Add parallel Print Page Options

Vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með höndum gjört.

Á meðan andvörpum vér og þráum að íklæðast húsi voru frá himnum.

Þegar vér íklæðumst því, munum vér ekki standa uppi naktir.

En á meðan vér erum í tjaldbúðinni, stynjum vér mæddir, af því að vér viljum ekki afklæðast, heldur íklæðast, til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu.

En sá, sem hefur gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefur gefið oss anda sinn sem pant.

Vér erum því ávallt hughraustir, þótt vér vitum, að meðan vér eigum heima í líkamanum erum vér að heiman frá Drottni,

því að vér lifum í trú, en sjáum ekki.

Já, vér erum hughraustir og langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni.

Þess vegna kostum vér kapps um, hvort sem vér erum heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegir.

10 Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt.

11 Með því að vér nú vitum, hvað það er að óttast Drottin, leitumst vér við að sannfæra menn. En Guði erum vér kunnir orðnir, já, ég vona, að vér séum einnig kunnir orðnir yður í hjörtum yðar.

12 Ekki erum vér enn að mæla með sjálfum oss við yður, heldur gefum vér yður tilefni til að miklast af oss, til þess að þér hafið eitthvað gagnvart þeim, er miklast af hinu ytra, en ekki af hjartaþelinu.

13 Því að hvort sem vér höfum orðið frávita, þá var það vegna Guðs, eða vér erum með sjálfum oss, þá er það vegna yðar.

14 Kærleiki Krists knýr oss,

15 því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.

16 Þannig metum vér héðan í frá engan að mannlegum hætti. Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig.

17 Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.

18 Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar.

19 Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar.

20 Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.

21 Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.

Sem samverkamenn hans áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis.

Hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur.

Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti.

Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist,

undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum,

með grandvarleik, með þekkingu, með langlyndi, með góðvild, með heilögum anda, með falslausum kærleika,

með sannleiksorði, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar,

í heiðri og vanheiðri, í lasti og lofi. Vér erum álitnir afvegaleiðendur, en erum sannorðir,

óþekktir, en þó alþekktir, komnir í dauðann og samt lifum vér, tyftaðir og þó ekki deyddir,

10 hryggir, en þó ávallt glaðir, fátækir, en auðgum þó marga, öreigar, en eigum þó allt.

11 Frjálslega tölum vér við yður, Korintumenn. Rúmt er um yður í hjarta voru.

12 Ekki er þröngt um yður hjá oss, en í hjörtum yðar er þröngt.

13 En svo að sama komi á móti, _ ég tala eins og við börn mín _, þá látið þér líka verða rúmgott hjá yður.

14 Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur?

15 Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?

16 Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.

17 Þess vegna segir Drottinn: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér

18 og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir Drottinn alvaldur.

Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.

Gefið oss rúm í hjörtum yðar. Engum höfum vér gjört rangt til, engan skaðað, engan féflett.

Ég segi það ekki til að áfellast yður. Ég hef áður sagt, að þér eruð í hjörtum vorum, og vér deyjum saman og lifum saman.

Mikla djörfung hef ég gagnvart yður, mikillega get ég hrósað mér af yður. Ég er fullur af huggun, ég er stórríkur af gleði í allri þrenging vorri.

Því var og það, er vér komum til Makedóníu, að vér höfðum enga eirð, heldur vorum vér á alla vegu aðþrengdir, barátta hið ytra, ótti hið innra.

En Guð, sem huggar hina beygðu, hann huggaði oss með komu Títusar,

já, ekki aðeins með komu hans, heldur og með þeirri huggun, sem hann hafði fengið hjá yður. Hann skýrði oss frá þrá yðar, gráti yðar, áhuga yðar mín vegna, svo að ég gladdist við það enn frekar.

Að vísu hef ég hryggt yður með bréfinu, en ég iðrast þess ekki nú, þótt ég iðraðist þess áður, þar sem ég sá að þetta bréf hafði hryggt yður, þótt ekki væri nema um stund.

Nú er ég glaður, ekki yfir því, að þér urðuð hryggir, heldur yfir því, að þér urðuð hryggir til iðrunar. Þér urðuð hryggir Guði að skapi og biðuð því ekki í neinu tjón af oss.

10 Sú hryggð, sem er Guði að skapi, vekur afturhvarf til hjálpræðis, sem engan iðrar, en hryggð heimsins veldur dauða.

11 Einmitt þetta, að þér hryggðust Guði að skapi, _ hvílíka alvöru vakti það hjá yður, já, hvílíkar afsakanir, hvílíka gremju, hvílíkan ótta, hvílíka þrá, hvílíkt kapp, hvílíka refsingu! Í öllu hafið þér nú sannað, að þér voruð vítalausir um þetta.

12 Þótt ég því hafi skrifað yður, þá var það ekki vegna hans, sem óréttinn gjörði, ekki heldur vegna hans, sem fyrir óréttinum varð, heldur til þess að yður yrði ljóst fyrir augliti Guðs hversu heilshugar þér standið með oss.

13 Þess vegna höfum vér huggun hlotið. En auk huggunar vorrar gladdi það oss allra mest, hve Títus varð glaður. Þér hafið allir róað huga hans.

14 Því að hafi ég í nokkru hrósað mér af yður við hann, þá hef ég ekki þurft að blygðast mín. Já, eins og allt var sannleika samkvæmt, sem vér höfum talað við yður, þannig hefur og hrós vort um yður við Títus reynst sannleikur.

15 Og hjartaþel hans til yðar er því hlýrra sem hann minnist hlýðni yðar allra, hversu þér tókuð á móti honum með ugg og ótta.

16 Það gleður mig, að ég get í öllu borið traust til yðar.

En svo viljum vér, bræður, skýra yður frá þeirri náð, sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu.

Þrátt fyrir þær miklu þrengingar, sem þeir hafa orðið að reyna, hefur ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt leitt í ljós gnægð örlætis hjá þeim.

Ég get vottað það, hversu þeir hafa gefið eftir megni, já, um megn fram. Af eigin hvötum

lögðu þeir fast að oss og báðu um að mega vera í félagi við oss um samskotin til hinna heilögu.

Og þeir gjörðu betur en vér höfðum vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni, og síðan oss, að vilja Guðs.

Það varð til þess, að vér báðum Títus, að hann skyldi og leiða til lykta hjá yður þessa líknarþjónustu, eins og hann hefur byrjað.

Þér eruð auðugir í öllu, í trú, í orði og þekkingu, í allri alúð og í elsku yðar sem vér höfum vakið. Þannig skuluð þér og vera auðugir í þessari líknarþjónustu.

Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur.

Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans.

10 Og ráð vil ég gefa í þessu máli, því að þetta er yður til gagns, yður sem í fyrra voruð á undan öðrum, ekki aðeins í verkinu, heldur og í viljanum.

11 En fullgjörið nú og verkið. Þér voruð fúsir að hefjast handa, fullgjörið það nú eftir því sem efnin leyfa.

12 Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.

13 Ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna,

14 til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar og þannig verði jöfnuður,

15 eins og skrifað er: Sá, sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.

16 En þökk sé Guði, sem vakti í hjarta Títusar þessa sömu umhyggju fyrir yður.

17 Reyndar fékk hann áskorun frá mér, en áhugi hans var svo mikill, að hann fór til yðar af eigin hvötum.

18 En með honum sendum vér þann bróður, sem orð fer af í öllum söfnuðunum fyrir starf hans í þjónustu fagnaðarerindisins.

19 Og ekki það eitt, heldur er hann og af söfnuðunum kjörinn samferðamaður vor með líknargjöf þessa, sem vér höfum unnið að, Drottni til dýrðar og til að sýna fúsleika vorn.

20 Vér höfum gjört þessa ráðstöfun til þess að enginn geti lastað meðferð vora á hinni miklu gjöf, sem vér höfum gengist fyrir.

21 Því að vér ástundum það sem gott er, ekki aðeins fyrir Drottni, heldur og fyrir mönnum.

22 Með þeim sendum vér annan bróður vorn, sem vér oftsinnis og í mörgu höfum reynt kostgæfinn, en nú miklu fremur en ella vegna hans mikla trausts til yðar.

23 Títus er félagi minn og starfsbróðir hjá yður, og bræður vorir eru sendiboðar safnaðanna og Kristi til vegsemdar.

24 Sýnið því söfnuðunum merki elsku yðar, svo að það verði þeim ljóst, að það var ekki að ástæðulausu, að vér hrósuðum yður við þá.

Um hjálpina til hinna heilögu er sem sé óþarft fyrir mig að skrifa yður,

því að ég þekki góðan vilja yðar og hrósa mér af yður meðal Makedóna og segi, að Akkea hefur verið reiðubúin síðan í fyrra. Áhugi yðar hefur verið hvatning fyrir fjöldamarga.

En bræðurna hef ég sent, til þess að hrós vort um yður skyldi ekki reynast fánýtt í þessu efni og til þess að þér, eins og ég sagði, mættuð vera reiðubúnir.

Annars gæti svo farið, að vér, _ að vér ekki segjum þér _, þyrftum að bera kinnroða fyrir þetta traust, ef Makedónar skyldu koma með mér og finna yður óviðbúna.

Vér töldum því nauðsynlegt að biðja bræðurna að fara á undan til yðar og undirbúa þá gjöf yðar, sem heitin var áður, svo að hún mætti vera á reiðum höndum eins og blessun, en ekki nauðung.

En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.

Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.

Guð er þess megnugur að veita yður allar góðar gjafir ríkulega, til þess að þér í öllu og ávallt hafið allt sem þér þarfnist og getið sjálfir veitt ríkulega til sérhvers góðs verks.

Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu.

10 Sá sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu, hann mun og gefa yður sáð og margfalda það og auka ávexti réttlætis yðar.

11 Þér verðið í öllu auðugir og getið jafnan sýnt örlæti sem kemur til leiðar þakklæti við Guð fyrir vort tilstilli.

12 Því að þessi þjónusta, sem þér innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu, heldur ber hún og ríkulega ávexti við að margir menn þakka Guði.

13 Þegar menn sjá, hvers eðlis þessi þjónusta er, munu þeir lofa Guð fyrir að þér haldið játningu yðar við fagnaðarerindi Krists og gefið með yður af örlæti, bæði þeim og öllum.

14 Og þeir munu biðja fyrir yður og þrá yður vegna yfirgnæfanlegrar náðar Guðs við yður.

15 Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!