A A A A A
Bible Book List

Fyrri Samúelsbók 21-24 Icelandic Bible (ICELAND)

21 Davíð kom til Nób, til Ahímeleks prests, en Ahímelek gekk skelkaður í móti Davíð og mælti til hans: "Hví ert þú einsamall og enginn maður með þér?"

Davíð svaraði Ahímelek presti: "Konungur fól mér erindi nokkurt og sagði við mig: ,Enginn maður má vita neitt um erindi það, er ég sendi þig í og ég hefi falið þér.` Fyrir því hefi ég stefnt sveinunum á vissan stað.

Og ef þú hefir nú fimm brauð hjá þér, þá gef mér þau, eða hvað sem fyrir hendi er."

Prestur svaraði Davíð og sagði: "Ég hefi ekkert óheilagt brauð hjá mér, en heilagt brauð er til, _ aðeins að sveinarnir hafi haldið sér frá konum."

Davíð svaraði presti og mælti til hans: "Já, vissulega. Kvenna hefir oss verið varnað undanfarið. Þegar ég fór að heiman, voru ker sveinanna heilög. Að vísu er þetta ferðalag óheilagt, en nú verður allt helgað!"

Þá gaf prestur honum heilagt brauð, því að þar var ekkert brauð, nema skoðunarbrauðin, sem tekin eru burt frá augliti Drottins, en volg brauð lögð í stað þeirra, þá er þau eru tekin.

En þar var þennan dag einn af þjónum Sáls, inni byrgður fyrir augliti Drottins. Hann hét Dóeg og var Edómíti og yfirmaður hirða Sáls.

Davíð sagði við Ahímelek: "Hefir þú ekki spjót eða sverð hér hjá þér? Því að ég tók hvorki sverð mitt né vopn mín með mér, svo bar bráðan að um konungs erindi."

Þá sagði prestur: "Hér er sverð Golíats Filista, sem þú lagðir að velli í Eikidal, sveipað dúk á bak við hökulinn. Ef þú vilt hafa það, þá tak það, því að hér er ekkert annað en það." Davíð sagði: "Það er sverða best, fá mér það."

10 Síðan tók Davíð sig upp og flýði þennan sama dag fyrir Sál, og kom til Akís konungs í Gat.

11 Og þjónar Akís sögðu við hann: "Er þetta ekki Davíð, konungur landsins? Var það ekki um hann, að sungið var við dansinn: Sál felldi sín þúsund og Davíð sín tíu þúsund?"

12 Davíð festi þessi orð í huga og var mjög hræddur við Akís konung í Gat.

13 Fyrir því gjörði hann sér upp vitfirringu fyrir augum þeirra og lét sem óður maður innan um þá, sló á vængjahurðir hliðsins sem á bumbu og lét slefuna renna ofan í skeggið.

14 Þá sagði Akís við þjóna sína: "Þér sjáið að maðurinn er vitstola. Hví komið þér með hann til mín?

15 Hefi ég ekki nóg af vitfirringum, úr því að þér hafið komið með þennan til að ærast frammi fyrir mér? Hvað á hann að gjöra í mitt hús?"

22 Davíð fór þaðan og komst undan í Adúllamhelli. Og er bræður hans og allt hús föður hans fréttu það, komu þeir þangað til hans.

Og allir nauðstaddir menn söfnuðust til hans og allir þeir, sem komnir voru í skuldir, svo og allir þeir, er óánægðir voru, og gjörðist hann höfðingi þeirra. Voru nú með honum um fjögur hundruð manns.

Davíð fór þaðan til Mispe í Móab og sagði við Móabskonung: "Leyf föður mínum og móður minni að vera hér hjá yður, uns ég fæ að vita, hvað Guð gjörir við mig."

Síðan skildi hann þau eftir hjá Móabskonungi, og þau voru hjá honum meðan Davíð var í virkinu.

Og Gað spámaður sagði við Davíð: "Þú skalt ekki vera kyrr í virkinu. Haf þig á braut og far til Júda." Þá fór Davíð af stað og kom í Heretskóg.

Nú fréttir Sál, að Davíð sé fundinn og þeir menn, sem með honum voru. Sál sat í Gíbeu undir tamarisktrénu á hæðinni og hafði spjót í hendi, og allir þjónar hans stóðu umhverfis hann.

Þá mælti Sál við þjóna sína, sem stóðu umhverfis hann: "Heyrið, þér Benjamínítar! Ætli Ísaísonur gefi yður öllum akra og víngarða og gjöri yður alla að hersveitarforingjum og hundraðshöfðingjum?

Þér hafið allir gjört samsæri á móti mér, og enginn sagði mér frá því, þegar sonur minn gjörði bandalag við Ísaíson, og enginn yðar hefir kennt í brjósti um mig og sagt mér frá því, að sonur minn hefir eflt þegn minn til fjandskapar í móti mér, eins og nú er fram komið."

Þá tók Dóeg Edómíti til máls, _ en hann stóð hjá þjónum Sáls _ og mælti: "Ég sá Ísaíson koma til Nób, til Ahímeleks Ahítúbssonar,

10 og gekk hann til frétta við Drottin fyrir hann. Hann gaf honum og vistir, og sverð Golíats Filista fékk hann honum."

11 Þá sendi konungur eftir Ahímelek presti Ahítúbssyni og öllu frændliði hans, prestunum í Nób, og þeir komu allir á konungs fund.

12 Þá mælti Sál: "Heyr þú, Ahítúbsson!" Hann svaraði: "Hér er ég, herra minn!"

13 Sál mælti til hans: "Hví hafið þið gjört samsæri í móti mér, þú og Ísaíson, þar sem þú fékkst honum brauð og sverð og gekkst til frétta við Guð fyrir hann, svo að hann gæti risið til fjandskapar í gegn mér, eins og nú er fram komið?"

14 Ahímelek svaraði konungi og mælti: "Hver er svo trúr sem Davíð meðal allra þjóna þinna, tengdasonur konungsins, foringi lífvarðar þíns og mikils metinn í húsi þínu?

15 Er þetta þá í fyrsta sinni, sem ég geng til frétta við Guð fyrir hann? Fjarri fer því. Konungur má eigi gefa þjóni sínum og öllu frændliði mínu sök á þessu, því að þjónn þinn vissi alls ekki neitt um þetta."

16 En konungur mælti: "Þú skalt lífið láta, Ahímelek, þú og allt frændlið þitt."

17 Og konungur mælti til varðmannanna, sem hjá honum stóðu: "Komið hingað og deyðið presta Drottins, því að einnig þeir hafa hjálpað Davíð. Og þótt þeir vissu, að hann var að flýja, þá létu þeir mig ekki vita það." En þjónar konungs vildu ekki leggja hendur á presta Drottins.

18 Þá sagði konungur við Dóeg: "Kom þú hingað og drep þú prestana." Og Dóeg Edómíti gekk þangað, og hann drap prestana og deyddi á þeim degi áttatíu og fimm menn, sem báru línhökul.

19 Og Nób, borg prestanna, eyddi hann með sverðseggjum; bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, uxa, asna og sauði felldi hann með sverðseggjum.

20 Aðeins einn af sonum Ahímeleks Ahítúbssonar komst undan. Hann hét Abjatar og flýði til Davíðs og gekk í sveit með honum.

21 Og Abjatar sagði Davíð frá, að Sál hefði myrt presta Drottins.

22 Davíð sagði við Abjatar: "Ég vissi það þá þegar, úr því að Dóeg Edómíti var þar, að hann mundi segja Sál frá því. Ég á sök á lífláti allra ættmenna þinna.

23 Vertu hjá mér og óttast ekki, því að sá sem leitar eftir mínu lífi, leitar eftir þínu lífi. Hjá mér er þér óhætt."

23 Menn fluttu Davíð þessi tíðindi: "Sjá, Filistar herja á Kegílu og ræna kornláfana."

Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: "Á ég að fara og herja á þessa Filista?" Drottinn sagði við Davíð: "Far þú og herja á Filistana og frelsaðu Kegílu."

En menn Davíðs sögðu við hann: "Sjá, vér erum hræddir um oss hér í Júda, hvað mun þá, ef vér förum til Kegílu á móti herfylkingum Filista?"

Þá gekk Davíð enn til frétta við Drottin, og Drottinn svaraði honum og sagði: "Tak þig upp og far til Kegílu, því að ég mun gefa Filista í hendur þér."

Síðan fór Davíð og menn hans til Kegílu, og hann herjaði á Filista, rak fénað þeirra burt og lagði fjölda þeirra að velli. Þannig frelsaði Davíð þá, sem bjuggu í Kegílu.

Þegar Abjatar Ahímeleksson flýði til Davíðs, þá hafði hann með sér hökul.

Sál var sagt frá því, að Davíð væri kominn til Kegílu. Þá mælti Sál: "Guð hefir selt hann mér á vald, því að hann hefir sjálfur byrgt sig inni með því að fara inn í borg með hliðum og slagbröndum."

Og Sál stefndi öllum lýðnum saman til hernaðar til þess að fara til Kegílu og gjöra umsát um Davíð og menn hans.

Þegar Davíð frétti, að Sál sæti á svikráðum við sig, sagði hann við Abjatar prest: "Kom þú hingað með hökulinn."

10 Og Davíð mælti: "Drottinn, Ísraels Guð! Þjónn þinn hefir sannspurt, að Sál ætli sér að koma til Kegílu til þess að eyða borgina mín vegna.

11 Hvort munu Kegílubúar framselja mig í hendur honum? Mun Sál koma hingað, eins og þjónn þinn hefir spurt? Drottinn, Ísraels Guð! Gjör það kunnugt þjóni þínum." Drottinn svaraði: "Já, hann mun koma."

12 Þá mælti Davíð: "Hvort munu Kegílubúar framselja mig og menn mína í hendur Sál?" Drottinn svaraði: "Já, það munu þeir gjöra."

13 Þá tók Davíð sig upp og hans menn, um sex hundruð manns, og þeir lögðu af stað frá Kegílu og sveimuðu víðsvegar. En er Sál frétti, að Davíð hefði forðað sér burt frá Kegílu, þá hætti hann við herförina.

14 Davíð hafðist við í eyðimörkinni uppi í fjallvígjum, og hann hafðist við á fjöllunum í Sífeyðimörku. Og Sál leitaði hans alla daga, en Guð gaf hann ekki í hendur honum.

15 Davíð varð hræddur, þegar Sál lagði af stað til þess að sækjast eftir lífi hans. Davíð var þá í Hóres í Sífeyðimörku.

16 Og Jónatan, sonur Sáls, tók sig upp og fór á fund Davíðs í Hóres og hughreysti hann í nafni Guðs

17 og sagði við hann: "Óttast þú ekki, því að Sál faðir minn mun eigi hendur á þér festa, en þú munt verða konungur yfir Ísrael, og mun ég þá ganga þér næstur. Sál faðir minn veit og þetta."

18 Og þeir gjörðu báðir sáttmála fyrir augliti Drottins. Og Davíð var kyrr í Hóres, en Jónatan fór heim til sín.

19 Þá komu Sífítar til Sáls í Gíbeu og sögðu: "Veistu að Davíð felur sig hjá oss í fjallvígjunum í Hóres, í Hahakílahæðunum, sunnarlega í Júdaóbyggðum?

20 Og ef þig nú fýsir, konungur, að koma þangað, þá kom þú. Vort hlutverk verður það þá að framselja hann í hendur konungi."

21 Sál mælti: "Blessaðir séuð þér af Drottni, fyrir það að þér kennduð í brjósti um mig.

22 Farið nú og takið enn vel eftir og kynnið yður og komist sem fyrst að raun um, hvar hann heldur sig, því að mér hefir verið sagt, að hann sé slægur mjög.

23 Og njósnið nú og kynnið yður öll þau fylgsni, er hann kann að felast í, og færið mér síðan örugga fregn af, og mun ég þá með yður fara. Og ef hann er í landinu, þá skal ég leita hann uppi meðal allra Júda þúsunda."

24 Þá tóku þeir sig upp og fóru á undan Sál til Síf. Davíð var þá með mönnum sínum í Maoneyðimörk, á sléttlendinu syðst í Júdaóbyggðum.

25 Og Sál fór að leita hans með mönnum sínum. Sögðu menn Davíð frá því, og fór hann þá niður að hamrinum, sem er í Maoneyðimörk. Og er Sál heyrði það, veitti hann Davíð eftirför inn í Maoneyðimörk.

26 Sál og menn hans fóru öðrumegin við fjallið, en Davíð og hans menn hinumegin við það. Davíð flýtti sér nú í angist að komast undan Sál, en Sál og menn hans voru að því komnir að umkringja Davíð og menn hans og taka þá höndum.

27 En þá kom sendimaður til Sáls og mælti: "Kom þú nú skjótt, því að Filistar hafa brotist inn í landið."

28 Þá hvarf Sál aftur og lét af að elta Davíð, en sneri í móti Filistum. Fyrir því var sá staður nefndur Aðskilnaðarklettur.

24 Davíð fór þaðan og hafðist við uppi í fjallvígjum við Engedí.

Og þegar Sál kom aftur úr herförinni móti Filistum, báru menn honum tíðindi og sögðu: "Sjá, Davíð er í Engedí-eyðimörk."

Þá tók Sál þrjár þúsundir manns, einvalalið úr öllum Ísrael, og lagði af stað til að leita Davíðs og hans manna austan í Steingeitahömrum.

Og hann kom að fjárbyrgjunum við veginn. Þar var hellir, og gekk Sál inn í hann erinda sinna. En Davíð og hans menn höfðu lagst fyrir innst í hellinum.

Þá sögðu menn Davíðs við hann: "Nú er dagurinn kominn, sá er Drottinn talaði um við þig: ,Sjá, ég mun gefa óvin þinn í hendur þér, svo að þú getir við hann gjört það, er þér vel líkar."` Og Davíð stóð upp og sneið leynilega lafið af skikkju Sáls.

En eftir á sló samviskan Davíð, að hann hafði sniðið lafið af skikkju Sáls.

Og hann sagði við menn sína: "Drottinn láti það vera fjarri mér, að ég gjöri slíkt við herra minn, Drottins smurða, að ég leggi hönd á hann, því að Drottins smurði er hann."

Og Davíð átaldi menn sína harðlega og leyfði þeim ekki að ráðast á Sál. Sál stóð upp og gekk út úr hellinum og fór leiðar sinnar.

Þá reis Davíð upp og gekk út úr hellinum og kallaði á eftir Sál: "Minn herra konungur!" Þá leit Sál aftur, en Davíð hneigði andlit sitt til jarðar og laut honum.

10 Og Davíð sagði við Sál: "Hví hlýðir þú á tal þeirra manna, sem segja: ,Sjá, Davíð situr um að vinna þér mein`?

11 Sjá, nú hefir þú sjálfur séð, hversu Drottinn gaf þig í mínar hendur í dag í hellinum. Og menn eggjuðu mig á að drepa þig, en ég þyrmdi þér og hugsaði með mér: ,Ég skal eigi leggja hendur á herra minn, því að Drottins smurði er hann.`

12 En líttu á, faðir, já líttu á lafið af skikkju þinni í hendi mér. Af því, að ég sneið lafið af skikkju þinni og drap þig ekki _ af því mátt þú skynja og skilja, að ég bý eigi yfir illsku og svikum og að ég hefi eigi syndgað á móti þér. En þú situr um að ráða mig af dögum.

13 Drottinn dæmi milli mín og þín, og Drottinn hefni mín á þér, en hendur legg ég ekki á þig.

14 Eins og gamalt máltæki segir: ,Ills er af illum von,` en hendur legg ég ekki á þig.

15 Hvern eltir Ísraelskonungur? Hvern ofsækir þú? Dauðan hund, eina fló!

16 Drottinn sé dómari og dæmi okkar í milli og sjái til og flytji mál mitt og reki réttar míns í hendur þér."

17 Þegar Davíð hafði mælt þessum orðum til Sáls, þá kallaði Sál: "Er það ekki þín rödd, Davíð sonur minn?" og Sál tók að gráta hástöfum.

18 Og hann mælti til Davíðs: "Þú ert réttlátari en ég, því að þú hefir gjört mér gott, en ég hefi gjört þér illt.

19 Og þú hefir í dag aukið á það góða, sem þú hefir auðsýnt mér, þar sem Drottinn seldi mig í þínar hendur, en þú drapst mig ekki.

20 Því að hitti einhver óvin sinn, mun hann þá láta hann fara leiðar sinnar í friði? En Drottinn mun umbuna þér þennan dag góðu, fyrir það sem þú gjörðir mér.

21 Og sjá, nú veit ég, að þú munt konungur verða og að konungdómur Ísraels mun staðfestast í þinni hendi.

22 Vinn mér því eið að því við Drottin, að þú skulir ekki uppræta niðja mína eftir mig og ekki afmá nafn mitt úr ætt minni."

23 Og Davíð vann Sál eið að því. Fór Sál því næst heim til sín, en Davíð og menn hans fóru upp í fjallvígið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes