A A A A A
Bible Book List

Síðari bók konunganna 20-22 Icelandic Bible (ICELAND)

20 Um þær mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá kom Jesaja Amozson spámaður til hans og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Ráðstafa húsi þínu, því að þú munt deyja og eigi lifa."

Þá sneri Hiskía andliti sínu til veggjar, bað til Drottins og mælti:

"Æ, Drottinn, minnstu þess, að ég hefi gengið fyrir augliti þínu með trúmennsku og einlægu hjarta og gjört það, sem þér er þóknanlegt." Og hann grét sáran.

En áður en Jesaja var kominn út úr miðforgarði hallarinnar, kom orð Drottins til hans, svolátandi:

"Snú aftur og seg Hiskía, höfðingja lýðs míns: Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég mun lækna þig. Á þriðja degi munt þú ganga upp í hús Drottins.

Og ég mun enn leggja fimmtán ár við aldur þinn, og ég mun frelsa þig og þessa borg af hendi Assýríukonungs, og ég mun vernda þessa borg, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns."

Þá bauð Jesaja: "Komið með fíkjudeig." Sóttu þeir það og lögðu á kýlið. Þá batnaði honum.

En Hiskía sagði við Jesaja: "Hvað skal ég hafa til marks um, að Drottinn muni lækna mig og að ég megi aftur ganga upp í hús Drottins á þriðja degi?"

Þá svaraði Jesaja: "Þetta skalt þú til marks hafa af Drottni, að hann muni efna það, sem hann hefir heitið: Á skugginn að færast tíu stig fram, eða á hann að færast aftur um tíu stig?"

10 Hiskía svaraði: "Það er hægðarleikur fyrir skuggann að færast niður um tíu stig _ nei, skugginn skal færast aftur um tíu stig."

11 Þá hrópaði Jesaja spámaður til Drottins, og hann lét skuggann á stigunum, sem færst hafði niður á sólskífu Akasar, færast aftur um tíu stig.

12 Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn.

13 Og Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim alla féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og vopnabúr sitt og allt sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim.

14 Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: "Hvert var erindi þessara manna og hvaðan eru þeir til þín komnir?" Hiskía svaraði: "Af fjarlægu landi eru þeir komnir, frá Babýlon."

15 Þá sagði hann: "Hvað sáu þeir í höll þinni?" Hiskía svaraði: "Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim."

16 Þá sagði Jesaja við Hiskía: "Heyr þú orð Drottins:

17 Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða _ segir Drottinn.

18 Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon."

19 En Hiskía sagði við Jesaja: "Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað." Því að hann hugsaði: "Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi."

20 Það sem meira er að segja um Hiskía og öll hreystiverk hans, hversu hann bjó til tjörnina og vatnsstokkinn og leiddi vatnið inn í borgina, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

21 Og Hiskía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum. Og Manasse sonur hans tók ríki eftir hann.

21 Manasse var tólf ára gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hefsíba.

Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar sem þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.

Hann byggði að nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði afmáð, reisti Baal ölturu og lét gjöra aséru, eins og Akab Ísraelskonungur hafði gjöra látið, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim.

Hann reisti og ölturu í musteri Drottins, því er Drottinn hafði um sagt: "Í Jerúsalem vil ég láta nafn mitt búa."

Og hann reisti ölturu fyrir allan himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins.

Hann lét og son sinn ganga gegnum eldinn, fór með spár og fjölkynngi og skipaði særingamenn og spásagna. Hann aðhafðist margt það, sem illt er í augum Drottins, og egndi hann til reiði.

Hann setti asérulíkneskið, er hann hafði gjöra látið, í musterið, er Drottinn hafði sagt um við Davíð og Salómon, son hans: "Í þessu húsi og í Jerúsalem, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, vil ég láta nafn mitt búa að eilífu.

Og ég vil eigi framar láta Ísrael fara landflótta úr landi því, er ég gaf feðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að breyta að öllu svo sem ég hefi boðið þeim, að öllu eftir lögmáli því, er Móse þjónn minn fyrir þá lagði."

En þeir hlýddu eigi, og Manasse leiddi þá afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.

10 Þá talaði Drottinn fyrir munn þjóna sinna, spámannanna, á þessa leið:

11 "Sakir þess að Manasse Júdakonungur hefir drýgt þessar svívirðingar, sem verri eru en allt það, sem Amorítar aðhöfðust, þeir er á undan honum voru, og einnig komið Júda til að syndga með skurðgoðum sínum _

12 fyrir því mælir Drottinn, Ísraels Guð, svo: Ég mun leiða ógæfu yfir Jerúsalem og Júda, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.

13 Ég mun draga mælivað yfir Jerúsalem, eins og fyrrum yfir Samaríu, og mælilóð, eins og yfir Akabsætt, og þurrka Jerúsalem burt, eins og þegar þurrkað er af skál og skálinni síðan hvolft, þegar þurrkað hefir verið af henni.

14 Og ég mun útskúfa leifum arfleifðar minnar og gefa þá í hendur óvinum þeirra, svo að þeir verði öllum óvinum sínum að bráð og herfangi,

15 vegna þess að þeir hafa gjört það, sem illt er í augum mínum, og egnt mig til reiði frá þeim degi, er feður þeirra fóru burt af Egyptalandi, allt fram á þennan dag."

16 Manasse úthellti og mjög miklu saklausu blóði, þar til er hann hafði fyllt Jerúsalem með því enda á milli, auk þeirrar syndar sinnar, að hann kom Júda til að gjöra það sem illt var í augum Drottins.

17 Það sem meira er að segja um Manasse og allt, sem hann gjörði, og synd hans, þá er hann drýgði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

18 Og Manasse lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í gröf sinni í garði Ússa. Og Amón sonur hans tók ríki eftir hann.

19 Amón hafði tvo um tvítugt, þá er hann varð konungur, og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Mesúllemet Harúsdóttir og var frá Jotba.

20 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans,

21 og fetaði algjörlega í fótspor föður síns og þjónaði skurðgoðunum, sem faðir hans hafði þjónað, og féll fram fyrir þeim.

22 Hann yfirgaf Drottin, Guð feðra sinna, og gekk eigi á vegum hans.

23 Þjónar Amóns gjörðu samsæri gegn honum og drápu konung í höll hans.

24 En landslýðurinn drap alla mennina, er gjört höfðu samsæri gegn Amón konungi. Síðan tók landslýðurinn Jósía son hans til konungs eftir hann.

25 Það sem meira er að segja um Amón, það er hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

26 Og hann var grafinn í gröf sinni í garði Ússa. Og Jósía sonur hans tók ríki eftir hann.

22 Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jedída Adajadóttir og var frá Boskat.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði algjörlega í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri.

Á átjánda ríkisári Jósía konungs sendi konungur Safan Asaljason, Mesúllamssonar, kanslara, í musteri Drottins og sagði:

"Gakk þú til Hilkía æðsta prests og innsigla fé það, er borið hefir verið í musteri Drottins, það er dyraverðirnir hafa safnað saman af lýðnum,

og fá það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón hafa með musteri Drottins, þeir skulu fá það í hendur verkamönnunum, sem vinna að því í musteri Drottins að gjöra við skemmdir á musterinu,

trésmiðunum og byggingamönnunum og múrurunum, svo og til að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við musterið.

Þó er ekki haldinn reikningur við þá á fénu, sem þeim var fengið í hendur, heldur gjöra þeir það upp á æru og trú."

Þá mælti Hilkía æðsti prestur við Safan kanslara: "Ég hefi fundið lögbók í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina og hann las hana.

Síðan fór Safan kanslari til konungs og skýrði konungi frá erindislokum og mælti: "Þjónar þínir hafa látið af hendi fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur verkstjórunum, sem umsjón hafa með musteri Drottins."

10 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: "Hilkía prestur fékk mér bók." Og Safan las hana fyrir konungi.

11 En er konungur heyrði orð lögbókarinnar, reif hann klæði sín.

12 Og hann bauð þeim Hilkía presti, Ahíkam Safanssyni, Akbór Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið:

13 "Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir lýðinn og fyrir allan Júda um þessa nýfundnu bók, því að mikil er heift Drottins, sú er upptendruð er í gegn oss, af því að feður vorir hafa eigi hlýtt orðum bókar þessarar með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í henni."

14 Þá fóru þeir Hilkía prestur, Ahíkam, Akbór, Safan og Asaja til Huldu spákonu, konu Sallúms Tikvasonar, Harhasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana.

15 Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín:

16 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar ógnanir bókar þessarar, er Júdakonungur hefir lesið,

17 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, og heift mín skal upptendrast gegn þessum stað og eigi slokkna.

18 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels:

19 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir Drottni, er þú heyrðir, hvað ég hafði talað gegn þessum stað og íbúum hans, að þeir skyldu verða undrunarefni og formælingar, og af því að þú reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig _ segir Drottinn.

20 Fyrir því vil ég láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað." Fluttu þeir konungi svarið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes