A A A A A
Bible Book List

Síðari Kroníkubók 8-10 Icelandic Bible (ICELAND)

Að tuttugu árum liðnum, þá er Salómon hafði byggt musteri Drottins og höll sína _

en borgirnar, er Húram hafði látið af hendi við Salómon, þær víggirti Salómon og lét Ísraelsmenn setjast þar að _

þá hélt Salómon til Hamat hjá Sóba og náði henni á sitt vald.

Og hann víggirti Tadmor í eyðimörkinni og allar vistaborgirnar, þær er hann byggði í Hamat.

Þá víggirti hann og Efri Bethóron og Neðri Bethóron og gjörði að köstulum með múrum, hliðum og slagbröndum,

enn fremur Baalat og allar vistaborgirnar, er Salómon átti, og allar vagnliðsborgirnar og riddaraborgirnar og allt, sem Salómon fýsti að byggja í Jerúsalem, á Líbanon og í öllu ríki sínu.

Allt það fólk, sem eftir var af Hetítum, Amorítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, er eigi heyrðu til Ísraelsmönnum,

niðjar þeirra, sem enn voru eftir í landinu og Ísraelsmenn eigi höfðu útrýmt, á þá lagði Salómon skylduvinnu, og er svo enn í dag.

En af Ísraelsmönnum gjörði Salómon enga að þrælum til þess að vinna að fyrirtækjum sínum, en þeir voru hermenn, foringjar fyrir vagnköppum hans og foringjar fyrir vagnliði hans og riddaraliði.

10 Æðstu fógetar Salómons konungs voru tvö hundruð og fimmtíu að tölu. Þeir höfðu eftirlit með mönnum.

11 Og dóttur Faraós færði Salómon frá Davíðsborg í hús það, er hann hafði byggt handa henni, því að hann sagði: "Eigi skal ég láta konu búa í höll Davíðs Ísraelskonungs, því að helgir eru þeir staðir, þangað sem örk Drottins hefir komið."

12 Þá færði Salómon Drottni brennifórnir á altari Drottins, því er hann hafði reist fyrir framan forsalinn,

13 svo að hann færði fórnir eins og við átti á degi hverjum samkvæmt skipunum Móse, á hvíldardögunum, tunglkomudögunum og löghátíðunum, þrisvar á ári _ á hátíð hinna ósýrðu brauða, á viknahátíðinni og á laufskálahátíðinni.

14 Og eftir fyrirmælum Davíðs föður síns setti hann prestaflokkana til þjónustu þeirra og levítana til starfs þeirra, að syngja lofsöngva og vera prestunum til aðstoðar, svo sem við átti á degi hverjum, og hliðverðina setti hann við sérhvert hlið, eftir flokkaskipun þeirra, því að svo hafði guðsmaðurinn Davíð um boðið.

15 Var hvergi brugðið af skipun konungs um prestana og levítana og féhirslurnar.

16 Var þannig lokið við öll störf Salómons, frá þeim degi, er grundvöllurinn var lagður að musteri Drottins, og þangað til Salómon lauk við musteri Drottins.

17 Þá fór Salómon til Esjón Geber og til Elót á strönd hafsins í Edómlandi.

18 En Húram sendi honum með mönnum sínum skip og menn, vana sjóferðum. Og þeir komust til Ófír ásamt mönnum Salómons og sóttu þangað fjögur hundruð og fimmtíu talentur gulls og færðu Salómon konungi.

Þá er drottningin í Saba spurði orðstír Salómons, kom hún til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti og með úlfalda, klyfjaða kryddjurtum og afar miklu gulli og gimsteinum, til þess að reyna Salómon með gátum. Og er hún kom til Salómons, bar hún upp fyrir honum allt, sem henni bjó í brjósti.

En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn Salómon, er hann gæti eigi leyst úr fyrir hana.

Og er drottningin frá Saba sá speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið,

matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og klæði þeirra og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi Drottins, þá varð hún frá sér numin

og sagði við konung: "Satt var það, er ég heyrði í landi mínu um þig og speki þína.

En ég trúði ekki orðum þeirra fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Og þó hafði ég ekki frétt helminginn um gnótt speki þinnar. Þú ert meiri orðróm þeim, er ég hefi heyrt.

Sælir eru menn þínir og sælir þessir þjónar þínir, sem stöðugt standa frammi fyrir þér og heyra speki þína.

Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti sitt sem konung Drottins, Guðs þíns. Af því að Guð þinn elskar Ísrael, svo að hann vill láta hann standa að eilífu, gjörði hann þig að konungi yfir þeim til þess að iðka rétt og réttvísi."

Síðan gaf hún konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og afar mikið af kryddjurtum og gimsteina. Hefir aldrei síðan verið annað eins af kryddjurtum og drottningin frá Saba gaf Salómon konungi.

10 Sömuleiðis komu og þjónar Húrams og þjónar Salómons, þeir er gull sóttu til Ófír, með sandelvið og gimsteina.

11 Og konungur lét gjöra handrið í hús Drottins og í konungshöllina af sandelviðnum, svo og gígjur og hörpur handa söngmönnunum. Hafði ei áður slíkt sést í Júdalandi.

12 Salómon konungur gaf drottningunni frá Saba allt, er hún girntist og kaus sér, auk þess, er hún hafði fært konungi. Hélt hún síðan heimleiðis og fór í land sitt með föruneyti sínu.

13 Gullið, sem Salómon fékk á einu ári, var sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd,

14 auk þess er kom inn frá varningsmönnum og þess er kaupmennirnir komu með. Auk þess færðu allir konungar Arabíu og jarlar landsins Salómon gull og silfur.

15 Og Salómon konungur lét gjöra tvö hundruð skildi af slegnu gulli, fóru sex hundruð siklar af slegnu gulli í hvern skjöld,

16 og þrjú hundruð buklara af slegnu gulli, fóru þrjú hundruð siklar gulls í hvern buklara. Lét konungur leggja þá í Líbanonsskógarhúsið.

17 Konungur lét og gjöra hásæti mikið af fílabeini og lagði það skíru gulli.

18 Gengu sex þrep upp að hásætinu, og fótskör úr gulli var fest á hásætið. Bríkur voru báðum megin sætisins, og stóðu tvö ljón við bríkurnar.

19 Og tólf ljón stóðu á þrepunum sex, báðum megin. Slík smíð hefir aldrei verið gjörð í nokkru konungsríki.

20 Öll voru drykkjarker Salómons konungs af gulli, og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu voru af skíru gulli, ekkert af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons.

21 Því að konungur hafði skip, er fóru til Tarsis með mönnum Húrams. Þriðja hvert ár komu Tarsis-skipin heim, hlaðin gulli og silfri, fílabeini, öpum og páfuglum.

22 Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku.

23 Og alla konunga jarðarinnar fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst.

24 Komu þeir þá hver með sína gjöf, silfurgripi og gullgripi, klæði, vopn og kryddjurtir, hesta og múla, ár eftir ár.

25 Og Salómon átti fjögur þúsund vagneyki og vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem.

26 Og hann drottnaði yfir öllum konungum frá Efrat allt til Filistalands og til landamæra Egyptalands.

27 Og konungur gjörði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu.

28 Og menn fluttu hesta úr Egyptalandi og úr öllum löndum handa Salómon.

29 Annað af sögu Salómons er frá upphafi til enda skráð í Sögu Natans spámanns og í Spádómi Ahía frá Síló og í Vitrun Íddós sjáanda um Jeróbóam Nebatsson.

30 Salómon ríkti í Jerúsalem yfir öllum Ísrael í fjörutíu ár.

31 Og hann lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.

10 Rehabeam fór til Síkem, því að allur Ísrael var kominn þangað til þess að taka hann til konungs.

En er Jeróbóam Nebatsson frétti (hann var í Egyptalandi, þangað sem hann hafði flúið undan Salómon konungi) að Salómon væri dáinn, sneri Jeróbóam heim frá Egyptalandi.

Og þeir sendu boð og létu kalla hann. Þá kom Jeróbóam og allur Ísrael og mæltu til Rehabeams á þessa leið:

"Faðir þinn lagði á oss hart ok, en gjör nú léttari hina hörðu ánauð föður þíns og hið þunga ok, er hann á oss lagði, og munum vér þjóna þér."

Hann svaraði þeim: "Farið nú burt og komið aftur til mín að þrem dögum liðnum." Og lýðurinn fór burt.

Þá ráðgaðist Rehabeam konungur við öldungana, sem þjónað höfðu Salómon föður hans meðan hann lifði, og mælti: "Hver andsvör ráðið þér mér að gefa þessum mönnum?"

Þeir svöruðu honum og mæltu: "Ef þú í dag verður lýð þessum eftirlátur, verður þeim náðugur og tekur vel máli þeirra, munu þeir verða þér eftirlátir alla daga."

En hann hafnaði ráði því, er öldungarnir réðu honum, en ráðgaðist við unga menn, er vaxið höfðu upp með honum og nú þjónuðu honum,

og hann sagði við þá: "Hver ráð gefið þér til, hversu vér skulum svara lýð þessum, er talað hefir til mín á þessa leið: ,Gjör léttara ok það, er faðir þinn á oss lagði`?"

10 Þá svöruðu honum hinir ungu menn, er vaxið höfðu upp með honum: "Svo skalt þú svara lýðnum, er sagði við þig: ,Faðir þinn gjörði ok vort þungt, en gjör þú oss það léttara` _ svo skalt þú tala til þeirra: ,Litlifingur minn er digrari en lendar föður míns.

11 Hafi faðir minn lagt á yður þungt ok, mun ég gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum."`

12 Og Jeróbóam og allur lýðurinn kom til Rehabeams á þriðja degi, eins og konungur hafði sagt, þá er hann mælti: "Komið til mín aftur á þriðja degi."

13 Þá veitti konungur þeim hörð andsvör, og Rehabeam konungur fór eigi að ráðum öldunganna,

14 en talaði til þeirra á þessa leið að ráði hinna ungu manna: "Faðir minn gjörði ok yðar þungt, en ég mun gjöra það enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum."

15 Þannig veitti konungur lýðnum enga áheyrn, því að svo var til stillt af Guði, til þess að Drottinn gæti látið rætast orð sín, þau er hann hafði talað til Jeróbóams Nebatssonar, fyrir munn Ahía frá Síló.

16 Þá er allur Ísrael sá, að konungur veitti þeim enga áheyrn, þá veitti lýðurinn konungi þessi andsvör: Hverja hlutdeild eigum vér í Davíð? Engan erfðahlut eigum vér í Ísaísyni. Far heim til þín, hver Ísraelsmaður! Gæt þú þíns eigin húss, Davíð! Síðan fór allur Ísrael, hver heim til sín.

17 En yfir þeim Ísraelsmönnum, er bjuggu í Júdaborgum, var Rehabeam konungur.

18 Rehabeam konungur sendi Hadóram, sem var yfir kvaðarmönnum, en Ísraelsmenn lömdu hann grjóti til bana, en Rehabeam konungur hljóp í skyndi á vagn sinn og flýði til Jerúsalem.

19 Þannig gekk Ísrael undan ætt Davíðs, og stendur svo enn í dag.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes