A A A A A
Bible Book List

Síðari Kroníkubók 2-5Icelandic Bible (ICELAND)

Salómon bauð að reisa skyldi musteri nafni Drottins og konungshöll handa sjálfum sér.

Og Salómon taldi frá sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara á fjöllunum, og setti þrjú þúsund og sex hundruð umsjónarmenn yfir þá.

Og Salómon gjörði Húram, konungi í Týrus, svolátandi orðsending: "Eins og þú breyttir við Davíð föður minn, er þú sendir honum sedrustré, svo að hann gæti byggt sér höll til bústaðar,

svo ætla ég nú að reisa musteri nafni Drottins, Guðs míns, er ég ætla að helga honum, til þess að færa ilmreykelsisfórnir frammi fyrir honum, til þess stöðugt að annast um raðsettu brauðin, til þess að færa brennifórn kvelds og morgna, á hvíldardögum, tunglkomudögum og löghátíðum Drottins, Guðs vors. Skal svo vera um aldur og ævi í Ísrael.

Og musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið, því að vor Guð er meiri en allir guðir.

En hver myndi vera fær um að reisa honum hús? Því að himinninn og himnanna himnar taka hann ekki, og hver er ég, að ég reisi honum hús, nema ef vera skyldi til þess að brenna reykelsi frammi fyrir honum.

Send þú mér nú mann, sem er hagur á gull, silfur, eir og járn, kann að vinna úr rauðum purpura, skarlati og bláum purpura, og kann að útskurði, ásamt þeim hagleiksmönnum, er með mér eru í Júda og Jerúsalem og Davíð faðir minn hefir til fengið.

Send þú mér og sedrusvið, kýpresvið og sandelvið frá Líbanon, því að ég veit, að menn þínir kunna að því að höggva tré á Líbanon, og skulu mínir menn vera með þínum mönnum.

Og ég þarf á afar miklum viði að halda, því að musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið og undursamlegt.

10 En viðarhöggsmönnunum frá þér, þeim er trén höggva, gef ég til matar tuttugu þúsund kór af hveiti og tuttugu þúsund kór af byggi, tuttugu þúsund bat af víni og tuttugu þúsund bat af olíu."

11 Húram, konungur í Týrus, svaraði bréflega og sendi til Salómons: "Af því að Drottinn elskar lýð sinn, hefir hann gjört þig að konungi yfir þeim."

12 Og Húram mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, er gjört hefir himin og jörð, að hann hefir gefið Davíð konungi vitran son, sem hefir til að bera skyn og hyggindi til þess að reisa Drottni musteri og sjálfum sér konungshöll.

13 Og nú sendi ég mann, vitran og velkunnandi, Húram Abí,

14 son konu af Dans ætt, en faðir hans er týrverskur maður. Hann kann að smíða úr gulli, silfri, eiri og járni, steini og tré og að vinna úr rauðum og bláum purpura, baðmull og skarlati, kann að hvers konar útskurði, og getur gjört hverja þá smíð, er honum verður falin, ásamt hagleiksmönnum þínum og hagleiksmönnum Davíðs föður þíns, herra míns.

15 Sendi þá herra minn þjónum sínum hveitið, byggið, olíuna og vínið, sem hann hefir um mælt.

16 En vér skulum höggva tré á Líbanon, eins mikið og þú þarft, og færa þér þau í flotum sjóveg til Jafó, og mátt þú þá flytja þau upp til Jerúsalem."

17 Og Salómon taldi útlenda menn, er voru í Ísraelslandi, eftir tali því á þeim, er Davíð faðir hans hafði gjöra látið, og reyndust þeir að vera hundrað fimmtíu og þrjú þúsund og sex hundruð.

18 Af þeim gjörði hann sjötíu þúsund að burðarmönnum, áttatíu þúsund að steinhöggvurum í fjöllunum og þrjú þúsund og sex hundruð að umsjónarmönnum til þess að halda fólkinu til vinnu.

Salómon byrjaði á að byggja musteri Drottins í Jerúsalem á Móríafjalli, þar sem Drottinn hafði birst Davíð föður hans, á stað þeim, er Davíð hafði búið á þreskivelli Ornans Jebúsíta.

Og hann byrjaði að byggja á öðrum degi í öðrum mánuði á fjórða ríkisári sínu.

Og þessi var grundvöllurinn, er Salómon lagði að musterisbyggingu Guðs: Lengdin var sextíu álnir að fornu máli, og breiddin tuttugu álnir.

Og forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tíu álnir á breidd, en tuttugu álnir á lengd fram með musterisendanum, og hundrað og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði hann innan skíru gulli.

En stærra húsið þiljaði hann með kýpresborðum og lagði það fínu gulli og setti þar á pálma og festar.

Enn fremur bjó hann húsið dýrindis steinum til prýði, en gullið var Parvaímgull.

Og hann lagði húsið, bjálkana, þröskuldana, svo og veggi þess og hurðir gulli, og lét skera kerúba út á veggjunum.

Hann gjörði og Hið allrahelgasta. Var það tuttugu álnir á lengd, eins og musterið var á breiddina, og tuttugu álnir á breidd, og bjó það fínu gulli, sex hundruð talentum.

Og naglarnir vógu fimmtíu sikla gulls, og loftherbergin lagði hann og gulli.

10 En í Hinu allrahelgasta gjörði hann tvo kerúba, haglega skorna og lagði þá gulli.

11 Vængir kerúbanna voru báðir saman tíu álna langir. Annar vængur annars kerúbsins, fimm álna langur, nam húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, nam við væng hins kerúbsins.

12 Annar fimm álna langur vængur hins kerúbsins nam og húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, snart væng hins kerúbsins.

13 Voru vængir kerúba þessara tuttugu álnir, útbreiddir. Stóðu þeir á fótum sér, og sneru andlit þeirra að húsinu.

14 Og hann gjörði fortjaldið af bláum og rauðum purpura, skarlati og baðmull og gjörði kerúba á því.

15 Hann gjörði og tvær súlur, þrjátíu og fimm álna háar, fyrir framan húsið, en hnúðurinn, er efst var á hvorri, var fimm álnir.

16 Hann gjörði og festar og lét þær á súlnahöfuðin, þá gjörði hann hundrað granatepli og setti á festarnar.

17 Og hann reisti súlurnar fyrir framan aðalhúsið, aðra til hægri og hina til vinstri. Nefndi hann hægri súluna Jakín, en hina vinstri Bóas.

Hann gjörði altari af eiri, tuttugu álna langt, tuttugu álna breitt og tíu álna hátt.

Hann gjörði og hafið, og var það steypt af eiri. Það var tíu álnir af barmi og á, kringlótt og fimm álnir á dýpt, og þrjátíu álna snúra lá um það.

En neðan við það voru nautalíkneski allt í kring _ var hvert þeirra tíu álnir _ er mynduðu hring um hafið, tvær raðir af nautum, og voru þau samsteypt hafinu.

Það stóð á tólf nautum, sneru þrjú í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður, þrjú í austur. Hvíldi hafið á þeim og sneru allir bakhlutir þeirra inn.

Það var þverhandarþykkt og barmur þess í laginu sem barmur á bikar, líkt og liljublóm. Það rúmaði þrjú þúsund bat.

Þá gjörði hann tíu ker. Setti hann fimm hægra megin og fimm vinstra megin til þvottar. Skyldi skola í þeim, það er til brennifórnar skyldi hafa, en hafið var til þvottar fyrir prestana.

Hann gjörði og gullljósastikurnar tíu, eftir ákvæðunum um þær, og setti í aðalhúsið, fimm hægra megin og fimm vinstra megin.

Þá gjörði hann tíu borð og setti í aðalhúsið, fimm hægra megin og fimm vinstra megin, svo gjörði hann og hundrað fórnarskálar úr gulli.

Hann gjörði og prestaforgarðinn og forgarðinn mikla og dyr á forgarðinn, og vængjahurðirnar í þeim lagði hann eiri,

10 en hafið setti hann hægra megin, í austur, gegnt suðri.

11 Og Húram gjörði katlana, eldspaðana og fórnarskálarnar, og lauk svo Húram við að vinna að starfi því, er hann leysti af hendi fyrir Salómon konung í musteri Guðs:

12 tvær súlur og tvær kúlur á súlnahöfðunum og bæði riðnu netin, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum,

13 og fjögur hundruð granateplin á bæði netin, tvær raðir af granateplum á hvort net, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum,

14 enn fremur vagnana tíu og kerin tíu á þeim,

15 og hafið og tólf nautin undir hafinu,

16 og katlana, eldspaðana, soðkrókana og öll tilheyrandi áhöld gjörði Húram Abí fyrir Salómon konung til musteris Drottins, úr skyggðum eiri.

17 Lét konungur steypa þau á Jórdansléttlendinu í leirmótum, milli Súkkót og Sereda.

18 Og Salómon lét gjöra afar mikið af öllum þessum áhöldum, þyngd eirsins var eigi rannsökuð.

19 Og Salómon lét gjöra öll þau áhöld, sem voru í húsi Drottins: gullaltarið, borðin undir skoðunarbrauðin,

20 ljósastikurnar og lampa þeirra, að á þeim skyldi kveikt verða fyrir framan innhúsið, eins og lög stóðu til _ af skíru gulli,

21 og blómin, lampana og ljósasöxin af gulli _ og það af besta gulli _

22 og skarbítana, fórnarskálarnar, bollana, eldpönnurnar af skíru gulli. Og að því er snertir dyr musterisins, þá voru innri vængjahurðir þeirra, þær er lágu inn í Hið allrahelgasta, og vængjahurðir musterisins, þær er lágu inn í aðalhúsið, af gulli.

Og er öllu því verki var lokið, er Salómon lét gjöra að musteri Drottins, þá flutti hann helgigjafir Davíðs föður síns inn í það, silfrið og gullið, en öll áhöldin lét hann í féhirslur Drottins húss.

Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon.

Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til konungs í etaním-mánuði á hátíðinni. (Er sá mánuður hinn sjöundi).

Þá komu allir öldungar Ísraels, og levítarnir tóku örkina,

og þeir fluttu örkina og samfundatjaldið og öll hin helgu áhöld, er í tjaldinu voru. Fluttu levítaprestarnir þau upp eftir.

En Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, er safnast hafði til hans, stóð frammi fyrir örkinni. Fórnuðu þeir sauðum og nautum, er eigi varð tölu né ætlan á komið fyrir fjölda sakir.

Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna.

Og kerúbarnir breiddu út vængina þar yfir, er örkin stóð, og þannig huldu kerúbarnir örkina og stengur hennar ofan frá.

Og stengurnar voru svo langar, að stangarendarnir sáust frá helgidóminum fyrir framan innhúsið, en utan að sáust þeir ekki. Og þær hafa verið þar fram á þennan dag.

10 Í örkinni var ekkert nema töflurnar tvær, er Móse lét þar við Hóreb, töflur sáttmálans, er Drottinn gjörði við Ísraelsmenn, þá er þeir fóru af Egyptalandi.

11 En er prestarnir gengu út úr helgidóminum _ því að allir prestarnir, er viðstaddir voru, höfðu helgað sig, flokkaskiptingar var eigi gætt,

12 og allir levítasöngmenn, Asaf, Heman og Jedútún og synir þeirra og bræður, stóðu þar, klæddir baðmullarskikkjum, með skálabumbur, hörpur og gígjur, að austanverðu við altarið, og hjá þeim hundrað og tuttugu prestar, er þeyttu lúðra,

13 en lúðramenn og söngmenn áttu að byrja í senn og einraddað að lofa og vegsama Drottin _ og er menn létu lúðra og skálabumbur kveða við og hin önnur hljóðfæri og þakkargjörð til Drottins "því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu," þá fyllti ský musterið, musteri Drottins,

14 og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Guðs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes