A A A A A
Bible Book List

Fyrri bók konunganna 1-2 Icelandic Bible (ICELAND)

Davíð konungur var nú orðinn gamall og hniginn að aldri, og þótt hann væri þakinn sængurfötum, gat honum ekki hitnað.

Fyrir því sögðu þjónar hans við hann: "Það ætti að leita að yngismey handa mínum herra konunginum til þess að þjóna konunginum og hjúkra honum. Skal hún liggja við brjóst þitt, til þess að mínum herra konunginum megi hitna."

Síðan var leitað að fríðri stúlku í öllu Ísraelslandi, og fundu menn Abísag frá Súnem og fóru með hana til konungs.

En stúlkan var forkunnar fríð og hjúkraði konungi og þjónaði honum, en konungur kenndi hennar ekki.

Adónía sonur Haggítar hreykti sér upp og hugsaði með sér: "Ég vil verða konungur." Og hann fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu.

En faðir hans hafði aldrei angrað hann á ævinni með því að segja við hann: "Hví hefir þú gjört þetta?" Auk þess var hann mjög fríður sýnum og næstur Absalon að aldri.

Hann átti og ráðstefnur við Jóab Serújuson og Abjatar prest, og fylgdu þeir Adónía að málum.

En Sadók prestur, Benaja Jójadason, Natan spámaður, Símeí, Reí og kappar Davíðs fylgdu eigi Adónía.

Adónía slátraði sauðum og nautum og alikálfum hjá Höggormssteini, sem er hjá Rógel-lind, og bauð til öllum bræðrum sínum, konungssonunum, og öllum Júdamönnum, þegnum konungs.

10 En Natan spámanni, Benaja og köppunum og Salómon bróður sínum bauð hann ekki.

11 Þá mælti Natan við Batsebu, móður Salómons, á þessa leið: "Hefir þú ekki heyrt, að Adónía sonur Haggítar er orðinn konungur, og Davíð, herra vor, veit það ekki?

12 Kom þú nú, og vil ég leggja þér ráð, hversu þú megir forða lífi þínu og lífi Salómons sonar þíns.

13 Far þú og gakk fyrir Davíð konung og seg við hann: ,Hefir þú ekki, minn herra konungur, unnið ambátt þinni eið og sagt: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu? Hví er þá Adónía orðinn konungur?`

14 Sjá, meðan þú enn ert að tala þar við konung, skal ég koma á eftir þér og staðfesta orð þín."

15 Þá gekk Batseba fyrir konung inn í svefnhúsið, en konungur var þá gamall mjög, og Abísag frá Súnem þjónaði honum.

16 Batseba hneigði sig og laut konungi. Konungur mælti: "Hvað er þér á höndum?"

17 Hún sagði við hann: "Herra minn, þú hefir unnið ambátt þinni svolátandi eið við Drottin, Guð þinn: ,Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu.`

18 En sjá, nú er Adónía orðinn konungur, og þú veist það ekki, minn herra konungur!

19 Hann hefir slátrað fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og boðið til öllum konungssonum og Abjatar presti og Jóab hershöfðingja, en Salómon þjóni þínum hefir hann ekki boðið.

20 Og nú standa augu allra Ísraelsmanna á þér, minn herra konungur, að þú gjörir kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag.

21 Ella mun svo fara, þegar minn herra konungurinn hvílir hjá feðrum sínum, að ég og Salómon sonur minn munum talin óbótamenn."

22 En meðan hún var að tala við konung, kom Natan spámaður.

23 Og konungi var sagt: "Natan spámaður er hér kominn." Gekk hann þá inn fyrir konung og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi

24 og mælti: "Minn herra konungur, hefir þú sagt: ,Adónía skal vera konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu?`

25 Því að hann fór niður eftir í dag og slátraði fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og bauð til öllum konungssonunum, hershöfðingjunum og Abjatar presti. Þeir eru nú að eta og drekka hjá honum og hrópa: ,Adónía konungur lifi!`

26 En mér, þjóni þínum, Sadók presti, Benaja Jójadasyni og Salómon þjóni þínum bauð hann ekki.

27 Er þetta orðið að tilhlutun míns herra konungsins, þar sem þú hefir ekki gjört þjónum þínum kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag?"

28 Þá svaraði Davíð konungur og mælti: "Kallið á Batsebu!" Gekk hún þá inn fyrir konung. Og er hún stóð frammi fyrir konungi,

29 sór konungur og sagði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum:

30 Eins og ég sór þér við Drottin, Ísraels Guð, og sagði: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu í minn stað _ svo vil ég staðfesta það í dag."

31 Þá hneigði Batseba ásjónu sína til jarðar, laut konungi og mælti: "Minn herra Davíð konungur lifi eilíflega!"

32 Þá sagði Davíð konungur: "Kallið á Sadók prest, Natan spámann og Benaja Jójadason." Þeir gengu síðan fyrir konung.

33 Og konungur sagði við þá: "Takið með yður þjóna herra yðar, setjið Salómon son minn á múl minn og farið með hann til Gíhonlindar.

34 Skal Sadók prestur og Natan spámaður smyrja hann þar til konungs yfir Ísrael. Þeytið síðan lúðurinn og hrópið: ,Salómon konungur lifi!`

35 Komið síðan með honum hingað, og skal hann þá koma og setjast í hásæti mitt og vera konungur í minn stað, því að hann hefi ég skipað til að vera höfðingja yfir Ísrael og Júda."

36 Þá svaraði Benaja Jójadason konungi og mælti: "Veri það svo; Drottinn, Guð míns herra konungsins, gefi það.

37 Eins og Drottinn hefir verið með mínum herra konunginum, svo sé hann og með Salómon og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti míns herra, Davíðs konungs."

38 Þá fóru þeir Sadók prestur, Natan spámaður, Benaja Jójadason og Kretar og Pletar og settu Salómon á múl Davíðs konungs og fóru með hann til Gíhonlindar.

39 Þá tók Sadók prestur olíuhornið úr tjaldinu og smurði Salómon. Þá þeyttu þeir lúðurinn, og allur lýðurinn hrópaði: "Lifi Salómon konungur!"

40 Síðan fór allur lýðurinn heim aftur með honum, og menn blésu á hljóðpípur og létu feginslátum, svo að við sjálft lá, að jörðin rifnaði af ópi þeirra.

41 Adónía og allir þeir, sem hann hafði í boði sínu, heyrðu þetta, er þeir höfðu lokið máltíðinni. Þegar Jóab heyrði lúðurhljóminn, mælti hann: "Hví er öll borgin í uppnámi?"

42 En er hann var þetta að mæla, kom Jónatan, sonur Abjatars prests. Þá sagði Adónía: "Kom þú hingað, því að þú ert sæmdarmaður og munt flytja góð tíðindi."

43 Þá svaraði Jónatan og sagði við Adónía: "Það er nú svo! Herra vor, Davíð konungur, hefir gjört Salómon að konungi.

44 Konungur hefir sent með honum Sadók prest, Natan spámann, Benaja Jójadason og Kreta og Pleta, og þeir hafa sett hann á múl konungs.

45 Og þeir Sadók prestur og Natan spámaður hafa smurt hann til konungs við Gíhonlind. Þaðan fóru þeir heim fagnandi, svo að öll borgin er komin í uppnám. Þetta er hávaðinn, sem þér hafið heyrt.

46 Salómon hefir meira að segja setst í konungshásætið.

47 Sömuleiðis komu þjónar konungs til þess að árna herra vorum, Davíð konungi, heilla, og sögðu: ,Guð þinn gjöri nafn Salómons enn víðfrægara en nafn þitt, og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti þitt!` og hneigði konungur sig í hvílu sinni.

48 Konungur hefir og mælt svo: ,Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, sem í dag hefir skipað eftirmann í hásæti mitt og látið mér auðnast að líta það."`

49 Þá skelfdust allir boðsgestir Adónía, héldu af stað, og fór hver leiðar sinnar.

50 En Adónía var hræddur við Salómon, hélt af stað og fór burt og greip um altarishornin.

51 Var Salómon sagt frá því með svofelldum orðum: "Sjá, Adónía er hræddur við Salómon konung, heldur um altarishornin og segir: ,Salómon konungur sverji mér í dag, að hann skuli ekki láta taka þjón sinn af lífi."`

52 Þá sagði Salómon: "Komi hann fram sem góður drengur skal ekki eitt af hárum hans falla til jarðar, en reynist hann ódrengur skal hann lífi týna."

53 Þá sendi Salómon konungur og lét taka hann frá altarinu, og er hann kom og laut Salómon konungi, sagði Salómon við hann: "Far þú heim til þín."

Þegar dauðadagur Davíðs nálgaðist, lagði hann svo fyrir Salómon son sinn:

"Ég geng nú veg allrar veraldar, en ver þú hugrakkur og lát sjá, að þú sért maður.

Gæt þú þess, sem Drottinn, Guð þinn, af þér heimtar, að þú gangir á vegum hans og haldir lög hans, boðorð, ákvæði og fyrirmæli, eins og skrifað er í lögmáli Móse, svo að þú verðir lánsamur í öllu, sem þú gjörir og hvert sem þú snýr þér,

svo að Drottinn efni orð sín, þau er hann hefir við mig talað, er hann sagði: ,Ef synir þínir varðveita vegu sína, með því að ganga dyggilega fyrir augliti mínu af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, þá skal þig,` _ mælti hann _ ,ekki vanta eftirmann í hásæti Ísraels.`

Þú veist og sjálfur, hvað Jóab Serújuson hefir gjört mér, hversu hann hefir farið með báða hershöfðingja Ísraels, þá Abner Nersson og Amasa Jetersson, þar sem hann myrti þá og vann þannig víg í griðum og ataði blóði beltið um lendar sér og skóna á fótum sér, eins og í ófriði væri.

Neyt þú hygginda þinna og lát eigi hærur hans fara til Heljar í friði.

En sýn þú mildi sonum Barsillaí Gíleaðíta og lát þá vera meðal þeirra, sem eta við borð þitt, því að svo gjörðu þeir til mín, þá er ég flýði fyrir Absalon, bróður þínum.

Símeí Gerasson Benjamíníti frá Bahúrím er og með þér. Hann formælti mér gífurlega, þá er ég fór til Mahanaím. En hann kom til móts við mig niður að Jórdan, og vann ég honum svolátandi eið við Drottin: ,Ég skal eigi láta drepa þig.`

En þú skalt eigi láta honum óhegnt, því að þú ert maður vitur og munt vita, hvað þú átt að gjöra við hann, til þess að þú getir sent hærur hans blóðugar til Heljar."

10 Síðan lagðist Davíð til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg.

11 En sá tími, sem Davíð hafði ríkt yfir Ísrael, var fjörutíu ár. Í Hebron ríkti hann sjö ár og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár.

12 Og Salómon settist í hásæti Davíðs föður síns, og efldist ríki hans mjög.

13 Þá fór Adónía, sonur Haggítar, til Batsebu, móður Salómons. Hún sagði: "Kemur þú góðu heilli?" Hann svaraði: "Svo er víst."

14 Síðan mælti hann: "Ég á erindi við þig." Hún mælti: "Tala þú!"

15 Þá mælti hann: "Þú veist sjálf, að konungdómurinn tilheyrði mér og að allur Ísrael hafði augastað á mér sem konungsefni, en nú hefir þetta farið á annan veg og konungdómurinn lent hjá bróður mínum, því að Drottinn hafði ákvarðað honum hann.

16 Nú bið ég þig einnar bónar. Vísa þú mér ekki frá." Hún sagði við hann: "Tala þú!"

17 Þá mælti hann: "Bið þú Salómon konung _ því að hann mun ekki vísa þér frá _ að gefa mér Abísag frá Súnem fyrir konu."

18 Batseba mælti: "Gott og vel, ég skal sjálf túlka mál þitt við konung."

19 Þá gekk Batseba á fund Salómons konungs til þess að tala máli Adónía við hann. Konungur stóð upp á móti henni, laut henni og settist síðan í hásæti sitt og lét setja fram stól handa konungsmóður. Settist hún til hægri handar konungi.

20 Þá mælti hún: "Ég bið þig einnar lítillar bónar. Vísa þú mér eigi frá." Konungur sagði við hana: "Bið þú, móðir mín. Eigi mun ég vísa þér frá."

21 Þá mælti hún: "Leyf þú, að Abísag frá Súnem verði gefin Adónía, bróður þínum, fyrir konu."

22 Þá svaraði Salómon konungur og sagði við móður sína: "Hví biður þú um Abísag frá Súnem til handa Adónía? Bið heldur um konungsríkið honum til handa, því að hann er bróðir minn mér eldri, og Abjatar prestur og Jóab Serújuson eru stuðningsmenn hans."

23 Og Salómon konungur sór við Drottin og mælti: "Guð gjöri við mig hvað sem hann vill nú og síðar: Fyrir beiðni þessa skal Adónía lífinu týna.

24 Og nú, svo sannarlega sem Drottinn lifir, er mér hefir til valda komið og sett mig í hásæti Davíðs föður míns og reist mér hús, eins og hann hafði heitið: Adónía skal líflátinn þegar í dag!"

25 Síðan sendi Salómon konungur Benaja Jójadason með þessu erindi. Vann hann á honum, og lét Adónía þannig líf sitt.

26 En við Abjatar prest sagði konungur: "Far þú til bús þíns í Anatót, því að þú ert dauða sekur. En eigi vil ég drepa þig að sinni, því að þú hefir borið örk Drottins Guðs fyrir Davíð föður mínum og allar þær nauðir, sem faðir minn þoldi, hefir þú þolað með honum."

27 Síðan rak Salómon Abjatar burt, svo að hann væri eigi lengur prestur Drottins, til þess að orð Drottins skyldu rætast, þau er hann talaði um hús Elí í Síló.

28 Nú spyr Jóab þessi tíðindi. En Jóab hafði fylgt Adónía að málum, en Absalon hafði hann eigi fylgt að málum. Jóab flýði þá til tjalds Drottins og greip um altarishornin.

29 Salómon konungi var þá sagt: "Jóab er flúinn í tjald Drottins og stendur við altarið." Sendi þá Salómon Benaja Jójadason og sagði: "Far þú og vinn á honum."

30 Fór þá Benaja til tjalds Drottins og mælti til Jóabs: "Svo segir konungur: Gakk þú út." Jóab svaraði: "Nei, hér vil ég deyja." Færði Benaja þá konungi svar hans og sagði: "Svo mælti Jóab, og svo svaraði hann mér."

31 Konungur sagði við hann: "Gjör sem hann sagði. Vinn þú á honum og jarða hann og hreinsa þannig af mér og ætt minni blóð það, er Jóab úthellti án saka.

32 Drottinn láti blóð hans koma honum í koll, þar sem hann vó tvo menn, er réttlátari voru og betri en hann, og myrti þá með sverði, án þess að Davíð faðir minn vissi af því, þá Abner Nersson, hershöfðingja Ísraels, og Amasa Jetersson, hershöfðingja Júda.

33 Skal blóð þeirra koma Jóab í koll og niðjum hans að eilífu, en Davíð og niðjar hans, hús hans og hásæti hljóti að eilífu heill af Drottni."

34 Síðan fór Benaja Jójadason, vann á honum og drap hann, og var hann grafinn í húsi sínu í eyðimörkinni.

35 Og konungur skipaði Benaja Jójadason yfir herinn í hans stað, og Sadók prest skipaði hann í stað Abjatars.

36 Því næst sendi konungur boð og lét kalla Símeí og sagði við hann: "Reis þér hús í Jerúsalem og bú þar, en eigi mátt þú fara neitt þaðan.

37 En það skaltu vita fyrir víst, að á þeim degi, sem þú fer þaðan og gengur yfir Kídronlæk, skaltu deyja. Mun þá blóð þitt sjálfum þér í koll koma."

38 Símeí svaraði konungi: "Það læt ég mér vel líka. Eins og minn herra konungurinn hefir sagt, svo skal þjónn þinn gjöra." Og Símeí bjó í Jerúsalem langa hríð.

39 Eftir þrjú ár bar svo við, að tveir þrælar Símeí struku til Akís Maakasonar, konungs í Gat. Og Símeí var sagt svo frá: "Þrælar þínir eru í Gat."

40 Þá tók Símeí sig til, söðlaði asna sinn og hélt til Gat til Akís til þess að leita að þrælum sínum, og Símeí fór og hafði heim með sér þræla sína frá Gat.

41 Var nú Salómon sagt frá því, að Símeí hefði farið frá Jerúsalem til Gat og væri kominn heim aftur.

42 Þá sendi konungur boð og lét kalla Símeí og sagði við hann: "Hefi ég ekki sært þig við Drottin og lagt ríkt á við þig og sagt: ,Það skaltu vita fyrir víst, að á þeim degi, sem þú gengur að heiman og fer eitthvað burt, skaltu deyja.` Og þú sagðir við mig: ,Ég hefi heyrt það og læt mér vel líka.`

43 Hvers vegna hefir þú ekki haldið eið þann, er Drottni var svarinn, og skipun þá er ég fyrir þig lagði?"

44 Enn fremur mælti konungur við Símeí: "Þú þekkir alla þá illsku og ert þér hennar meðvitandi, er þú hafðir í frammi við Davíð föður minn, og mun nú Drottinn láta þér illsku þína í koll koma.

45 En Salómon konungur blessist og hásæti Davíðs standi stöðugt fyrir Drottni að eilífu."

46 Og konungur bauð Benaja Jójadasyni, og hann fór og vann á honum, og lét hann þannig líf sitt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Sálmarnir 37 Icelandic Bible (ICELAND)

37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,

því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,

þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.

Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.

10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.

11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.

13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.

14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.

15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.

16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,

17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.

18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.

19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.

20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.

21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.

22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.

23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.

24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.

25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.

26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.

27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,

28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.

29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.

30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.

31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.

32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,

33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.

34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.

35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,

36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.

37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,

38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.

39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.

40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Sálmarnir 71 Icelandic Bible (ICELAND)

71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.

Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.

Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.

Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.

Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.

Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.

Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.

Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.

Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.

10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:

11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."

12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.

13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.

14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.

15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.

16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.

17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.

18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.

19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?

20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.

21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.

22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.

23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.

24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Sálmarnir 94 Icelandic Bible (ICELAND)

94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!

Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!

Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?

Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.

Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,

drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa

og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."

Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?

Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?

10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?

11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.

12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,

13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.

14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,

15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.

16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?

17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.

18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.

19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.

20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?

21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.

22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.

23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes