Add parallel Print Page Options

21 Og Jósafat lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jóram sonur hans tók ríki eftir hann.

Jóram átti bræður, sonu Jósafats: Asarja, Jehíel, Sakaría, Asarjahú, Míkael og Sefatja. Allir þessir voru synir Jósafats Ísraelskonungs.

Og faðir þeirra hafði gefið þeim miklar gjafir í silfri og gulli og skartgripum, svo og kastalaborgir í Júda, en konungdóminn fékk hann Jóram í hendur, því að hann var frumgetningurinn.

En er Jóram hafði náð völdum yfir ríki föður síns og var orðinn fastur í sessi, þá lét hann drepa alla bræður sína og auk þess nokkra af höfðingjum Ísraels með sverði.

Jóram var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem.

Og hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga, eins og Akabsætt gjörði, því að hann var kvæntur dóttur Akabs. Þannig gjörði hann það, sem illt var í augum Drottins.

En Drottinn vildi eigi afmá ætt Davíðs, sakir sáttmála þess, er hann hafði gjört við Davíð, og samkvæmt því, er hann hafði heitið, að gefa honum og niðjum hans lampa alla daga.

Á hans dögum brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og tóku konung yfir sig.

Þá fór Jóram með höfðingjum sínum og öllu vagnliðinu yfir til Saír. Hann tók sig upp um nóttina og barði á Edómítum, sem héldu honum í herkví, svo og á foringjum vagnliðsins.

10 Þannig brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og hafa aldrei lotið þeim síðan. Þá braust og Líbna um sama leyti undan yfirráðum hans, af því að hann hafði yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna.

11 Einnig hann gjörði fórnarhæðir í Júdaborgum, ginnti Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar og tældi Júda.

12 Þá kom til hans bréf frá Elía spámanni, er svo hljóðaði: "Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Sakir þess að þú fetaðir eigi í fótspor Jósafats föður þíns og Asa Júdakonungs,

13 heldur fetaðir í fótspor Ísraelskonunga og ginntir Júda og Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar, eins og Akabsætt ginnti menn til skurðgoðadýrkunar, og lést auk þessa drepa bræður þína, ættmenn þína, er betri voru en þú,

14 þá mun Drottinn ljósta lýð þinn, sonu þína og konur og alla eign þína áfelli miklu.

15 En sjálfur munt þú taka sjúkleik, iðrakvöl, uns iður þín loks falla út af sjúkdóminum."

16 Og Drottinn æsti reiði Filista og Araba, þeirra er búa hjá Blálendingum, gegn Jóram,

17 svo að þeir fóru herför gegn Júda, brutust inn og höfðu burt með sér að herfangi allt fémætt, er var í konungshöllinni, og auk þess sonu hans og konur. Varð enginn eftir af sonum hans nema Jóahas, er var yngstur sona hans.

18 En ofan á allt þetta laust Drottinn hann með ólæknandi iðrasjúkleik.

19 Og eftir alllangan tíma, að liðnum nær tveim árum, féllu iður hans út af sjúkdóminum, og dó hann eftir miklar þjáningar. En þjóð hans gjörði ekkert bál honum til heiðurs eins og feðrum hans.

20 Hann var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem. Fór hann svo, að enginn óskaði hans aftur, og var hann jarðaður í Davíðsborg, þó eigi í konungagröfunum.

22 Síðan tóku Jerúsalembúar Ahasía, yngsta son hans, til konungs eftir hann, því að ræningjaflokkurinn, er komið hafði til herbúðanna ásamt Aröbunum, hafði drepið alla þá, er eldri voru, og þannig tók Ahasía ríki, sonur Jórams Júdakonungs.

Ahasía var fjörutíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí.

Hann fetaði líka í fótspor Akabsættar, því að móðir hans fékk hann til óguðlegs athæfis með ráðum sínum.

Og hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, eins og ættmenn Akabs, því að þeir voru ráðgjafar hans eftir dauða föður hans, sjálfum honum til tjóns.

Að þeirra ráðum var það og, að hann fór herför með Jóram Akabssyni Ísraelskonungi í móti Hasael Sýrlandskonungi, til Ramót í Gíleað, en Sýrlendingar særðu Jóram.

Þá sneri hann aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er hann hafði fengið við Rama, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór ofan til Jesreel til þess að vitja um Jóram Akabsson, af því að hann lá sjúkur.

En það var að Guðs tilstilli, til hrakfara fyrir Ahasía, að hann fór til Jórams. Þegar hann var þangað kominn, fór hann með Jóram á móti Jehú Nimsísyni, er Drottinn hafði smyrja látið til þess að afmá Akabs ætt.

Og er Jehú háði dóm yfir Akabsætt, hitti hann hershöfðingja Júdamanna og bræðrasonu Ahasía, er þjónuðu Ahasía, og lét drepa þá.

Síðan lét hann leita Ahasía, og var hann handtekinn, en hann hafði falið sig í Samaríu. Var hann færður Jehú og drepinn. En síðan jörðuðu menn hann, því að þeir sögðu: "Hann er afkomandi Jósafats, þess er leitaði Drottins af öllu hjarta sínu." En enginn var sá af ætt Ahasía, er fær væri um að taka við konungdómi.

10 Þegar Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsætt Júda.

11 Þá tók Jósabat, dóttir Jórams konungs, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig fól Jósabat, dóttir Jórams konungs, kona Jójada prests, hann _ því að hún var systir Ahasía _ fyrir Atalíu, svo að hún lét eigi drepa hann.

12 Og hann var hjá þeim á laun sex ár í musteri Guðs, meðan Atalía ríkti yfir landinu.

23 En á sjöunda ári herti Jójada upp hugann og tók hundraðshöfðingjana Asarja Jeróhamsson, Ísmael Jóhanansson, Asarja Óbeðsson, Maaseja Adajason og Elísafat Síkríson sér að bandamönnum.

Fóru þeir um í Júda og stefndu saman levítunum úr öllum Júdaborgum, og ætthöfðingjum Ísraels, og komu þeir til Jerúsalem.

Og allur söfnuðurinn gjörði sáttmála við konung í musteri Guðs. Og hann mælti til þeirra: "Sjá, konungsson skal vera konungur, svo sem Drottinn hefir heitið um niðja Davíðs.

Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, prestanna og levítanna, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð vera hliðverðir.

Þriðjungur skal vera í konungshöllinni og þriðjungur í Jesód-hliði, en almúgi skal vera í forgörðum musteris Drottins.

En í musteri Drottins má enginn stíga fæti nema prestarnir og levítar þeir, er þjónustu gegna, þeir mega inn ganga, því að þeir eru helgaðir. En allur annar lýður skal gæta fyrirmæla Drottins.

Og levítarnir skulu fylkja sér um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast inn í musterið, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann kemur heim og þá er hann fer út."

Levítarnir og allir Júdamenn fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði um boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn, því að Jójada prestur hafði eigi látið flokkana burt fara.

Og Jójada prestur fékk hundraðshöfðingjunum spjótin, buklarana og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Guðs.

10 Og hann fylkti öllum lýðnum _ hver maður hafði skotvopn í hendi _ allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið musterisins, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu.

11 Þá leiddu menn konungsson fram og settu á hann kórónuna, fengu honum lögin og tóku hann til konungs, en Jójada og synir hans smurðu hann og hrópuðu: "Konungurinn lifi!"

12 En er Atalía heyrði ópið í lýðnum og varðliðsmönnunum, og hversu þeir fögnuðu konungi, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins.

13 Sá hún þá konung standa við súlu sína við innganginn, og höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi, og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana, og söngvarana með hljóðfærunum, er gáfu merki til fagnaðarópsins. Þá reif Atalía klæði sín og mælti: "Samsæri, samsæri!"

14 En Jójada prestur lét hundraðshöfðingjana, fyrirliða hersins, ganga fram og mælti til þeirra: "Leiðið hana út milli raðanna, og hver sem fer á eftir henni skal drepinn með sverði." Því að prestur hafði sagt: "Drepið hana eigi í musteri Drottins."

15 Síðan lögðu menn hendur á hana, og er hún var komin þangað, er leið liggur inn um hrossahliðið að konungshöllinni, þá drápu þeir hana þar.

16 Jójada gjörði sáttmála milli sín og alls lýðsins og konungs, að þeir skyldu vera lýður Drottins.

17 Síðan fór allur lýðurinn inn í musteri Baals og reif það niður. Ölturu hans og líkneskjur brutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum.

18 Síðan setti Jójada varðflokka við musteri Drottins, undir forustu levítaprestanna, er Davíð hafði skipað í flokka til þjónustu við musteri Drottins, til þess að bera fram brennifórnir Drottins, eftir því sem ritað er í Móselögmáli, með fögnuði og söng, samkvæmt fyrirmælum Davíðs.

19 Þá setti hann hliðverði við hliðin á musteri Drottins, til þess að enginn skyldi inn komast, er á einhvern hátt væri óhreinn.

20 Síðan tók hann hundraðshöfðingjana, göfugmennin og yfirmenn lýðsins, svo og landslýðinn allan, og fór með konung ofan frá musteri Drottins. Og er þeir voru komnir inn í konungshöllina um efra hliðið, þá settu þeir konung í konungshásætið.

21 Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði.

24 Jóas var sjö vetra gamall, þá er hann varð konungur, og fjörutíu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba.

Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, meðan Jójada prestur lifði.

Og Jójada tók tvær konur honum til handa, og hann gat sonu og dætur.

Síðan ásetti Jóas sér að reisa við musteri Drottins.

Stefndi hann þá saman prestunum og levítunum og sagði við þá: "Farið um Júdaborgir og safnið fé úr öllum Ísrael til þess að gjöra við musteri Guðs yðar, og skuluð þér vinda bráðan bug að erindi þessu." En levítarnir fóru að engu ótt.

Þá kallaði konungur Jójada æðsta prest og sagði við hann: "Hvers vegna hefir þú eigi annast um að levítarnir heimti inn úr Júda og Jerúsalem skatta þá, er Móse, þjónn Drottins, lagði á Ísraelssöfnuð til lögmálstjaldsins?"

Því að illkvendið Atalía og synir hennar hafa brotist inn í musteri Guðs og þar á ofan eytt öllum helgigjöfum musteris Drottins í Baalana.

Síðan gjörðu menn kistu að boði konungs og settu hana fyrir utan hliðið á musteri Drottins.

Var þá kunngjört í Júda og Jerúsalem, að færa skyldi Drottni skatt þann, er Móse, þjónn Guðs, hafði lagt á Ísrael í eyðimörkinni.

10 Fögnuðu þá allir höfuðsmennirnir og allur lýðurinn og komu með skattinn og lögðu í kistuna, uns hún var full.

11 Og í hvert sinn, er hann lét levítana fara með kistuna til umsjónarmanns konungs, þegar þeir sáu að féð var mikið orðið, þá kom kanslari konungs og umboðsmaður æðsta prestsins. Tæmdu þeir kistuna og fóru síðan aftur með hana á sinn stað. Gjörðu þeir svo dag eftir dag og söfnuðu ógrynni fjár.

12 Og konungur og Jójada fengu það verkstjórunum, er stóðu fyrir vinnunni við musteri Drottins, en þeir leigðu steinhöggvara og trésmiði til þess að reisa við musteri Drottins, svo og járnsmiði og eirsmiði til þess að gjöra við musteri Drottins.

13 Og verkstjórarnir unnu, svo að viðgjörðinni miðaði áfram hjá þeim, og færðu þeir musteri Guðs aftur í gott lag eftir ákveðnu máli og gengu vel frá því.

14 Og er þeir höfðu lokið því, færðu þeir konungi og Jójada afganginn af fénu, og voru af því gjörð áhöld fyrir hús Drottins _ áhöld til guðsþjónustu og fórnfæringa, skálar og gull- og silfuráhöld. Brennifórnir voru færðar í musteri Drottins alla ævi Jójada.

15 En Jójada varð gamall og saddur lífdaga, og hann dó. Var hann hundrað og þrjátíu ára gamall, er hann dó.

16 Og hann var grafinn í Davíðsborg hjá konungunum, því að hann hafði breytt vel í Ísrael, svo og gagnvart Guði og musteri hans.

17 En eftir andlát Jójada komu höfuðsmenn Júda og lutu konungi, og hlýddi þá konungur á þá.

18 Og þeir yfirgáfu musteri Drottins, Guðs feðra sinna, og þjónuðu asérunum og líkneskjunum. Kom þá reiði yfir Júda og Jerúsalem fyrir þessa sök þeirra.

19 Og hann sendi spámenn meðal þeirra, til þess að snúa þeim aftur til Drottins. Þeir áminntu þá, en þeir gáfu því engan gaum.

20 En andi Guðs hreif Sakaría, son Jójada prests, svo að hann gekk fyrir lýðinn og mælti til þeirra: "Svo segir Guð: Hvers vegna rjúfið þér boðorð Drottins og sviptið yður allri hamingju? Sakir þess að þér hafið yfirgefið Drottin, þá yfirgefur hann yður."

21 Þá sórust þeir saman gegn honum og lömdu hann grjóti að boði konungs í forgarði musteris Drottins.

22 Og Jóas konungur minntist eigi ástar þeirrar, er Jójada faðir hans hafði sýnt honum, heldur lét drepa son hans. En hann mælti í andarslitrunum: "Drottinn sér það og mun hegna!"

23 Þá er ár var liðið, fór her Sýrlendinga í móti honum. En er þeir komu til Júda og Jerúsalem, drápu þeir alla þjóðhöfðingja meðal lýðsins, og sendu allt herfangið til konungsins í Damaskus.

24 Þótt her Sýrlendinga væri fámennur, er þeir komu, gaf Drottinn samt afar mikinn her á vald þeirra, af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna, og yfir Jóas létu þeir ganga refsidóma.

25 En er þeir héldu burt frá honum _ þeir létu hann eftir fársjúkan _, þá gjörðu þjónar hans samsæri gegn honum vegna blóðsakarinnar á syni Jójada prests og drápu hann í rekkju hans. Lét hann þannig líf sitt, og var hann grafinn í Davíðsborg, en eigi var hann grafinn í konungagröfunum.

26 Þessir voru þeir, er samsæri gjörðu gegn honum: Sabad, sonur Símeatar hinnar ammónsku, og Jósabad, sonur Simrítar hinnar móabítísku.

27 En um sonu hans og upphæð skatts þess, er á hann var lagður, og byggingu Guðs musteris, er ritað í Skýringum konungabókarinnar. Og Amasía sonur hans tók ríki eftir hann.