A A A A A
Bible Book List

Annað bréf Jóhannesar Icelandic Bible (ICELAND)

Öldungurinn heilsar hinni útvöldu frú og börnum hennar, sem ég elska í sannleika. Og ekki ég einn, heldur einnig allir, sem þekkja sannleikann.

Vér gjörum það sakir sannleikans, sem er stöðugur í oss og mun vera hjá oss til eilífðar.

Náð, miskunn og friður frá Guði föður og frá Jesú Kristi, syni föðurins, mun vera með oss í sannleika og kærleika.

Það hefur glatt mig mjög, að ég hef fundið nokkur af börnum þínum, er ganga fram í sannleika, samkvæmt því boðorði, sem vér tókum við af föðurnum.

Og nú bið ég þig, frú mín góð, og er þá ekki að skrifa þér nýtt boðorð, heldur það, er vér höfðum frá upphafi: Vér skulum elska hver annan.

Og í þessu birtist elskan, að vér lifum eftir boðorðum hans. Þetta er boðorðið, eins og þér heyrðuð það frá upphafi, til þess að þér skylduð lifa í því.

Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn í holdi. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn.

Hafið gætur á sjálfum yður að þér missið ekki það, sem vér höfum áunnið, heldur megið fá full laun.

Sérhver sem fer of langt og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefur ekki Guð. Sá sem er stöðugur í kenningunni, hann hefur bæði föðurinn og soninn.

10 Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn.

11 Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.

12 Þótt ég hafi margt að rita yður, vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki, en ég vona að koma til yðar og tala munnlega við yður, til þess að gleði vor verði fullkomin.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Þriðja bréf Jóhannesar Icelandic Bible (ICELAND)

Öldungurinn heilsar elskuðum Gajusi, sem ég ann í sannleika.

Ég bið þess, minn elskaði, að þér vegni vel í öllum hlutum og að þú sért heill heilsu, eins og sálu þinni vegnar vel.

Ég varð mjög glaður, þegar bræður komu og báru vitni um tryggð þína við sannleikann, hversu þú lifir í sannleika.

Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.

Þú breytir dyggilega, minn elskaði, í öllu sem þú vinnur fyrir bræðurna og jafnvel ókunna menn.

Þeir hafa vitnað fyrir söfnuðinum um kærleika þinn. Þú gjörir vel, er þú greiðir för þeirra eins og verðugt er fyrir Guði.

Því að sakir nafnsins lögðu þeir af stað og þiggja ekki neitt af heiðnum mönnum.

Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.

Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins, en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss.

10 Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur. Hann lætur sér ekki nægja að ófrægja oss með vondum orðum, heldur tekur hann ekki sjálfur á móti bræðrunum og hindrar þá, er það vilja gjöra, og rekur þá úr söfnuðinum.

11 Breyttu ekki eftir því, sem illt er, minn elskaði, heldur eftir því, sem gott er. Sá sem gott gjörir heyrir Guði til, en sá sem illt gjörir hefur ekki séð Guð.

12 Demetríusi er borið gott vitni af öllum og af sannleikanum sjálfum. Það gjörum vér líka, og þú veist að vitnisburður vor er sannur.

13 Ég hef margt að rita þér, en vil ekki rita þér með bleki og penna.

14 En ég vona að sjá þig bráðum og munum við þá talast við munnlega.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Hið almenna bréf Júdasar Icelandic Bible (ICELAND)

Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, heilsar hinum kölluðu, sem eru elskaðir af Guði föður og varðveittir Jesú Kristi.

Miskunn, friður og kærleiki margfaldist yður til handa.

Þér elskaðir, mér var það ríkt í huga að rita yður um sameiginlegt hjálpræði vort. En nú kemst ég ekki hjá því að skrifa og hvetja yður til að berjast fyrir þeirri trú, sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.

Því að inn hafa læðst nokkrir menn, sem fyrir löngu var ritað um að þessi dómur biði þeirra. Þeir eru óguðlegir menn, sem misnota náð Guðs vors til taumleysis og afneita vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi.

Ég vil minna yður á, þótt þér nú einu sinni vitið það allt, að Drottinn frelsaði lýðinn úr Egyptalandi, en tortímdi samt síðar þeim, sem ekki trúðu.

Og englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað, hefur hann í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.

Eins og Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað á líkan hátt og þeir og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, þær liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.

Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla tignum.

Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að leggja lastmælisdóm á djöfulinn, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: "Drottinn refsi þér!"

10 En þessir menn lastmæla öllu því, sem þeir þekkja ekki, en spilla sér á því sem þeir skilja af eðlisávísun eins og skynlausar skepnur.

11 Vei þeim, því að þeir hafa gengið á vegi Kains og hrapað í villu Bíleams fyrir ávinnings sakir og tortímst í þverúð Kóra.

12 Þessir menn eru blindsker við kærleiksmáltíðir yðar, er þeir sitja að veislum með yður og háma í sig blygðunarlaust. Þeir eru vatnslaus ský, sem rekast fyrir vindum, tré, sem bera ekki ávöxt að hausti, tvisvar dauð og rifin upp með rótum.

13 Þeir eru ofsalegar hafsbylgjur, sem freyða eigin skömmum, reikandi stjörnur, sem eiga dýpsta myrkur í vændum til eilífðar.

14 Um þessa menn spáði líka Enok, sjöundi maður frá Adam, er hann segir: "Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra

15 til að halda dóm yfir öllum og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk, sem þeir hafa drýgt, og um öll þau hörðu orð, sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum."

16 Þessir menn eru möglarar, umkvörtunarsamir og lifa eftir girndum sínum. Munnur þeirra mælir ofstopaorð og þeir meta menn eftir hagnaði.

17 En, þér elskaðir, minnist þeirra orða, sem áður hafa töluð verið af postulum Drottins vors Jesú Krists.

18 Þeir sögðu við yður: "Á síðasta tíma munu koma spottarar, sem stjórnast af sínum eigin óguðlegu girndum."

19 Þessir menn eru þeir, sem valda sundrungu, holdlegir menn, sem eigi hafa andann.

20 En þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda.

21 Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.

22 Verið mildir við suma, þá sem eru efablandnir,

23 suma skuluð þér frelsa, með því að hrífa þá út úr eldinum. Og suma skuluð þér vera mildir við með ótta, og hatið jafnvel kyrtilinn, sem flekkaður er af holdinu.

24 En honum, sem megnar að varðveita yður frá hrösun og láta yður koma fram fyrir dýrð sína, lýtalausa í fögnuði,

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes