A A A A A
Bible Book List

Fyrri bók konunganna 5-6 Icelandic Bible (ICELAND)

Híram konungur í Týrus sendi þjóna sína til Salómons, því hann hafði heyrt að hann hefði verið smurður til konungs í stað föður síns, en Híram hafði ætíð verið góðvinur Davíðs.

Og Salómon sendi boð til Hírams og lét segja honum:

"Þú veist sjálfur, að Davíð faðir minn mátti eigi reisa hús nafni Drottins, Guðs síns, vegna ófriðar þess, er hann varð að eiga í á allar hliðar, uns Drottinn lagði óvini hans undir iljar honum.

En nú hefir Drottinn, Guð minn, veitt mér frið allt umhverfis. Á ég engan mótstöðumann og ekkert er framar að meini.

Fyrir því hefi ég í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Guðs míns, eins og Drottinn sagði við Davíð, föður minn, er hann mælti: ,Sonur þinn, er ég set í hásæti þitt í þinn stað, hann skal reisa hús mínu nafni.`

Bjóð því nú að höggva sedrustré á Líbanon handa mér, og þjónar mínir skulu vera með þínum þjónum. Skal ég greiða þér kaup fyrir þjóna þína, slíkt er þú sjálfur tiltekur. Því að þú veist sjálfur, að með oss er enginn maður, er kunni að skógarhöggi sem Sídoningar."

Þegar Híram heyrði orðsending Salómons, varð hann harla glaður og sagði: "Lofaður sé Drottinn í dag, er gefið hefir Davíð vitran son til að ríkja yfir þessari fjölmennu þjóð."

Og Híram sendi menn til Salómons og lét segja honum: "Ég hefi heyrt þá orðsending, er þú gjörðir mér. Skal ég gjöra að ósk þinni um sedrusviðinn og kýpresviðinn.

Mínir menn skulu flytja viðinn ofan frá Líbanon til sjávar, og ég skal láta leggja hann í flota í sjónum og flytja þangað sem þú segir til um. Þar læt ég taka sundur flotana, en þú lætur sækja. En þú skalt gjöra að ósk minni og láta mig fá vistir handa hirð minni."

10 Og Híram lét Salómon fá eins mikið af sedrusviði og kýpresviði og hann vildi.

11 En Salómon lét Híram fá tuttugu þúsund kór af hveiti til matar fyrir hirð hans og tuttugu þúsund bat af olíu úr steyttum olífuberjum. Þetta lét Salómon Híram fá á ári hverju.

12 Og Drottinn hafði veitt Salómon speki, eins og hann hafði heitið honum. Og það fór vel á með þeim Híram og Salómon, og þeir gjörðu sáttmála sín á milli.

13 Salómon konungur bauð út kvaðarmönnum úr öllum Ísrael, og urðu kvaðarmennirnir þrjátíu þúsundir að tölu.

14 Og hann sendi þá til skiptis til Líbanon, tíu þúsundir á mánuði hverjum. Skyldu þeir vera einn mánuð á Líbanon, en tvo mánuði heima hjá sér. Adóníram var yfir kvaðarmönnum.

15 Og Salómon hafði sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara í fjöllunum,

16 auk yfirfógeta Salómons, er fyrir verkinu stóðu, þrjú þúsund og þrjú hundruð að tölu. Skyldu þeir hafa umsjón með þeim mönnum, er verkið unnu.

17 Og að boði konungs hjuggu þeir stóra steina, úthöggna steina, til þess að byggja musterisgrunninn úr höggnu grjóti.

18 Og smiðir Salómons og Hírams og Gíblítar hjuggu þá til, undirbjuggu viðinn og steinana til þess að reisa musterið.

Á fjögur hundruð og áttugasta ári frá því, er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi, fjórða árið, sem Salómon ríkti yfir Ísrael, í sívmánuði _ það er öðrum mánuðinum _ reisti hann Drottni musterið.

Musterið, sem Salómon konungur reisti Drottni, var sextíu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð.

Forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tuttugu álnir á breidd fram með musterisendanum og tíu álnir á dýpt fram af musterinu.

Hann gjörði glugga á musterið með föstum grindum fyrir.

Og upp að musterisveggnum hringinn í kring reisti hann þriggja hæða hliðarhús _ upp að musterisveggjunum, hringinn í kringum aðalhúsið og innhúsið og gjörði stúkur allt í kring.

Fyrsta hæð þessa hliðarhúss var fimm álnir á breidd, miðhæðin sex álnir á breidd, og efsta hæðin sjö álnir á breidd, því að hann hafði sett stalla utan á musterið hringinn í kring, til þess að bitarnir skyldu ekki ganga inn í musterisveggina.

Þegar musterið var reist var byggt úr steinum, sem höfðu verið höggnir til, er grjótið var tekið, svo að hvorki heyrðist hamarshljóð né axar, né nokkurs annars járntóls, meðan á byggingu musterisins stóð.

Dyrnar á fyrstu hæð hliðarhússins voru á suðurhlið musterisins, og var gengið upp um hringstiga upp á miðhæðina og þaðan upp á efstu hæð.

Þannig reisti hann musterið og lauk við það og þakti musterið með bjálkum og þiljum úr sedrusviði.

10 Hann reisti hliðarhús utan um allt musterið, fimm álnir á hæð hver hæð, og tengdi þau við musterið með sedrusviði.

11 Þá kom orð Drottins til Salómons svolátandi:

12 "Þú hefir byggt þetta hús. Ef þú gengur eftir boðorðum mínum og breytir eftir lögum mínum og varðveitir allar skipanir mínar með því að ganga eftir þeim, þá mun ég efna heit mitt við þig, er ég gaf Davíð föður þínum,

13 og ég mun búa meðal Ísraelsmanna og eigi yfirgefa lýð minn Ísrael."

14 Þannig byggði Salómon musterið og lauk við það.

15 Salómon þiljaði musterisveggina að innan með sedrusviði. Frá gólfi hússins upp að loftbjálkum þiljaði hann það að innan með viði og lagði gólf í húsið úr kýpresviðarborðum.

16 Og hann þiljaði tuttugu álnir aftan af húsinu neðan frá gólfi og upp undir bjálka með sedrusviði. Gjörði hann þannig úr því að innan innhús, það er Hið allrahelgasta.

17 Húsið var fjörutíu álnir, það er aðalhúsið fyrir framan innhúsið.

18 Innan á musterinu var sedrusviður, útskorinn með hnöppum og blómstrum. Var það allt af sedrusviði, og sá hvergi í stein.

19 Hann bjó út innhús, Hið allrahelgasta, inni í musterinu, til þess að þangað mætti flytja sáttmálsörk Drottins.

20 Og fyrir framan innhúsið _ en það var tuttugu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði það skíru gulli _ gjörði hann altari af sedrusviði.

21 Salómon lagði musterið með skíru gulli að innan, og dró gullfestar fyrir kórinn og lagði hann gulli.

22 Og allt húsið lagði hann gulli _ algjörlega allt húsið. Einnig lagði hann gulli allt altarið, sem tilheyrði innhúsinu.

23 Hann gjörði í innhúsinu tvo kerúba af olíuviði, tíu álna háa.

24 Hvor vængur annars kerúbsins var fimm álnir, og hvor vængur hins kerúbsins fimm álnir, svo að tíu álnir voru frá enda annars vængsins til enda hins vængsins.

25 Báðir kerúbarnir voru tíu álnir, báðir voru þeir jafnstórir og eins að gerð.

26 Annar kerúbinn var tíu álnir á hæð, svo og hinn kerúbinn.

27 Og hann setti kerúbana upp inni í Hinu allrahelgasta, og breiddu þeir út vængina, svo að annar vængur annars nam við vegginn og hinn vængur hins kerúbsins nam við hinn vegginn, en í miðju húsinu námu vængir þeirra hvor við annan.

28 Og hann lagði kerúbana gulli.

29 Hann lét skera út á veggina hringinn í kring kerúba, pálma og blómfléttur, inni og fyrir utan.

30 Gólf hússins lagði hann og gulli, inni og fyrir utan.

31 Fyrir dyr innhússins lét hann gjöra vængjahurð úr olíuviði. Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafirnir mynduðu fimmhyrning.

32 Á báðar vængjahurðirnar, sem voru úr olíuviði, lét hann skera kerúba, pálma og blómfléttur og leggja gulli, en kerúbana og pálmana lagði hann slegnu gulli.

33 Og fyrir dyr aðalhússins lét hann sömuleiðis gjöra ferstrenda dyrastafi af olíuviði

34 og tvær vængjahurðir af kýpresviði. Var hvor vængurinn um sig gjörður af tveimur hlerum, er léku á hjörum.

35 Og hann lét skera kerúba, pálma og blómfléttur á þá og lagði það gulli, sem út var skorið.

36 Hann gjörði vegginn um innri forgarðinn úr þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum.

37 Á fjórða ári var grundvöllurinn lagður að húsi Drottins, í sívmánuði.

38 Og á ellefta ári, í búlmánuði _ það er áttunda mánuðinum _ var húsið fullgjört í öllum greinum, með öllu sem því tilheyrði. Í sjö ár var hann að byggja það.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Síðari Kroníkubók 2-3 Icelandic Bible (ICELAND)

Salómon bauð að reisa skyldi musteri nafni Drottins og konungshöll handa sjálfum sér.

Og Salómon taldi frá sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara á fjöllunum, og setti þrjú þúsund og sex hundruð umsjónarmenn yfir þá.

Og Salómon gjörði Húram, konungi í Týrus, svolátandi orðsending: "Eins og þú breyttir við Davíð föður minn, er þú sendir honum sedrustré, svo að hann gæti byggt sér höll til bústaðar,

svo ætla ég nú að reisa musteri nafni Drottins, Guðs míns, er ég ætla að helga honum, til þess að færa ilmreykelsisfórnir frammi fyrir honum, til þess stöðugt að annast um raðsettu brauðin, til þess að færa brennifórn kvelds og morgna, á hvíldardögum, tunglkomudögum og löghátíðum Drottins, Guðs vors. Skal svo vera um aldur og ævi í Ísrael.

Og musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið, því að vor Guð er meiri en allir guðir.

En hver myndi vera fær um að reisa honum hús? Því að himinninn og himnanna himnar taka hann ekki, og hver er ég, að ég reisi honum hús, nema ef vera skyldi til þess að brenna reykelsi frammi fyrir honum.

Send þú mér nú mann, sem er hagur á gull, silfur, eir og járn, kann að vinna úr rauðum purpura, skarlati og bláum purpura, og kann að útskurði, ásamt þeim hagleiksmönnum, er með mér eru í Júda og Jerúsalem og Davíð faðir minn hefir til fengið.

Send þú mér og sedrusvið, kýpresvið og sandelvið frá Líbanon, því að ég veit, að menn þínir kunna að því að höggva tré á Líbanon, og skulu mínir menn vera með þínum mönnum.

Og ég þarf á afar miklum viði að halda, því að musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið og undursamlegt.

10 En viðarhöggsmönnunum frá þér, þeim er trén höggva, gef ég til matar tuttugu þúsund kór af hveiti og tuttugu þúsund kór af byggi, tuttugu þúsund bat af víni og tuttugu þúsund bat af olíu."

11 Húram, konungur í Týrus, svaraði bréflega og sendi til Salómons: "Af því að Drottinn elskar lýð sinn, hefir hann gjört þig að konungi yfir þeim."

12 Og Húram mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, er gjört hefir himin og jörð, að hann hefir gefið Davíð konungi vitran son, sem hefir til að bera skyn og hyggindi til þess að reisa Drottni musteri og sjálfum sér konungshöll.

13 Og nú sendi ég mann, vitran og velkunnandi, Húram Abí,

14 son konu af Dans ætt, en faðir hans er týrverskur maður. Hann kann að smíða úr gulli, silfri, eiri og járni, steini og tré og að vinna úr rauðum og bláum purpura, baðmull og skarlati, kann að hvers konar útskurði, og getur gjört hverja þá smíð, er honum verður falin, ásamt hagleiksmönnum þínum og hagleiksmönnum Davíðs föður þíns, herra míns.

15 Sendi þá herra minn þjónum sínum hveitið, byggið, olíuna og vínið, sem hann hefir um mælt.

16 En vér skulum höggva tré á Líbanon, eins mikið og þú þarft, og færa þér þau í flotum sjóveg til Jafó, og mátt þú þá flytja þau upp til Jerúsalem."

17 Og Salómon taldi útlenda menn, er voru í Ísraelslandi, eftir tali því á þeim, er Davíð faðir hans hafði gjöra látið, og reyndust þeir að vera hundrað fimmtíu og þrjú þúsund og sex hundruð.

18 Af þeim gjörði hann sjötíu þúsund að burðarmönnum, áttatíu þúsund að steinhöggvurum í fjöllunum og þrjú þúsund og sex hundruð að umsjónarmönnum til þess að halda fólkinu til vinnu.

Salómon byrjaði á að byggja musteri Drottins í Jerúsalem á Móríafjalli, þar sem Drottinn hafði birst Davíð föður hans, á stað þeim, er Davíð hafði búið á þreskivelli Ornans Jebúsíta.

Og hann byrjaði að byggja á öðrum degi í öðrum mánuði á fjórða ríkisári sínu.

Og þessi var grundvöllurinn, er Salómon lagði að musterisbyggingu Guðs: Lengdin var sextíu álnir að fornu máli, og breiddin tuttugu álnir.

Og forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tíu álnir á breidd, en tuttugu álnir á lengd fram með musterisendanum, og hundrað og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði hann innan skíru gulli.

En stærra húsið þiljaði hann með kýpresborðum og lagði það fínu gulli og setti þar á pálma og festar.

Enn fremur bjó hann húsið dýrindis steinum til prýði, en gullið var Parvaímgull.

Og hann lagði húsið, bjálkana, þröskuldana, svo og veggi þess og hurðir gulli, og lét skera kerúba út á veggjunum.

Hann gjörði og Hið allrahelgasta. Var það tuttugu álnir á lengd, eins og musterið var á breiddina, og tuttugu álnir á breidd, og bjó það fínu gulli, sex hundruð talentum.

Og naglarnir vógu fimmtíu sikla gulls, og loftherbergin lagði hann og gulli.

10 En í Hinu allrahelgasta gjörði hann tvo kerúba, haglega skorna og lagði þá gulli.

11 Vængir kerúbanna voru báðir saman tíu álna langir. Annar vængur annars kerúbsins, fimm álna langur, nam húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, nam við væng hins kerúbsins.

12 Annar fimm álna langur vængur hins kerúbsins nam og húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, snart væng hins kerúbsins.

13 Voru vængir kerúba þessara tuttugu álnir, útbreiddir. Stóðu þeir á fótum sér, og sneru andlit þeirra að húsinu.

14 Og hann gjörði fortjaldið af bláum og rauðum purpura, skarlati og baðmull og gjörði kerúba á því.

15 Hann gjörði og tvær súlur, þrjátíu og fimm álna háar, fyrir framan húsið, en hnúðurinn, er efst var á hvorri, var fimm álnir.

16 Hann gjörði og festar og lét þær á súlnahöfuðin, þá gjörði hann hundrað granatepli og setti á festarnar.

17 Og hann reisti súlurnar fyrir framan aðalhúsið, aðra til hægri og hina til vinstri. Nefndi hann hægri súluna Jakín, en hina vinstri Bóas.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes