeim, er voru í Ísrael, til þess að þjóna Drottni Guði sínum. Meðan hann var á lífi, viku þeir eigi frá því að fylgja Drottni, Guði feðra sinna.

35 Síðan hélt Jósía Drottni páska í Jerúsalem, og var páskalambinu slátrað hinn fjórtánda fyrsta mánaðar.

Þá setti hann prestana til starfa þeirra og taldi hug í þá til þjónustu við musteri Drottins.

En við levítana, er fræddu allan Ísrael og helgaðir voru Drottni, sagði hann: "Setjið örkina helgu í musterið, það er Salómon, sonur Davíðs, Ísraelskonungur, lét reisa. Þér þurfið eigi framar að bera hana á öxlunum. Þjónið nú Drottni Guði yðar og lýð hans Ísrael.

Verið þá reiðubúnir eftir ættum yðar í flokkum yðar, samkvæmt reglugjörð Davíðs Ísraelskonungs og samkvæmt konungsbréfi Salómons sonar hans.

Skipið yður í helgidóminn eftir ættflokkum frænda yðar, leikmannanna, og fyrir hvern flokk skal vera ein sveit af levítaættum.

Slátrið síðan páskalambinu og helgið yður og tilreiðið það fyrir frændur yðar, svo að þér breytið samkvæmt boði Drottins fyrir Móse."

Jósía fékk leikmönnunum sauði og lömb og kið, allt til páskafórnar fyrir alla, er þar voru, þrjátíu þúsund að tölu, og þrjú þúsund naut. Voru þau úr eign konungs.

En höfuðsmenn hans færðu sjálfviljagjafir handa lýðnum og prestunum og levítunum. Hilkía, Sakaría og Jehíel, höfuðsmenn yfir musteri Guðs, gáfu prestunum í páskafórn tvö þúsund og sex hundruð lömb og þrjú hundruð naut.

En Kananja og Semaja og Netaneel, bræður hans, svo og Hasabja, Jeíel og Jósabad, höfðingjar levíta, gáfu levítum til páskafórnar fimm þúsund lömb og fimm hundruð naut.

10 Var svo þjónustunni fyrir komið, og gengu prestarnir á sinn stað, svo og levítar eftir flokkum sínum samkvæmt boði konungs.

11 Var síðan páskalambinu slátrað, og stökktu prestarnir blóðinu úr hendi sinni, en levítarnir flógu.

12 Og þeir tóku brennifórnina frá til þess að fá hana ættflokkum leikmannanna, til þess að þeir skyldu færa hana Drottni, svo sem fyrir er mælt í Mósebók, og svo gjörðu þeir og við nautin.

13 Síðan steiktu þeir páskalambið við eld, svo sem lög stóðu til, suðu helgigjafirnar í pottum og kötlum og skálum, og færðu tafarlaust hverjum leikmanni.

14 En síðan matreiddu þeir handa sér og prestunum, því að prestarnir, niðjar Arons, voru að færa brennifórnir og feit stykki fram á nótt, og matreiddu levítarnir því handa sér og prestunum, niðjum Arons.

15 Og söngvararnir, niðjar Asafs, voru á sínum stað eftir boði Davíðs, Asafs, Hemans og Jedútúns, sjáanda konungs, og hliðverðir voru við hvert hlið. Þurftu þeir eigi að fara frá starfi sínu, því að frændur þeirra, levítarnir, matbjuggu fyrir þá.

16 Var þannig allri þjónustu Drottins komið fyrir þann dag, er menn héldu páska og færðu brennifórnir á altari Drottins, að boði Jósía konungs.

17 Þannig héldu Ísraelsmenn, þeir er viðstaddir voru, páska í þann tíma, svo og hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga.

18 En engir slíkir páskar höfðu haldnir verið í Ísrael frá því á dögum Samúels spámanns, og engir af Ísraelskonungum höfðu haldið páska, svo sem Jósía konungur gjörði og prestarnir og levítarnir og allir Júda- og Ísraelsmenn, þeir er viðstaddir voru, og Jerúsalembúar.

19 Á átjánda ríkisári Jósía voru páskar þessir haldnir.

20 Eftir allt þetta, er Jósía hafði komið musterinu aftur í lag, fór Nekó Egyptalandskonungur herför til þess að heyja orustu hjá Karkemis við Efrat. Þá fór Jósía út í móti honum.

21 En hann gjörði menn á fund hans og lét segja honum: "Hvað þurfum við að eigast við, Júdakonungur? Nú kem ég eigi í móti þér, heldur í móti mínum forna fjanda, og Guð hefir boðið mér að flýta mér. Freista þú eigi fangs við guðinn, sem með mér er, svo að hann tortími þér ekki."

22 En Jósía vildi eigi hörfa undan honum, heldur klæddist dularbúningi til þess að berjast við hann, og hlýddi eigi á orð Nekós, er þó voru af Guðs munni, og fór til bardaga á Megiddóvöllum.

23 En bogmennirnir skutu á Jósía konung. Þá mælti konungur við þjóna sína: "Komið mér burt héðan, því að ég er sár mjög."

24 Tóku þá þjónar hans hann af vagninum og óku honum á næsta vagni hans, og er þeir komu með hann til Jerúsalem, þá dó hann og var grafinn í gröfum feðra sinna. Allir Júdamenn og Jerúsalembúar hörmuðu Jósía,

25 og Jeremía orti harmljóð eftir Jósía, og allir söngmenn og söngkonur hafa talað um Jósía í harmljóðum sínum fram á þennan dag. Og menn gjörðu þau að ákvæði fyrir Ísrael, og eru þau rituð í harmljóðunum.

26 Það sem meira er að segja um Jósía og góðverk hans, er voru samkvæm því, sem ritað er í lögmáli Drottins,

27 svo og saga hans frá upphafi til enda, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes