Add parallel Print Page Options

30 Síðan sendi Hiskía menn til alls Ísraels og Júda og ritaði einnig bréf til Efraíms og Manasse um að koma til musteris Drottins í Jerúsalem til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska.

Réð konungur það af og höfuðsmenn hans og allur söfnuðurinn í Jerúsalem, að halda páska í öðrum mánuðinum.

Því að um þetta leyti gátu þeir eigi haldið þá, sakir þess að eigi höfðu nægilega margir prestar helgað sig og lýðnum var eigi enn stefnt saman til Jerúsalem.

Leist konungi og söfnuðinum öllum þetta rétt,

og kváðu því svo á, að boða skyldi um allan Ísrael frá Beerseba til Dan, að menn skyldu koma til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska í Jerúsalem, því að þeir höfðu eigi haldið þá eins fjölmennir og fyrir var mælt.

Þá fóru hraðboðarnir með bréf frá konungi og höfuðsmönnum hans um allan Ísrael og Júda, og mæltu svo eftir boði konungs: "Þér Ísraelsmenn! Snúið aftur til Drottins, Guðs Abrahams, Ísaks og Ísraels, til þess að hann snúi sér að leifunum, er komist hafa undan af yður úr hendi Assýríukonungs.

Verið eigi sem feður yðar og frændur, er sýndu ótrúmennsku Drottni, Guði feðra sinna, svo að hann ofurseldi þá eyðileggingunni, svo sem þér sjáið.

Þverskallist því eigi svo sem feður yðar, réttið Drottni höndina og komið til helgidóms hans, er hann hefir helgað að eilífu, og þjónið Drottni, Guði yðar, svo að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá yður.

Því að ef þér snúið yður til Drottins, þá munu bræður yðar og synir finna miskunn hjá þeim, er hafa flutt þá burt hernumda, svo að þeir megi hverfa heim aftur til þessa lands. Því að náðugur og miskunnsamur er Drottinn, Guð yðar, og hann mun eigi snúa augliti sínu frá yður, ef þér snúið yður aftur til hans."

10 Og hraðboðarnir fóru úr einni borginni í aðra í Efraím- og Manasselandi og allt til Sebúlons, en menn hlógu að þeim og gjörðu gys að þeim.

11 Þó lægðu sig nokkrir menn af Asser, Manasse og Sebúlon, og komu til Jerúsalem.

12 Einnig í Júda réð hönd Guðs, svo að hann gaf þeim eindrægni til þess að fylgja boði því, er konungur og höfuðsmennirnir höfðu látið út ganga að boði Drottins.

13 Síðan safnaðist fjöldi fólks saman í Jerúsalem til þess að halda hátíð hinna ósýrðu brauða í öðrum mánuði. Var það afar mikill söfnuður.

14 Hófust þeir þá handa og afnámu ölturun, er voru í Jerúsalem, svo afnámu þeir og öll reykelsisölturun og fleygðu í Kídronlæk.

15 Síðan slátruðu þeir páskalambinu á fjórtánda degi hins annars mánaðar, og prestarnir og levítarnir blygðuðust sín og færðu brennifórnir í musteri Drottins.

16 Og þeir gengu fram á sinn ákveðna stað, eins og þeim var fyrir sett samkvæmt lögmáli guðsmannsins Móse. Stökktu prestarnir blóðinu, er þeir höfðu tekið við því hjá levítunum.

17 Því að margir voru þeir í söfnuðinum, er eigi höfðu helgað sig, en levítarnir sáu um slátrun á páskalömbunum fyrir alla þá, er eigi voru hreinir, til þess að helga þau Drottni.

18 Því að fjöldi lýðsins, margir úr Efraím, Manasse, Íssakar og Sebúlon höfðu eigi hreinsað sig, og neyttu eigi páskalambsins á þann hátt, sem fyrir er mælt, en Hiskía bað fyrir þeim og sagði: "Drottinn, sem er góður, fyrirgefi

19 hverjum er leggur hug á að leita Guðs, Drottins, Guðs feðra sinna, enda þótt hann eigi sé svo hreinn sem sæmir helgidóminum."

20 Og Drottinn bænheyrði Hiskía og þyrmdi lýðnum.

21 Svo héldu þá Ísraelsmenn, þeir er voru í Jerúsalem, hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með miklum fögnuði, og prestarnir og levítarnir lofuðu Drottin dag eftir dag af öllum mætti.

22 Og Hiskía talaði vinsamlega við alla levítana, er sýndu góðan skilning á þjónustu Drottins. Átu þeir síðan hátíðarfórnina í sjö daga og slátruðu heillafórnum og lofuðu Drottin, Guð feðra sinna.

23 Og allur söfnuðurinn réð það af að halda hátíð aðra sjö daga, og héldu þeir svo fagnaðarhátíð í sjö daga.

24 Því að Hiskía Júdakonungur hafði gefið söfnuðinum þúsund naut og sjö þúsund sauði, og höfuðsmennirnir höfðu gefið söfnuðinum þúsund naut og tíu þúsund sauði. Og fjöldi presta helgaði sig.

25 Svo fagnaði þá allur Júdasöfnuður og prestarnir og levítarnir og allur söfnuður þeirra, er komnir voru úr Ísrael, og útlendingarnir, er komnir voru úr Ísraelslandi, og þeir er bjuggu í Júda.

26 Og mikill fögnuður var í Jerúsalem, því að síðan á dögum Salómons, sonar Davíðs Ísraelskonungs, hafði slíkt eigi borið við í Jerúsalem.

27 Og levítaprestarnir stóðu upp og blessuðu lýðinn, og hróp þeirra var heyrt og bæn þeirra komst til hins heilaga bústaðar hans, til himins.

31 Þegar öllu þessu var lokið, fóru allir Ísraelsmenn, er þar voru viðstaddir, til Júda-borga, brutu sundur merkissteinana, hjuggu sundur asérurnar og rifu niður fórnarhæðirnar og ölturun í öllum Júda, Benjamín, Efraím og Manasse, uns þeim var gjöreytt. Fóru síðan allir Ísraelsmenn aftur til borga sinna, hver til síns óðals.

Hiskía setti presta- og levítaflokkana, eftir flokkaskipun þeirra _ hvern eftir sinni presta- eða levíta-þjónustu við brennifórnir eða heillafórnir _ til þess að þjóna og syngja lof og þakkargjörð í herbúðahliðum Drottins.

Og skerfur sá, er konungur lagði til af eigum sínum, gekk til brennifórnanna, til brennifórnanna kvelds og morgna, svo og til brennifórnanna á hvíldardögunum, tunglkomudögunum og löghátíðunum, samkvæmt því sem ritað er í lögmáli Drottins.

Og hann bauð lýðnum, Jerúsalembúum, að gefa prestunum og levítunum þeirra skerf, svo að þeir mættu halda fast við lögmál Drottins.

Og er þetta boð barst út, reiddu Ísraelsmenn fram ríkulega frumgróða af korni, aldinlegi, olíu, hunangi og öllum jarðargróða, og færðu tíundir af öllu.

En Ísraelsmenn og Júdamenn, er bjuggu í Júdaborgum, þeir færðu og tíundir af nautum og sauðum og tíundir af helgigjöfunum, er helgaðar voru Drottni, Guði þeirra, og lögðu bing við bing.

Tóku þeir að hrúga upp bingjunum í þriðja mánuði og luku við það í sjöunda mánuði.

Kom þá Hiskía og höfuðsmennirnir, litu á bingina og lofuðu Drottin og lýð hans Ísrael.

Og er Hiskía spurði prestana og levítana um bingina,

10 þá svaraði honum Asarja, höfuðprestur af ætt Sadóks, og sagði: "Frá því er byrjað var á að færa gjafir í musteri Drottins, höfum vér etið oss sadda og haft þó afar mikið afgangs, því að Drottinn hefir blessað lýð sinn, svo að vér höfum þessi kynstur afgangs."

11 Þá bauð Hiskía, að gjöra skyldi klefa í musteri Drottins, og er svo var gjört,

12 færðu menn þangað ráðvandlega gjafirnar og tíundirnar og helgigjafirnar. Var Kananja levíti umsjónarmaður yfir þeim, og Símeí bróðir hans næstur honum,

13 en Jehíel, Asasja, Nahat, Asahel, Jerímót, Jósabad, Elíel, Jismakja, Mahat og Benaja voru skipaðir Kananja og Símeí bróður hans til aðstoðar við umsjónina, eftir boði Hiskía konungs og Asarja, höfuðsmanns yfir musteri Guðs.

14 Og Kóre Jimnason levíti, hliðvörður að austanverðu, hafði umsjón með sjálfviljagjöfunum, er færðar voru Guði, til þess að afhenda gjafir Drottins og hinar háhelgu gjafir.

15 En undir honum stóðu Eden, Minjamín, Jesúa, Semaja, Amarja og Sekanja, og skyldu þeir með samviskusemi skipta með frændum sínum í prestaborgunum, bæði eldri og yngri, eftir flokkum þeirra,

16 auk þeirra af karlkyni, er skráðir voru í ættartölur, þrevetrum og þaðan af eldri, öllum þeim, er komu í musteri Drottins, svo sem á þurfti að halda dag hvern, til þess að rækja störf sín eftir flokkum samkvæmt þjónustu sinni.

17 Og prestarnir voru skráðir í ættartölur eftir ættum, svo og levítarnir, tvítugir og þaðan af eldri, samkvæmt þjónustu þeirra og flokkaskipun.

18 Voru þeir skráðir í ættartölur ásamt börnum þeirra, konum, sonum og dætrum úr allri stéttinni, því að hinum helgu hlutum átti að skipta ráðvandlega.

19 Auk þess höfðu prestarnir, niðjar Arons, menn á lendum þeim, er voru á beitilöndunum, er lágu undir borgir þeirra, í sérhverri borg _ menn er skráðir voru með nafni _ og skyldu þeir fá öllum karlmönnum af prestunum og öllum levítunum, er skráðir voru í ættartölur, sinn skerf.

20 Svo gjörði Hiskía í öllum Júda, og hann gjörði það, sem gott var og rétt og ráðvandlegt fyrir Drottni, Guði hans.

21 Og í hverju því verki, er hann tók sér fyrir hendur viðvíkjandi þjónustunni við musteri Guðs, og lögmálinu og boðinu um að leita Guðs síns, breytti hann af heilum hug og varð auðnumaður.

32 Eftir þessa atburði og eftir að hann hafði sýnt trúmennsku þessa, kom Sanheríb Assýríukonungur. Hann réðst inn í Júda, settist um víggirtar borgir og hugðist ná þeim á sitt vald.

Og er Hiskía varð þess vís, að Sanheríb kæmi og ætlaði sér að ráða á Jerúsalem,

þá réðst hann um við höfuðsmenn sína og kappa að stemma vatnslindirnar utanborgar, og veittu þeir honum stuðning.

Kom þá saman fjöldi fólks og stemmdu allar lindir og lækinn, er rann um mitt landið, og sögðu: "Hvers vegna ættu Assýríukonungar að finna gnóttir vatns, er þeir koma?"

Hann herti því upp hugann, gjörði alls staðar við múrinn, þar sem hann var brotinn niður, gekk upp á turnana og ytri múrinn úti fyrir, víggirti Milló í Davíðsborg og lét gjöra afar mikið af skotvopnum og skjöldum.

Síðan skipaði hann herforingja yfir lýðinn og stefndi þeim til sín á torginu við borgarhliðið, talaði vinsamlega til þeirra og mælti:

"Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi né hræðist Assýríukonung og allan þann manngrúa, sem með honum er, því að sá er meiri, sem með oss er, en með honum.

Því að hann styður mannlegur máttur, en með oss er Drottinn, Guð vor, til þess að hjálpa oss og heyja orustur vorar." Og lýðurinn treysti á orð Hiskía Júdakonungs.

Eftir þetta sendi Sanheríb Assýríukonungur þjóna sína til Jerúsalem _ en sjálfur var hann hjá Lakís og allt lið hans hjá honum _ á fund Hiskía Júdakonungs og allra Júdamanna, þeirra er voru í Jerúsalem, með svolátandi orðsending:

10 "Svo segir Sanheríb Assýríukonungur: Á hvað treystið þér, er þér sitjið innikrepptir í Jerúsalem?

11 Vissulega ginnir Hiskía yður til þess að láta yður deyja úr hungri og þorsta, er hann segir: ,Drottinn, Guð vor, mun frelsa oss af hendi Assýríukonungs!`

12 Hefir þá ekki Hiskía þessi afnumið fórnarhæðir hans og ölturu, er hann bauð Júdamönnum og Jerúsalembúum á þessa leið: ,Þér eigið að falla fram fyrir einu altari, og á því einu megið þér brenna reykelsi?`

13 Vitið þér eigi hvað ég hefi gjört og feður mínir við allar þjóðir í löndunum? Gátu þjóðguðir landanna frelsað lönd þeirra af hendi minni?

14 Hver er sá af öllum guðum þessara þjóða, sem feður mínir hafa gjöreytt, er hafi getað frelsað lýð sinn af hendi minni, svo að yðar Guð geti frelsað yður af hendi minni?

15 Látið því eigi Hiskía tæla yður né ginna á slíkan hátt. Trúið honum eigi! Því að eigi hefir neinn guð nokkurrar þjóðar eða ríkis getað frelsað lýð sinn af hendi minni eða feðra minna. Hve miklu síður mun þá yðar Guð frelsa yður af hendi minni?"

16 Og enn fleira töluðu þjónar hans gegn Drottni Guði og gegn Hiskía þjóni hans.

17 Hann ritaði og bréf til þess að smána Drottin, Guð Ísraels, og tala gegn honum, á þessa leið: "Eins og þjóðguðir landanna eigi frelsuðu þjóðir sínar af hendi minni, svo mun og Guð Hiskía eigi frelsa sinn lýð af hendi minni."

18 Og þeir kölluðu með hárri röddu á Júda tungu til lýðsins í Jerúsalem, er var á múrunum, til þess að gjöra þá hrædda og felmtsfulla, svo að þeir gætu náð borginni,

19 og töluðu um Guð Jerúsalemborgar eins og um guði heiðnu þjóðanna, sem eru handaverk manna.

20 Þá er Hiskía konungur og Jesaja spámaður Amozson báðust fyrir út af þessu, og hrópuðu til himins,

21 þá sendi Drottinn engil, og drap hann alla kappa, höfuðsmenn og herforingja í herbúðum Assýríukonungs, svo að hann sneri aftur með sneypu heim í land sitt. En er hann kom í hof guðs síns, þá felldu hans eigin synir hann þar með sverði.

22 Þannig frelsaði Drottinn Hiskía og Jerúsalembúa af hendi Sanheríbs Assýríukonungs og af hendi allra annarra, og veitti þeim frið allt um kring.

23 Og margir færðu Drottni gjafir til Jerúsalem, og Hiskía Júdakonungi gersemar, og eftir þetta var hann frægur talinn meðal allra þjóða.

24 Um þessar mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá bað hann til Drottins, og talaði hann til hans og gaf honum tákn.

25 En Hiskía endurgalt eigi velgjörð þá, er honum var sýnd, heldur varð drembilátur, og kom því reiði yfir hann og yfir Júda og Jerúsalem.

26 Þá lægði Hiskía dramb sitt, bæði hann og Jerúsalembúar, og kom því reiði Drottins eigi yfir þá meðan Hiskía lifði.

27 Og Hiskía bjó við afar mikinn auð og sæmd. Hann lét gjöra féhirslur handa sér fyrir silfur og gull og dýra steina, svo og fyrir kryddjurtir, skjöldu og alls konar verðmæta muni,

28 forðabúr fyrir korn-, aldinlagar- og olíu-afurðirnar, svo og hús fyrir alls konar kvikfénað og fjárborgir fyrir hjarðirnar.

29 Og hann lét gjöra borgir handa sér og aflaði sér fjölda hjarða af sauðum og nautum, því að Guð veitti honum afar miklar eignir.

30 Hiskía þessi stemmdi og efri uppsprettur Gíhonlindar, og veitti vatninu niður eftir að Davíðsborg vestanverðri, og Hiskía varð auðnumaður í öllu því, er hann tók sér fyrir hendur.

31 Þess vegna gaf Guð hann í hendur sendimanna Babelhöfðingjanna, er sendir voru til hans til þess að frétta um táknið, er orðið hafði í landinu, aðeins til þess að reyna hann, svo að hann mætti fá að vita um allt það, er honum bjó í huga.

32 Það sem meira er að segja um Hiskía og góðverk hans, það er ritað í vitrun Jesaja Amozsonar spámanns, í bók Júda- og Ísraelskonunga.

33 Og Hiskía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn þar sem gengið er upp að gröfum Davíðsniðja, og allur Júda og Jerúsalembúar sýndu honum sæmd, er hann andaðist. Og Manasse sonur hans tók ríki eftir hann.