Add parallel Print Page Options

18 Eftir þetta vann Davíð sigur á Filistum og braut þá undir sig, og náði Gat og borgunum umhverfis hana úr höndum Filista.

Hann vann og sigur á Móabítum, og þannig urðu Móabítar skattskyldir þegnar Davíðs.

Davíð vann og sigur á Hadareser, konungi í Sóba, er liggur á leið til Hamat, þá er hann fór leiðangur til að festa ríki sitt við Efratfljót.

Vann Davíð af honum þúsund vagna, sjö þúsund riddara og tuttugu þúsundir fótgönguliðs. Lét Davíð skera sundur hásinarnar á öllum stríðshestunum og hélt aðeins einu hundraði eftir.

Þegar Sýrlendingar frá Damaskus komu til liðs við Hadareser, konung í Sóba, þá felldi Davíð tuttugu og tvö þúsund manns af Sýrlendingum.

Og Davíð setti landstjóra á Sýrlandi, því er kennt er við Damaskus, og urðu Sýrlendingar skattskyldir þegnar Davíðs. Þannig veitti Drottinn Davíð sigur, hvert sem hann fór.

Davíð tók og hina gullnu skjöldu, er þjónar Hadaresers höfðu borið, og flutti til Jerúsalem.

Auk þess tók Davíð afar mikið af eiri í Teba og Kún, borgum Hadaresers. Af því gjörði Salómon eirhafið, súlurnar og eiráhöldin.

Þegar Tóú, konungur í Hamat, frétti að Davíð hefði lagt að velli allan her Hadaresers, konungs í Sóba,

10 þá sendi Tóú Hadóram son sinn á fund Davíðs konungs til þess að heilsa á hann og árna honum heilla, er hann hafði barist við Hadareser og unnið sigur á honum, því að Tóú átti í ófriði við Hadareser. Og með honum sendi hann alls konar gripi af gulli, silfri og eiri.

11 Gripina helgaði Davíð konungur einnig Drottni, ásamt silfri því og gulli, er hann hafði haft á burt frá öllum þjóðum: frá Edóm, Móab, Ammónítum, Filistum og Amalek.

12 Og Abísaí Serújuson vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, átján þúsundum manns.

13 Og hann setti landstjóra í Edóm, og allir Edómítar urðu þegnar Davíðs. En Drottinn veitti Davíð sigur, hvert sem hann fór.

14 Og Davíð ríkti yfir öllum Ísrael og lét alla þjóð sína njóta laga og réttar.

15 Jóab Serújuson var fyrir hernum og Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari,

16 Sadók Ahítúbsson og Abímelek Abjatarsson voru prestar og Savsa kanslari.

17 Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum, og synir Davíðs voru hinir fyrstu við hönd konungi.

19 Eftir þetta bar svo til, að Nahas Ammónítakonungur andaðist, og tók Hanún sonur hans ríki eftir hann.

Þá sagði Davíð: "Ég vil sýna Hanún Nahassyni vináttu, því að faðir hans sýndi mér vináttu." Síðan sendi Davíð sendimenn til þess að hugga hann eftir föðurmissinn. En er þjónar Davíðs komu í land Ammóníta til Hanúns til þess að hugga hann,

þá sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún: "Hyggur þú að Davíð vilji heiðra föður þinn, er hann gjörir menn á þinn fund til að hugga þig? Munu ekki þjónar hans vera komnir á þinn fund til þess að njósna í borginni og til þess að eyðileggja og kanna landið?"

Þá lét Hanún taka þjóna Davíðs og nauðraka þá og skera af þeim klæðin til hálfs, upp á þjóhnappa, og lét þá síðan fara.

Fóru menn þá og sögðu Davíð af mönnunum, og sendi hann þá á móti þeim _ því að mennirnir voru mjög svívirtir _ og konungur lét segja þeim: "Verið í Jeríkó uns skegg yðar er vaxið, og komið síðan heim aftur."

En er Ammónítar sáu, að þeir höfðu gjört sig illa þokkaða hjá Davíð, þá sendu þeir Hanún og Ammónítar þúsund talentur silfurs til þess að leigja sér vagna og riddara hjá Sýrlendingum í Mesópótamíu og hjá Sýrlendingum í Maaka og Sóba.

Leigðu þeir sér síðan þrjátíu og tvö þúsund vagna og konunginn í Maaka og lið hans, komu þeir og settu herbúðir fyrir framan Medeba. Og Ammónítar söfnuðust saman úr borgum sínum og komu til bardagans.

En er Davíð frétti það, sendi hann Jóab af stað með allan kappaherinn.

Ammónítar fóru og út og fylktu liði sínu við borgarhliðið, en konungarnir, er komnir voru, stóðu úti á víðavangi einir sér.

10 Þegar Jóab sá, að honum var búinn bardagi, bæði að baki og að framan, valdi hann úr öllu einvalaliði Ísraels og fylkti því á móti Sýrlendingum.

11 Hitt liðið fékk hann Abísaí bróður sínum, og fylktu þeir því á móti Ammónítum.

12 Og Jóab mælti: "Ef Sýrlendingar bera mig ofurliði, þá verður þú að hjálpa mér, en ef Ammónítar bera þig ofurliði, mun ég hjálpa þér.

13 Vertu hughraustur og sýnum nú af oss karlmennsku fyrir þjóð vora og borgir Guðs vors, en Drottinn gjöri það sem honum þóknast."

14 Síðan lagði Jóab og liðið, sem með honum var, til orustu við Sýrlendinga, og þeir flýðu fyrir honum.

15 En er Ammónítar sáu, að Sýrlendingar flýðu fyrir Jóab, lögðu þeir og á flótta fyrir Abísaí bróður hans og leituðu inn í borgina. En Jóab fór til Jerúsalem.

16 Þegar Sýrlendingar sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, þá sendu þeir menn og buðu út Sýrlendingum, sem voru hinumegin við Efrat, og Sófak, hershöfðingi Hadaresers, var fyrir þeim.

17 Og er Davíð var sagt frá því, þá safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan og kom til Helam, og fylkti í móti þeim. Sýrlendingar fylktu liði sínu í móti Davíð og börðust við hann.

18 En Sýrlendingar flýðu fyrir Ísrael, og Davíð felldi sjö þúsund vagnkappa og fjörutíu þúsund manns af fótgönguliði, og Sófak hershöfðingja drap hann.

19 En er þjónar Hadaresers sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, sömdu þeir frið við Davíð og gjörðust lýðskyldir honum. Upp frá því vildu Sýrlendingar eigi veita Ammónítum lið.

20 Á næsta ári, um það leyti er konungar fara í hernað, hélt Jóab út með liðinu og herjaði land Ammóníta. Og hann kom og settist um Rabba, en Davíð dvaldist í Jerúsalem. Og Jóab vann Rabba og braut hana.

Og Davíð tók kórónu Milkóms af höfði honum og komst að raun um, að hún vó talentu gulls, og í henni var dýrindis steinn. Davíð setti hana á höfuð sér og flutti mjög mikið herfang burt úr borginni.

Hann flutti og burt fólkið, sem þar var, og setti það við sagirnar, járnfleygana og axirnar, og svo fór Davíð með allar borgir Ammóníta. Síðan fór Davíð ásamt öllu liðinu aftur heim til Jerúsalem.

Seinna tókst enn orusta hjá Geser við Filista. Þá drap Sibbekaí Húsatíti Sippaí, einn af niðjum Refaíta, og urðu þeir að lúta í lægra haldi.

Og enn tókst orusta við Filista. Þá drap Elkanan Jaírsson Lahmí, bróður Golíats frá Gat. Spjótskaft hans var sem vefjarrifur.

Og er enn tókst orusta hjá Gat, var þar tröllaukinn maður, er hafði sex fingur á hvorri hendi og sex tær á hvorum fæti, tuttugu og fjögur að tölu. Var hann og kominn af Refaítum.

Hann smánaði Ísrael, en Jónatan, sonur Símea, bróður Davíðs, drap hann.

Þessir voru komnir af Refaítum í Gat, og féllu þeir fyrir Davíð og mönnum hans.

21 Satan hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael.

Þá mælti Davíð við Jóab og höfðingja lýðsins: "Farið og teljið Ísrael frá Beerseba til Dan og látið mig vita það, svo að ég fái að vita tölu á þeim."

Jóab svaraði: "Drottinn margfaldi lýðinn _ hversu margir sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum. Þeir eru þó, minn herra konungur, allir þjónar herra míns. Hví æskir herra minn þessa? Hvers vegna á það að verða Ísrael til áfellis?"

En Jóab mátti eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Lagði Jóab þá af stað og fór um allan Ísrael og kom síðan aftur til Jerúsalem.

Og Jóab sagði Davíð töluna, er komið hafði út við manntalið: Í öllum Ísrael voru ein milljón og hundrað þúsundir vopnaðra manna, og í Júda fjögur hundruð og sjötíu þúsundir vopnaðra manna.

En Leví og Benjamín taldi hann eigi, því að Jóab hraus hugur við skipun konungs.

En þetta verk var illt í augum Guðs, og laust hann Ísrael.

Þá sagði Davíð við Guð: "Mjög hefi ég syndgað, er ég framdi þetta verk, en nú, tak þú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."

En Drottinn talaði til Gaðs, sjáanda Davíðs, á þessa leið:

10 "Far þú og mæl svo við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."

11 Þá gekk Gað til Davíðs og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Kjós þér,

12 annaðhvort að hungur verði í þrjú ár, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverð fjandmanna þinna nái þér, eða að sverð Drottins og drepsótt geisi í landinu í þrjá daga og engill Drottins valdi eyðingu í öllu Ísraelslandi. Hygg nú að, hverju ég eigi að svara þeim, er sendi mig."

13 Davíð svaraði Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Falli ég þá í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."

14 Drottinn lét þá drepsótt koma í Ísrael, og féllu sjötíu þúsundir manns af Ísrael.

15 Og Guð sendi engil til Jerúsalem til þess að eyða hana, og er hann var að eyða hana, leit Drottinn til og hann iðraði hins illa, og sagði við engilinn, er eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Ornans Jebúsíta.

16 Og Davíð hóf upp augu sín og sá engil Drottins standa milli himins og jarðar með brugðið sverð í hendi, er hann beindi gegn Jerúsalem. Þá féll Davíð og öldungarnir fram á andlit sér, klæddir hærusekkjum.

17 Og Davíð sagði við Guð: "Var það eigi ég, er bauð að telja fólkið? Það er ég, sem hefi syndgað og breytt mjög illa, en þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Drottinn, Guð minn, lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína, en eigi á lýð þinn til þess að valda mannhruni."

18 En engill Drottins bauð Gað að segja Davíð, að Davíð skyldi fara upp eftir til þess að reisa Drottni altari á þreskivelli Ornans Jebúsíta.

19 Og Davíð fór upp eftir að boði Gaðs, því er hann hafði talað í nafni Drottins.

20 Og er Ornan sneri sér við, sá hann konung koma og fjóra sonu hans með honum, en Ornan var að þreskja hveiti.

21 Og er Davíð kom til Ornans, leit Ornan upp og sá Davíð. Gekk hann þá út af þreskivellinum og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir Davíð.

22 Þá mælti Davíð við Ornan: "Lát þú þreskivöllinn af hendi við mig, svo að ég geti reist Drottni þar altari _ skalt þú selja mér það fullu verði _ og plágunni megi létta af lýðnum."

23 Ornan svaraði Davíð: "Tak þú það. Minn herra konungurinn gjöri sem honum þóknast. Sjá, ég gef nautin til brennifórnar og þreskisleðana til eldiviðar og hveitið til matfórnar, allt gef ég það."

24 En Davíð konungur sagði við Ornan: "Eigi svo, en kaupa vil ég það fullu verði, því að eigi vil ég taka það sem þitt er Drottni til handa og færa brennifórn, er ég hefi kauplaust þegið."

25 Síðan greiddi Davíð Ornan sex hundruð sikla gulls fyrir völlinn.

26 Og Davíð reisti Drottni þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum, og er hann ákallaði Drottin, svaraði hann honum með því að senda eld af himnum á brennifórnaraltarið.

27 Og Drottinn bauð englinum að slíðra sverð sitt.

28 Þá er Davíð sá, að Drottinn svaraði honum á þreskivelli Ornans Jebúsíta, þá færði hann þar fórnir.

29 En bústaður Drottins, er Móse hafði gjört í eyðimörkinni, og brennifórnaraltarið voru um það leyti á hæðinni í Gíbeon.

30 En Davíð gat eigi gengið fram fyrir það til þess að leita Guðs, því að hann var hræddur við sverð engils Drottins.