Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

10 Í Samaríu voru sjötíu synir Akabs. Og Jehú skrifaði bréf og sendi þau til Samaríu til höfðingja borgarinnar og til öldunganna og þeirra, sem fóstruðu sonu Akabs. Þau voru á þessa leið:

"Þá er þér fáið þetta bréf, þér sem hafið hjá yður sonu herra yðar og hafið yfir að ráða vögnum og hestum, víggirtum borgum og hervopnum,

þá veljið hinn besta og hæfasta af sonum herra yðar og setjið hann í hásæti föður síns og berjist fyrir ætt herra yðar."

Þeir urðu mjög hræddir og sögðu: "Sjá, tveir konungar fengu eigi reist rönd við honum, hvernig skyldum vér þá fá staðist?"

Þá sendu þeir dróttseti, borgarstjóri, öldungarnir og fóstrarnir til Jehú og létu segja honum: "Vér erum þínir þjónar, og vér viljum gjöra allt, sem þú býður oss. Vér munum engan til konungs taka. Gjör sem þér vel líkar."

Þá skrifaði hann þeim annað bréf á þessa leið: "Ef þér viljið fylgja mér og hlýða skipun minni, þá takið höfuðin af sonum herra yðar og komið til mín í þetta mund á morgun til Jesreel." En synir konungsins, sjötíu manns, voru hjá stórmennum borgarinnar, er ólu þá upp.

En er bréfið kom til þeirra, tóku þeir konungssonu og slátruðu þeim, sjötíu manns, og lögðu höfuð þeirra í körfur og sendu honum til Jesreel.

Og er sendimaður kom og sagði Jehú, að þeir væru komnir með höfuð konungssona, þá sagði hann: "Leggið þau í tvær hrúgur úti fyrir borgarhliðinu til morguns."

En um morguninn fór hann út þangað, gekk fram og mælti til alls lýðsins: "Þér eruð saklausir. Sjá, ég hefi hafið samsæri í gegn herra mínum og drepið hann, en hver hefir unnið á öllum þessum?

10 Kannist þá við, að ekkert af orðum Drottins hefir fallið til jarðar, þau er hann talaði gegn ætt Akabs. Drottinn hefir framkvæmt það, er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía."

11 Og Jehú drap alla þá, er eftir voru af ætt Akabs í Jesreel, svo og alla höfðingja hans, vildarmenn og presta, svo að enginn varð eftir, sá er undan kæmist.

12 Síðan tók Jehú sig upp og fór til Samaríu. Og er hann kom til Bet Eked Haróím við veginn,

13 þá mætti hann bræðrum Ahasía Júdakonungs og sagði: "Hverjir eruð þér?" Þeir svöruðu: "Vér erum bræður Ahasía og ætlum að heimsækja konungssonu og sonu konungsmóður."

14 Þá sagði hann: "Takið þá höndum lifandi." Og þeir tóku þá höndum lifandi og slátruðu þeim og fleygðu þeim í gryfjuna hjá Bet Eked, fjörutíu og tveimur mönnum, og var enginn af þeim eftir skilinn.

15 Og er hann fór þaðan, hitti hann Jónadab Rekabsson, er kom í móti honum. Hann heilsaði honum og sagði við hann: "Ert þú einlægur við mig, eins og ég er við þig?" Jónadab svaraði: "Svo er víst." Þá mælti Jehú: "Ef svo er, þá rétt mér hönd þína." Þá rétti hann honum hönd sína, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín

16 og mælti: "Kom með mér, þá skalt þú fá að sjá, hversu ég vandlæti vegna Drottins." Síðan lét hann hann fara með sér á vagni sínum.

17 Og er hann var kominn til Samaríu, drap hann alla, er eftir voru af Akabsætt í Samaríu, uns hann hafði gjöreytt þeim, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað til Elía.

18 Því næst stefndi Jehú saman öllum lýðnum og sagði við þá: "Akab dýrkaði Baal slælega, Jehú mun dýrka hann betur.

19 Kallið því til mín alla spámenn Baals, alla dýrkendur hans og alla presta hans. Engan má vanta, því að ég ætla að halda blótveislu mikla fyrir Baal. Skal enginn sá lífi halda, er lætur sig vanta." En þar beitti Jehú brögðum til þess að tortíma dýrkendum Baals.

20 Og Jehú sagði: "Boðið hátíðasamkomu fyrir Baal." Þeir gjörðu svo.

21 Og Jehú sendi um allan Ísrael. Þá komu allir dýrkendur Baals, svo að enginn var eftir, sá er eigi kæmi. Og þeir gengu í musteri Baals, og musteri Baals varð fullt enda á milli.

22 Síðan sagði hann við umsjónarmann fatabúrsins: "Tak út klæði handa öllum dýrkendum Baals." Og hann tók út klæði handa þeim.

23 Síðan gekk Jehú og Jónadab Rekabsson með honum í musteri Baals, og hann sagði við dýrkendur Baals: "Gætið að og lítið eftir, að eigi sé hér meðal yðar neinn af þjónum Drottins, heldur dýrkendur Baals einir."

24 Síðan gekk hann inn til þess að færa sláturfórnir og brennifórnir. En Jehú hafði sett áttatíu manns fyrir utan dyrnar og sagt: "Hver sá er lætur nokkurn af mönnum þeim, er ég fæ yður í hendur, sleppa undan, hann skal láta sitt líf fyrir hans líf."

25 Þegar Jehú hafði lokið við að færa brennifórnina, sagði hann við varðliðsmennina og riddarana: "Gangið inn og brytjið þá niður, enginn má út komast." Og þeir brytjuðu þá niður með sverði og köstuðu þeim út. Og varðliðsmennirnir og riddararnir ruddust alla leið inn í innhús Baalsmusterisins

26 og tóku asérurnar út úr musteri Baals og brenndu þær.

27 Og þeir rifu niður merkisstein Baals, rifu síðan musteri Baals og gjörðu úr því náðhús, og er svo enn í dag.

28 Þannig útrýmdi Jehú allri Baalsdýrkun í Ísrael.

29 En af syndum Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, af þeim lét Jehú ekki _ dýrkun gullkálfanna í Betel og í Dan.

30 Og Drottinn sagði við Jehú: "Með því að þú hefir leyst vel af hendi það, er rétt var í mínum augum, og farið alveg mér að skapi með ætt Akabs, þá skulu niðjar þínir í fjórða lið sitja í hásæti Ísraels."

31 En Jehú hirti eigi um að breyta eftir lögmáli Drottins, Ísraels Guðs, af öllu hjarta sínu. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

32 Um þessar mundir byrjaði Drottinn að sneiða af Ísrael. Hasael vann sigur á þeim á öllum landamærum Ísraels.

33 Frá Jórdan austur á bóginn lagði hann undir sig allt Gíleaðland, Gaðíta, Rúbeníta og Manassíta, frá Aróer, sem er við Arnoná, bæði Gíleað og Basan.

34 En það sem meira er að segja um Jehú og allt, sem hann gjörði, og öll hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

35 Og Jehú lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var hann grafinn í Samaríu. Og Jóahas sonur hans tók ríki eftir hann.

36 En sá tími, er Jehú ríkti yfir Ísrael í Samaríu, voru tuttugu og átta ár.

11 Þá er Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsættina.

Þá tók Jóseba, dóttir Jórams konungs, systir Ahasía, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig leyndi hún honum fyrir Atalíu, svo að hann var ekki drepinn.

Og hann var hjá henni á laun sex ár í musteri Drottins, meðan Atalía ríkti yfir landinu.

En á sjöunda ári sendi Jójada prestur menn og lét sækja hundraðshöfðingja lífvarðarins og varðliðsins og lét þá koma til sín í musteri Drottins. Og hann gjörði við þá sáttmála og lét þá vinna eið í musteri Drottins. Síðan sýndi hann þeim konungsson

og lagði svo fyrir þá: "Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð halda vörð í konungshöllinni.

Skal einn þriðjungurinn vera í Súrhliði, annar í hliðinu bak við varðliðsmennina, svo að þér haldið vörð í konungshöllinni.

Og báðir hinir þriðjungsflokkar yðar, allir þeir, er fara út hvíldardaginn til þess að halda vörð í musteri Drottins hjá konunginum,

þér skuluð fylkja yður um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast gegnum raðirnar, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann fer út og þegar hann kemur heim."

Hundraðshöfðingjarnir fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn og komu til Jójada prests.

10 Og presturinn fékk hundraðshöfðingjunum spjótin og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Drottins.

11 Og varðliðsmennirnir námu staðar, allir með vopn í hendi, allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið þess, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu.

12 Þá leiddi hann konungsson fram og setti á hann kórónuna og hringana. Tóku þeir hann til konungs og smurðu hann, klöppuðu lófum saman og hrópuðu: "Konungurinn lifi!"

13 En er Atalía heyrði ópið í varðliðsmönnunum og lýðnum, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins.

14 Sá hún þá, að konungur stóð við súluna, svo sem siður var til, og hún sá höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana. Þá reif Atalía klæði sín og kallaði: "Samsæri, samsæri!"

15 En Jójada prestur bauð hundraðshöfðingjunum, fyrirliðum hersins, og mælti til þeirra: "Leiðið hana út milli raðanna og drepið með sverði hvern, sem fer á eftir henni." Því að prestur hafði sagt: ,Eigi skal hana drepa í musteri Drottins.`

16 Síðan lögðu þeir hendur á hana, og er hún var komin inn í konungshöllina um hrossahliðið, var hún drepin þar.

17 Jójada gjörði sáttmála milli Drottins og konungs og lýðsins, að þeir skyldu vera lýður Drottins, svo og milli konungs og lýðsins.

18 Síðan fór allur landslýður inn í musteri Baals og reif það. Ölturu hans og líkneskjur molbrutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum. Síðan setti prestur varðflokka við musteri Drottins,

19 og hann tók hundraðshöfðingjana, lífvörðinn og varðliðsmennina og allan landslýðinn, og fóru þeir með konung ofan frá musteri Drottins og gengu um varðliðshliðið inn í konungshöllina, og hann settist í konungshásætið.

20 Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði í konungshöllinni.

21 Jóas var sjö vetra gamall, þá er hann varð konungur.

12 Á sjöunda ríkisári Jehú varð Jóas konungur, og fjörutíu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba.

Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins alla ævi sína, af því að Jójada prestur hafði kennt honum.

Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.

Og Jóas sagði við prestana: "Allt fé, sem borið er í musteri Drottins sem helgigjafir, fé, sem lagt er á einhvern eftir mati _ fé, sem menn eru metnir eftir _ svo og allt það fé, sem einhver af eigin hvötum ber í musteri Drottins,

skulu prestarnir taka til sín, hver af sínum ráðunaut. En þeir skulu og með því gjöra við skemmdir á musterinu, allar skemmdir, sem á því finnast."

En á tuttugasta og þriðja ríkisári Jóasar konungs höfðu prestarnir enn ekki gjört við skemmdir á musterinu.

Þá lét Jóas konungur kalla Jójada yfirprest og hina prestana og mælti til þeirra: "Hvers vegna gjörið þér ekki við skemmdir á musterinu? Nú skuluð þér eigi framar taka við neinu fé af ráðunautum yðar, heldur skuluð þér láta það af hendi fyrir skemmdum á musterinu."

Og prestarnir gengu að þeim kostum að taka ekki við fé af lýðnum, en vera og eigi skyldir að gjöra við skemmdir á musterinu.

Síðan tók Jójada prestur kistu nokkra, boraði gat á lokið og setti hana hjá altarinu, hægra megin, þegar gengið er inn í musteri Drottins, og létu prestarnir, þeir er geymdu inngöngudyra, í hana allt það fé, er borið var í musteri Drottins.

10 Og er þeir sáu, að mikið fé var komið í kistuna, kom kanslari konungs þangað og æðsti presturinn, og bundu þeir saman allt fé, sem fannst í musteri Drottins, og töldu það.

11 Fengu þeir síðan féð, er vegið hafði verið, verkstjórunum í hendur, þeim er höfðu umsjón með musteri Drottins, en þeir greiddu það trésmiðunum og byggingamönnunum, er störfuðu við musteri Drottins,

12 svo og múrurunum og steinsmiðunum og til þess að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við skemmdir á musteri Drottins, og til alls sem borga þurfti fyrir viðgjörð á musterinu.

13 Þó voru eigi gjörðir neinir silfurkatlar, skarbítar, fórnarskálar, lúðrar né nokkurs konar áhöld úr gulli eða silfri í musteri Drottins, af fé því, sem borið var í musteri Drottins,

14 heldur fengu menn það verkamönnunum, til þess að þeir fyrir það gjörðu við musteri Drottins.

15 En ekki héldu menn reikning við menn þá, er þeir fengu féð í hendur, til þess að þeir greiddu það verkamönnunum, heldur gjörðu þeir það upp á æru og trú.

16 En sektarfórnarféð og syndafórnarféð var eigi borið í musteri Drottins. Það áttu prestarnir.

17 Um þær mundir kom Hasael Sýrlandskonungur, herjaði á Gat og vann hana. En er Hasael ætlaði að fara til Jerúsalem,

18 þá tók Jóas Júdakonungur allar helgigjafir þær, er þeir Jósafat, Jóram og Ahasía forfeður hans, Júdakonungar, höfðu helgað, svo og helgigjafir sínar og allt gullið, er til var í fjárhirslum musteris Drottins og konungshallarinnar, og sendi það Hasael Sýrlandskonungi. Hætti hann þá við að fara til Jerúsalem.

19 En það sem meira er að segja um Jóas og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

20 Þjónar Jóasar hófust handa, gjörðu samsæri og drápu Jóas í Milló-húsi, þar sem gatan liggur niður til Silla.

21 Þeir Jósakar Símeatsson og Jósabad Sómersson, þjónar hans, unnu á honum, og hann var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Amasía sonur hans tók ríki eftir hann.

29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.

30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`

31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."

32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.

33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`

34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."

35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans.

36 Hann sér Jesú á gangi og segir: "Sjá, Guðs lamb."

37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.

38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: "Hvers leitið þið?" Þeir svara: "Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?"

39 Hann segir: "Komið og sjáið." Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.

40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.

41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: "Við höfum fundið Messías!" (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)

42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: "Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas" (Pétur, það þýðir klettur).

43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: "Fylg þú mér!"

44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur.

45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: "Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs."

46 Natanael sagði: "Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?" Filippus svaraði: "Kom þú og sjá."

47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: "Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í."

48 Natanael spyr: "Hvaðan þekkir þú mig?" Jesús svarar: "Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig."

49 Þá segir Natanael: "Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels."

50 Jesús spyr hann: "Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu`? Þú munt sjá það, sem þessu er meira."

51 Og hann segir við hann: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn."

Read full chapter