Add parallel Print Page Options

32 Eftir þessa atburði og eftir að hann hafði sýnt trúmennsku þessa, kom Sanheríb Assýríukonungur. Hann réðst inn í Júda, settist um víggirtar borgir og hugðist ná þeim á sitt vald.

Og er Hiskía varð þess vís, að Sanheríb kæmi og ætlaði sér að ráða á Jerúsalem,

þá réðst hann um við höfuðsmenn sína og kappa að stemma vatnslindirnar utanborgar, og veittu þeir honum stuðning.

Kom þá saman fjöldi fólks og stemmdu allar lindir og lækinn, er rann um mitt landið, og sögðu: "Hvers vegna ættu Assýríukonungar að finna gnóttir vatns, er þeir koma?"

Hann herti því upp hugann, gjörði alls staðar við múrinn, þar sem hann var brotinn niður, gekk upp á turnana og ytri múrinn úti fyrir, víggirti Milló í Davíðsborg og lét gjöra afar mikið af skotvopnum og skjöldum.

Síðan skipaði hann herforingja yfir lýðinn og stefndi þeim til sín á torginu við borgarhliðið, talaði vinsamlega til þeirra og mælti:

"Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi né hræðist Assýríukonung og allan þann manngrúa, sem með honum er, því að sá er meiri, sem með oss er, en með honum.

Því að hann styður mannlegur máttur, en með oss er Drottinn, Guð vor, til þess að hjálpa oss og heyja orustur vorar." Og lýðurinn treysti á orð Hiskía Júdakonungs.

Eftir þetta sendi Sanheríb Assýríukonungur þjóna sína til Jerúsalem _ en sjálfur var hann hjá Lakís og allt lið hans hjá honum _ á fund Hiskía Júdakonungs og allra Júdamanna, þeirra er voru í Jerúsalem, með svolátandi orðsending:

10 "Svo segir Sanheríb Assýríukonungur: Á hvað treystið þér, er þér sitjið innikrepptir í Jerúsalem?

11 Vissulega ginnir Hiskía yður til þess að láta yður deyja úr hungri og þorsta, er hann segir: ,Drottinn, Guð vor, mun frelsa oss af hendi Assýríukonungs!`

12 Hefir þá ekki Hiskía þessi afnumið fórnarhæðir hans og ölturu, er hann bauð Júdamönnum og Jerúsalembúum á þessa leið: ,Þér eigið að falla fram fyrir einu altari, og á því einu megið þér brenna reykelsi?`

13 Vitið þér eigi hvað ég hefi gjört og feður mínir við allar þjóðir í löndunum? Gátu þjóðguðir landanna frelsað lönd þeirra af hendi minni?

14 Hver er sá af öllum guðum þessara þjóða, sem feður mínir hafa gjöreytt, er hafi getað frelsað lýð sinn af hendi minni, svo að yðar Guð geti frelsað yður af hendi minni?

15 Látið því eigi Hiskía tæla yður né ginna á slíkan hátt. Trúið honum eigi! Því að eigi hefir neinn guð nokkurrar þjóðar eða ríkis getað frelsað lýð sinn af hendi minni eða feðra minna. Hve miklu síður mun þá yðar Guð frelsa yður af hendi minni?"

16 Og enn fleira töluðu þjónar hans gegn Drottni Guði og gegn Hiskía þjóni hans.

17 Hann ritaði og bréf til þess að smána Drottin, Guð Ísraels, og tala gegn honum, á þessa leið: "Eins og þjóðguðir landanna eigi frelsuðu þjóðir sínar af hendi minni, svo mun og Guð Hiskía eigi frelsa sinn lýð af hendi minni."

18 Og þeir kölluðu með hárri röddu á Júda tungu til lýðsins í Jerúsalem, er var á múrunum, til þess að gjöra þá hrædda og felmtsfulla, svo að þeir gætu náð borginni,

19 og töluðu um Guð Jerúsalemborgar eins og um guði heiðnu þjóðanna, sem eru handaverk manna.

20 Þá er Hiskía konungur og Jesaja spámaður Amozson báðust fyrir út af þessu, og hrópuðu til himins,

21 þá sendi Drottinn engil, og drap hann alla kappa, höfuðsmenn og herforingja í herbúðum Assýríukonungs, svo að hann sneri aftur með sneypu heim í land sitt. En er hann kom í hof guðs síns, þá felldu hans eigin synir hann þar með sverði.

22 Þannig frelsaði Drottinn Hiskía og Jerúsalembúa af hendi Sanheríbs Assýríukonungs og af hendi allra annarra, og veitti þeim frið allt um kring.

23 Og margir færðu Drottni gjafir til Jerúsalem, og Hiskía Júdakonungi gersemar, og eftir þetta var hann frægur talinn meðal allra þjóða.

24 Um þessar mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá bað hann til Drottins, og talaði hann til hans og gaf honum tákn.

25 En Hiskía endurgalt eigi velgjörð þá, er honum var sýnd, heldur varð drembilátur, og kom því reiði yfir hann og yfir Júda og Jerúsalem.

26 Þá lægði Hiskía dramb sitt, bæði hann og Jerúsalembúar, og kom því reiði Drottins eigi yfir þá meðan Hiskía lifði.

27 Og Hiskía bjó við afar mikinn auð og sæmd. Hann lét gjöra féhirslur handa sér fyrir silfur og gull og dýra steina, svo og fyrir kryddjurtir, skjöldu og alls konar verðmæta muni,

28 forðabúr fyrir korn-, aldinlagar- og olíu-afurðirnar, svo og hús fyrir alls konar kvikfénað og fjárborgir fyrir hjarðirnar.

29 Og hann lét gjöra borgir handa sér og aflaði sér fjölda hjarða af sauðum og nautum, því að Guð veitti honum afar miklar eignir.

30 Hiskía þessi stemmdi og efri uppsprettur Gíhonlindar, og veitti vatninu niður eftir að Davíðsborg vestanverðri, og Hiskía varð auðnumaður í öllu því, er hann tók sér fyrir hendur.

31 Þess vegna gaf Guð hann í hendur sendimanna Babelhöfðingjanna, er sendir voru til hans til þess að frétta um táknið, er orðið hafði í landinu, aðeins til þess að reyna hann, svo að hann mætti fá að vita um allt það, er honum bjó í huga.

32 Það sem meira er að segja um Hiskía og góðverk hans, það er ritað í vitrun Jesaja Amozsonar spámanns, í bók Júda- og Ísraelskonunga.

33 Og Hiskía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn þar sem gengið er upp að gröfum Davíðsniðja, og allur Júda og Jerúsalembúar sýndu honum sæmd, er hann andaðist. Og Manasse sonur hans tók ríki eftir hann.

33 Manasse var tólf ára gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem.

Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar sem þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.

Hann reisti af nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði rífa látið, reisti Baölunum ölturu og lét gjöra asérur, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim.

Hann reisti og ölturu í musteri Drottins, því er Drottinn hafði um sagt: "Í Jerúsalem skal nafn mitt búa að eilífu!"

Og hann reisti ölturu fyrir allan himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins.

Hann lét og sonu sína ganga gegnum eldinn í Hinnomssonardal, fór með spár og fjölkynngi og töfra og skipaði særingamenn og spásagna. Hann aðhafðist margt það, sem illt var í augum Drottins og egndi hann til reiði.

Hann setti skurðgoðið, er hann hafði gjöra látið, í musteri Guðs, er Guð hafði sagt um við Davíð og Salómon son hans: "Í þessu húsi og í Jerúsalem, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, vil ég láta nafn mitt búa að eilífu.

Og ég vil eigi framar láta Ísrael fara landflótta úr landi því, er ég gaf feðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að breyta að öllu svo sem ég hefi boðið þeim, að öllu eftir lögmáli því og lögum og ákvæðum, er gefin voru fyrir Móse."

En Manasse leiddi Júda og Jerúsalembúa afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.

10 Og Drottinn talaði til Manasse og til lýðs hans, en þeir gáfu því engan gaum.

11 Þá lét Drottinn hershöfðingja Assýríukonungs ráðast að þeim; þeir tóku Manasse höndum með krókum, bundu hann eirfjötrum og fluttu hann til Babýlon.

12 En er hann var í nauðum staddur, reyndi hann að blíðka Drottin, Guð sinn, og lægði sig mjög fyrir Guði feðra sinna.

13 Og er hann bað hann, þá bænheyrði Drottinn hann. Hann heyrði grátbeiðni hans og lét hann hverfa heim aftur til Jerúsalem í ríki sitt. Komst þá Manasse að raun um, að Drottinn er Guð.

14 Eftir þetta reisti hann ytri múr fyrir Davíðsborg að vestanverðu við Gíhon í dalnum, og þangað að, er gengið er inn í Fiskhliðið, reisti hann í kringum Ófel, og gjörði hann mjög háan. Hann setti og herforingja í allar kastalaborgir í Júda.

15 Þá útrýmdi hann og útlendu guðunum og líkneskinu úr musteri Drottins, svo og öllum ölturunum, er hann hafði reisa látið á musterisfjalli Drottins og í Jerúsalem, og fleygði þeim út fyrir borgina.

16 En altari Drottins reisti hann við, og færði á því heillafórnir og þakkarfórnir, og Júdamönnum bauð hann að þjóna Drottni, Guði Ísraels.

17 En þó færði lýðurinn enn þá fórnir á hæðunum, en samt aðeins Drottni, Guði sínum.

18 Það sem meira er að segja um Manasse og bæn hans til Guðs hans, svo og orð sjáandanna, er töluðu til hans í nafni Drottins, Guðs Ísraels, það er ritað í Sögu Ísraelskonunga.

19 En um bæn hans og hvernig hann var bænheyrður, og um allar syndir hans og ótrúmennsku, svo og um staðina, þar sem hann reisti fórnarhæðir og setti asérur og líkneski, áður en hann lægði sig, um það er ritað í sögu sjáandanna.

20 Og Manasse lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í höll sinni. Og Amón sonur hans tók ríki eftir hann.

21 Amón hafði tvo um tvítugt, þá er hann varð konungur, og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem.

22 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans. Öllum skurðgoðunum, er Manasse faðir hans hafði gjöra látið, færði Amón margar fórnir og þjónaði þeim.

23 En hann lægði sig eigi fyrir Drottni, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans, heldur jók hann á sök sína.

24 Þjónar hans gjörðu samsæri í gegn honum, og drápu hann í höll hans.

25 En landslýðurinn drap alla mennina, er gjört höfðu samsæri gegn Amón konungi. Síðan tók landslýðurinn Jósía son hans til konungs eftir hann.

34 Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri.

Á áttunda ríkisári sínu, er hann sjálfur var enn ungur að aldri, tók hann að leita Guðs Davíðs, forföður síns, og á tólfta ári tók hann að rýma burt úr Júda og Jerúsalem fórnarhæðum og asérum, skurðgoðum og líkneskjum.

Ölturu Baalanna voru rifin niður að honum ásjáandi, og sólsúlurnar, er á þeim voru, hjó hann sundur, og asérurnar og skurðgoðin og líkneskin braut hann sundur og muldi þau, og stráði duftinu á grafir þeirra, er höfðu fært þeim fórnir.

Og bein prestanna brenndi hann á ölturum þeirra, og hreinsaði svo Júda og Jerúsalem.

Og í borgum Manasse og Efraíms og Símeons og allt til Naftalí, allt um kring í eyðiborgum þeirra,

reif hann niður ölturun, mölvaði og muldi asérurnar og skurðgoðin, og hjó sundur sólsúlurnar í öllu Ísraelslandi. Síðan sneri hann heim aftur til Jerúsalem.

Á átjánda ríkisári hans, meðan hann var að hreinsa landið og musterið, sendi hann Safan Asaljason og Maaseja borgarstjóra og Jóak Jóahasson ríkisritara til þess að láta gjöra við musteri Drottins, Guðs síns.

Og er þeir komu til Hilkía æðsta prests, afhentu þeir fé það, er fært hafði verið musteri Guðs, það er levítarnir, þröskuldsverðirnir, höfðu safnað af Manasse, Efraím og öllum öðrum Ísraelsmönnum, og öllum Júda og Benjamín og Jerúsalembúum.

10 Fengu þeir það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón höfðu með musteri Drottins, en þeir fengu það í hendur verkamönnunum, er unnu að því í musteri Drottins að bæta skemmdir og gjöra við musterið.

11 Fengu þeir það í hendur trésmiðunum og byggingamönnunum til þess að kaupa fyrir höggna steina og viðu í tengibjálka, svo og til að fá viðu í hús þau, er Júdakonungar höfðu látið falla.

12 Unnu mennirnir að verkinu upp á æru og trú, en yfir þá voru settir til umsjónar þeir Jahat og Óbadía, levítar af Meraríniðjum, og Sakaría og Mesúllam af Kahatítaniðjum. Og levítarnir _ hver sá, er kunni á hljóðfæri _

13 voru settir yfir burðarmennina, og umsjónarmenn voru yfir öllum þeim, er nokkurt starf höfðu á hendi. Nokkrir af levítunum voru og ritarar og tilsjónarmenn og hliðverðir.

14 En er þeir reiddu fram féð, er borið var í musteri Drottins, fann Hilkía prestur lögmálsbók Drottins, er gefin var fyrir Móse.

15 Þá tók Hilkía til máls og mælti við Safan kanslara: "Ég hefi fundið lögmálsbókina í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina.

16 Fór þá Safan með bókina til konungs og skýrði honum jafnframt frá erindislokum og mælti: "Þjónar þínir hafa gjört allt það, er þeim var falið á hendur.

17 Þeir hafa og afhent fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur umsjónarmönnunum og verkstjórunum."

18 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: "Hilkía prestur fékk mér bók." Og Safan las í henni fyrir konungi.

19 En er konungur heyrði lögmálsorðin, reif hann klæði sín.

20 Og konungur bauð þeim Hilkía, Ahíkam Safanssyni, Abdón Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið:

21 "Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir leifarnar af Ísrael og Júda um bókina, sem fundin er, því að mikil er heift Drottins, er hann hefir úthellt yfir oss, af því að feður vorir hafa eigi gefið gætur að boði Drottins með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í bók þessari."

22 Fór þá Hilkía með þeim, er konungur hafði til þess kvatt, til Huldu spákonu, konu Sallúms Tókhatssonar, Hasrasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana um þetta.

23 Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín:

24 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar þær formælingar, er ritaðar eru í bókinni, er lesin var fyrir Júdakonungi,

25 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, þess vegna úthellti ég reiði minni yfir þennan stað, og hún skal eigi slokkna.

26 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels:

27 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú hefir auðmýkt þig fyrir Guði, er þú heyrðir orð hans gegn þessum stað og íbúum hans, og af því að þú auðmýktir þig fyrir mér og reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég bænheyrt þig, _ segir Drottinn.

28 Sjá, ég vil láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað." Fluttu þeir konungi svarið.

29 Þá sendi konungur og safnaði saman öllum öldungum í Júda og Jerúsalem.

30 Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og levítarnir og allur lýðurinn, bæði gamlir og ungir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins.

31 Og konungur gekk á sinn stað og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, til þess að breyta þannig eftir orðum sáttmálans, þeim er rituð voru í þessari bók.

32 Og hann lét alla þá, er voru í Jerúsalem og Benjamín, gangast undir sáttmálann, og Jerúsalembúar breyttu samkvæmt sáttmála Guðs, Guðs feðra þeirra.

33 En Jósía afnam allar svívirðingar úr öllum héruðum Ísraelsmanna, og þröngvaði öllum þeim, er voru í Ísrael, til þess að þjóna Drottni Guði sínum. Meðan hann var á lífi, viku þeir eigi frá því að fylgja Drottni, Guði feðra sinna.