Add parallel Print Page Options

Hvert er unnusti þinn genginn, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvert hefir unnusti þinn farið, að vér megum leita hans með þér?

Unnusti minn gekk ofan í garð sinn, að balsambeðunum, til þess að skemmta sér í görðunum og til að tína liljur.

Ég heyri unnusta mínum, og unnusti minn heyrir mér, hann sem skemmtir sér meðal liljanna.

Fögur ertu, vina mín, eins og Tirsa, yndisleg eins og Jerúsalem, ægileg sem herflokkar.

Snú frá mér augum þínum, því að þau hræða mig. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall.

Tennur þínar eru eins og hópur af ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra.

Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina.

Sextíu eru drottningarnar og áttatíu hjákonurnar og óteljandi ungfrúr.

En ein er dúfan mín, ljúfan mín, einkabarn móður sinnar, augasteinn þeirrar er ól hana. Meyjarnar sáu hana og sögðu hana sæla, og drottningar og hjákonur víðfrægðu hana.

10 Hver er sú sem horfir niður eins og morgunroðinn, fögur sem máninn, hrein sem sólin, ægileg sem herflokkar?

11 Ég hafði gengið ofan í hnotgarðinn til þess að skoða gróðurinn í dalnum, til þess að skoða, hvort vínviðurinn væri farinn að bruma, hvort granateplatrén væru farin að blómgast.

12 Áður en ég vissi af, hafði löngun mín leitt mig að vögnum manna höfðingja nokkurs.

13 Snú þér við, snú þér við, Súlamít, snú þér við, snú þér við, svo að vér fáum séð þig! Hvað viljið þér sjá á Súlamít? Er það dansinn í tvíflokknum?

Hversu fagrir eru fætur þínir í ilskónum, þú höfðingjadóttir! Ávali mjaðma þinna er eins og hálsmen, handaverk listasmiðs,

skaut þitt kringlótt skál, er eigi má skorta vínblönduna, kviður þinn hveitibingur, kringsettur liljum,

brjóst þín eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar.

Háls þinn er eins og fílabeinsturn, augu þín sem tjarnir hjá Hesbon, við hlið Batrabbím, nef þitt eins og Líbanonsturninn, sem veit að Damaskus.

Höfuðið á þér er eins og Karmel og höfuðhár þitt sem purpuri, konungurinn er fjötraður af lokkunum.

Hversu fögur ertu og hversu yndisleg ertu, ástin mín, í yndisnautnunum.

Vöxtur þinn líkist pálmavið og brjóst þín vínberjum.

Ég hugsa: Ég verð að fara upp í pálmann, grípa í greinar hans. Ó, að brjóst þín mættu líkjast berjum vínviðarins og ilmurinn úr nefi þínu eplum,

og gómur þinn góðu víni, sem unnusta mínum rennur liðugt niður, líðandi yfir varir og tennur.

10 Ég heyri unnusta mínum, og til mín er löngun hans.

11 Kom, unnusti minn, við skulum fara út á víðan vang, hafast við meðal kypurblómanna.

12 Við skulum fara snemma upp í víngarðana, sjá, hvort vínviðurinn er farinn að bruma, hvort blómin eru farin að ljúkast upp, hvort granateplatrén eru farin að blómgast. Þar vil ég gefa þér ást mína.

13 Ástareplin anga og yfir dyrum okkar eru alls konar dýrir ávextir, nýir og gamlir, unnusti minn, ég hefi geymt þér þá.

Ó, að þú værir mér sem bróðir, er sogið hefði brjóst móður minnar. Hitti ég þig úti, mundi ég kyssa þig, og menn mundu þó ekki fyrirlíta mig.

Ég mundi leiða þig, fara með þig í hús móður minnar, í herbergi hennar er mig ól. Ég mundi gefa þér kryddvín að drekka, kjarneplalög minn.

Vinstri hönd hans sé undir höfði mér, en hin hægri umfaðmi mig.

Ég særi yður, Jerúsalemdætur: Ó, vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill.

Hver er sú, sem kemur þarna úr heiðinni og styðst við unnusta sinn? Undir eplatrénu vakti ég þig, þar fæddi móðir þín þig með kvöl, þar fæddi með kvöl sú er þig ól.

Legg mig sem innsiglishring við hjarta þér, sem innsiglishring við armlegg þinn. Því að elskan er sterk eins og dauðinn, ástríðan hörð eins og Hel. Blossar hennar eru eldblossar, logi hennar brennandi.

Mikið vatn getur ekki slökkt elskuna og árstraumar ekki drekkt henni. Þótt einhver vildi gefa öll auðæfi húss síns fyrir elskuna, þá mundu menn ekki gjöra annað en fyrirlíta hann.

Við eigum unga systur, sem enn er brjóstalaus. Hvað eigum við að gjöra við systur okkar, þá er einhver kemur að biðja hennar?

Ef hún er múrveggur, þá reisum við á honum silfurtind, en ef hún er hurð, þá lokum við henni með sedrusbjálka.

10 Ég er múrveggur, og brjóst mín eru eins og turnar. Ég varð í augum hans eins og sú er fann hamingjuna.

11 Salómon átti víngarð í Baal Hamón. Hann fékk víngarðinn varðmönnum, hver átti að greiða þúsund sikla silfurs fyrir sinn hlut ávaxtanna.

12 Víngarðurinn minn, sem ég á, er fyrir mig. Eig þú þúsundin, Salómon, og þeir sem gæta ávaxtar hans, tvö hundruð.

13 Þú sem býr í görðunum, vinir hlusta á rödd þína, lát mig heyra hana.