Add parallel Print Page Options

15 Davíð byggði hús handa sér í Davíðsborg, og hann bjó stað handa örk Guðs og reisti tjald fyrir hana.

Þá sagði Davíð: "Enginn má bera örk Guðs nema levítarnir, því að þá hefir Drottinn valið til þess að bera örk Guðs og til þess að þjóna sér að eilífu."

Síðan stefndi Davíð öllum Ísrael saman til Jerúsalem til þess að flytja örk Drottins á sinn stað, þann er hann hafði búið handa henni.

Og Davíð stefndi saman niðjum Arons og levítunum:

Af Kahatsniðjum: Úríel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tuttugu alls.

Af Meraríniðjum: Asaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð og tuttugu alls.

Af Gersómsniðjum: Jóel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og þrjátíu alls.

Af Elísafansniðjum: Semaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð alls.

Af Hebronsniðjum: Elíel, er var þeirra helstur, og frændum hans, áttatíu alls.

10 Af Ússíelsniðjum: Ammínadab, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tólf alls.

11 Síðan kallaði Davíð á Sadók og Abjatar presta og Úríel, Asaja, Jóel, Semaja, Elíel og Ammínadab levíta,

12 og mælti við þá: "Þér eruð ætthöfðingjar levíta. Helgið yður og frændur yðar og flytjið örk Drottins, Ísraels Guðs, á þann stað, er ég hefi búið handa henni.

13 Af því að þér voruð eigi við hið fyrra skipti, hefir Drottinn Guð vor lostið oss, af því að vér leituðum hans eigi svo sem vera bar."

14 Þá helguðu prestarnir og levítarnir sig til þess að flytja örk Drottins, Ísraels Guðs, upp eftir.

15 Síðan báru niðjar levíta örk Guðs, eins og Móse hafði fyrirskipað eftir boði Drottins, á stöngum á herðum sér.

16 Því næst bauð Davíð höfðingjum levíta að setja frændur þeirra, söngmennina, með hljóðfærum þeirra, hörpum, gígjum og skálabumbum, til þess að þeir skyldu láta fagnaðarglaum kveða við.

17 Settu levítar til þess Heman Jóelsson, og af frændum hans Asaf Berekíason, og af Meraríniðjum, frændum sínum, Etan Kúsajason,

18 og með þeim frændur þeirra af öðrum flokki: Sakaría Jaasíelsson, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Benaja, Maaseja, Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm og Jeíel hliðverði.

19 Auk þess söngvarana Heman, Asaf og Etan með skálabumbum úr eiri, til þess að syngja hátt,

20 og Sakaría, Asíel, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Maaseja og Benaja með hörpur, til þess að syngja háu raddirnar,

21 og Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm, Jeíel og Asaja með gígjur, til þess að syngja lægri raddirnar.

22 Kenanja, er var helstur levítanna við arkarburðinn, sá um arkarburðinn, því að hann bar skyn á það.

23 Berekía og Elkana voru hliðverðir arkarinnar.

24 Sebanja, Jósafat, Netaneel, Amasaí, Sakaría, Benaja og Elíeser prestar þeyttu lúðra frammi fyrir örk Guðs, og Óbeð Edóm og Jehía voru hliðverðir arkarinnar.

25 Davíð og öldungar Ísraels og þúsundhöfðingjarnir fóru til þess að flytja sáttmálsörk Drottins með fögnuði úr húsi Óbeð Edóms.

26 Og er Guð hjálpaði levítunum, er báru sáttmálsörk Drottins, fórnuðu þeir sjö nautum og sjö hrútum.

27 Og Davíð var klæddur baðmullarkyrtli, svo og allir levítarnir, er örkina báru, og söngmennirnir og Kenanja, burðarstjóri, æðstur söngmannanna, en Davíð bar línhökul.

28 Og allur Ísrael flutti sáttmálsörk Drottins upp eftir með fagnaðarópi og lúðurhljómi, með lúðrum og skálabumbum, og létu hljóma hörpur og gígjur.

29 En er sáttmálsörk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann. Og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa, fyrirleit hún hann í hjarta sínu.

16 Og þeir fluttu örk Guðs inn og settu hana í tjaldið, sem Davíð hafði reisa látið yfir hana, og þeir færðu brennifórnir og heillafórnir.

Og er Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnirnar, blessaði hann lýðinn í nafni Drottins

og úthlutaði öllum Ísraelsmönnum, körlum sem konum, sinn brauðhleifinn hverjum, kjötstykki og rúsínuköku.

Davíð setti menn af levítum til þess að gegna þjónustu frammi fyrir örk Drottins og til þess að tigna, lofa og vegsama Drottin, Guð Ísraels.

Var Asaf helstur þeirra og honum næstur gekk Sakaría, þá Jeíel, Semíramót, Jehíel, Mattitja, Elíab, Benaja, Óbeð Edóm og Jeíel með hljóðfærum, hörpum og gígjum, en Asaf lét skálabumburnar kveða við,

og Benaja og Jehasíel prestar þeyttu stöðugt lúðrana frammi fyrir sáttmálsörk Guðs.

Á þeim degi fól Davíð í fyrsta sinni Asaf og frændum hans að syngja "Lofið Drottin."

Lofið Drottin, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

10 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra, er leita Drottins, gleðjist.

11 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

12 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

13 þér niðjar Ísraels, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

14 Hann er Drottinn, Guð vor, um víða veröld ganga dómar hans.

15 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,

16 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,

17 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,

18 þá er hann mælti: "Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut þinn."

19 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir, og bjuggu þar sem útlendingar,

20 og fóru frá einni þjóð til annarrar, og frá einu konungsríki til annars lýðs,

21 leið hann engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.

22 "Snertið eigi við mínum smurðu, og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

23 Syngið Drottni, öll lönd, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

24 Segið frá dýrð hans meðal heiðingjanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra þjóða.

25 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, og óttalegur er hann öllum guðum framar.

26 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

27 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og fögnuður í bústað hans.

28 Tjáið Drottni, þér þjóðakynkvíslir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

29 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið fram fyrir hann. Fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða,

30 titrið fyrir honum, öll lönd. Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki.

31 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, menn segi meðal heiðingjanna: "Drottinn hefir tekið konungdóm!"

32 Hafið drynji og allt, sem í því er, foldin fagni og allt, sem á henni er.

33 Öll tré skógarins kveði fagnaðarópi fyrir Drottni, því að hann kemur til þess að dæma jörðina.

34 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu!

35 og segið: "Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors. Safna þú oss saman og frelsa þú oss frá heiðingjunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn."

36 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð frá eilífð til eilífðar. Og allur lýður sagði: "Amen!" og "Lof sé Drottni!"

37 Og Davíð lét þá Asaf og frændur hans verða þar eftir frammi fyrir sáttmálsörk Drottins til þess að hafa stöðugt þjónustu á hendi frammi fyrir örkinni, eftir því sem á þurfti að halda dag hvern.

38 En Óbeð Edóm og frændur þeirra, sextíu og átta, Óbeð Edóm Jedítúnsson og Hósa, skipaði hann hliðverði.

39 Sadók prest og frændur hans, prestana, setti hann frammi fyrir bústað Drottins á hæðinni, sem er í Gíbeon,

40 til þess stöðugt að færa Drottni brennifórnir á brennifórnaraltarinu, kvelds og morgna, og að fara með öllu svo, sem skrifað er í lögmáli Drottins, því er hann lagði fyrir Ísrael.

41 Og með þeim voru þeir Heman, Jedútún og aðrir þeir er kjörnir voru, þeir er með nafni voru til þess kvaddir að lofa Drottin, því að miskunn hans varir að eilífu.

42 Og með þeim voru þeir Heman og Jedútún með lúðra og skálabumbur handa söngmönnunum og hljóðfæri fyrir söng guðsþjónustunnar. En þeir Jedútúnssynir voru hliðverðir.

43 Síðan fór allur lýðurinn burt, hver heim til sín, en Davíð hvarf aftur til þess að heilsa fólki sínu.

17 Svo bar til, þá er Davíð sat í höll sinni, að Davíð sagði við Natan spámann: "Sjá, ég bý í höll af sedrusviði, en sáttmálsörk Drottins undir tjalddúkum."

Natan svaraði Davíð: "Gjör þú allt, sem þér er í hug, því að Guð er með þér."

En hina sömu nótt kom orð Guðs til Natans:

"Far þú og seg Davíð þjóni mínum: Svo segir Drottinn: Eigi skalt þú reisa mér hús til að búa í.

Ég hefi ekki búið í húsi síðan er ég leiddi Ísraelsmenn út, allt fram á þennan dag, heldur ferðaðist ég í tjaldi og búð.

Alla þá stund, er ég hefi um farið meðal allra Ísraelsmanna, hefi ég þá sagt nokkurt orð í þá átt við nokkurn af dómurum Ísraels, þá er ég setti til að vera hirða lýðs míns: ,Hví reisið þér mér ekki hús af sedrusviði?` _

Og nú skalt þú svo segja þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég tók þig úr haglendinu frá hjarðmennskunni og setti þig höfðingja yfir lýð minn Ísrael.

Ég hefi verið með þér í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur, og upprætt alla óvini þína fyrir þér. Ég mun gjöra nafn þitt sem nafn hinna mestu manna, sem á jörðinni eru,

og fá lýð mínum Ísrael stað og gróðursetja hann þar, svo að hann geti búið á sínum stað og geti verið öruggur framvegis. Níðingar skulu eigi eyða honum framar eins og áður,

10 frá því er ég setti dómara yfir lýð minn Ísrael, og ég mun lægja alla fjandmenn þína. Og ég boða þér, að Drottinn mun reisa þér hús.

11 Þegar ævi þín er öll og þú gengur til feðra þinna, mun ég hefja afspring þinn eftir þig, einn af sonum þínum, og staðfesta konungdóm hans.

12 Hann skal reisa mér hús og ég mun staðfesta hásæti hans að eilífu.

13 Ég vil vera honum faðir og hann skal vera mér sonur, og miskunn mína mun ég ekki frá honum taka, eins og ég tók hana frá fyrirrennara þínum,

14 heldur mun ég setja hann yfir hús mitt og ríki að eilífu, og hásæti hans skal vera óbifanlegt um aldur."

15 Natan flutti Davíð öll þessi orð og sagði honum sýn þessa alla.

16 Þá gekk Davíð konungur inn og settist niður frammi fyrir Drottni og mælti: "Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er hús mitt, að þú skulir hafa leitt mig til þessa?

17 Og það nægði þér ekki, Guð, heldur hefir þú fyrirheit gefið um hús þjóns þíns langt fram í aldir, og það meira að segja á mannlegan hátt, Drottinn Guð.

18 En hvað má Davíð enn við þig mæla? Þú þekkir sjálfur þjón þinn.

19 Drottinn, sakir þjóns þíns og að þínum vilja hefir þú gjört þetta, að boða þjóni þínum alla þessa miklu hluti.

20 Drottinn, enginn er sem þú, og enginn er Guð nema þú, samkvæmt öllu því, er vér höfum heyrt með eyrum vorum.

21 Og hvaða þjóð önnur á jörðinni jafnast við þjóð þína Ísrael, að Guð hafi farið og keypt sér hana að eignarlýð, aflað sér frægðar og gjört fyrir hana mikla hluti og hræðilega: stökkt burt undan lýð sínum annarri þjóð og guði hennar?

22 Þú hefir gjört lýð þinn Ísrael að þínum lýð um aldur og ævi, og þú, Drottinn, gjörðist Guð þeirra.

23 Og lát nú, Drottinn, fyrirheit það, er þú hefir gefið um þjón þinn og um hús hans, standa stöðugt um aldur og ævi, og gjör þú svo sem þú hefir heitið.

24 Þá mun nafn þitt reynast traust og verða mikið að eilífu og hljóða svo: Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, Ísraels Guð _ og hús þjóns þíns Davíðs mun stöðugt standa fyrir þér.

25 Því að þú, Guð minn, hefir birt þjóni þínum, að þú munir reisa honum hús. Fyrir því hafði þjónn þinn djörfung til að bera þessa bæn fram fyrir þig.

26 Og nú, Drottinn, þú ert Guð, og þú hefir gefið þjóni þínum þetta dýrlega fyrirheit,

27 virst þú nú að blessa hús þjóns þíns, svo að það sé til að eilífu fyrir þínu augliti. Því að það, sem þú, Drottinn, blessar, er blessað að eilífu."