Add parallel Print Page Options

28 Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, svo sem Davíð forfaðir hans,

heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga, og lét auk þess gjöra steypt líkneski, Baölunum til handa.

Hann brenndi og reykelsi í Hinnomssonardal, lét sonu sína ganga gegnum eldinn, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.

Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.

Þá gaf Drottinn, Guð hans, hann á vald Sýrlandskonungi, og unnu þeir sigur á honum og höfðu burt með sér hernumda fjöldamarga af mönnum hans, og fluttu til Damaskus. Auk þessa var hann og gefinn Ísraelskonungi á vald, og vann hann mikinn sigur á honum.

Og Peka Remaljason drap á einum degi í Júda hundrað og tuttugu þúsundir, allt hrausta menn, af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna.

En Síkrí, kappi úr Efraím, drap Maaseja konungsson og Asríkam hallarstjóra og Elkana, er næstur gekk konungi.

Og Ísraelsmenn höfðu burt með sér tvö hundruð þúsund af herteknu fólki frá frændum sínum, konur, sonu og dætur, tók af þeim afar mikið herfang og fóru með herfangið til Samaríu.

En þar var spámaður Drottins, er Ódeð hét. Hann fór út, gekk fram fyrir herinn, er kom til Samaríu, og mælti til þeirra: "Sjá, af því að Drottinn, Guð feðra yðar, var reiður Júdamönnum, gaf hann þá yður á vald, svo að þér gátuð drepið þá niður með þeirri reiði, er nær til himins.

10 Og nú hyggið þér að gjöra þessa Júdamenn og Jerúsalembúa að þrælum yðar og ambáttum. En eruð þér þá eigi sjálfir sekir við Drottin, Guð yðar?

11 Hlýðið því á mig og sendið aftur fangana, er þér hafið haft burt hernumda frá frændum yðar, því að hin brennandi reiði Drottins vofir yfir yður."

12 Þá risu nokkrir af höfðingjum Efraímíta, þeir Asarja Jóhanansson, Berekía Mesillemótsson, Hiskía Sallúmsson og Amasa Hadlaíson upp í gegn þeim, er komu úr herförinni,

13 og sögðu við þá: "Þér skuluð eigi fara með fangana hingað, því að þér ætlið að auka við syndir vorar og sekt, í viðbót við sekt þá við Drottin, er á oss hvílir. Því að sekt vor er mikil, og brennandi reiði vofir yfir Ísrael."

14 Þá slepptu hermennirnir föngunum og herfanginu í viðurvist höfuðsmannanna og alls safnaðarins.

15 Gengu þá til menn þeir, er til þess voru kvaddir með nafni, og önnuðust fangana. Klæddu þeir af herfanginu alla þá, er naktir voru meðal þeirra, gáfu þeim klæði og skó og að eta og drekka og smurðu þá, settu alla þá á asna, er uppgefnir voru, og fluttu þá til Jeríkó, pálmaborgarinnar, til frænda þeirra, og sneru síðan heim aftur til Samaríu.

16 Um þessar mundir sendi Akas konungur til Assýríukonunga til þess að biðja sér liðveislu.

17 Þá komu og Edómítar, unnu sigur á Júdamönnum og færðu burt bandingja.

18 En Filistar réðust inn í borgirnar á láglendinu og í Júda sunnanverðu, tóku Bet Semes, Ajalon, Gederót og Sókó og þorpin umhverfis hana, Timna og þorpin umhverfis hana og Gimsó og þorpin umhverfis hana, og settust þar að.

19 Því að Drottinn lægði Júda sakir Akasar Ísraelskonungs, því að hann hafði framið gegndarlausa óhæfu í Júda og sýnt Drottni mikla ótrúmennsku.

20 Þá fór Tílgat-Pilneser Assýríukonungur í móti honum og kreppti að honum, en veitti honum eigi lið.

21 Því að Akas ruplaði musteri Drottins og konungshöllina og höfuðsmennina, og gaf Assýríukonungi, en það kom honum að engu haldi.

22 Og um þær mundir, sem hann kreppti að honum, sýndi hann, Akas konungur, Drottni ótrúmennsku enn að nýju.

23 Hann færði fórnir guðunum í Damaskus, þeim er höfðu unnið sigur á honum, og mæltu: "Það eru guðir Sýrlandskonunga, er hafa hjálpað þeim. Þeim vil ég færa fórnir, til þess að þeir hjálpi mér." En þeir urðu honum og öllum Ísrael til falls.

24 Og Akas safnaði saman áhöldum Guðs húss og braut sundur áhöld Guðs húss. Hann lokaði og dyrunum á musteri Drottins, en gjörði sér ölturu í hverju horni í Jerúsalem.

25 Og í sérhverri Júdaborg gjörði hann fórnarhæðir til þess að brenna reykelsi fyrir öðrum guðum, og egndi þannig Drottin, Guð feðra sinna, til reiði.

26 Það sem meira er að segja um hann og öll fyrirtæki hans, bæði fyrr og síðar, það er ritað í bók Júda- og Ísraelskonunga.

27 Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í borginni, í Jerúsalem, því að eigi var hann færður í grafir Ísraelskonunga. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.

29 Hiskía varð konungur, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía Sakaríadóttir.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, að öllu svo sem gjört hafði Davíð forfaðir hans.

Í fyrsta mánuði á fyrsta ríkisári sínu opnaði hann dyrnar að musteri Drottins, og gjörði við þær.

Síðan lét hann prestana og levítana koma og stefndi þeim saman á auða svæðinu austan til.

Og hann sagði við þá: "Hlýðið á mig, þér levítar! Helgið nú sjálfa yður og helgið musteri Drottins, Guðs feðra yðar, og útrýmið viðurstyggðinni úr helgidóminum.

Því að feður vorir hafa sýnt ótrúmennsku og gjört það, sem illt var í augum Drottins, Guðs vors, og yfirgefið hann. Þeir sneru augliti sínu burt frá bústað Drottins og sneru við honum bakinu.

Þá hafa þeir og læst dyrunum að forsalnum, slökkt á lömpunum, eigi brennt reykelsi og eigi fært Guði Ísraels brennifórn í helgidóminum.

Fyrir því kom reiði Drottins yfir Júda og Jerúsalem, og hann lét þá sæta misþyrmingu og gjörði þá að undri og athlægi, svo sem þér sjáið með eigin augum.

Nú eru þá feður vorir fallnir fyrir sverðseggjum, og synir vorir og dætur og konur eru hernumdar fyrir þetta.

10 Nú hefi ég einsett mér að gjöra sáttmála við Drottin, Guð Ísraels, til þess að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá oss.

11 Verið þá eigi skeytingarlausir, synir mínir! Því að yður hefir Drottinn útvalið til þess að standa frammi fyrir sér, til þess að þjóna sér, og til þess að þér skuluð vera þjónustumenn hans og brenna reykelsi honum til handa."

12 Þá gengu fram levítarnir: Mahat Amasaíson og Jóel Asarjason af Kahatítaniðjum. Af Meraríniðjum: Kís Abdíson og Asarja Jehallelelsson. Af Gersonítum: Jóa Simmason og Eden Jóason.

13 Af Elísafsniðjum: Simrí og Jeíel. Af Asafsniðjum: Sakaría og Mattanja.

14 Af Hemansniðjum: Jehíel og Símeí. Af Jedútúnsniðjum: Semaja og Ússíel.

15 Stefndu þeir saman frændum sínum, helguðu sig og komu að boði konungs til þess að hreinsa musteri Drottins eftir fyrirmælum Drottins.

16 Og prestarnir fóru inn í musteri Drottins til þess að hreinsa það, og fóru með allt óhreint, er þeir fundu í musteri Drottins, út í forgarð musteris Drottins. Tóku levítarnir við því til þess að fara með það út í Kídronlæk.

17 Hófu þeir helgunina hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, og á áttunda degi mánaðarins voru þeir komnir að forsal Drottins. Helguðu þeir síðan musteri Drottins á átta dögum, og á sextánda degi hins fyrsta mánaðar var verkinu lokið.

18 Gengu þeir þá inn fyrir Hiskía konung og sögðu: "Vér höfum hreinsað allt musteri Drottins og brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, svo og borðið fyrir raðabrauðin og öll áhöld þess.

19 Og öll þau áhöld, er Akas konungur smáði af ótrúmennsku sinni, höfum vér sett fram og helgað. Standa þau nú frammi fyrir altari Drottins."

20 Næsta morgun snemma stefndi Hiskía konungur saman höfuðsmönnum borgarinnar og fór upp í musteri Drottins.

21 Færðu þeir þá sjö naut, sjö hrúta, sjö lömb og sjö geithafra í syndafórn fyrir ríkið og fyrir helgidóminn og fyrir Júda. Og hann bauð niðjum Arons, prestunum, að færa hana á altari Drottins.

22 Slátruðu þeir þá nautunum, og tóku prestarnir við blóðinu og stökktu á altarið. Síðan slátruðu þeir hrútunum og stökktu blóðinu á altarið. Þá slátruðu þeir lömbunum og stökktu blóðinu á altarið.

23 Síðan færðu þeir syndafórnarhafrana fram fyrir konung og söfnuðinn, og lögðu þeir hendur sínar á þá.

24 Síðan slátruðu prestarnir þeim og færðu blóð þeirra í syndafórn á altarinu til þess að friðþægja fyrir allan Ísrael, því að konungur hafði fyrirskipað brennifórnina og syndafórnina fyrir allan Ísrael.

25 Og hann setti levítana í musteri Drottins með skálabumbur, hörpur og gígjur, samkvæmt fyrirmælum Davíðs og Gaðs, sjáanda konungs, og Natans spámanns. Því að þessi fyrirmæli voru að tilstilli Drottins, fyrir munn spámanna hans.

26 Stóðu þá levítarnir með hljóðfæri Davíðs, og prestarnir með lúðra.

27 Þá bauð Hiskía að láta brennifórnina á altarið og er brennifórnin var hafin, hófst og söngur Drottins og lúðrarnir kváðu við undir forustu hljóðfæra Davíðs Ísraelskonungs.

28 Þá féll allur söfnuðurinn fram, söngurinn kvað við og lúðrarnir gullu, allt þetta, þar til er brennifórninni var lokið.

29 Og er fórnfæringunni var lokið, beygði konungur kné sín og allir þeir, er með honum voru, og féllu fram.

30 Bauð þá Hiskía konungur og höfuðsmennirnir levítunum að syngja Drottni lofsöng með orðum Davíðs og Asafs sjáanda, og sungu þeir lofsönginn með gleði, hneigðu sig og féllu fram.

31 Þá tók Hiskía til máls og sagði: "Nú hafið þér vígt yður Drottni. Gangið nú fram og farið með sláturfórnir og þakkarfórnir í musteri Drottins." Færði þá söfnuðurinn sláturfórnir og þakkarfórnir, og hver, sem til þess var fús, færði brennifórnir.

32 En talan á brennifórnunum, er söfnuðurinn færði, var: sjötíu naut, hundrað hrútar og tvö hundruð lömb. Var allt þetta ætlað til brennifórnar Drottni til handa.

33 Og þakkarfórnirnar voru sex hundruð naut og þrjú þúsund sauðir.

34 En prestarnir voru of fáir, svo að þeir gátu ekki flegið öll brennifórnardýrin. Hjálpuðu þá frændur þeirra, levítarnir, þeim, uns starfinu var lokið og prestarnir helguðu sig, því að levítarnir höfðu einlægari áhuga á því að helga sig en prestarnir.

35 Auk þessa voru færðar margar brennifórnir, ásamt hinum feitu stykkjum heillafórnanna og dreypifórnum þeim, er brennifórnunum fylgdu. Þannig var þjónustunni við musteri Drottins komið í lag.

36 En Hiskía og allur lýðurinn gladdist yfir því, er Guð hafði búið lýðnum, því að þessu var komið í kring samstundis.

30 Síðan sendi Hiskía menn til alls Ísraels og Júda og ritaði einnig bréf til Efraíms og Manasse um að koma til musteris Drottins í Jerúsalem til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska.

Réð konungur það af og höfuðsmenn hans og allur söfnuðurinn í Jerúsalem, að halda páska í öðrum mánuðinum.

Því að um þetta leyti gátu þeir eigi haldið þá, sakir þess að eigi höfðu nægilega margir prestar helgað sig og lýðnum var eigi enn stefnt saman til Jerúsalem.

Leist konungi og söfnuðinum öllum þetta rétt,

og kváðu því svo á, að boða skyldi um allan Ísrael frá Beerseba til Dan, að menn skyldu koma til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska í Jerúsalem, því að þeir höfðu eigi haldið þá eins fjölmennir og fyrir var mælt.

Þá fóru hraðboðarnir með bréf frá konungi og höfuðsmönnum hans um allan Ísrael og Júda, og mæltu svo eftir boði konungs: "Þér Ísraelsmenn! Snúið aftur til Drottins, Guðs Abrahams, Ísaks og Ísraels, til þess að hann snúi sér að leifunum, er komist hafa undan af yður úr hendi Assýríukonungs.

Verið eigi sem feður yðar og frændur, er sýndu ótrúmennsku Drottni, Guði feðra sinna, svo að hann ofurseldi þá eyðileggingunni, svo sem þér sjáið.

Þverskallist því eigi svo sem feður yðar, réttið Drottni höndina og komið til helgidóms hans, er hann hefir helgað að eilífu, og þjónið Drottni, Guði yðar, svo að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá yður.

Því að ef þér snúið yður til Drottins, þá munu bræður yðar og synir finna miskunn hjá þeim, er hafa flutt þá burt hernumda, svo að þeir megi hverfa heim aftur til þessa lands. Því að náðugur og miskunnsamur er Drottinn, Guð yðar, og hann mun eigi snúa augliti sínu frá yður, ef þér snúið yður aftur til hans."

10 Og hraðboðarnir fóru úr einni borginni í aðra í Efraím- og Manasselandi og allt til Sebúlons, en menn hlógu að þeim og gjörðu gys að þeim.

11 Þó lægðu sig nokkrir menn af Asser, Manasse og Sebúlon, og komu til Jerúsalem.

12 Einnig í Júda réð hönd Guðs, svo að hann gaf þeim eindrægni til þess að fylgja boði því, er konungur og höfuðsmennirnir höfðu látið út ganga að boði Drottins.

13 Síðan safnaðist fjöldi fólks saman í Jerúsalem til þess að halda hátíð hinna ósýrðu brauða í öðrum mánuði. Var það afar mikill söfnuður.

14 Hófust þeir þá handa og afnámu ölturun, er voru í Jerúsalem, svo afnámu þeir og öll reykelsisölturun og fleygðu í Kídronlæk.

15 Síðan slátruðu þeir páskalambinu á fjórtánda degi hins annars mánaðar, og prestarnir og levítarnir blygðuðust sín og færðu brennifórnir í musteri Drottins.

16 Og þeir gengu fram á sinn ákveðna stað, eins og þeim var fyrir sett samkvæmt lögmáli guðsmannsins Móse. Stökktu prestarnir blóðinu, er þeir höfðu tekið við því hjá levítunum.

17 Því að margir voru þeir í söfnuðinum, er eigi höfðu helgað sig, en levítarnir sáu um slátrun á páskalömbunum fyrir alla þá, er eigi voru hreinir, til þess að helga þau Drottni.

18 Því að fjöldi lýðsins, margir úr Efraím, Manasse, Íssakar og Sebúlon höfðu eigi hreinsað sig, og neyttu eigi páskalambsins á þann hátt, sem fyrir er mælt, en Hiskía bað fyrir þeim og sagði: "Drottinn, sem er góður, fyrirgefi

19 hverjum er leggur hug á að leita Guðs, Drottins, Guðs feðra sinna, enda þótt hann eigi sé svo hreinn sem sæmir helgidóminum."

20 Og Drottinn bænheyrði Hiskía og þyrmdi lýðnum.

21 Svo héldu þá Ísraelsmenn, þeir er voru í Jerúsalem, hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með miklum fögnuði, og prestarnir og levítarnir lofuðu Drottin dag eftir dag af öllum mætti.

22 Og Hiskía talaði vinsamlega við alla levítana, er sýndu góðan skilning á þjónustu Drottins. Átu þeir síðan hátíðarfórnina í sjö daga og slátruðu heillafórnum og lofuðu Drottin, Guð feðra sinna.

23 Og allur söfnuðurinn réð það af að halda hátíð aðra sjö daga, og héldu þeir svo fagnaðarhátíð í sjö daga.

24 Því að Hiskía Júdakonungur hafði gefið söfnuðinum þúsund naut og sjö þúsund sauði, og höfuðsmennirnir höfðu gefið söfnuðinum þúsund naut og tíu þúsund sauði. Og fjöldi presta helgaði sig.

25 Svo fagnaði þá allur Júdasöfnuður og prestarnir og levítarnir og allur söfnuður þeirra, er komnir voru úr Ísrael, og útlendingarnir, er komnir voru úr Ísraelslandi, og þeir er bjuggu í Júda.

26 Og mikill fögnuður var í Jerúsalem, því að síðan á dögum Salómons, sonar Davíðs Ísraelskonungs, hafði slíkt eigi borið við í Jerúsalem.

27 Og levítaprestarnir stóðu upp og blessuðu lýðinn, og hróp þeirra var heyrt og bæn þeirra komst til hins heilaga bústaðar hans, til himins.

31 Þegar öllu þessu var lokið, fóru allir Ísraelsmenn, er þar voru viðstaddir, til Júda-borga, brutu sundur merkissteinana, hjuggu sundur asérurnar og rifu niður fórnarhæðirnar og ölturun í öllum Júda, Benjamín, Efraím og Manasse, uns þeim var gjöreytt. Fóru síðan allir Ísraelsmenn aftur til borga sinna, hver til síns óðals.

Hiskía setti presta- og levítaflokkana, eftir flokkaskipun þeirra _ hvern eftir sinni presta- eða levíta-þjónustu við brennifórnir eða heillafórnir _ til þess að þjóna og syngja lof og þakkargjörð í herbúðahliðum Drottins.

Og skerfur sá, er konungur lagði til af eigum sínum, gekk til brennifórnanna, til brennifórnanna kvelds og morgna, svo og til brennifórnanna á hvíldardögunum, tunglkomudögunum og löghátíðunum, samkvæmt því sem ritað er í lögmáli Drottins.

Og hann bauð lýðnum, Jerúsalembúum, að gefa prestunum og levítunum þeirra skerf, svo að þeir mættu halda fast við lögmál Drottins.

Og er þetta boð barst út, reiddu Ísraelsmenn fram ríkulega frumgróða af korni, aldinlegi, olíu, hunangi og öllum jarðargróða, og færðu tíundir af öllu.

En Ísraelsmenn og Júdamenn, er bjuggu í Júdaborgum, þeir færðu og tíundir af nautum og sauðum og tíundir af helgigjöfunum, er helgaðar voru Drottni, Guði þeirra, og lögðu bing við bing.

Tóku þeir að hrúga upp bingjunum í þriðja mánuði og luku við það í sjöunda mánuði.

Kom þá Hiskía og höfuðsmennirnir, litu á bingina og lofuðu Drottin og lýð hans Ísrael.

Og er Hiskía spurði prestana og levítana um bingina,

10 þá svaraði honum Asarja, höfuðprestur af ætt Sadóks, og sagði: "Frá því er byrjað var á að færa gjafir í musteri Drottins, höfum vér etið oss sadda og haft þó afar mikið afgangs, því að Drottinn hefir blessað lýð sinn, svo að vér höfum þessi kynstur afgangs."

11 Þá bauð Hiskía, að gjöra skyldi klefa í musteri Drottins, og er svo var gjört,

12 færðu menn þangað ráðvandlega gjafirnar og tíundirnar og helgigjafirnar. Var Kananja levíti umsjónarmaður yfir þeim, og Símeí bróðir hans næstur honum,

13 en Jehíel, Asasja, Nahat, Asahel, Jerímót, Jósabad, Elíel, Jismakja, Mahat og Benaja voru skipaðir Kananja og Símeí bróður hans til aðstoðar við umsjónina, eftir boði Hiskía konungs og Asarja, höfuðsmanns yfir musteri Guðs.

14 Og Kóre Jimnason levíti, hliðvörður að austanverðu, hafði umsjón með sjálfviljagjöfunum, er færðar voru Guði, til þess að afhenda gjafir Drottins og hinar háhelgu gjafir.

15 En undir honum stóðu Eden, Minjamín, Jesúa, Semaja, Amarja og Sekanja, og skyldu þeir með samviskusemi skipta með frændum sínum í prestaborgunum, bæði eldri og yngri, eftir flokkum þeirra,

16 auk þeirra af karlkyni, er skráðir voru í ættartölur, þrevetrum og þaðan af eldri, öllum þeim, er komu í musteri Drottins, svo sem á þurfti að halda dag hvern, til þess að rækja störf sín eftir flokkum samkvæmt þjónustu sinni.

17 Og prestarnir voru skráðir í ættartölur eftir ættum, svo og levítarnir, tvítugir og þaðan af eldri, samkvæmt þjónustu þeirra og flokkaskipun.

18 Voru þeir skráðir í ættartölur ásamt börnum þeirra, konum, sonum og dætrum úr allri stéttinni, því að hinum helgu hlutum átti að skipta ráðvandlega.

19 Auk þess höfðu prestarnir, niðjar Arons, menn á lendum þeim, er voru á beitilöndunum, er lágu undir borgir þeirra, í sérhverri borg _ menn er skráðir voru með nafni _ og skyldu þeir fá öllum karlmönnum af prestunum og öllum levítunum, er skráðir voru í ættartölur, sinn skerf.

20 Svo gjörði Hiskía í öllum Júda, og hann gjörði það, sem gott var og rétt og ráðvandlegt fyrir Drottni, Guði hans.

21 Og í hverju því verki, er hann tók sér fyrir hendur viðvíkjandi þjónustunni við musteri Guðs, og lögmálinu og boðinu um að leita Guðs síns, breytti hann af heilum hug og varð auðnumaður.