Add parallel Print Page Options

Þegar Salómon konungur var orðinn fastur í sessi, mægðist hann við Faraó Egyptalandskonung og fékk dóttur Faraós og flutti hana til Davíðsborgar, uns hann hafði lokið við að reisa höll sína, musteri Drottins og múra umhverfis Jerúsalem.

En lýðurinn fórnaði enn á fórnarhæðunum, því að allt til þess tíma var ekkert hús reist nafni Drottins.

En Salómon elskaði Drottin, svo að hann hélt lög Davíðs föður síns, en þó færði hann sláturfórnir og reykelsisfórnir á fórnarhæðunum.

Konungur fór til Gíbeon til þess að fórna þar, því að það var aðalfórnarhæðin. Fórnaði Salómon þúsund brennifórnum á því altari.

Í Gíbeon vitraðist Drottinn Salómon í draumi um nótt, og Guð sagði: "Bið mig þess, er þú vilt að ég veiti þér."

Þá sagði Salómon: "Þú auðsýndir þjóni þínum, Davíð föður mínum, mikla miskunn, þar eð hann gekk fyrir augliti þínu í trúmennsku, réttlæti og hjartans einlægni við þig. Og þú lést haldast við hann þessa miklu miskunn og gafst honum son, sem situr í hásæti hans, eins og nú er fram komið.

Nú hefir þú þá, Drottinn Guð minn, gjört þjón þinn að konungi í stað Davíðs föður míns. En ég er unglingur og kann ekki fótum mínum forráð.

Og þjónn þinn er mitt á meðal þjóðar þinnar, er þú hefir útvalið, mikillar þjóðar, er eigi má telja eða tölu á koma fyrir fjölda sakir.

Gef því þjóni þínum gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð þinni og til að greina gott frá illu. Því að hver gæti annars stjórnað þessari fjölmennu þjóð þinni?"

10 Drottni líkaði vel, að Salómon bað um þetta.

11 Þá sagði Guð við hann: "Af því að þú baðst um þetta, en baðst ekki um langlífi þér til handa eða auðlegð eða líf óvina þinna, heldur baðst um vitsmuni til að skynja, hvað rétt er í málum manna,

12 þá vil ég veita þér bæn þína. Ég gef þér hyggið og skynugt hjarta, svo að þinn líki hefir ekki verið á undan þér og mun ekki koma eftir þig.

13 Og líka gef ég þér það, sem þú baðst ekki um, bæði auðlegð og heiður, svo að þinn líki skal eigi verða meðal konunganna alla þína daga.

14 Og ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín og skipanir, eins og Davíð faðir þinn gjörði, þá mun ég gefa þér langa lífdaga."

15 Síðan vaknaði Salómon, og sjá: Það var draumur. Og er hann var kominn til Jerúsalem, gekk hann fyrir sáttmálsörk Drottins og bar fram brennifórnir og fórnaði heillafórnum og gjörði veislu öllum þjónum sínum.

16 Tvær portkonur komu til konungs og gengu fyrir hann.

17 Og önnur konan sagði: "Með leyfi, herra minn! Ég og kona þessi búum í sama húsinu, og ól ég barn í húsinu hjá henni.

18 En á þriðja degi eftir að ég hafði alið barnið, ól og kona þessi barn. Og við vorum saman og enginn annar hjá okkur í húsinu. Við vorum tvær einar í húsinu.

19 Þá dó sonur þessarar konu um nótt, af því að hún hafði lagst ofan á hann.

20 En hún reis á fætur um miðja nótt og tók son minn frá mér, meðan ambátt þín svaf, og lagði hann að brjósti sér, en dauða soninn sinn lagði hún að brjósti mér.

21 En er ég reis um morguninn og ætlaði að gefa syni mínum að sjúga, sjá, þá var hann dauður! Og er ég virti hann fyrir mér um morguninn, sjá, þá var það ekki sonur minn, sá er ég hafði fætt."

22 En hin konan sagði: "Nei, það er minn sonur, sem er lifandi, en þinn sonur er dauður." En sú fyrri sagði: "Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi." Þannig þráttuðu þær frammi fyrir konungi.

23 Þá mælti konungur: "Önnur segir: ,Það er minn sonur, sem er lifandi, og þinn sonur, sem er dauður.` En hin segir: ,Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi."`

24 Og konungur sagði: "Færið mér sverð." Og þeir færðu konungi sverðið.

25 Þá mælti konungur: "Höggvið sundur barnið, sem lifir, í tvo hluti og fáið sinn helminginn hvorri."

26 Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konung, _ því að ástin til barnsins brann í brjósti hennar _, hún mælti: "Æ, herra minn, gefið henni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki." En hin sagði: "Njóti þá hvorug okkar þess. Höggvið það sundur!"

27 Þá svaraði konungur og sagði: "Fáið hinni konunni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki. Hún er móðir þess."

28 Og allur Ísrael heyrði dóminn, sem konungur hafði dæmt. Og þeir óttuðust konung, því að þeir sáu, að hann var gæddur guðlegri speki til þess að kveða upp dóma.

Salómon konungur var konungur yfir öllum Ísrael, og

þessir voru æðstu embættismenn hans: Asarja Sadóksson var prestur,

Elíhóref og Ahía Sísasynir voru kanslarar, Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari,

Benaja Jójadason var yfir hernum, Sadók og Abjatar voru prestar,

Asarja Natansson var yfir fógetunum, Sabúð Natansson var prestur og vinur konungs.

Ahísar var stallari, Adóníram Abdason var yfir kvaðarmönnum.

Salómon hafði tólf fógeta yfir öllum Ísrael. Skyldu þeir birgja konung og hirð hans að vistum sinn mánuðinn hver á ári hverju.

Og þetta eru nöfn þeirra: Ben Húr á Efraímfjöllum,

Ben Deker í Makas og í Saalbím og Bet Semes og Elon, allt að Bet Hanan.

10 Ben Heseð í Arúbbót, honum tilheyrði Sókó og allt Heferland,

11 Ben Abínadab hafði allt Dórhálendi, átti hann Tafat, dóttur Salómons fyrir konu.

12 Baana Ahílúðsson: Taanak og Megiddó og allt Bet Sean, sem liggur hjá Saretan fyrir neðan Jesreel, frá Bet Sean til Abel Mehóla, allt vestur fyrir Jokmeam,

13 Ben Geber í Ramót í Gíleað, honum tilheyrðu þorp Jaírs Manassesonar í Gíleað og landsspildan Argób í Basan, sextíu stórar borgir, með múrveggjum og slagbröndum af eiri,

14 Ahínadab Íddóson í Mahanaím,

15 Akímaas í Naftalí, hann hafði og gengið að eiga Basmat, dóttur Salómons.

16 Baana Húsaíson í Asser og Bealót,

17 Jósafat Parúason í Íssakar,

18 Símeí Elason í Benjamín,

19 Geber Úríson í Gíleaðlandi, landi Síhons Amorítakonungs og Ógs, konungs í Basan. Og einn fógeti var í Júda.

20 Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir.

21 Salómon drottnaði yfir öllum konungaríkjum frá Efrat til Filistalands og til landamæra Egyptalands. Færðu þeir Salómon skatt og voru þegnskyldir honum alla ævi hans.

22 Og Salómon þurfti daglega til matar þrjátíu kór af hveiti og sextíu kór af mjöli,

23 tíu alda uxa og tuttugu uxa haggenga og hundrað sauði, auk hjarta, skógargeita, dáhjarta og alifugla.

24 Því að hann réð yfir öllu landi fyrir vestan Efrat, frá Tífsa til Gasa, yfir öllum konungum fyrir vestan Efrat, og hafði frið á allar hliðar hringinn í kring,

25 svo að Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons.

26 Og Salómon hafði fjörutíu þúsund vagnhesta og tólf þúsund ríðandi menn.

27 Og fógetar þessir birgðu Salómon konung að vistum og alla þá, er komu að borði Salómons konungs, sinn mánuðinn hver. Létu þeir ekkert skorta.

28 Og bygg og hey handa akhestunum og gæðingunum fluttu þeir þangað, er hann var, hver eftir því sem honum bar.

29 Og Guð veitti Salómon afar mikla speki og visku og djúpsæi andans, sem sandur er margur á sjávarströnd,

30 og speki Salómons var meiri en speki allra austurbyggja og öll speki Egyptalands.

31 Og hann var allra manna vitrastur, vitrari en Etan Esrahíti og Heman og Kalkól og Darda Mahólssynir, og hann var nafnfrægur með öllum þjóðum umhverfis.

32 Hann mælti þrjú þúsund orðskviðu, og ljóð hans voru eitt þúsund og fimm að tölu.

33 Og hann talaði um trén, allt frá sedrustrjánum á Líbanon til ísópsins, sem sprettur á múrveggnum. Og hann talaði um fénað og fugla, orma og fiska,

34 og menn komu af öllum þjóðum til þess að heyra speki Salómons, frá öllum konungum jarðarinnar, er heyrðu speki hans getið.

Híram konungur í Týrus sendi þjóna sína til Salómons, því hann hafði heyrt að hann hefði verið smurður til konungs í stað föður síns, en Híram hafði ætíð verið góðvinur Davíðs.

Og Salómon sendi boð til Hírams og lét segja honum:

"Þú veist sjálfur, að Davíð faðir minn mátti eigi reisa hús nafni Drottins, Guðs síns, vegna ófriðar þess, er hann varð að eiga í á allar hliðar, uns Drottinn lagði óvini hans undir iljar honum.

En nú hefir Drottinn, Guð minn, veitt mér frið allt umhverfis. Á ég engan mótstöðumann og ekkert er framar að meini.

Fyrir því hefi ég í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Guðs míns, eins og Drottinn sagði við Davíð, föður minn, er hann mælti: ,Sonur þinn, er ég set í hásæti þitt í þinn stað, hann skal reisa hús mínu nafni.`

Bjóð því nú að höggva sedrustré á Líbanon handa mér, og þjónar mínir skulu vera með þínum þjónum. Skal ég greiða þér kaup fyrir þjóna þína, slíkt er þú sjálfur tiltekur. Því að þú veist sjálfur, að með oss er enginn maður, er kunni að skógarhöggi sem Sídoningar."

Þegar Híram heyrði orðsending Salómons, varð hann harla glaður og sagði: "Lofaður sé Drottinn í dag, er gefið hefir Davíð vitran son til að ríkja yfir þessari fjölmennu þjóð."

Og Híram sendi menn til Salómons og lét segja honum: "Ég hefi heyrt þá orðsending, er þú gjörðir mér. Skal ég gjöra að ósk þinni um sedrusviðinn og kýpresviðinn.

Mínir menn skulu flytja viðinn ofan frá Líbanon til sjávar, og ég skal láta leggja hann í flota í sjónum og flytja þangað sem þú segir til um. Þar læt ég taka sundur flotana, en þú lætur sækja. En þú skalt gjöra að ósk minni og láta mig fá vistir handa hirð minni."

10 Og Híram lét Salómon fá eins mikið af sedrusviði og kýpresviði og hann vildi.

11 En Salómon lét Híram fá tuttugu þúsund kór af hveiti til matar fyrir hirð hans og tuttugu þúsund bat af olíu úr steyttum olífuberjum. Þetta lét Salómon Híram fá á ári hverju.

12 Og Drottinn hafði veitt Salómon speki, eins og hann hafði heitið honum. Og það fór vel á með þeim Híram og Salómon, og þeir gjörðu sáttmála sín á milli.

13 Salómon konungur bauð út kvaðarmönnum úr öllum Ísrael, og urðu kvaðarmennirnir þrjátíu þúsundir að tölu.

14 Og hann sendi þá til skiptis til Líbanon, tíu þúsundir á mánuði hverjum. Skyldu þeir vera einn mánuð á Líbanon, en tvo mánuði heima hjá sér. Adóníram var yfir kvaðarmönnum.

15 Og Salómon hafði sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara í fjöllunum,

16 auk yfirfógeta Salómons, er fyrir verkinu stóðu, þrjú þúsund og þrjú hundruð að tölu. Skyldu þeir hafa umsjón með þeim mönnum, er verkið unnu.

17 Og að boði konungs hjuggu þeir stóra steina, úthöggna steina, til þess að byggja musterisgrunninn úr höggnu grjóti.

18 Og smiðir Salómons og Hírams og Gíblítar hjuggu þá til, undirbjuggu viðinn og steinana til þess að reisa musterið.