A A A A A
Bible Book List

Fyrra bréf Páls til Korin 5-8 Icelandic Bible (ICELAND)

Það er mér sagt að saurlifnaður eigi sér stað á meðal yðar, og það slíkur saurlifnaður, sem jafnvel gerist ekki meðal heiðingja, að maður heldur við konu föður síns.

Og svo eruð þér stærilátir, í stað þess að hryggjast og gjöra gangskör að því, að manninum, sem þetta hefur drýgt, yrði útrýmt úr félagi yðar!

Ég fyrir mitt leyti, fjarlægur að líkamanum til, en nálægur að andanum, hef þegar, eins og ég væri nálægur, kveðið upp dóm í nafni Drottins vors Jesú yfir manni þeim, sem þetta hefur drýgt:

Þegar þér og minn andi eruð saman komnir með krafti Drottins vors Jesú,

skal selja slíkan mann Satan á vald til tortímingar holdinu, til þess að andinn megi hólpinn verða á degi Drottins Jesú.

Ekki hafið þér ástæðu til að stæra yður! Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir allt deigið?

Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur.

Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Ég ritaði yður í bréfinu, að þér skylduð ekki umgangast saurlífismenn.

10 Átti ég þar ekki við saurlífismenn þessa heims yfirleitt, ásælna og ræningja eða hjáguðadýrkendur, því að þá hefðuð þér orðið að fara út úr heiminum.

11 En nú rita ég yður, að þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.

12 Hvað skyldi ég vera að dæma þá, sem fyrir utan eru? Dæmið þér ekki þá, sem fyrir innan eru?

13 Og mun ekki Guð dæma þá, sem fyrir utan eru? "Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi."

Getur nokkur yðar, sem hefur sök móti öðrum, fengið af sér að leggja málið undir dóm heiðinna manna, en ekki hinna heilögu?

Eða vitið þér ekki, að hinir heilögu eiga að dæma heiminn? Og ef þér eigið að dæma heiminn, eruð þér þá óverðugir að dæma í hinum minnstu málum?

Vitið þér eigi, að vér eigum að dæma engla? Hvað þá heldur tímanleg efni!

Þegar þér eigið að dæma um tímanleg efni, þá kveðjið þér að dómurum menn, sem að engu eru hafðir í söfnuðinum.

Ég segi það yður til blygðunar. Er þá enginn vitur til á meðal yðar, sem skorið geti úr málum milli bræðra?

Í stað þess á bróðir í máli við bróður og það fyrir vantrúuðum!

Annars er það nú yfirleitt galli á yður, að þér eigið í málaferlum hver við annan. Hví líðið þér ekki heldur órétt? Hví látið þér ekki heldur hafa af yður?

Í stað þess hafið þér rangsleitni í frammi og hafið af öðrum og það af bræðrum!

Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar,

10 þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.

11 Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.

12 Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt, en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér.

13 Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn, en Guð mun hvort tveggja að engu gjöra. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi, heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann.

14 Guð hefur uppvakið Drottin og mun uppvekja oss fyrir kraft sinn.

15 Vitið þér ekki, að líkamir yðar eru limir Krists? Á ég þá að taka limi Krists og gjöra þá að skækjulimum? Fjarri fer því.

16 Vitið þér ekki, að sá er samlagar sig skækjunni verður ásamt henni einn líkami? Því að sagt er: "Þau tvö munu verða eitt hold."

17 En sá er samlagar sig Drottni er einn andi ásamt honum.

18 Flýið saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.

19 Vitið þér ekki, að líkami yðar er musteri heilags anda, sem í yður er og þér hafið frá Guði? Og ekki eruð þér yðar eigin.

20 Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð með líkama yðar.

En svo að ég minnist á það, sem þér hafið ritað um, þá er það gott fyrir mann að snerta ekki konu.

En vegna saurlifnaðarins hafi hver og einn sína eiginkonu og hver og ein hafi sinn eiginmann.

Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum.

Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama, heldur maðurinn. Sömuleiðis hefur og maðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama, heldur konan.

Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir, til þess að þér getið haft næði til bænahalds, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna ístöðuleysis yðar.

Þetta segi ég í tilhliðrunarskyni, ekki sem skipun.

En þess óska ég, að allir menn væru eins og ég er sjálfur, en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina.

Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég.

En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.

10 Þeim, sem gengið hafa í hjónaband, býð ég, þó ekki ég, heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, _

11 en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn _, og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna.

12 En við hina segi ég, ekki Drottinn: Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana.

13 Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við manninn.

14 Því að vantrúaði maðurinn er helgaður í konunni og vantrúaða konan er helguð í bróðurnum. Annars væru börn yðar óhrein, en nú eru þau heilög.

15 En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði.

16 Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?

17 Þó skal hver og einn vera í þeirri stöðu, sem Drottinn hefur úthlutað honum, eins og hann var, þegar Guð kallaði hann. Þannig skipa ég fyrir í öllum söfnuðunum.

18 Sá sem var umskorinn, þegar hann var kallaður, breyti því ekki. Sá sem var óumskorinn, láti ekki umskera sig.

19 Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að halda boðorð Guðs.

20 Hver og einn sé kyrr í þeirri stöðu, sem hann var kallaður í.

21 Varst þú þræll, er þú varst kallaður? Set það ekki fyrir þig, en gjör þér gott úr því, en ef þú getur orðið frjáls, þá kjós það heldur.

22 Því að sá þræll, sem kallaður er í Drottni, er frelsingi Drottins. Á sama hátt er sá, sem kallaður er sem frjáls, þræll Krists.

23 Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.

24 Bræður, sérhver verði frammi fyrir Guði kyrr í þeirri stétt, sem hann var kallaður í.

25 Um meyjarnar hef ég enga skipun frá Drottni. En álit mitt læt ég í ljós eins og sá, er hlotið hefur þá náð af Drottni að vera trúr.

26 Mín skoðun er, að vegna yfirstandandi neyðar sé það gott fyrir mann að vera þannig.

27 Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus. Ertu laus orðinn við konu? Leita þá ekki kvonfangs.

28 En þótt þú kvongist, syndgar þú ekki, og ef mærin giftist, syndgar hún ekki. En þrenging munu slíkir hljóta hér á jörð, en ég vildi hlífa yður.

29 En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki,

30 þeir sem gráta, eins og þeir grétu ekki, þeir sem fagna, eins og þeir fögnuðu ekki, þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki því, sem þeir kaupa,

31 og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.

32 En ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast.

33 En hinn kvænti ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni,

34 og er tvískiptur. Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, til þess að hún megi vera heilög, bæði að líkama og anda. En hin gifta kona ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hún megi þóknast manninum.

35 Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin.

36 Ef einhver telur sig ekki geta vansalaust búið með heitmey sinni, enda á manndómsskeiði, þá gjöri hann sem hann vill, ef ekki verður hjá því komist. Hann syndgar ekki. Giftist þau.

37 Sá þar á móti, sem er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður, en hefur fullt vald á vilja sínum og hefur afráðið í hjarta sínu að hún verði áfram mey, gjörir vel.

38 Þannig gjöra þá báðir vel, sá sem kvænist mey sinni, og hinn, sem kvænist henni ekki, hann gjörir betur.

39 Konan er bundin, meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni.

40 Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.

Þá er að minnast á kjötið, sem fórnað hefur verið skurðgoðum. Vér vitum, að þekking höfum vér allir. Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp.

Ef einhver þykist hafa öðlast þekkingu á einhverju, þá þekkir hann enn ekki eins og þekkja ber.

En ef einhver elskar Guð, þá er hann þekktur af honum.

En hvað varðar neyslu kjöts, sem fórnað hefur verið skurðgoðum, þá vitum vér, að skurðgoð er ekkert í heiminum og að enginn er Guð nema einn.

Því að enda þótt til séu svo nefndir guðir, hvort heldur er á himni eða á jörðu, _ enda eru margir guðir og margir herrar _,

þá höfum vér ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn Drottin, Jesú Krist, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann.

En ekki hafa allir þessa þekkingu. Af gömlum vana eta nokkrir kjötið allt til þessa sem fórnarkjöt, og þá saurgast samviska þeirra, sem er óstyrk.

En matur mun ekki gjöra oss þóknanlega Guði. Hvorki missum vér neins, þótt vér etum það ekki, né ávinnum vér neitt, þótt vér etum.

En gætið þess, að þetta frelsi yðar verði ekki hinum óstyrku að falli.

10 Því sjái einhver þig, sem hefur þekkingu á þessu, sitja til borðs í goðahofi, mundi það ekki stæla samvisku þess, sem óstyrkur er, til að neyta fórnarkjöts?

11 Hinn óstyrki glatast þá vegna þekkingar þinnar, bróðirinn, sem Kristur dó fyrir.

12 Þegar þér þannig syndgið gegn bræðrunum og særið óstyrka samvisku þeirra, þá syndgið þér á móti Kristi.

13 Þess vegna mun ég, ef matur verður bróður mínum til falls, um aldur og ævi ekki kjöts neyta, til þess að ég verði bróður mínum ekki til falls.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes